27.01.1970
Neðri deild: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

126. mál, söluskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það hefur töluvert margt komið fram í þessum umr. hjá hv. frsm. beggja minni hl. fjhn. og þá fyrst og fremst frá hv. 4. þm. Reykv., sem flutti hér almenna ræðu um efnahagsmál og gaf góð ráð um það, hvernig ríkisstj. ætti að leysa vanda efnahagslífsins. Vissulega er það góðra gjalda vert, þegar góð ráð eru gefin og sjálfsagt að íhuga þau, eins og hann mæltist til í lok ræðu sinnar. En ég er anzi hræddur um, að þekking mín og þroski sé ekki nægilega mikil til þess að skilja til hlítar alla þá góðsemi, sem í þessum ráðum fólst og ég er jafnvel hræddur um það, að flokksbróðir hans, sem lengst allra hefur verið fjmrh. á Íslandi, mundi ekki hafa tekið svona leiðbeiningum sem neinum sérstökum bjargráðum, ef hann hefði verið hér í mínum sporum. En sleppum því.

Ég skal reyna að stilla mig um að fara allt of langt út í almennar umr., en það eru nokkur atriði, sem ég kemst þó ekki hjá að minnast á.

Það er þá í fyrsta lagi, í sambandi við ræðu hv. form. fjhn. Ég tel nauðsynlegt að taka fram nokkur atriði, sem hann gat sérstaklega, að ég mundi gefa yfirlýsingar um.

Í fyrsta lagi er, eins og ég gat um við 1. umr. þessa máls, gerð sú breyting á söluskattslögunum, að það er falið ráðh. í vald að ákveða með reglugerð mjög mörg atriði, sem áður voru ákveðin með lögum, varðandi álagningu og innheimtu söluskatts og hvaða aðferðum skuli beitt í því sambandi. Þetta var, eins og ég þá gat um, einfaldlega vegna þess, að það er augljóst mál, að það verður að breyta mjög verulega innheimtuaðferðum söluskatts af ýmsum ástæðum, bæði vegna þess, að ef sömu aðferð yrði fylgt áfram, þá mundi það leiða til stórkostlegs hallareksturs hjá ríkissjóði á þessu ári og einnig vegna hins, að eftir því sem söluskatturinn hækkar, þá er það hættulegra, að innheimtuaðilar söluskatts hafi stórar fjárhæðir undir höndum í of langan tíma, bæði vegna þess, að vafasamt er, að skilin gætu orðið jafnfullkomi og einnig hins, að það hefur stórfellda röskun í för með sér fyrir bankakerfið í landinu, þegar teknar eru út úr bönkum, jafnvel á einum degi, 200–300 millj. kr., fjórum sinnum á ári. Af þessum ástæðum þarf að gera breytingar í þessa átt.

En hins vegar var athugun þessa máls ekki komin svo langt, að hægt væri að gera sér til hlítar grein fyrir því í tæka tíð, hvernig þessu yrði bezt hagað. Að sjálfsögðu þarf að athuga mörg atriði í þessu sambandi, m.a. atriði, sem bent er á í brtt. með þessu frv., varðandi sérkassa í verzlunum o.s.frv., sem vel getur komið til mála að innleiða, enda þótt ég telji ástæðulaust á þessu stigi að lögfesta það. En önnur atriði, eins og gjaldfrestun söluskatts og framtalsákvæði, sem eru töluvert vandmeðfarin, þarf öll að endurskoða: En ég vil láta það koma hér skýrt fram, að með öllu þessu er að því stefnt, að söluskattur verði innheimtur miklu hraðar, helzt mánaðarlega, þannig að sú skipan verði á komin, þegar fer að líða á árið. Ég tel sanngjarnt og eðlilegt, að hv. þm. fái að vita, hver grundvallarstefnan hjá rn. er í þessu sambandi.

