02.04.1970
Neðri deild: 67. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í C-deild Alþingistíðinda. (2701)

171. mál, sauðfjárbaðanir

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. og hv. 3. þm. Austf. hafa flutt hér frv., sem er nú alveg shlj. frv., sem var flutt á síðasta þingi, en ég man ekki, hvort það kom nokkurn tíma til n. En í þessu máli urðu dálitlar umr. í sambandi við þetta mál. Breytingin er sú eina, að í fyrra var hv. 3. þm. Austf. fyrri flm., það er eina breytingin, en nú er þetta öfugt, nú er það hv. 3. þm. Norðurl. v.

Ein af höfuðrökunum, sem flm. hafði fyrir því að bera þetta fram, var, að með því að baða seint fengist meiri ull af fénu, og mundi verðmæti ullarinnar aukast að miklum mun. Ég álít, að eins fróður og skynsamur maður og flm. hefði fylgzt með því, að eitt af mestu vandamálum ullariðnaðarins eru einmitt flókarnir. Og það er álit bæði ullarfræðinga og annarra, að eftir því sem seinna er baðað, því meira verði af flókum í ullinni, og í sjálfu sér ætti aldrei að baða eftir miðjan vetur. Eftir það kemur skil á ullina. Það er vaxandi hluti af ullinni, sem hefur farið í flóka, og er nú orðinn milli 10 og 20%, og þessi ull er verðlaus. Sannleikurinn er sá, að þó að kannske einhverjir fái meiri ull, þá er verið að skemma þetta verðmæti, ullina, ekki einungis fyrir þeim sjálfum, heldur fyrir öllum bændunum í landinu, vegna þess að yfirleitt er þetta meðalverð, sem menn fá út úr ullinni. Af þessum ástæðum náttúrlega ætti alls ekki að baða seint, þannig að þessi rök eru nú dálítið hæpin, held ég.

Flm. gat um það einnig, að það væri betra og hagkvæmara að baða seinni part vetrar. Allir vita það, að eftir því sem líður á veturinn, því er sauðkindinni hættara við því, að hún fari illa út úr öllu hnjaski, og eftir því sem líður á veturinn, verður að fara betur með hana, og jafnvel þótt veðráttan væri verri fyrri part vetrar, þá mundi hún þola bæði miklu meiri kulda og meira hnjask á þeim tíma en er á veturinn líður. Og eins og hæstv. landbrh. gat réttilega hér um áðan, hefur það komið fyrir, — ég man eftir því, — þegar kláðaböðunin var hér í gamla daga, að það var stór hluti af ánum, sem létu lömbunum í sambandi við þá böðun, en auðvitað var hún framkvæmd á allt annan hátt en nú, það skal viðurkennt. Ég held, að það væri bezt, að þetta frv. fengi afgreiðslu núna í n., því að ég er sannfærður um það, að það verður þá ekki flutt á næsta þingi, ef það yrði, því að ég vil ekki trúa því, að landbn. afgreiði þetta þannig, að hún samþykki að mæla með framgangi þess.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að ræða þetta frekar. Ég held nefnilega, að þessi rökstuðningur, sem er fyrir frv., sé á þann veg, að þegar hann er athugaður, sjáist það betur, að þetta frv. er ekki til bóta, og að stytta tímabilið á haustin, frá 15. okt. til 1. nóv., þegar bezt er að baða, það er náttúrlega líka mikil breyting til hins verra, og þó að menn séu ekki búnir að ná öllu fé fyrri part vetrar, þá er það náttúrlega slóðaskapur að taka ekki það fé, sem kemur, og baða það, þegar það kemur. Það er hverjum og einum í sjálfsvald sett, því að flestir hafa féð í girðingum að haustinu og fyrri part vetrar. Það er ekki fyrr en farið er að taka það í hús, sem þeir hleypa því í heimalöndin, a. m. k. er það svo þar, sem ég þekki til.

En ég held, að það væri mjög gott, ef þetta frv. yrði afgreitt nú á þessu þingi, svo að við værum ekki að glíma hér við svona mál þing eftir þing.