17.03.1970
Neðri deild: 61. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í C-deild Alþingistíðinda. (2715)

178. mál, námskostnaðarsjóður

Flm. (Sigurvin Einarsson) :

Herra forseti. Á undanförnum mánuðum og misserum hefur það mjög borið á góma, hversu misjöfn er fjárhagsleg aðstaða ungmenna í landinu til náms eftir því, hvort nemendur búa svo að segja við skólavegginn eða þurfa að vista sig fjarri heimili sínu, meðan á náminu stendur. Ekki er neinum blöðum um það að fletta, að hver sá skólanemandi, sem verður að fara að heiman til langdvalar við nám, verður að borga tugþúsundum kr. meira í námskostnað á ári en hinn, sem gengur í skólann heiman frá sér daglega. Þetta er ekki torskilið mál, því að þessu veldur fyrst og fremst fæðiskostnaðurinn, húsnæðiskostnaður, ljós- og hitakostnaður, ferðakostnaður og annað þess háttar. Það má því nærri geta, hversu erfitt það getur orðið félitlum foreldrum og aðstandendum unglinga að eiga að senda 3–4 börn að heiman frá sér til náms á sama tíma. Þessi ungmenni eiga þó jafnmikinn rétt á skólanámi og hin, sem ekki þurfa að fara að heiman. Þau verða fyrir stórkostlegu misrétti, sem oft hefur svo valdið því, að þau hafa farið á mis við skólanám. Það er t. d. engin tilviljun, að í tveimur menntaskólunum hér í Reykjavík á s. l. skólaári voru 89% nemendanna úr svokallaðri Stór-Reykjavík, þegar aðeins 11% voru af öllu landinu utan hennar.

Þar sem þessu máli hefur verið hreyft, bæði á Alþ., í blöðum og á mannfundum, virðist það vera almenn skoðun manna, að bæta þurfi úr þessu ranglæti, sem æskufólk verður fyrir, og það hið fyrsta. Á síðasta þingi var samþ. þáltill. þess efnis, að rannsaka skyldi, hver aðstöðumunur nemenda er, sem verða að vista sig langtímum saman utan heimila sinna, og hinna, sem stunda skólanám án þess að þurfa að fara að heiman til þess. Skyldi að því stefnt, að yfirlit um þennan aðstöðumun skólanemenda yrði lagt fyrir næsta þing, þ. e. a. s. yfirstandandi þing. Nokkur athugun á þessu máli mun hafa farið fram á vegum menntmrn. á s. l. ári, en yfirlit um þá athugun hefur þm. ekki borizt enn. Menntmn. þessarar hv. d. óskaði eftir upplýsingum frá rn. um þessa athugun, og þess vegna kom Torfi Ásgeirsson hagfræðingur á fund n., en hann mun hafa annazt þessa athugun af hálfu rn. Hann upplýsti ýmsa hluti í þessu sambandi, en hafði ekki á reiðum höndum svör við því, hversu stórt fjárhagslegt vandamál þetta er. T. d. liggur ekki fyrir, hversu mikill fjöldi skólanemenda það er, sem verður að vista sig fjarri heimilum sínum við nám. Nokkur vitneskja er að vísu fyrir hendi um það, hversu miklu meiri kostnaður nemenda er, sem eru í heimavistarskólum framhaldsnámsins, en hinna, sem eru í heimavistarskólum skyldunámsins. Hins vegar er ekkert vitað um, hver námskostnaður nemenda við framhaldsnám er, sem ekki njóta heimavistar af neinu tagi, né hversu fjölmennur sá hópur er. Það skortir því mjög á upplýsingar um það, hversu mikið vandamál er hér að fást við.

Á fjárl. yfirstandandi árs er 10 millj. kr. fjárveiting til að jafna aðstöðumun nemenda í strjálbýli við framhaldsnám. Mér var það ljóst, þegar þessi fjárveiting var til umr. í þinginu, að þetta var að vísu viðurkenning á þörfinni, en upphæðin var svo lág, að hún gat ekki orðið að neinu verulegu gagni. Ég flutti þess vegna þá brtt. þá, að upphæðin skyldi verða 25 millj., en hún var felld. Að sjálfsögðu fá nú einhverjir það hlutverk að skipta þessum 10 millj. á þessu ári, en ég verð að segja, að ég öfunda þá ekki af því verki, svo erfitt er það.

