16.12.1969
Neðri deild: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

126. mál, söluskattur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var skörulega mælt, sem síðasti hv. ræðumaður sagði hér um söluskattinn og ég er honum sammála um það, að það er bölvaður skattur og óréttlátur á margan hátt. En ég held, að hann þurfi að átta sig á því, að þessi skattur eða þetta frv., sem hér liggur fyrir, er í föstum tengslum við till. ríkisstj. um aðild að EFTA.

Hv. þm. sagði í upphafi síns máls, að hann hefði viljað, að sú breyting hefði verið gerð á söluskattinum, að hann væri innheimtur í tolli, en ekki á þann hátt, sem nú er gert samkv. lögum. Þessi ummæli hv. þm. sýna mér það, að hann hefur engan veginn gert sér grein fyrir því, um hvað EFTA–sáttmálinn er, sem hann er þó fylgjandi. Að innheimta söluskatt í tolli er ekki heimilt samkv. EFTA–sáttmálanum. Það er mismunun. Ef sá háttur væri tekinn upp að innheimta söluskatt í tolli, þá gefur auðvitað auga leið, að þá er þar um að ræða skattlagningu á fullunninni vöru, sem inn í landið kemur, ekki aðeins á hráefnunum í vöruna, heldur einnig á þeim vinnulaunum og ýmiss konar kostnaði, sem þar er um að ræða. En innlendi iðnaðurinn fengi þá sérstöðu, sem óheimil er samkv. EFTA–sáttmálanum. Ég held, að þetta litla atriði mætti kannske sýna hv. þm., að það er ekki eins auðvelt og hann heldur að ætla að slíta þessi tvö mál í sundur, sem eru nátengd og koma hér fyrir þingið sem tvö samgróin mál.

Það var auðvitað ekkert um það að villast, að þegar var ákveðið að semja um það við inngöngu í EFTA, að ákveðnir tollar ættu niður að falla, þá hlutu hér að verða talsverðar breytingar á skattheimtu ríkisins. Og ríkisstj. dró aldrei neina dul á það í EFTA–viðræðunum, sem hv. þm. hafði alla aðstöðu til að fylgjast með, að hún ætlaði sér að taka upp hækkaðan söluskatt. Nú hef ég veitt því athygli, að þessi hv. þm. og hans flokkur hafa lýst því yfir, að þeir telji, að það hafi verið (Gripið fram í.) Já, þetta er flokkur, eða a.m.k. hef ég tekið eftir því, að tilkynningar hafa borizt um það, að flokkurinn heiti að vísu Samtök, en eigi að síður er það flokkur. (Gripið fram í: Það er rangt.) Ja, ég hef skilið þetta þannig, að flokkurinn heiti ákveðin samtök, það er ekkert við því að segja. En ég held, að það geti ekki farið neitt á milli mála, að sá flokkur, sem að því vill standa að semja um það, að tilteknir tollar falli niður, — og honum var það einnig ljóst allan tímann, að uppi var till. um það, að í staðinn fyrir niðurfellingu þessara tolla skyldi koma hækkaður söluskattur, – og lýsir því yfir, að hann telji, að vel hafi verið að samningum staðið á allan hátt og það sé í rauninni ekki um meira að biðja í þeim efnum, hann hlýtur vitanlega eðli málsins samkv. að bera ábyrgð á hækkun söluskattsins, sem nú á að samþykkja.

En það er auðvitað ekkert nýtt, að formenn Alþfl. hafi tekið stórt upp í sig í sambandi við söluskatt, en breytt svo á annan veg. Því miður sýnist mér, að það sé alveg það sama að gerast hjá þessum hv. þm. Hann fer að eins og fyrri formenn og núv. formaður Alþfl., tekur stórt upp í sig og bannfærir þennan skatt, en er raunverulega að vinna að því að samþykkja hækkun á skattinum. Það er það, sem er að gerast. Ég vil nú samt vona, að þessum málum sé í rauninni þannig háttað, að hv. þm. sé í eðli sínu á móti söluskattinum og á móti hækkun hans og hann hafi fyllilega áttað sig á því, hvaða afleiðingar hún hefur.

En mér finnst það, sem hann hefur sagt um þetta mál, sýna enn þá betur, að hann hefur hins vegar ekki áttað sig á því, hvað hann er að gera, þegar hann er að samþykkja aðildina að EFTA.