17.04.1970
Neðri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í C-deild Alþingistíðinda. (2758)

205. mál, stimpilgjald

Flm. (Sverrir Júlíusson):

Herra forseti. Á þskj. 500 ber ég fram frv. til l. um breyt. á l. nr. 75 frá 27. júní 1921 um stimpilgjald. Breyt. á frv. frá gildandi reglum er sú, að stimpilgjald af sölu fiskiskipa verði nú reiknað 0.4% í staðinn fyrir 1%, eins og það er nú. Þá segir einnig í 2. gr., en þar er lagt til, að þetta ákvæði, ef það yrði samþ., gilti um sölu skipa, sem hefur átt sér stað eftir 1. nóv. 1968, þegar mikil breyting varð á verðgildi ísl. kr. Það er náttúrlega, eins og við vitum allir, mikil þörf á, að það sé mikil og góð regla í sambandi við þinglestur og afsöl og þess háttar, en í sambandi við þinglestur á afsölum skipa verður að segja það, sem satt er, að á því hefur verið, já, það er hægt að segja, um langan tíma, talsverð óregla, svo að við notum ekki sterkara orð. Ég held, að þetta komi að verulegu leyti til greina vegna þess, hversu dýrt það er að þinglesa, þegar eigendaskipti verða á skipunum. Ég hef oft orðið var við, að Skipaskráning ríkisins getur ekki gefið upp vitneskju um, hverjir eru eigendur hinna einstöku skipa, vegna þess að ekki er búið að ganga frá tilskildum gögnum í sambandi við það. Og ég hef mikið oftar en einu sinni séð, að það er farið framhjá ríkissjóði með því, að ef skip eru seld með nokkru millibili, er gamli eigandinn látinn afsala, og þar af leiðandi missir ríkissjóður tekjur af þinglestri og stimplun í sambandi við það.

En það má spyrja: Er þetta svona afar hátt, og er þetta í ósamræmi við það, sem er á öðrum eignum hér innanlands eða á sölu erlendis? Ef skip eru byggð innanlands, þá þarf viðkomandi aðili að greiða 50 kr. fyrir stimplun á verksamningi. Ef hann tekur lán í Fiskveiðasjóði, þá er það stimpilfrjálst, en ef hann tekur lán annars staðar, er það stimpilskylt. Þetta er öðruvísi, þegar um sölur er að ræða. Ég er hér með fyrir framan mig nokkrar tölur, sem sýna bæði, hvað þetta kostar og hvað sú breyting mundi nema miklu, sem ég legg til í því frv., sem hér liggur fyrir.

Ef bátur er seldur fyrir 7 millj. og á honum hvíla 2½ millj. í stofnlánasjóðum, en greitt með skuldabréfum 3½ millj. og í peningum 1 millj., eða samtals 7 millj., þá kostar þetta með því stimpilgjaldi, sem nú er á afsölum og þinglestri, 147 þús. og 700 kr. Ef sú till., sem fram kemur í þessu frv., sem ég ber hér fram, mundi ná fram að ganga, mundi það þýða það, að stimpilgjaldið lækkaði um 42 þús., og að greiðsla til hins opinbera yrði 105 þús. og 800 kr. í staðinn fyrir 147 þús. og 700 kr. Það skal tekið fram, að þessar upphæðir eru réttar, ef þinglestur fer fram í sama lögsagnarumdæminu, en þær hækka, ef flutt er milli lögsagnarumdæma. Hér er ekki tekið til greina það, sem aðilar þurfa að greiða, ef þeir þurfa að taka lán vegna útborgana eða þess háttar, heldur er hér beint stimpilgjald af afsali og þinglestur af afsali og síðan af því skuldabréfi, sem gefið væri út. Ég er hér með annað dæmi, og er þá miðað við sölu á bát á 18 millj. kr. Það kostar með núgildandi reglum 333 þús. Stimpilgjald af afsalinu er 180 þús., en ef farið yrði eftir þeirri till., sem ég er hér með, þá mundi það lækka um 108 þús. Kostnaður við eigendaskiptin mundi nema 225 þús. kr. Ég er með þriðja dæmið hér. Þegar um er að ræða sölu á skipi, sem nemur 25 millj. kr., þá nemur þessi kostnaður með núgildandi reglum 466 þús. og 500 kr., en eftir þeirri till., sem ég hef hér bent á, þá mundi það lækka um 150 þús. og nema 316 þús. og 500 kr.

Ég hef dregið þetta fram til að sýna, hver munurinn er. Hér er ekki verið að gera þessa hluti stimpilfrjálsa, það er öðru nær. Það eru eftir sem áður mikil útgjöld við eigendaskipti. Ég sagði áðan, að í þessum dæmum væri ekki tekið tillit til þess, ef sérstakar skuldbindingar eru í sambandi við það fé, sem menn verða að fá til útborgunar, en ég er hér með upplýsingar um eina sölu, sem fór fram á s. l. ári. Söluverð nam 24 millj. kr., og þar nam þessi kostnaður með öllu 493 þús. og 293 kr. Nú hefur verið á vissum vettvangi átalið, að það væru kannske hinir opinberu sjóðir, sem væru að stuðla að því að flytja skip á milli landshluta. Um það skal ég ekki ræða, en táknrænt er, af því að Atvinnujöfnunarsjóður hefur verið átalinn í sambandi við þau mál, að hámarkslán, sem hann hefur veitt í sambandi við eigendaskiptin, munu vera um 500 þús. kr., eða með öðrum orðum sú upphæð, er nemur kostnaðinum við eigendaskiptin. En ég vil leggja áherzlu á það, að þetta er mjög mörgum of þungur baggi, og það er hrýn nauðsyn vegna lánasjóða, vegna banka og vegna skipaskoðunarinnar, að það sé regla á þessum hlutum, og hér í hv. Nd. liggur nú fyrir frv., þar sem kveðið er á um, að ekki skuli skráð á skipin, nema fyrir liggi ótvírætt, hverjir séu hinir réttu eigendur skipanna, en það mundi í sumum tilfellum geta orðið erfitt og tafsamt miðað við það, sem ég hef séð á undanförnum árum.

Ég minntist á áðan, hvort þessar reglur væru svona allt aðrar hér en annars staðar, og það eru þær vissulega. Það kemur fram í grg., að í Svíþjóð er 1%, þ. e. a. s. sama upphæð að 25 þús. sænskum kr. Í Danmörku er þetta 0.4% upp í 10 þús. danskar kr., en lægra fyrir það, sem fer fram yfir, og í Noregi eru afsöl stimpilfrjáls. Þetta hef ég staðfest með skeytum gegnum utanrrn. frá íslenzkum sendiráðum, en það er svona í þessum þrem löndum. Ég álít, að ef þessi tilfærsla verður gerð, sé það til þess að tryggja það, að hlutirnir verði í réttara og betra horfi en stundum vill við brenna, en ég vil jafnframt halda því fram, að þó ég hafi ekki tölur um það hér, en ég hef beðið hæstv. fjmrh. að athuga um það, hversu mörg skip það væru, sem ekki hafa verið skráð á eðlilegum tíma, en ég held því fram, þar til annað kemur fram, sem sannfærir mig, að ríkissjóður mundi ekki tapa neinu, þótt þessi réttarbót yrði gerð í sambandi við þetta mál, heldur yrðu hlutirnir í betra horfi í sambandi við þessi mál.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.