02.04.1970
Neðri deild: 67. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í C-deild Alþingistíðinda. (2723)

179. mál, félagsmálaskóli verkalýðssamtakanna

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið margflutt og margskýrt, svo að ég sé ekki ástæðu til að rekja nákvæmlega efni þess, enda er efni þess ósköp einfalt og auðskilið, þ. e. að stofnaður verði félagsmálaskóli verkalýðssamtakanna. Frv. nálega samhljóða þessu hefur verið margoft flutt af ýmsum, en að þessu sinni er málið flutt af hv. 10. þm. Reykv. og mér.

Ég held, að það orki ekki tvímælis, að samningsgerðir verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda um laun og kjör og vinnuskilyrði eru nú fremur en áður orðnar mjög vandasamt verkefni, sem krefst mikillar þekkingar, jafnvel sérþekkingar, bæði á högum þeirra, sem samningsgerðirnar snerta hverju sinni, sem líka og félagsmálalöggjöf þjóðarinnar, skattalöggjöf, rekstri atvinnuveganna og jafnvel þjóðarbúskaparins í heild. Þetta verkefni er í höndum mörg hundruð stjórnarmeðlima í verkalýðsfélögunum og enn þá fleiri trúnaðarmanna verkalýðsfélaganna á vinnustöðum víðs vegar um landið, og á það ekki sízt við um framkvæmdina á gerðum samningum, sem er mikilsverður þáttur í samskiptum aðilanna á vinnumarkaðinum.

Meðferð þessara mála krefst sérstakrar fræðslu. Þótt forystumenn verkalýðsfélaganna hafi fram að þessu orðið að afla sér þessarar þekkingar í reynslu, þá virðist það svo, að það sé erfitt orðið að afla sér hennar með þeim hætti, og þurfi kennsla og bókstafleg skólafræðsla að koma til.

Okkur flm. virðist öll rök mæla með því, að ríkið viðurkenni og kosti slíkan skóla að öllu leyti á líkan hátt og margir skólar annarra stétta eru kostaðir af ríkinu, og má þar nefna bændaskóla, sjómannaskóla, skóla veitingaþjóna og framreiðslumanna o. s. frv. Okkur finnst rökrétt afleiðing af þessu, að hið opinbera viðurkenni skólahald á kostnað ríkisins fyrir fjölmennustu stétt þjóðarinnar, verkalýðsstéttina.

Við flytjum þetta frv. enn þá einu sinni í fullu trausti þess, að að því komi þó að lokum, að Alþ. viðurkenni þessa fræðsluþörf og samþykki frv. sem þetta. Svo er komið, að verkalýðsfélögin hafa ekki getað beðið lengur með það að koma upp vísi að fræðslustofnun. Á s. l. hausti var komið á fót fræðslu- og menningarsambandi verkalýðssamtakanna, og það hóf þegar að koma á fót námskeiðum, sem nú hafa verið haldin tvö á þessum vetri, við svo mikla aðsókn, að ekki hefur verið við ráðið, og margir bíða eftir að komast að. Húsrými er af skornum skammti, og við getum ekki haldið nema örstutt námskeið til þess að koma sem flestum að. En byrjunin er gerð á kostnað verkalýðssamtakanna, en hins vegar verður að viðurkenna það, að fjárhagur verkalýðssamtakanna er ekki svo sterkur, að við getum risið undir því skólahaldi, sem þörf og nauðsyn krefur, og þess vegna leitum við til ríkisins um það, að það kosti slíka fræðslu í formi formlegs skólahalds.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta margflutta, en bráðnauðsynlega frv. og vænti nú, að skilningur sé fenginn á því, að slíks skóla sem félagsmálaskóla verkalýðsfélaganna sé þörf, og að frv. beri því að samþykkja.

Ég legg til, herra forseti, að þegar umr. þessari lýkur, þá verði málinu vísað til heilbr.- og félmn.