02.04.1970
Neðri deild: 67. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í C-deild Alþingistíðinda. (2699)

171. mál, sauðfjárbaðanir

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þetta frv., sem tveir ágætir þm. hafa flutt og sérfræðingar í búskap eru þeir báðir tveir, og bóndinn á Löngumýri hefur fengið viðurkenningu fyrir dugnað og góðan búskap. En eigi að síður er ég nú alveg ósammála þessu frv., hvað það snertir, að það sé bezt að baða rétt fyrir sauðburðinn. Þegar ég var að alast upp í sveitinni og hugsaði um sauðféð, þá var talið stórhættulegt að hefja baðanir rétt fyrir sauðburðinn. Það gæti orðið til þess, að ærnar misstu lömbin, og þetta sögðu hinir góðu, gömlu og reyndu menn, sem ég legg nú enn þá meira upp úr en þessum hv. flm., þótt ég meti þá mikils. En hv. fyrri flm. sagði hér áðan, að það væri ekki bannað að baða fyrr, menn gætu baðað frá 1. nóv. til 30. apríl. En ég vil ekki hafa það í löggjöfinni, sem getur orðið bændum beinlínis til skaða, ef þeir hafa ekki vit á að sniðganga þessa heimild. Og það er enginn vafi á því, að það er bezt að hefja böðun strax, þegar féð er tekið inn. Ef það er farið að taka það inn í nóvember, vegna þess að veturinn ber snemma að, þá er bezt að baða, strax eftir að það er komið inn í hús, og helzt ekki seinna en í febrúar. Það má oft finna góða daga um miðjan vetur, bæði í desember, janúar og febrúar. Það má velja góða daga til þess að baða.

Um þetta, að það fáist þriðjungi meiri ull með því að baða seint, hef ég nú aldrei heyrt fyrr, og það held ég, að geti tæplega staðizt. Og það er alveg rétt, að ef kindin er vel fóðruð, týnir hún aldrei ullinni, og hún ódrýgist ekki. Hitt held ég, að sé meiri hætta á, ef baðað er mjög seint, að ullin færi jafnvel í flóka og yrði ekki eins greið og góð og ef það væri baðað snemma að vetrinum. Þetta finnst mér nú, að þurfi að hafa til nánari athugunar. Ef ullin ætti að drýgjast við það að baða svona seint, þá væri jafnvel alveg rökrétt eða eðlilegt að fullyrða, að ullin yrði enn þá meiri með því að baða árlega. En í þessu frv. er lagt til, að baðað verði aðeins þriðja hvert ár og sagt, að það sé haft í samráði við yfirdýralækni. Ég ætla ekkert að efast um það, að hv. flm. hafi farið rétt með, þegar hann segir, að það hafi verið í samráði við yfirdýralækni. En einhvern veginn finnst mér þetta ekki passa við það, sem hann hefur sagt, þegar við höfum talað um sauðfjárböðun, og ég vil minna á það, að fyrir tveimur árum var einn bóndi, sem hafði þverskallazt við að baða, og það var komið fram í apríl, þegar við fréttum þetta. Og ég ræddi um þetta við yfirdýralækni, og ég spurði hann að því, hvort hann vildi yfirleitt leyfa böðun svona seint, hvort það væri talið heppilegt, hvort það gæti ekki verið, að það kæmi skaðabótakrafa á ríkið, ef bóndanum væri fyrirskipað að baða undir apríllok og af því leiddi lambalát, lambamissi, hvort það gæti ekki verið, að bóndinn kæmi með skaðabótakröfu á hendur ríkinu, enda þótt fyrirskipunin um böðunina væri tilkomin vegna vanrækslu bóndans. Og við vorum í miklum vanda með þetta mál, og yfirdýralæknir var þá alveg sannfærður um, að það gæti mikil hætta af því stafað að baða stuttu fyrir sauðburð.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram. Hv. fyrri flm. tók það fram áðan, að þetta frv. yrði ekki að l. á þessu þingi, og það mundi verða sent til umsagnar, og þess vegna gefst tími til þess að athuga þetta nánar.