16.12.1969
Neðri deild: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

126. mál, söluskattur

Magnús H. Gíslason:

Herra forseti: Ég var nú víst á mælendaskrá hér í gær, þegar þetta mál var tekið á dagskrá og ég hefði reyndar getað fallið frá orðinu þá og hefði raunar gert það, ef ekki hefði staðið svo á, að annar háttv. þm. var fyrir á mælendaskránni og sem nú hefur talað. Þess vegna sá ég ekki ástæðu til þess að falla frá orðinu að öllu leyti. Hins vegar lofaði ég hæstv. forseta að vera mjög stuttorður og við það ætla ég að reyna að standa, þó að ég hefði í raun og veru haft nokkra tilhneigingu til að ræða þetta mál almennt, út frá sjónarmiði hins venjulega og almenna skattgreiðanda. Ég ætla að sleppa því að mestu leyti og aðeins minnast hér örfáum orðum á tvö atriði í sambandi við þetta mál, sem að vísu eru í mínum augum meginatriði.

Það er áformað, skilst mér, í sambandi við þennan söluskatt, sem nú á að fara að leggja á, á næstunni, að hann leggist jafnt á allar neyzluvörur, a.m.k. flestar algengustu og almennustu neyzluvörur í landinu. Ég held fyrir mitt leyti, að þessi leið sé ekki fær. Ég er að vísu ekki mikið kunnugur högum manna almennt, en töluvert þó, einkum úti um landið, bæði í sveit og við sjó, og ég sé sannast að segja ekki betur, en að dýrtíðin sé orðin það mikil, vöruverðið yfirleitt orðið það hátt, að það er að verða og er raunar þegar orðið, gersamlega útilokað fyrir fólk, sem aðeins hefur venjuleg laun, hvort sem það eru bændur eða aðrir, að veita sér þær nauðsynjar, sem þeim eru í raun og veru óhjákvæmilegar, til þess að geta lifað, þó ekki sé nema einfaldasta lífi. Ég held að í þessum efnum séum við komnir út fyrir þau mörk, sem raunverulega er yzt hægt að draga. Og ef enn á að vega í þennan knérunn, þá held ég, að það fari ekki hjá því, að það hljóti að hefna sín. Ég er að vísu ekki verulega kunnugur verðlagi í höfuðstaðnum og það má vel vera að það sé svipað hér og úti um landið, t.d. hvað snertir verð á matvælum. En á ýmsum vörum þó, hygg ég að verð hér í höfuðstaðnum sé hagstæðara, sé lægra heldur en á sams konar og svipuðum vörum úti um land.

Ég skal í þessu sambandi aðeins nefna eitt dæmi. Unglingur, mér nákominn, fór hingað til Reykjavíkur í haust. Áður en hann fór, spurði hann eftir verði á tiltekinni vörutegund fyrir norðan, keypti vöruna að vísu ekki, en spurði bara eftir verðinu. Svo fór hann hingað suður og rakst hér í búð á nákvæmlega sömu vöru. Það var ekki að sjá neinn mun þar á, hvorki að gerð né gæðum. En á verðinu munaði því, að þessi unglingur, sem fór báðar leiðir, fram og til baka, með Norðurleiðarrútunni, gerði meira en spara fargjaldið báðar leiðir með því að kaupa þessa vöru hér, en ekki fyrir norðan.

Þetta er nokkuð mikill verðmunur, finnst mér og ég skal ekki segja, hvort þetta er svona yfirleitt, en á ýmsum vörum mun þetta vera þannig. Hver orsökin til þessa er, skal ég ekkert um segja, en það er hins vegar bláköld staðreynd, að við dreifbýlisfólk búum að ýmsu leyti, hvað sumar vörur snertir, við óhagstæðari kjör heldur en hér gerist. Þegar menn miða við verðlag á ýmsum vörum hér í Reykjavík, sem ég býst við, að margir alþm. geri, þá gefur það ekki að öllu leyti rétta mynd af ástandinu eins og það er.

