16.12.1969
Neðri deild: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

126. mál, söluskattur

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Ég hafði reyndar ekki hugsað mér að taka til máls í þessum umr. um það söluskattsfrv., sem hér liggur fyrir. En ræða hv. 9. þm. Reykv. áðan hefur gefið mér tilefni til örstuttra aths.

Hann ræddi um þá breytingu, sem orðið hefur á afstöðu Alþfl. í skattamálum almennt og sérstaklega til söluskatts. Ég veit, að hv. þm. hefur svo lengi fylgzt með málefnum Alþfl., að hann veit vel, að á afstöðu Alþfl. til skattamála hefur orðið mikil breyting frá þeim tíma, er flokkurinn beitti sér fyrst og fremst fyrir beinum sköttum, en var algerlega á móti óbeinum sköttum. Ég veit einnig, að hv. 9. þm. Reykv. fylgist það vel með bræðraflokkum Alþfl. erlendis og þá sérstaklega á Norðurlöndum, að hann hlýtur að vita, að hjá þeim hefur orðið svipuð breyting á þessari afstöðu og hjá íslenzka Alþfl. Það eru ekki hinir einstöku forustumenn Alþfl., sem hafa tekið þessa afstöðu, heldur hefur Alþfl. sem heild mótað afstöðuna og tel ég óhætt að segja, að höfuðbreytingin í þessu efni hjá okkur í Alþfl. sé um 10 ára gömul. Það var fyrst og fremst, þegar söluskattur var hækkaður 1960 og jafnframt gerð mikil og róttæk breyting á tekjuskatti, sem Alþfl. markaði sína stefnu í þessum málum. Eins og kom hér fram hjá hv. 4. þm. Austf. hefur Alþfl. allar götur frá þeim tíma ekki farið dult með þá skoðun sína, að við ættum að brjóta niður þá tollmúra, sem við höfum umgirt okkur með, en taka í þeirra stað upp aukinn söluskatt.

Við þessar umr. hefur það komið fram hjá andstæðingum söluskattsfrv., að þeir vilja minnka þann gjaldstofn, sem skatturinn er lagður á og undanskilja helztu nauðsynjavörur, eins og þeir nefna það. Ég vil til fróðleiks fyrir hv. 9. þm. Reykv. og aðra, sem ræða um málið á þessum grundvelli, upplýsa það, að ágreiningur hefur verið milli núv. stjórnarflokka í Noregi og stjórnarandstöðuflokksins, sem er Verkamannaflokkurinn norski, um söluskattinn, sem nú hefur verið breytt í verðaukaskatt. Stjórnarflokkarnir hafa ákveðið, að verðaukaskatturinn skuli vera samtals 20%, en Verkamannaflokkurinn lagði til, að skatturinn yrði aðeins 15%. Þessi mismunur á upphæð skattsins í prósentutölu byggðist á því, að Verkamannaflokkurinn norski vildi, að gjaldstofninn, sem skatturinn verður lagður á, yrði mun víðtækari, en sá gjaldstofn, sem stjórnarflokkarnir lögðu til. Þetta vildi ég, að kæmi fram í þessum umr., vegna ummæla hv. 9. þm. Reykv. um afstöðu Alþfl. í þessu máli. Mér er það hins vegar ljóst, eins og sjálfsagt öllum hv. þm. öðrum, að sú breyting á skattinnheimtu ríkisins, að dregið er úr skattheimtunni hvað tekjuskatt snertir og tollar lækkaðir, en aftur á móti aukinn söluskattur, hlýtur að hafa margar aðrar víðtækar breytingar í för með sér, eins og reyndar hefur verið minnzt á hér í þessum umr.

Árið 1960, þegar söluskatturinn var hækkaður, voru gerðar mjög víðtækar ráðstafanir til þess að draga jafnhliða úr tekjuskatti. Jafnhliða þessari hækkun söluskattsins, sem nú er rædd, eru gerðar ráðstafanir til þess að draga úr verkunum skattsins, fyrst og fremst með því að auka fjölskyldubætur og með því, að ákveðið hefur verið, að á skattafrádrátt verði reiknuð skattvísitala.

Ég vil ekki halda því fram, að slíkar ráðstafanir, sem á að gera núna, ásamt hækkun ellilífeyris og örorkubóta, séu nægjanlegar, þegar verkanir söluskattshækkunarinnar koma fram að fullu. En ég fyrir mitt leyti styð samt hækkun söluskattsins og þær breytingar allar, sem nú er verið að gera og eru auðvitað þáttur í aðgerðum okkar samfara aðildinni að EFTA, eins og hv. 4. þm. Austf. nefndi áðan. Ég styð þessa hækkun söluskattsins í trausti þess, að áfram verði haldið að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að létta af gjaldendum tekjuskatti og til þess að bæta hag þeirra verst settu í þjóðfélaginu með endurskipulagningu og aukningu almannatryggingakerfisins.