02.04.1970
Neðri deild: 67. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í C-deild Alþingistíðinda. (2704)

171. mál, sauðfjárbaðanir

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Það hafa bara orðið furðu fjörugar umr. um þetta litla frv. okkar Björns Pálssonar. Það mun vera rétt hjá hv. 5. þm. Norðurl. e., að við fluttum þetta sama eða líkt frv. á síðasta þingi, og ég hafi verið þá fyrri flm. Mig rekur nú minni til þess, að ég hafi mælt fyrir því þá.

Ég ætla ekki að blanda mér að neinu ráði í þessar umr., sem hér hafa farið fram. En ég vil aðeins vekja athygli á því, að það, sem í þessu felst, er í raun og veru ósköp einfalt. Það mætti kannske segja, að það væri skynsamlegast að hafa löggjöfina þannig, að það væru engin tímatakmörk, það mætti baða, hvenær sem væri á árinu. Ég veit til þess, að það hefur verið baðað nýrúið fé, og þeir, sem það gerðu, töldu það mjög hentugt. M. a. felst í því, að það fer miklu minni baðlögur. En ég vil aðeins láta það koma fram hér, að ég hef stundað sauðfjárbúskap í tveimur landshlutum, fyrst í Eyjafirði og síðan á Austurlandi. Og ég er sannfærður um það, að ég var líkrar skoðunar og hv. þm., Stefán Valgeirsson, meðan ég bjó í Eyjafirði. En ég breytti þessari skoðun verulega, eftir að ég kynntist búskap og bjó sjálfur á Austurlandi, og þá fann ég það, að það urðu að vera nokkuð rýmri ákvæði til þess að gera ekki fleiri og færri að lögbrjótum, og það án þess, að þeir beinlínis óski eftir því.

Ég fellst alveg á það, að það er heppilegast að geta baðað fé t. d. í nóv. eða þá aftur í jan. eða febr. En það er nú bara einu sinni svona, að aðstæður eru oft misjafnar, og ég man það, að ég lagði áherzlu á það einmitt s. l. ár, að núna í seinni tíð er í langflestum tilfellum svo, að fjárhúsin eru orðin mjög köld. Það eru einföld steinhús með einföldu járnþaki, og þegar samfara þessu fara, eins og nú hefur verið um allmörg ár, í raun og veru síkólnandi vetur, þá getur verið mikil áhætta oft og tíðum að baða fé annaðhvort í janúar eða febrúar. Það hagar nú þannig til víða, að fé gengur sjálfala, eins og það er kallað, a. m. k. í nóv. og oft fram í des. Og jafnvel þó að það sé tekið á þeim tíma, þá vantar oft nokkuð af fénu. Og meðan svo er, þá vilja menn ógjarnan fara að baða. Yfir hátíðarnar er það sjaldan gert eða á meðan á fengitíð stendur. Menn eru venjulega svo uppteknir af þeirri aukavinnu, sem því fylgir, að því verður tæpast komið við. Svo er það tíðarfarið í jan. og febr., sem ræður því, hvort þetta er framkvæmanlegt. Ég er alls ekki að halda því fram, að það sé skynsamlegt að draga það fram undir sauðburð að baða, en ég vil bara vekja athygli á þessu, að það, sem fyrir mér vakir m. a., er það að fyrirbyggja það, að það verði margt af lögbrjótum, — eins og hv. samflm. mínum að þessu frv., — en hann hefur lýst yfir, að hann hafi oft ekki baðað, fyrr en eftir að þau tímamörk væru liðin, sem það átti að hafa verið framkvæmt.

Ég held, að það sé ákaflega mikill misskilningur, að þetta sé eitthvert hættulegt mál. Ég er nú yfirleitt þannig gerður, að ég treysti bezt á bændurna sjálfa að meta, hvenær hægt er að framkvæma slíkan hlut eins og að baða féð, en ég er mótfallinn því að gera þá að lögbrjótum að óþörfu, því að ég veit, að þær aðstæður geta skapazt í einstaka tilfellum, að þetta geti a. m. k. dregizt fram í marz.

Það bættist við í þetta frv. ein breyt. frá því, sem var s. l. ár. Það er um það, að heimilt sé að baða aðeins þriðja hvert ár. Ég er þessari heimild mjög fylgjandi, því að með þessum nýju lyfjum, sem fengizt hafa til sauðfjárbaðana, hefur öll þessi aðstaða gerbreytzt. Þetta eru svo áhrifamikil baðlyf, að ég tel það vera hreinan búskussahátt að hafa lús á fé sínu, og það eru mörg ár, síðan ég hef heyrt talað um kláða í mínu umhverfi fyrir austan.

Hvað ullina snertir, þá legg ég nú ekki mikið upp úr því atriði, eins og hv. samflm. minn, að við fáum meiri ull. Ég veit, að þetta getur verið tilfellið stundum, en það er þá oft vegna þess, að fé er ekki vel fóðrað og týnir þá meira, en böðunin kemur í veg fyrir það, að fé týni. En að öðru leyti er það vegna þess, að ullin flóknar. Það er alveg rétt, hún þarf ekki að flókna svo illa, að hún verði beinir flókar, en að sumu leyti stafar þetta af því, en það eru margir fleiri en Björn Pálsson, sem halda því fram, að menn fái meiri ull af fénu með því að baða frekar seint.

Ég vil nú taka undir það með fleirum en einum, sem hér hafa talað, að það sé nú kannske rétt að afgreiða þetta mál, og ég mun, svo sem að líkum lætur, beita mér fyrir því, þar sem ég á sæti í landbn. hv. d., að hún afgreiði þetta frv. jákvætt frá sér.