30.01.1970
Neðri deild: 48. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í C-deild Alþingistíðinda. (2681)

158. mál, sjúkrahúslög

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Við höfum flutt hér frv. á þskj. 297 hv. 1. og hv. 4. þm. Austf. ásamt mér. Þetta frv. er um breyt. á sjúkrahúsal. Það var áður flutt á þinginu 1967–1968, en var þá ekki útrætt, enda var það þá lagt fram seint á þingi. Við endurflytjum það nú. Það hafði þá verið sett n. til að vinna að athugun á þessum málum, málefnum aldraðra. Hún starfar enn þessi n., og eins og á var drepið í grg. frv., þá var búizt við því, að hún mundi leggja mikla vinnu í þetta mál og athuga alla þætti þess mjög ítarlega. Það er ekkert komið fram enn frá þessari n. í þá stefnu, sem felst í þessu frv., og mér er ekki kunnugt um, að þess sé að vænta. M. a. af þeim sökum er frv. endurflutt nú.

Það eru sjálfsagt allir sammála um það, að eitt af höfuðeinkennum menningar- og lýðræðisþjóðfélaga sé það að búa vel að því fólki, sem á einhvern hátt er minni máttar af einhverjum ástæðum, hvort sem það er vegna sjúkdóms, fátæktar eða fyrir aldurs sakir. Og hér í okkar landi hafa vissulega verið unnin stórvirki á þessum sviðum. Ríkið hefur staðið að byggingu margra og mjög myndarlegra sjúkrahúsa, sums staðar ásamt með héruðunum. Við búum við nokkuð víðtækt tryggingakerfi, sem m. a. sér hvað fjárhagslegu hliðina snertir, mjög vel fyrir þeim, sem sjúkir eru. Og það hafa verið gerð mjög myndarleg átök í málefnum aldraðra. Þar hafa komið við sögu að nokkru opinberir aðilar, en einnig félagasamtök. Og félagasamtök hafa komið víðar við sögu í heilbrigðismálunum, og kannske erum við ekki eins stolt af neinu einstöku verki í þeim efnum eins og því, sem gert hefur verið á Reykjalundi og víðar á vegum Sambands ísl. berklasjúklinga.

Þá vil ég aðeins víkja að efni frv. í einstökum atriðum. Í gildandi l. um sjúkrahús og læknisbústaði o. fl., en þau eru nokkuð gömul að stofni til, þá segir svo í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Enginn má setja á stofn eða starfrækja undir neinu nafni sjúkrahús, sjúkraskýli, geðveikrahæli, heilsuhæli, hjúkrunar- eða hressingarheimili, baðstaði, nuddstofur, ljóslækningastofur, fæðingarheimili, elliheimili, barnahæli eða aðrar tilsvarandi heilbrigðisstofnanir nema með leyfi ráðh. Sama gildir um breytingar á húsakynnum og starfrækslu slíkra stofnana, enda skipti breytingarnar einhverju máli.“

Þannig hljóðar 1. gr. sjúkrahúsal., og síðar í þessum l. eru svo um það skýr ákvæði, hver sé hlutur ríkissjóðs í byggingu og rekstri sjúkrahúsa og læknisbústaða o. s. frv. En hins vegar eru ekki í l. nein ákvæði um beina þátttöku ríkisins í kostnaði við byggingu né rekstur dvalar- eða hjúkrunarheimila aldraðra. En slík ákvæði felast í því frv., sem hér er til 1. umr.

Þar er lagt til, að tekið verði inn í l. ákvæði um vissa þátttöku ríkissjóðs varðandi elliheimili. Ég skal aðeins skýra með örfáum orðum, hvernig þetta er formað af hálfu okkar flm.

Í 1. og 2. gr. frv. felst breyting á 6. og 7. gr. l., sem fjallar um form þeirra samtaka, er að stofnununum standa, hvernig þau skulu byggð upp. L., eins og þau eru nú, fjalla um form slíkra samtaka, þegar um sjúkrahús er að ræða, en okkur virðist, að eftir atvikum gætu gilt alveg hin sömu ákvæði varðandi elliheimili.

Í 3. gr. er svo tilsvarandi breyt. á 8. gr. l. og fjallar um það, hvernig með skuli fara, ef slíkar stofnanir eru lagðar niður.

Í 4. gr. frv., en hún snertir 10. gr. l., þar sem fjallað er um þátttöku ríkissjóðs í stofnkostnaði, er lagt til að bæta við lagagr. sérstakri málsgr. um þátttöku í kostnaði við byggingu dvalar- og hjúkrunarheimila aldraðra.

Í 5. gr. frv. er svo breyt. á 12. gr. l., þar sem fjallað er um þátttöku ríkissjóðs í rekstrarkostnaði. Og það er einnig hafður þar sami háttur um rekstrarkostnaðinn og nú er í l. varðandi sjúkrahúsin, að það er lagt í vald ráðh. að ákveða þátttöku ríkissjóðs í reglugerð.

