17.04.1970
Neðri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í C-deild Alþingistíðinda. (2783)

212. mál, orkulög

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég hef áður og ásamt fleiri þm. flutt frv. um þetta efni, og ég get þess vegna verið stuttorður um málið nú. Ég vil segja það fyrst sem mína skoðun, að það er í vaxandi mæli mannréttindamál að gefa öllum landsmönnum kost á því að njóta raforkunnar. Við flm. teljum það nauðsynlegt, að nú þegar sé skoðað varðandi það, sem eftir er af dreifingunni, hvernig hún verði leyst með sem hagkvæmustum og skjótustum hætti. Við teljum þetta mikilvægt, bókstaflega vegna byggðaþróunarinnar í landinu, og við teljum það hættulegt að draga aðgerðir og að draga ákvarðanir um lok þessara framkvæmda, hvernig þeim verði háttað. Þróunin í framkvæmd orkudreifingarinnar hefur að okkar dómi verið nánast mjög alvarleg hin síðustu árin. Það var á löngu árabili haldið uppi nokkuð jöfnum framkvæmdahraða. Þó að nokkrar breytingar yrðu á milli ára, var, þegar á heildina var litið, ekki annað hægt að segja en að framkvæmdahraðinn væri nokkuð jafn, eða um 200 býli á ári að meðaltali. Síðustu árin hefur svo farið að draga úr framkvæmdahraðanum. Þannig voru árið 1968 tengd liðlega 130 býli og á s.l. ári á milli 70–80. En þess ber að geta, að á því ári var byrjað á veitum til nokkuð margra býla að auki. Þegar hér er komið sögu, eða í árslok 1968, þá er ósamræmið á milli byggðarlaga orðið afskaplegt. Þannig er í sumum sýslum tala þeirra býla, sem ekki hafa fengið raforku, komin niður fyrir 3%, en í sumum sýslum er hún yfir 70%. Þetta ósamræmi á að vísu sínar orsakir. Yfirleitt eru það strjálbýlli svæðin, sem dregizt hafa aftur úr, og ég ætla ekki að fara að vekja neinar deilur hér um framframkvæmd þessara mála að undanförnu að þessu leyti, en hitt vil ég láta koma alveg skýrt fram, að við flm. þessa frv. teljum það alveg óviðunandi og raunar óverjandi, að eins og að stinga við fótum, þegar hér er komið sögu.

Nú lítur út fyrir það, að í sumar verði töluvert miklar framkvæmdir, ég vil segja miklar framkvæmdir, í orkudreifingunni, því að ef svo fer fram, sem horfir, þá má jafnvel segja, að hér sé um stökkbreytingu að ræða frá því sem var í fyrra. Ég verð að álíta, að þetta viðbragð nú sé a.m.k. að nokkru leyti árangur af þeim mikla þrýstingi, sem fram hefur komið í þessu máli úr ýmsum áttum, ekki eingöngu flokkspólitískum þrýstingi, heldur og frá alþm. úr ýmsum flokkum, úr ýmsum kjördæmum og bókstaflega frá fólkinu sjálfu utan af landsbyggðinni, frá því fólki, sem enn er utan orkusvæðanna. En mikið af þeim framkvæmdum, sem gerðar verða í sumar, verða gerðar fyrir lánsfé, og a.m.k. sumt af því lánsfé er aðeins til skamms tíma. Um framhaldið er allt í nokkuð mikilli óvissu, svo að ekki sé meira sagt, þegar lýkur tengingu þeirra býla, sem hafa meðalfjarlægð að 1.5 km, en það hefur komið hér fram, að ætlunin er að ljúka tengingu þeirra á þessu ári. En um það, hvað þá taki við, er, að ég bezt veit, mikil óvissa.

Að marggefnu tilefni vil ég rétt víkja að einu framkvæmdaatriði. Við ákvarðanir meðalvegalengda á milli býla á undanförnum árum þá hefur í mörgum tilvikum verið tekinn unginn úr byggðinni eða sá hluti sveitarfélagsins, sem hagkvæmast var að tengja, og þá náttúrlega hinn hlutinn orðið eftir. Í annan stað hefur matið verið þannig, að vegalengdir á milli, ja, sveitarfélaga, skulum við segja, hafa verið taldar með,þegar reiknað er meðaltal á milli býla. Ég vil nú segja eins og áðan, að ég ætla ekki að fara að vekja upp neinar deilur um þessar reglur, en það hefur verið unnið að málunum á þennan hátt, um það er ekkert hægt að deila. Stefnan hefur verið sú að tengja sem allra flest býli fyrir það fé, sem til ráðstöfunar hefur verið hverju sinni. Og þetta var ekki óeðlilegt sjónarmið út af fyrir sig. En hins vegar vil ég leggja ríka áherzlu á það, fyrir mína hönd og meðflm. minna, að þetta þarf að endurskoða, þegar kemur að lokastigi dreifingarframkvæmdanna. Ég er ekki í neinum vafa um það, að það verður við nánari skoðun talið þjóðhagslega hagkvæmt í sumum tilvikum að tengja lífvænleg og kannske innbyrðis þéttbýl byggðarsvæði samveitum, þó að þau kunni að vera fráskilin veitusvæðinu með nokkurri vegalengd, sem veldur því, að meira en 2 km meðalvegalengd verður á milli bæja. Ég er ekki í vafa um það, að í ýmsum tilvikum verður það talið hagkvæmt, og þetta álít ég, að þurfi að skoða.

Þá vil ég einnig láta það koma fram hér, að ég og við fleiri teljum það í sjálfu sér hæpna þróun, sem orðið hefur, ekki kannske fyrir tilstuðlan neins sérstaks, en hún hefur orðið samt, að dreifing orkunnar er núna komin á eins konar uppboð. Ég held, að það mundi stuðla að því að draga úr þeirri miklu spennu, sem orðin er, og sem að sumu leyti er óæskileg og veldur mönnum miklum erfiðleikum, ef þetta mál yrði nú á lokastigi tekið föstum tökum, það yrði undinn að því bráður bugur að gera heildaryfirlit um verkefnið og því síðan fylgt eftir með því að gera myndarlegt átak til að ljúka því á sem allra stytztum viðráðanlegum tíma.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. iðnn.