Í annan stað var vikið að því, að það hefðu verið uppi hugmyndir um afnám söluskatts á ýmsum nauðsynjavörum og hafa komið fram brtt. í þá átt frá hv. minni hl. fjhn., en það hefur aðeins verið talið fært að fallast á það, að söluskattur yrði að öllu leyti felldur niður á neyzlufiski, a.m.k. nýjum fiski. Það er aftur álitamál með ýmsar sértegundir fisks, sérverkaðan og þess konar, það skal ég ekkert segja um. Það á eftir að athuga það mál. A.m.k. falla niðursuðuvörur ekki undir þetta ákvæði, en almennur neyzlufiskur. Það er bezt að segja eins og er, að orsakirnar eru tvær. Annars vegar sú ástæða, sem öllum hv. þdm. er kunn, að mjög veruleg fiskverðshækkun á sér stað einmitt um þessar mundir og einnig er rétt að skýra frá hinu, sem ég sé ekki neina ástæðu til að leyna, að innheimta á þessum söluskatti er mjög erfið. Fiskbúðirnar, þar sem þær eru starfandi, skila þessum söluskatti, en fiskur hefur verið seldur í stórum stíl víðs vegar úti um land, jafnvel úr skipum, hann er seldur úr kerrum og kössum hér og þar og það hefur reynzt mjög miklum erfiðleikum bundið að innheimta skatt af þessari sölu. Það er rétt, sem ýmsir hv. þm. hafa oft talað um, að það er vitanlega óviðunandi að ekki sé hægt að tryggja það, að sá söluskattur, sem á er lagður, skili sér. Hér er auðvitað um að ræða töluverðan tekjumissi fyrir ríkissjóð, en með hliðsjón af þeirri verðlækkun, sem þetta gæti leitt til, eða a.m.k. með hliðsjón af þeirri verðhækkun, sem væri hægt að koma í veg fyrir, þá tel ég rétt, að þetta verði gert. Það er hins vegar til lagaheimild til handa fjmrh. að fella niður söluskatt af þeim vörum, sem honum sýnist og af því leiðir, að það er ekki ástæða til þess að lögfesta ákvæði í þessa átt.

Í þriðja lagi, þá vék form. fjhn. að vandamáli, sem upp er komið, varðandi fargjöld, einkum með flugvélum og skipum og er þá fyrst og fremst um að ræða fargjöld milli Íslands og annarra landa, en ekki innanlandsfargjöld. Ég tel sjálfsagt, að þetta mál verði athugað rækilega. Hér er að vísu um verulegt tekjutap að ræða, sem þarf þar af leiðandi að athuga nánar og jafnvel þarf þá að gera ráðstafanir til þess að leggja söluskatt á einhverjar vörur, sem undanþegnar eru. Ég hef ekki gert það dæmi upp, enda er tiltölulega stutt síðan var vakið máls á þessu vandamáli fyrir alvöru. Þegar söluskattur er kominn upp í 11%, þá skapar það mikla erfiðleika, kannske lítt viðráðanlega og miklar hættur á alls konar krókaleiðum til þess að komast undan söluskatti við kaup á farseðlum milli Íslands og annarra landa. Hættan er sú, að farið verði að kaupa þessa farseðla erlendis og þá fá þeir, sem hafa yfir gjaldeyri að ráða, betri aðstöðu til þess að losna við söluskattinn. Þannig gæti hér skapazt mismunun, sem er nauðsynlegt að taka til alvarlegrar athugunar. Hér er einnig fyrir hendi heimild til að fella niður söluskatt, að einhverju eða öllu leyti og mun þetta vandamál verða tekið til mjög alvarlegrar athugunar.

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir eðli vandans, en hér er um að ræða verulegt tekjutap, sem þarf að íhuga, hvernig á að mæta og hvort það er hægt án sérstakra ráðstafana. Annað atriði í þessu sambandi er, að það er ekki endilega nauðsynlegt að fella niður söluskatt á fargjöldum innanlands, þótt þetta væri gert á fargjöldum milli landa. En ég lýsi því yfir, að þetta mun tekið til mjög alvarlegrar íhugunar og mér eru fullljós þau vandamál, sem hér er við að glíma. – Þetta var um þau almennu atriði, sem varða afgreiðslu málsins.

Það má svo náttúrlega endalaust ræða um það, sem hér hefur komið fram í ræðum framsögumanna minni hl. og þá, eins og ég sagði, fyrst og fremst ræðu hv. 4. þm. Reykv.

Ræða hv. frsm. 1. minni hl. var stutt og hann hélt sig algerlega við efni málsins, lýsti aðeins stuðningi sínum við þær brtt., sem hér eru, að vísu einnig andstöðu sinni við frv. í heild, en eins og hann tók fram, þá byggist hún á því, að hann og hans flokksmenn hafa lýst afstöðu sinni gegn EFTA–málinu í heild og lýstu því þá yfir, að afstaðan til söluskattsins mundi að sjálfsögðu markast af þeirri meginástæðu og er ekkert við því að segja.

