06.04.1970
Neðri deild: 68. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í C-deild Alþingistíðinda. (2673)

155. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sverrir Júlíusson:

Herra forseti. Hinn 5. marz s. l. eða fyrir mánuði og einum degi síðan flutti Björn Pálsson, hv. 3. þm. Norðurl. v., framsögu um frv. til l. um breyt. á l. um Fiskveiðasjóð Íslands. Eins og þm. vita, þá er þm. mjög mikill listamaður, og verð ég að segja það, að ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hljóðs, voru áhrif, sem ég varð fyrir undir ræðunni. Það voru margir þm., sem urðu fyrir mjög miklum áhrifum, og sumir þeirra skemmtu sér mjög vel. En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var sú, að ég taldi, að þm. færi ekki alveg rétt með málið, og ætlaði ég að leiðrétta það. Nú er, eins og ég sagði, liðinn einn mánuður og einn dagur, síðan málið var á dagskrá, og ýmislegt hefur upplýstst síðan, svo að þess vegna verður e. t. v. þessi aths. heldur lengri en hún hefði orðið þá. Ég vil segja, að sumir hæstv. þm. minni hl. hefðu kannske beðið um orðið utan dagskrár til þess að koma máli sínu fram, en ég sé ekki ástæðu til þess, og svo eru ýmsar ástæður, er liggja til þess, að málið er ekki komið lengra.

Hv. þm. talaði um viðskipti sín við Fiskveiðasjóð, um leið og hann var að flytja framsögu sína fyrir frv., og sagði ýmislegt, sem ég taldi ástæðu til að gera aths. við, en síðan hefur hann hinn 10. marz s. l. skrifað grein í Tímann, þar sem meginatriðin úr ræðu hans komu fram, en þá var ýmsu í ræðu hans, eins og viðskiptum hans við Landsbankann og Búnaðarbankann, sleppt. Ég vil í fyrsta lagi minna á það, að þegar l. um Fiskveiðasjóð, sem nú eru í gildi, voru samþ. 1966, var verið að sameina þrjá sjóði í einn stofnlánasjóð sjávarútvegsins, í fyrsta lagi Stofnlánadeild sjávarútvegsins, í öðru lagi Skuldaskilasjóð og í þriðja lagi Fiskveiðasjóð Íslands. Af ræðu þm. var hægt að skilja, að sú stjórn, — en ég ætla ekki að fara að forsvara gerðir hennar, heldur aðeins tala um staðreyndir þær, sem ég veit um, að stjórnin hefur gert, — mismunaði mönnum mjög í lánveitingum, og það væri tilviljun ein, hvort menn yrðu að taka á sig gengisáhættu eða ekki. Undir áhrifum af þessari ræðu fannst mér einkennilegt af þm., sem taldi sig vera að flytja mál útvegsmanna, að flytja það á þennan hátt, er hann gerði. Ég hafði þá í handraðanum upplýsingar um, að gengisáhættan, sem tekin var upp 1961, nam í veðskjölunum 3/5, eða 60% af upphæðinni, en til framkvæmda hefur þetta ekki komið nema að litlum hluta, og það, sem þm. var að kvarta yfir, var það, að þetta hafi verið fellt niður á vissu tímabili. Það mun einmitt hafa verið hinn 18. apríl 1967, sem stjórn Fiskveiðasjóðs ákvað að láta þetta falla niður. Til skýringar því, að ákvæðið var látið falla niður, var, að lántökur, sem Fiskveiðasjóður hafði tekið í erlendum lánum, höfðu lækkað svo mjög, og þess vegna taldi sjóðsstjórnin, að það væri möguleiki á því, að allir viðskiptamenn sjóðsins gætu notið beztu kjara. Það sýndi sig líka, að þegar genginu var breytt í nóvember 1967, voru það rösk 5%, eða tæplega 5 ½%, og samkv. upplýsingum, sem hingað hafa borizt síðan, þá mun þetta hafa numið 5.3%. Ég vil til skýringar taka það fram, að þarna eru ekki meðtalin lán, sem samið er um sérstaklega vegna innflutnings á skipum, sem útvegsmenn hafa tekið gengisáhættuna á sig að fullu, eða það, sem þeir eiga eftir ógreitt á hverjum tíma. En þetta er í sambandi við hin svokölluðu gengistryggðu lán. Þessi ákvörðun stjórnarinnar var í gildi þar til á stjórnarfundi 29. maí 1968. Alls munu á þessum tíma hafa verið veitt lán vegna skipabygginga erlendis rösklega 206 millj. kr., og koma þau þessu máli ekki við.