6. og síðasta efnisgr. frv. okkar er um breyt. á 13. gr. l., og þar er nánast um formsbreytingar að ræða, sem fylgja í kjölfar annarra breytinga.

Það má áreiðanlega segja, að það hafi verið eðlilegar og skiljanlegar ástæður til þess á sínum tíma, þegar þessi lög voru sett, að ákvæðin um þátttöku ríkisins í byggingu og rekstri sjúkrahúsa og læknisbústaða voru ekki látin ná til elliheimilanna. Það lágu til þess ákveðin rök á þeim tíma. Þá var þörfin fyrir fjölgun sjúkrahúsa enn sárari en hún er nú. Og læknisbústaði vantaði víðs vegar í læknishéruðunum. Vafalaust hefur þá líka verið þörf fyrir aðstoð í málefnum aldraðra, en ég hygg þó, að hún sé almennt miklu meiri nú en þá var, þrátt fyrir allt, sem gert hefur verið á því sviði síðan. Þjóðfélagshættir eru ákaflega mikið breyttir frá því, sem var fyrir fáum áratugum. Uppbygging heimilanna er orðin allt önnur. Þau eru orðin fámennari og eiga erfiðara með að gegna því hlutverki að vera einnig skjól þeirra öldruðu.

Ef við virðum fyrir okkur og þó aðeins lauslega ástandið í málefnum aldraðra, eins og það er í dag, þá blasa við þrenns konar myndir. Að einu leytinu eru þau svæði, þar sem unnin hafa verið stórvirki, oft af hálfu einstaklinga, sbr. Grund, eða af hálfu öflugra samtaka, þar sem er Hrafnista. Í öðru lagi eru víða rekin elli- og hjúkrunarheimili, byggð og rekin af vanefnum, í hinum ýmsu minni byggðarlögum. Og svo í þriðja lagi er það, þar sem ástandið er verst, að þar vantar alveg þessar stofnanir. Það er engin tilviljun, að það er einmitt í mesta strjálbýlinu, þar sem þannig er ástatt. Og það er ekki eingöngu af því, að þau svæði hafi haft erfiðari aðstöðu fjárhagslega, heldur einnig af því, að þar hefur þjóðfélagsbreytingin verið seinna á ferðinni en í þéttbýlinu, og heimilin hafa á þeim stöðum lengur getað sinnt því hlutverki að veita aldraða fólkinu skjól.

Ég ætla ekki að eyða tíma hv. þd. í það að rökstyðja það, hversu eðlilegt það sé, að aldrað fólk fái þá fyrirgreiðslu, sem það þarfnast. Við viðurkennum þetta öll í orði. Og því teljum við flm., að menn hljóti einnig að vilja sýna viðleitni til þess, að verða við eðlilegum kröfum í þessu efni.

Ég vil vekja athygli á því, að með þessu frv. er ekki stefnt að minni áhrifum sveitarfélaga, kaupstaða eða samtaka í þessum málum, heldur er einungis stefnt að því, að ríkisvaldið veiti þessum aðilum ákveðinn stuðning. Ýmis sveitarfélög hafa oft átt við fjárhagslega erfiðleika að etja. Og eins og fram kom hér á dögunum í umr. um annað mál, — í ræðu hæstv. fjmrh, — þá virðast þeir erfiðleikar víða fara vaxandi, en ekki minnkandi. Það mælir einnig með því, að þessi þáttur í starfsemi þeirra sé tekinn til athugunar, þ. e. a. s. að tekið sé til athugunar að veita sérstakan stuðning við þann þátt. Það er svo annað mál og miklu stærra, hvað gert verður til þess að bæta úr fjárþörf sveitarfélaganna almennt.

Ég vil að lokum aðeins minna á það, sem ég vék að í upphafi, að sjúkrahúsalöggjöfin myndar ramma, sem er þannig gerður, að það er auðvelt að fella inn í hann ákvæði um beinan fjárstuðning ríkisvaldsins við dvalar- og hjúkrunarheimili aldraðs fólks. Með þessu frv. er stefnt að því að fella slík ákvæði inn í þennan ramma og víkka út svið þessarar löggjafar, þannig að hún nái einnig til þessara atriða. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram, að þó að þetta yrði gert, er að sjálfsögðu eftir að ákveða fjárveitingar til slíkra hluta. Það verður ekki gert nema í sambandi við afgreiðslu fjárlaga á hinn venjulega, hefðbundna hátt. Og ég vil einnig undirstrika það, að einmitt sjúkrahúsalögin fela það í sér, að stjórnarvöld hafa allan rétt til þess að fylgjast með og leggja endanlegt samþykki sitt á allar ákvarðanir varðandi staðsetningu og fyrirkomulag dvalar- og hjúkrunarheimilanna alveg á sama hátt og annarra þeirra mannvirkja, sem þar um ræðir.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.