En varðandi þær brtt., sem fluttar eru sameiginlega af minni hl., þá vildi ég aðeins taka það fram, að það að fella niður söluskatt af fleiri vörutegundum en frv. gerir ráð fyrir, sé ég ekki möguleika til að gera vegna þess tekjutaps, sem það hefur í för með sér. Að vísu er það hárrétt hjá frsm. 2. minni hl. að auðvitað lækkar verðlag eftir því sem skattar og tollar eru lækkaðir. Það þarf enga sérstaka þekkingu til þess að átta sig á þeim hlutum. Vandamálið er aðeins, hvað hægt er að ganga langt í því efni, hvort þessi lækkun plús fjölskyldubóta hækkunin mundi nema þremur vísitölustigum, en það hef ég ekki reiknað út. Ég leyfi mér að vísu að efast mjög um það. En hér er alla vega um að ræða till., sem nema mjög miklum fjárhæðum til lækkunar, ekki sízt ef þetta á að vega 3 vísitölustig, því hann sagði, að niðurgreiðsla á hverju vísitölustigi væri talin kosta á annað hundrað millj. kr., þannig að það mundu þá verða á fjórða hundrað millj. kr., sem hér væri um að ræða. Ef við eigum að taka skattvísitöluna með, sem kemur ekki þessu máli beint við, þá hefur áður verið reiknað út, að ef ætti að hækka hana um 40 stig, þá mundi það valda um 300 millj. kr. tekjutapi fyrir ríkissjóð einan. Hér er því augljóslega um að ræða slíkar tölur, sem ég veit að hv. frsm. er svo kunnugur og öllum hnútum varðandi tölumeðferð, að þetta er auðvitað ekki hægt nema stefna að stórkostlegum hallarekstri fyrir ríkissjóð. Ég tel ekki mögulegt að fallast á þetta, þó það væri vissulega æskilegt, eins og hann taldi að ég af góðmennsku minni mundi segja hér, ef ég man rétt, að það væri æskilegt og rétt að lækka vörur, um það erum við sammála, en það er bara því miður ekki hægt. Það væri ákaflega æskilegt að geta afnumið alla tolla og skatta, en ég er hræddur um, að það yrði þá að afnema eitthvað fleira, sem fólkinu þætti ekki eins þægilegt.

Varðandi það að setja nýjar reglur um kassa í verzlunum og annað þess háttar, vil ég segja þetta. Það mál hefur verið athugað áður, eins og hv. þm. gat um og það er rétt, að þetta er gert í ýmsum löndum, eins og t.d. Bandaríkjunum. Þetta hefur verið athugað af okkar söluskatts sérfræðingum og þeim, sem fást við eftirlit með innheimtu söluskatts og það kann vel að vera, að það sé hægt að taka þessa aðferð upp. En það er ekki hægt nema að vissu marki. Við þekkjum það úr viðskiptalífi hér, einkum utan Reykjavíkur, að oft er í mjög stórum stíl ekki um að ræða staðgreiðslu. Og í öllum slíkum tilfellum, svo mun t.d. vera í langflestum kaupfélögunum, er í raun og veru engum aurum í kassana að stinga, vegna þess að varan er skrifuð. Þetta er sérstakt vandamál, sem hér er við að fást. Sumar verzlanir fá ekki vörurnar greiddar fyrr en eftir tiltekinn tíma, þannig að það er ógerlegt að skylda þær til þess að láta daglega í kassann peninga, sem svara til sölu dagsins. Þetta er því verulega flókið mál.

Ég vil hins vegar taka það fram, að ég er sammála hv. frsm. beggja minni hl. fjhn. um, að það verður að setja almennar reglur til þess að reyna að tryggja sem bezt innheimtu söluskattsins og er vaxandi nauðsyn að gera slíkar ráðstafanir, eftir því sem söluskatturinn hækkar.

Ég hef aftur á móti sáralitla trú á þessu ákvæði, að taka tíunda eða fimmta hluta allra söluskattsskýrslna til sérstakrar rannsóknar. Og skattrannsóknarstjóri er þessu máli ekki meðmæltur og telur, að það mundi aðeins verða til þess að skapa erfiðleika og brengla eftirlitið, vegna þess að eftirlitið er framkvæmt í mörgum tilfellum með allt öðrum aðferðum. Það eru tekin yfirlit, við skulum segja yfir heilar greinar verzlunar, og það væri í mörgum tilfellum verið að framkvæma alveg ástæðulausa athugun með því að taka út skýrslur, þar sem ekki er nokkur ástæða til þess að halda að eigi sér stað undanskot. Fyrirtæki hafa mjög mismunandi aðstöðu til þess, og þess vegna held ég, að það væri ekki ráðlegt að lögfesta þessa aðferð, en vitanlega er hægt að gera það. Ég hef áður skýrt frá hér í þingi, að það hefur verið athugað, hvort ekki væri hægt að koma þessu við og rannsaka einstök sveitarfélög, en málið er ekki einfalt í meðferð og ekki er nein vissa fyrir því, að það hefði mjög jákvæða þýðingu, heldur yrði það fyrst og fremst til þess að auka vinnu án þess að skila þeim afrakstri, sem ég veit að allir stefna að, en það er að reyna að tryggja, að þetta eftirlit okkar skili sem beztum árangri. Þess vegna mundi ég ekki telja heppilegt að lögfesta þetta, en vitanlega hefur skatteftirlitið algerlega í sinni hendi að framkvæma slíka útdráttarreglu, ef því sýnist svo og telur, að hún sé heppilegri. en aðrar aðferðir.

