13.04.1970
Neðri deild: 71. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í C-deild Alþingistíðinda. (2766)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara langt út í umr. um það frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 530, enda hef ég ekki vegna fjarveru úr bænum um helgina haft tíma til að kynna mér það sem skyldi og veit líka, að hér er um veigamikið mál að ræða, sem nokkurn tíma þarf til þess að átta sig á. Ég vil hins vegar við þessa umr. segja það, að ég fagna því, að þetta mál skuli vera fram komið, því að ég lít svo á, eins og hefur komið fram bæði í flutningi mála hér á hv. Alþ. af hálfu okkar framsóknarmanna og í umr. fyrr, að nauðsyn beri til að endurskoða skatta- og útsvarslög landsins í heild, ekki eingöngu fyrirtækja, heldur og einnig einstaklinga. Eftir því, sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh., verður stefnt að því, og er ég því mjög fylgjandi og fagna því, að svo skuli gert. Mér sýnist líka, eftir að hafa litið yfir þetta frv. og hlustað á hæstv. fjmrh., að það stefni að því að tryggja betur en verið hefur, að fjármagn haldist í atvinnurekstrinum. Og ég get tekið undir það og lýst þeirri skoðun minni, að ég tel nauðsyn bera til þess, að við gerum betur til að tryggja fjármagn í atvinnurekstrinum en gert hefur verið til þessa. Ég held, að það sé öllum þegnum þjóðfélagsins í hag, hvort sem það eru atvinnurekendur eða þeir, sem vinna að atvinnurekstrinum sem launþegar. Það er öllu þjóðfélaginu í hag, að atvinnureksturinn standi sig sem bezt og geti haft ótruflaðan rekstur. Ég vona, að þetta frv. gangi í þá átt, og þar sem ég tel mig hafa kynnzt því, þá sýnist mér viðbrögðin vera þau.

Í tilefni af því, sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh., þá vil ég aðeins undirstrika það, til þess að þau atriði verði, eins og hann vék að, til frekari athugunar í sambandi við framhaldsathugun á málinu, að ég tel það mjög mikla nauðsyn, að skattakerfi okkar verði gert einfaldara en verið hefur. Ég hef áður látið í ljós þá skoðun, að sú stefna, sem ég tel, að fylgt hafi verið á síðari árum og hæstv. fjmrh. vék að, að bæta skatti ofan á skatt, eins og ég mun nú hafa orðað það áður, sé vægast sagt mjög óheppileg og hafi reynzt atvinnuvegunum afar illa. Það fer svo, að það verður öðruvísi litið á það mál, sem litið er á í einni heild, heldur en þegar verið er að bæta pinkli ofan á pinkil, eins og gert hefur verið. Þess vegna vil ég undirstrika það, að það er mjög mikil nauðsyn að gera skattakerfið einfaldara í framkvæmd og hafa heildarstefnu í því.

Í sambandi við það, sem hæstv. fjmrh. vék að, aðstöðugjöldunum, þá er mér það ljóst, að aðstöðugjöldin eru mjög gallað form. Það er afskaplega gallað form að leggja því meiri skatt á, sem kostnaðurinn er meiri. Það hefur verið tekið dæmi af bátunum tveimur, sem fóru í róðurinn og annar tapaði veiðarfærunum, en hinn kom með mokafla, og sá, sem tapaði veiðarfærunum, varð að greiða hærra aðstöðugjald vegna róðursins. Þetta er mjög gallað form. Hins vegar er mér það ljóst, að sveitarfélögin geta ekki verið án þess að ná sköttum af atvinnurekstrinum, og þau hafa að sjálfsögðu margfaldan kostnað við atvinnureksturinn í byggðarlaginu og verða að veita atvinnurekstrinum eðlilega alls konar aðstöðu.

Ég hef alið í brjósti mér þá hugsun og eftir því í ríkari mæli, sem ég hef hugsað meira um þetta og reynt að kynna mér þetta betur, að fasteignaskattarnir væru það form, sem við yrðum að hverfa að meira en við höfum nú gert og það í ríkum mæli. Í því sambandi hafa mér fundizt mjög mikil rök fyrir því, að eins og nú er, eru ýmsar stofnanir í landinu, m.a. ríkisstofnanir, sem við erum með, stikkfrí gagnvart gjöldum til sveitarsjóðanna og bæjarsjóðanna, en með því að ná með fasteignasköttum, þá næðum við til þessara aðila, sem ég tel jafn rétt, að taki þátt í uppbyggingu byggðarlaganna eins og aðrir aðilar, sem það verða að gera með greiðslu á sköttum og skyldum. Þess vegna held ég, að ef unnin verður framhaldsvinna í þessum málum, skattamálunum, eigi mjög að taka fasteignaskattana til athugunar, ekki sízt með það form í huga, sem við náum til fyrirtækjanna með.

Svo vil ég að síðustu, því að ég ætla ekki að fara að halda hér langa ræðu, heldur aðeins undirstrika þau atriði, sem ég hef sérstakan áhuga fyrir og tel, að þurfi að vinna að í sambandi við framhald þessa máls, undirstrika það, sem einnig kom fram í ræðu hæstv. fjmrh., að nauðsyn ber til að gera einfaldari og ákveðnari verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaganna, bæði í sambandi við tekjuöflun og eins við framkvæmdir verka. Þetta er hin mesta nauðsyn. Það er mjög óheppileg aðferð, sem við höfum haft um áratuga skeið eða allt frá upphafi, að sömu aðilarnir, bæði ríkið og sveitarfélögin sæki á sama tekjustofninn og kannske eftir mörgum leiðum. Þetta er afskaplega óheppilegt. Eins er um mörg verkefni, að miklu eðlilegra væri, að annar hvor aðilinn annaðist þau að öllu leyti. Mér dettur nú í hug á stundinni, að ég tel t.d., að það væri miklu eðlilegra, að ríkið hefði algerlega með lögreglumál að gera en sveitarfélögin legðu þar fjármuni til, því að þau hafa engin ráð á þeim af eðlilegum ástæðum, og önnur verkefni geta svo verið, sem eðlilegra væri, að sveitarfélagið annaðist eitt, en ríkið ekki. Þess vegna vil ég undirstrika það, að mikil nauðsyn er á því að gera verkaskiptinguna og tekjuskiptinguna á milli sveitarfélagsins annars vegar og ríkisins hins vegar ákveðnari og einfaldari. Þessi fáu atriði vildi ég aðeins minna á við þessa umr. málsins.