Á þessum síðustu árum hefur Fiskveiðasjóðurinn einnig tekið að sér að úthluta svokölluðum frystihúsalánum, en fé var veitt til þess sérstaklega, og þótt þau séu á reikningum sjóðsins, þá eru það lán, sem aldrei hefur verið meiningin, að gengistrygging næði til. En á árunum 1968 og 1969 námu þessi lán rösklega 157 millj. kr. Einnig voru dráttarbrautalán, sem sérstakt fé var veitt til, en sjóðurinn annaðist þessa fyrirgreiðslu. Ég sé ekki ástæðu til þess að tíunda þetta betur, enda hefur það komið hér fram í þingskjölum, að til innlendra skipasmíða veitti sjóðurinn á þessu umrædda tímabili 52 millj. 477 þús. og 500 kr., en það er samkv. beztu heimildum til átta aðila. Ég vil þess vegna mótmæla og ætla að nota tækifærið strax og segja, að það hafi ekki farið eftir því, hverjir töluðu við stjórnendurna, hvaða aðilar fengu lán án gengisáhættu. Þetta stóð ákveðinn tíma, og öll þau lán, sem veitt voru á þessu tímabili, voru með þessum kjörum. Ég vil svo benda á, að þegar genginu var breytt 12. nóvember 1968, nam þessi gengisáhætta, sem í veðskjölunum er 60% eða 3/5 hl., í raun 15.6% í útreikningum til aðila.

Ég skal ekki fara frekar út í þessar tölur, en vegna þess, sem fram kom hjá þm., þegar hann talaði um þá breytingu, sem á sjóðnum var gerð, vil ég segja það, að stjórnarliðar, sem stóðu að þessari breytingu, töldu, að það væri þarna verið að færa saman stofulánasjóði sjávarútvegsins, og það ætti að geta orðið til hagsbóta fyrir þá aðila, sem skipta við sjóðinn. Hv. 3. þm. Norðurl. v. hældi mjög forstjóra Fiskveiðasjóðs, Elíasi Halldórssyni, og er það réttmætt, þetta er maður, sem hefur verið mjög stjórnsamur og hefur rækt sitt starf af mikilli alúð, og þó að, eins og þm. sagði, allir væru ekki ánægðir með hann, þá verður ekki annað sagt um hann, að við þetta starf, sem hann hefur haft um tæplega 40 ára skeið, hefur hann hlotið almenningslof og traust viðskiptavinanna. En það skein í gegnum ræðu þm., að hann taldi, að það væri betra fyrirkomulag að láta einn mann ráða bæði ákvörðun um lánveitingar og annað þess háttar. Ég hef nú haldið, að þm. væri meiri lýðræðissinni en svo, og hefði talið, að það væri rétt, að einhverjir færu með stjórnina, þó að framkvæmdavaldið væri í höndum eins aðila, enda hefur það þannig verið. Útvegsbanki Íslands eða bankastjórar hans voru í stjórn Fiskveiðasjóðs allt fram til 1966, að l. var breytt, en vegna samfærslu sjóðanna, sem ég minntist á áðan, vil ég benda á, að það voru einmitt Landsbankastjórarnir, sem stjórnuðu stofnlánadeildinni, og þarna var verið að sameina sjóðina. Um það, hvort hér hefði verið rétt að farið eða ekki, skal ég ekki leggja neinn allsherjardóm á, en álit mitt er, að með þeirri breytingu, sem gerð var, þá hafi verið stefnt í rétta átt. Það er ekki þar með sagt, að það geti ekki orðið einhver önnur breyting, t. d. að útvegsmenn hefðu eitthvað um þessi mál að segja. Í umr., sem urðu um þetta mál á sínum tíma, áður en l. voru sett, þá var talað um það, enda gert ráð fyrir í l., að viðskiptamenn viðskiptabankanna, Útvegsbankans og Landsbankans, gætu gegnum bankastjóra sína komið málum sínum á framfæri, hvort sem það voru útibússtjórar eða aðrir.