Ég held, að ef þessi söluskattshækkun verður framkvæmd, eins og mér virðist vera fyrirhugað, þá leiði það óhjákvæmilega til þess, að fram verður knúið hækkað kaupgjald og þá heldur áfram þessi hringrás, sem við höfum alltaf verið að berjast við. Þá heldur áfram þetta ófremdarástand, sem átt hefur sér stað hér á undanförnum árum í kaupgjalds–, verðlags–, atvinnu– og fjármálum. Og það færir okkur fjær því marki að reka þetta litla þjóðarheimili okkar eins og raunverulega siðmenntað fólk. Mér virðist fyrir mitt leyti, að ýmsar þær ráðstafanir, sem hafa verið gerðar í þessum efnum á undanförnum árum, hafi verið gerðar af svo lítilli fyrirhyggju, að engu er líkara en þeir, sem fyrir þeim hafa staðið, sigli stöðugt frá landi og sjái aðeins eina vonarstjörnu fyrir stafni og hún er sú, að geta þó, þegar allt annað þrýtur, gerzt eins konar próventukerling hjá einhverju hjartagóðu herveldi úti í hinum stóra heimi. En það er vissulega ekki svona leið, sem fólkið í landinu óskar eftir að sé farin. Það er vissulega ekki svona hlutverk, sem þjóðin óskar eftir að ráðamenn hennar ræki.

Ég vil endurtaka það, að ég vara alveg við því, að fara inn á þá braut, sem hér virðist vera ákveðin, að leggja söluskattinn tiltölulega jafnt á allar nauðsynjar. Það er ekki framkvæmanlegt. Menn mega reiða sig á það. Þetta eru aðeins varnaðarorð til þeirra manna, sem um þetta mál fjalla og koma til með að gera út um það, en þau eru sögð í fullri alvöru.

Hitt atriðið, sem ég vildi aðeins víkja fáeinum orðum að, er innheimtan á söluskattinum. Ég held, að það blandist engum hugur um það, sem fylgzt hefur með þeim málum á undanförnum árum, að sú innheimta hefur í verulegum mæli verið í molum. Hæstv. fjmrh. benti á það hér, að mig minnir, fyrir stuttu, að athuganir hefðu leitt í ljós, að það virtust ekki vera veruleg vanhöld á þessari innheimtu. Ég skal nú ekki stæla um það. Ég veit ekki, með hverjum hætti þessi athugun hefur verið gerð og ekki að fullu leyti á hverju hún hefur verið byggð, né hversu vel hún er grundvölluð. En hitt er víst, að ég og menn yfirleitt teljum okkur sjá það, bara í kringum okkur, að þessi innheimta er mjög misjöfn. Við þekkjum sjálfsagt allir fyrirtæki og verzlanir, sem starfa svo að segja hlið við hlið, hafa svipað umleikis, svipuð viðskipti, svipaða verzlun, en þegar kemur að því að greiða söluskatt af þessum viðskiptum, þá getur munað á honum hjá þessum sömu fyrirtækjum allt að helmingi. Óg hvernig stendur á þessu? Ég fæ ekki sé, að það geti stafað af öðru en því, að fyrirtækið, sem þarna sleppur svona vel, hljóti í verulegum mæli að stinga í eigin vasa þeim söluskatti, sem viðskiptamaðurinn er búinn að greiða fyrir vöruna, í stað þess að láta hann renna til þess, sem á að fá hann, þ.e. ríkissjóðs.

Það mætti tala langt mál um þetta. Og ég gæti nefnt um þetta alveg ákveðin dæmi, sem ég þekki til, en ég ætla ekki að gera það hér nú. Og vegna þess, að ég lofaði hæstv. forseta því að tala mjög stutt, þá ætla ég að láta máli mínu lokið, en ég vildi aðeins skjóta þessu að nú, að ef á að fara að hækka söluskattinn, þá er það um leið alveg höfuðatriði í mínum augum, að innheimtan á honum sé gerð virkari, ákveðnari og betri heldur en hún hefur verið hingað til. Hækkun á söluskatti, án þess að bæta innheimtuna, er að mínu áliti gersamlega óréttlætanleg. Og því vil ég skjóta til þeirrar n., sem hefur með þetta mál að gera og til þingsins í heild, að það ætti að vera nógur tími til að taka þetta mál til athugunar og kippa því a.m.k. að einhverju leyti í lag, á þeim tíma, sem það tekur að koma þessu máli héðan út úr þinginu.