16.12.1969
Neðri deild: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

126. mál, söluskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það var meira af vilja en mætti hjá hv. 4. þm. Austf. að reyna að gera eitt og sama mál úr inngöngu Íslands í EFTA og skattafrv. hér á Alþ. um álagningu söluskatts. Það tókst honum ekki og tekst honum aldrei, þó hann reyndi að færast slíkt í fang. Það er vitanlega enginn óaðskiljanlegur hluti af inngöngu Íslands í EFTA, hvort hér verður afgreitt söluskattsfrv. eða ekki. Íslenzka ríkisstj. hafði auðvitað alfrjálsar hendur um það, óháð afstöðunni til EFTA–málsins, hvort hún bætti sér upp tollalækkunina með söluskattsfrv. eða annarri löggjöf. Hún átti þar frjálst val um leiðir. Hún valdi bara þessa leiðina og það var það, sem ég var að áfellast. Þetta eru tvö algerlega óháð mál og það þarf ekki að bera það á borð fyrir hv. Alþ.,ríkisstj. hafi ekki átt neins annars úrkosti, en að bera fram slíkt frv. sem þetta vegna samninganna við EFTA. Það er þeim algerlega óviðkomandi og með svona fleipur er ekki hægt að fara í sölum Alþingis.

Að það sé í bága við EFTA–samninginn, ef söluskatturinn væri innheimtur í tolli, það er önnur fjarstæðan til. Vitanlega er söluskatturinn, í hvaða formi sem hann er innheimtur, lagður bæði á innkaupsverð vörunnar og sölumeðferð hennar og það er enginn eðlismunur á því. Ef þetta er leyfilegt samkv. EFTA–samningnum, þá er hitt leyfilegt líka. En það hafði ég heldur ekkert fullyrt um. Ég sagði skýrt frá því í minni ræðu, að verkalýðshreyfingin hefði áður borið fram kröfur og till. við ríkisstj., þessa ríkisstj., um að breyta söluskattsinnheimtunni í það horf, að hann yrði innheimtur í tolli. En þeirri leið hefði verið hafnað, sagði ég og var af því alveg augljóst, að ég hafði skýrt hér frá því, að við hefðum bent á þetta fyrr en nú. Og það er sannleikanum samkvæmt.

Hins vegar benti ég á það, að ef hæstv. ríkisstj. fengist ekki inn á það að hverfa frá innheimtu á söluskatti í þessu formi, væri sú leið opin að undanþiggja söluskattsinnheimtu brýnustu nauðsynjar almennings. Það var sú till., sem ég gerði nú, ef ríkisstj. fengist ekki til þess að hverfa frá að knýja fram söluskattsfrv. eins og það liggur hér fyrir. Inn á það atriði kom hv. þm. ekki, því að hann vildi halda sig við það að reyna að gera eitt mál úr þessum tveimur. En ég segi: Það er alveg óþarft fyrir hæstv. ríkisstj. að vera að spilla góðu máli, eins og EFTA, með eins afleitu máli og þetta söluskattsfrv. er. En það þarf engum að koma á óvart, að ég greiði atkv. á móti söluskattsfrv., legg þar til mitt mótatkv., alveg eins og hv. 4 þm. Austf. og get vitnað til þess, að þetta er í samræmi við mína fyrri afstöðu til slíks máls. Honum mundi kannske hafa enzt tími til þess að fara í gegnum sjálfan sig á skemmri tíma.

Ég held, að ég láti þetta nú nægja í orðaskiptum við hv. 4. þm. Austf. Mér þykir hins vegar leitt, að ég tók fyrst eftir því að mínu máli loknu, að hvorki hæstv. utanrrh.hæstv. viðskrh. voru hér viðstaddir, þegar ég var að vitna í þeirra afstöðu til söluskatts og hefði þótt það skemmtilegra, að þeir hefðu verið hér viðstaddir og getað tekið upp vörn fyrir sín skoðanaskipti, heldur en það þyrfti að koma í hlut hv. 5. þm. Vestf. En mér skilst á honum, að þetta sé allt með réttu eðli, þessi gjörsamlega öndverða afstaða hæstv. ráðh. við þeirra fyrri afstöðu og skal ég leggja mig fram um að leggja trúnað á þá staðhæfingu hans. En skemmtilegra hefði mér þótt, að hæstv. ráðh. hefðu verið hér viðstaddir og gætu sjálfir gert grein fyrir þessum skoðanaskiptum. En vafalaust er það svo, að þessi nýja afstaða til söluskatts, í svona miskunnarlausu formi gagnvart alþýðustéttum landsins og láglaunastéttunum, að innheimta slíkan skatt af hinum stóru fjölskyldum og lágtekjufólkinu miskunnarlaust, nálega af öllum nauðsynjum, – það er líklega liður í hinni nýju jafnaðarstefnu, sem stefnuskrá Alþfl. byggist á og var kölluð hin nýja jafnaðarstefna fyrir nokkrum árum. (Gripið fram í.) Enda var af hv. 5. þm. Vestf. vitnað hér í Norðurlöndin og þaðan er fyrirmyndin komin. Nei, ég endurtek það, að 5 formenn Alþfl., allir núlifandi formenn hans, hafa allt fram að þessari stundu verið svarnir andstæðingar söluskatts í því formi, að hann legðist jafnt á allar brýnustu lífsnauðsynjar sem aðrar vörur.

Sú leið stendur opin, ef menn endilega vilja halda sig fast við þetta söluskattsfrv. og knýja það í gegn, að undanþiggja þá allar brýnustu lífsnauðsynjar almennings og hækka söluskattinn að öðru leyti. Það getur enginn sagt, að það sé ekki fær leið að vilja heldur láta megin fjármagnið, sem innheimtist með honum, lenda á lúxusvörum og glingri fremur, en á lífsnauðsynjum almennings. Sú leið er opin, hún er ekki ófær. Það má vel vera, að hitt sé rétt, sem hæstv. fjmrh. hefur sagt, að það sé illframkvæmanlegt að hafa misjafnan söluskatt. Látum það vera, en hin leiðin er fær.