Þó að mjög skorti á fullnægjandi upplýsingar um það, hversu mikil fjármagnsþörfin er til að jafna fjárhagslegan aðstöðumun nemenda til náms, þá má gera sér nokkra hugmynd um þessa þörf. Samkv. skyndiathugun, sem Aðalsteinn Eiríksson, forstöðumaður Skólaeftirlits ríkisins, gerði eftir beiðni minni á s. l. ári, benda sterkar líkur til þess, að fjöldi þessara nemenda, sem nám stunda fjarri heimilum sínum, sé um eða yfir 6000, þegar tekin eru með öll skólastigin, allt frá barnaskólum, en Háskóla Íslands þó sleppt. Samkv. þessari könnun Aðalsteins Eiríkssonar var kostnaður skólanemenda aðeins vegna fæðis, húsnæðis, þjónustu og ferða á skólaárinu 1968–1969 frá 24 þús. kr. á nemanda og allt upp í 52 þús. yfir skólaárið, eftir því hvað skólatíminn var langur, hvar skólinn var á landinu og hvort nemandinn var í heimavist og mötuneyti eða ekki. En síðan hafa orðið miklar verðhækkanir. T. d. hafa matvörur hækkað í verði á tveimur s. l. árum um 45%, og helmingur af þessari verðhækkun kom á árinu 1969. Slíkar verðhækkanir hafa að sjálfsögðu ekki lítil áhrif á námskostnað nemendanna.

Aðalvandinn í þessu máli er auðvitað sá, hvernig eigi að afla fjár til þess að jafna þennan fjárhagslega aðstöðumun skólanemenda. Það er kannske fyrirhafnarminnst að leggja til, að ríkissjóður greiði þennan kostnað að fullu, og sjálfsagt má rökstyðja það, að það sé réttasta leiðin. En fjárhagsaðstoðin verður að vera til frambúðar, og því þarf að tryggja henni tekjustofna til frambúðar með lagasetningu. Auk þess tel ég meiri horfur á því, að samstaða fengist um þetta mál, ef séð yrði fyrir hinni fjárhagslegu hlið þess frá byrjun, heldur en varpa öllum vandanum á ríkissjóð án þess að sjá honum fyrir tekjum í staðinn.

Í samræmi við þetta, sem ég hef nú drepið á, hef ég ásamt hv. 3. þm. Norðurl. e. flutt það frv. á þskj. 397 um námskostnaðarsjóð, sem hér er til umr. Hlutverk sjóðsins á að vera að veita námsstyrki þeim nemendum í skólum landsins, sem verða að dvelja utan heimila sinna við nám. Það er ætlazt til þess samkv. þessu frv., að styrkjakerfið nái til nemenda á öllum skólastigum, allt frá barnaskólum, en Háskóla Íslands þó sleppt, enda hefur hann sérstakt námslána- og námsstyrkjakerfi.

Þá er lagt til í frv., að tekjustofnar sjóðsins verði tveir: Annars vegar 5% gjald á allar vörur frá Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins og á hvers konar öl og gosdrykki. Hins vegar framlag ríkissjóðs, sem verði á ári hverju um 150 kr. á hvern íbúa í landinu. Þetta síðara er nokkur aukning á því framlagi, sem er í fyrsta sinn á fjárl. nú í þessu skyni, og þetta framlag mundi þá nema miðað við núverandi fjölda í kringum 30 millj. kr. í stað þess, að það eru 10 millj. á fjárl. núna. 5% gjaldið mundi sennilega nema um 70–80 millj. kr. Heildartekjur námskostnaðarsjóðs ættu þá að geta orðið um 95–105 millj. kr. á heilu ári. Ef svo reynist, að fjöldi þeirra skólanemenda, sem rétt ættu til námsstyrkja samkv. þessu frv., sé um 6000 alls, þá gæti námsstyrkur orðið að meðaltali á hvern nemanda um 15–17 þús. kr. En að sjálfsögðu yrðu námsstyrkirnir misháir, vegna þess að námskostnaðurinn er mjög mismikill í skólum landsins og árlegur námstími nemendanna mislangur.

Mér er ljóst, að því fer fjarri, að með þessum ráðstöfunum verði jafnaður að fullu aðstöðumunur nemenda við nám. Hins vegar yrði óneitanlega mikilsverðum áfanga náð í þessu efni. Ef svo er nú, sem ég vona, að almennur áhugi sé á því, að leysa það vandamál, sem þetta frv. fjallar um, þá vaknar sú spurning, hvað það sé í þessu frv., sem einna helzt kynni að geta orðið því til hindrunar. Mér dettur helzt í hug, að það kynni að vera fjáröflunin í námskostnaðarsjóð. Ég get þó varla ímyndað mér, að hv. þm. setji það fyrir sig, þó að hækkuð sé fjárveiting ríkissjóðs úr 10 millj. í 30 millj. Hins vegar er ég í meiri óvissu um hitt, hvernig kunni að verða tekið 5% gjaldinu á munaðarvörurnar, sem ég nefndi. Ýmsum kann að þykja það miður æskilegt að leggja gjald á vörur, en þó hefur þetta verið gert í ýmsum tilvikum, og með þeim hætti hefur ýmsum umbóta- og framfaramálum verið komið fram, sem ekki fengust fram með því að ætla ríkissjóði að greiða kostnaðinn.

Auk þess má nefna, að það er náskylt þessari aðferð, þegar starfrækt eru happdrætti í landinu til þess fyrst og fremst að firra ríkissjóð kostnaði af nauðsynjamálum. Mönnum er í minni, hvernig leyst voru fjárhagsmál Háskóla Íslands, þegar happdrætti hans var stofnað upphaflega, hve mikilvæg starfræksla hefur verið á ýmsum öðrum sviðum, eins og hjá Sambandi ísl. berklasjúklinga, Dvalarheimili aldraðra sjómanna og ýmissa fleiri. Þessi aðferð hefur því oft verið notuð og ég held oftast með ágætum árangri.

