06.04.1970
Neðri deild: 68. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í C-deild Alþingistíðinda. (2676)

155. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Í framhaldi af þeim ummælum, sem fram fóru um starfsemi Fiskveiðasjóðs í fsp. í Sþ. á dögunum og svo að nokkru leyti aftur nú í sambandi við umr. um þetta frv., þá hef ég óskað eftir því við stjórn Fiskveiðasjóðs, að hún gæfi skýringar á tilteknum atriðum, sem fram komu í þessum umr. Þar var m. a. deilt á stjórnina fyrir, að hún mismunaði mönnum í lánskjörum og nefnd dæmi um tvo tiltekna útgerðarmenn, sem áttu að vera eins konar spegilmynd af þessu ranglæti. Skýring stjórnar Fiskveiðasjóðs var þessi :

1. Stjórn Fiskveiðasjóðs ákvað 18. apríl 1967 að fella niður gengisákvæði á lánum, veittum frá byrjun þess árs.

2. Sjóðsstjórnin ákvað 29. maí 1968 að taka aftur upp ákvæðið um heimild sjóðsins til að innheimta allt að 3/5 hluta lána eða eftirstöðva þeirra með breytilegri fjárhæð, sem nemi gengisbreytingu íslenzkrar krónu á lánstímanum. Ákvæði þetta gildir um öll lán, sem hér eftir verða afgreidd önnur en þau, sem tilgreind eru og ákveðin með sérstökum hætti og fé veitt til sérstaklega (t. d. um lán til dráttarbrautaeigenda og lán samkv. l. nr. 79 frá 1967).

3. Lán til herra Magnúsar Gamalíelssonar, Ólafsfirði, gegn 1. veðrétti í vélskipinu Sigurbjörgu ÓF-1, var veitt 18. október 1966.

4. Lán til h/f Eldborgar, Hafnarfirði, út á vélskipið Eldborgu GK-13 var veitt 7. nóv. 1967.