En ég skil að sjálfsögðu þennan hv. þm., þegar hann lýsti yfir því í þessari ræðu, að hann hefði hætt að skipta við Landsbankann, hrökklazt þaðan. Um það var ekki að ræða, heldur bara vegna þess, hve hann er stór í sniðum, þá hætti hann að skipta við Landsbankann og fór að skipta við Búnaðarbankann, svo að það var nú ekki við því að búast, að Búnaðarbankastjórarnir væru þarna sem talsmenn hans.

En um fyrirkomulagið á því, hvort hér hefur verið rétt stefnt eða ekki, skal ég ekki mikið fullyrða á þessari stundu, en eitt vil ég segja, og það er, að útvegsmenn hafa verið með óskir um, að þeir fengju tvo fulltrúa í stjórnina, en að bankastjórar frá öllum þessum þremur bönkum, Seðlabankanum, Útvegsbankanum og Landsbankanum, væru áfram í stjórninni. Með bréfi hinn 3. nóvember 1969, sem Landssambandið skrifaði mér og hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, þá var farið þess á leit, að við bærum fram frv. til breytinga á þessu, en sannleikurinn er sá, að um þetta hefur ekki orðið samkomulag á milli okkar Matthíasar, vegna þess að hann vildi gera enn þá róttækari breyt. á lögunum.

Skoðun mín er sú, að með tilliti til þess, að þarna er um viðskiptaaðila viðskiptabankanna að ræða og Seðlabankinn hefur stjórn á þeim sjóðum, sem lána aðalfjármagnið í fjárfestingasjóði atvinnuveganna, þá tel ég, að það sé rétt, að þessir aðilar hafi þarna stjórn á, þótt það sjónarmið sé viðurkennt af mér, að það væri eðlilegt, sbr. t. d. Iðnlánasjóðinn, að útvegsmenn hefðu fulltrúa í stjórninni. Í sambandi við nokkuð af þeim störfum, sem stjórn Fiskveiðasjóðs hefur með höndum, þ. e. a. s. stofnfjársjóðsins, þá eiga fulltrúar útvegsmanna einmitt að vera tilkvaddir í vissum þætti í sambandi við stofnfjársjóðinn, þegar um afgreiðslu er þar að ræða.

Ég skal ekki tefja þingheim mikið lengur, en að endingu vil ég leiðrétta eitt, sem þm. sagði í þessari ræðu, og það var, að núv. stjórn Fiskveiðasjóðs gerði, — ég man nú ekki alveg orðalagið, — í því að láta Fiskveiðasjóð taka á sig skuldir Framkvæmdasjóðs, kannske vafasamar skuldir hjá útvegsmönnum. Ég vil vísa þessum ummælum á bug, vegna þess að mér er vel kunnugt um þetta. Ég hef á undanförnum árum verið endurskoðandi þessa sjóðs, en það, sem þarna hefur ruglað þm., er, að við sameiningu þessara sjóða, þ. e. a. s. Stofnlánadeild sjávarútvegsins og Fiskveiðasjóðsins, þá eignaðist Fiskveiðasjóður kröfur frá stofnlánadeildinni, sem voru ekki með fyrsta veðrétti, eins og Fiskveiðasjóður lánar yfirleitt út á í sambandi við skipabyggingar.

Þetta hefur orðið lengra en það hefði orðið, ef ég hefði fengið að gera þá stuttu aths., sem ég ætlaði að gera hinn 5. marz s. l., en þótt talsvert vatn hafi runnið til sjávar síðan, vildi ég nú samt koma þessu að, og ef þm. gefur tilefni til, þá mun ég segja eitthvað frekar síðar.