17.04.1970
Neðri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í C-deild Alþingistíðinda. (2777)

211. mál, siglingalög

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það var nú ekki mín ætlun að stofna hér til mikilla umr. um þetta málefni. Það eru auðvitað mörg sjónarmið, sem koma til greina í þessum efnum. Mannúðarsjónarmiðið var sjónarmið hv. síðasta ræðumanns, hv. 10. landsk. þm. Það eru auðvitað mörg fleiri sjónarmið, t.d. sjónarmið vátryggingafélaga, sem koma til greina. Það eru sjónarmið útgerðarmanna, sem koma til greina, og sjálfsagt fleiri. En í þessum efnum er um að ræða takmörk, sem eru vandasöm. Það er viðurkennt af öllum. Og t.d. það ákvæði, sem hefur verið gildandi hjá Samábyrgðinni, og framkvæmd á því ákvæði hefur oft á tíðum verið mjög vafasamt að mínum dómi og að dómi útgerðarmanna. Ég man t.d. eftir því, að það kom einu sinni til mín útgerðarmaður, sem bjargaði bát, sem var minni en 100 smálestir, og hann lagði sinn bát í stórkostlega hættu, að því er hann taldi. Ég man ekki, hvaða þóknun honum var gerð eða hann var sæmdur í þessu sambandi, en það var smáræði, og mér er nær að halda, að það sé talsverð óánægja meðal útgerðarmanna, einmitt í þessu efni, þannig að það er margs að gæta, en það kom fram hjá hv. 10. landsk. þm., að hjá prófessor Magnúsi Torfasyni, sem hafði verið leitað til í þessu efni, kom einmitt fram nákvæmlega sama sjónarmiðið og ég benti á hér áðan, og ég vil endurtaka það, að það væri að minni hyggju skynsamlegt að bera saman þessi ákvæði við alþjóðleg ákvæði sjóréttar og þá sérstaklega grannþjóða okkar.