Þegar meta skal, hvort réttlátt er að leggja gjald á vörur, þá skiptir að sjálfsögðu miklu máli, í fyrsta lagi, hvort þetta eru nauðsynjavörur, sem verið er að leggja gjaldið á, í öðru lagi, hvort verið er að gera vörurnar óhæfilega dýrar með þessu skattgjaldi, og í þriðja lagi, til hvers eigi að nota skattinn. Í sambandi við þetta frv. er fyrsta atriðinu fljótsvarað. Hér er um munaðarvöru að ræða, en enga nauðsynjavöru, sem lagt er til að leggja gjald á. Annað atriðið þarf nánari athugunar við, hvort vörurnar verði óhæfilega dýrar með því að leggja á þær þetta gjald. Til þess að geta metið það réttilega, þá verður að bera það saman við verð þeirra vara, sem eru nauðsynlegri, svo að úr verði skorið, hvort hér sé óeðlilegur munur á. Þá fyrst er hægt að dæma um það, hvort 5% gjald á áfengi og tóbak og öl og gosdrykki muni gera þessar vörur óhæfilega dýrar. Um þetta hef ég aflað mér nokkurra upplýsinga, annars vegar hjá Hagstofu Íslands um verðhækkanir á helztu matvörunum á undanförnum 10 árum, hins vegar hjá Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins um verðhækkanir á helztu tegundum áfengis og tóbaksvara á sama 10 ára tímabili. Verðhækkanirnar á nauðsynjavörum frá því í janúar 1960 þar til í febrúar 1970, sem ég hef fengið upplýsingar um frá Hagstofu Íslands, eru t. d. þessar: Nýmjólk hefur hækkað um 351%, smjör um 155%, smjörlíki um 300%, franskbrauð um 285%, strásykur um 299%, kaffi um 432%, súpukjöt um 485%, neyzlufiskur, þ. e. a. s. ýsa, slægð með haus, um 814% og kartöflur um 1293%. Þarna eru níu tegundir af allra algengustu matvörum, sem hver einasti maður þarf að kaupa. Þetta eru nú verðhækkanirnar á þeim, og meðaltalið á þessum níu matvörutegundum er 490% á undanförnum 10 árum.

En þá kem ég að munaðarvörunum. Verðhækkanir á áfengis- og tóbaksvörum frá 1. janúar 1960 til 31. des. 1969 samkvæmt bréfi frá Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins eru þessar: Brennivín 182%, genever 138%, viskí 121%, borðvín 128%, hvítvín 144%, koníak 65%. Ég les þetta allt upp í heilum tölum, prósentutölurnar. Og meðalhækkunin á þessum áfengistegundum er þá 130% á 10 ára tímabili.

Þá koma tóbaksvörurnar. Á sama tímabili hefur verðhækkun á þeim orðið þessi: Neftóbak 95%, píputóbak 114%, vindlingar 180%, vindlar 101 %. Meðalverðhækkun á tóbaksvörunum á þessu 10 ára tímabili er þá 123%. Séu nú þessar munaðarvörur teknar saman, þ. e. a. s. áfengi og tóbak, er meðalverðhækkunin á þeim 126½%. Í þessum samanburði kemur það í ljós, að fyrrnefndar matvörur hækka um 490% á sama tíma og áfengi og tóbak hækkar um 126½ %. Ef menn kvarta nú undan 5% verðhækkun á munaðarvörunum, hvað má þá segja um matvörur, sem hækkað hafa á undanförnum árum fjórum sinnum meira en áfengi og tóbak?

Ég kem þá að síðasta atriðinu, sem ég nefndi, en það er: Til hvers á að nota þetta 5% gjald. Það á ekki að þurfa að endurtaka það, sem er meginefni frv. sjálfs, en í fáum orðum sagt er hér gerð alvarleg tilraun til þess að afnema hróplegt misrétti, sem mikill hluti æskufólks verður fyrir víðs vegar um landið. Þetta er tilraun til þess að opna öllum veg til menntunar. Það er tilraun til þess að útiloka þá ömurlegu staðreynd, að æskufólki sé neitað um skólamenntun af fjárhagslegum ástæðum aðstandenda sinna. Og hv. alþm. eiga um það að velja að sjálfsögðu, hvort þeir vilja heldur verða æskufólkinu að liði og greiða götu þess til menntunar, þótt það kosti smávægilega verðhækkun á munaðarvörum, eða hvort þeir vilja eða geta sætt sig við það lengur, að þetta misrétti eigi sér stað gagnvart æskufólkinu í landinu. Ég hef þá trú, að alþm. yfirleitt séu þeirrar skoðunar, að þeir vilji leysa þetta vandamál, og ég vona, að þeir líka geri það á þessu þingi.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.