Varðandi till. um fjölskyldubætur, þá er ég fyrst og fremst andvígur henni vegna þess, að það er auðvitað með öllu óeðlilegt, að ákveða í lögum um söluskatt, að meðan tiltekinn söluskattur eigi að gilda, þá skuli viss hluti hans renna til tiltekinna þarfa, eins og hér er gert ráð fyrir. Fjölskyldubætur eru hverju sinni ákveðnar með fjárl. og núna hefur verið ákveðin veruleg hækkun á þeim, eða sem svarar 50 millj. kr. á ársgrundvelli, sem beinlínis er gert til þess að mæta þeim sjónarmiðum, sem báðir hv. frsm. minni hl. lýstu, þ.e. að draga úr afleiðingum söluskattshækkunarinnar fyrir hinn almenna borgara og sérstaklega í þessu tilviki fyrir barnafólk, sem hér á hlut að máli. Sú hækkun fjölskyldubóta, sem var ákveðin nú í ár, skiptir mjög verulegum fjárhæðum. En þessa aðferð tel ég ekki æskilega og mjög óheppilega, að ákveða, að á meðan einhver tiltekinn skattur sé í gildi, skuli ráðstafa honum í tilteknar áttir. Það er alls ekki þar með sagt, að menn telji eðlilegt að nota hann í þessu skyni. Menn kynnu að komast að þeirri niðurstöðu, að það væri æskilegra að nota hann á annan hátt og það hafa jafnvel verið uppi um það hugmyndir að afnema fjölskyldubætur og breyta kerfinu algerlega. Kann vel að vera, að það verði gert, um það skal ég ekki segja, en þetta er mál, sem verið hefur í athugun.

Ég tel sem sagt ekki mögulegt, að fallast á þessar brtt., með þeim skýringum, sem ég hef hér gefið og vil þess vegna eindregið fara fram á það við hv. þm., að þær verði ekki samþykktar.

Varðandi karp okkar hv. 4. þm. Reykv. um æskuhugsjónamál mitt um skattvísitöluna skal ég ekki segja margt. Við höfum rætt um þetta í blöðum. Ég sé, að hann er búinn að ná sér á strik aftur, eins og hann oft gerir og það er erfitt að berja niður selshöfuðið, eins og segir einhvers staðar í þjóðsögu. Ég sá um daginn, að hann var búinn að skrifa heila bls. enn í Tímann um þessa æskuhugsjón mína, sem mér þykir ákaflega gleðilegt að hann haldi á lofti og reikna út, hvaða hagsbætur það hefði fyrir hinn almenna borgara, ef vísitalan yrði hækkuð um 40 stig. Ég er ekki á nokkurn hátt að mótmæla því, að það væru stórfelldar hagsbætur að hækka vísitöluna um 40 stig, í staðinn fyrir þau 11 stig, sem hefur verið ákveðið að hækka hana um. En málið er bara miklu flóknara en þetta. Ég hef áður skýrt frá því, að þetta mundi kosta ríkissjóðinn einan um 300 millj. kr. á ári. En það er ekki það alvarlegasta. Það, sem ég vildi vekja athygli hv. þm. á, er það, að skattvísitalan gildir einnig um útsvör til sveitarfélaga og eftir því, sem kunnugir menn hafa sagt mér, þá mundi 40 stiga hækkun skattvísitölu leiða til fjárþrots líklega hvers einasta sveitarfélags á landinu. Það er nú svo komið, að fjöldi sveitarfélaga verður að nota álagsheimildina að fullu, allt upp í 20%, og á s.l. ári voru á milli 10 og 20 sveitarfélög, sem þurftu sérstaka aðstoð úr jöfnunarsjóði til þess að ná saman endum. Ef hækka ætti vísitöluna um 40 stig í viðbót; ja, hamingjan sanna, ég veit ekki hvernig þessi sveitarfélög kæmust þá af. Þótt ríkið gæti kannske leyft sér að gera þetta með því að yfirdraga úr Seðlabankanum, þá er ég ekki viss um, að Seðlabankinn leyfði sveitarfélögunum að viðhafa þá aðferð. Þetta væri því gersamlega óframkvæmanlegt, eins og nú er, hvort sem menn telja þetta rétt eða rangt.

Ég vil svo jafnframt upplýsa það varðandi mína æskuhugsjón, að hún er algerlega misskilin, vegna þess að það hefur aldrei verið hugsun mín né skoðun og það er ekki sú hugsun, sem liggur á bak við skattvísitöluna, að hún eigi að fara eftir framfærsluvísitölu, ef hún hækkar meira en kaupgjaldsvísitala, heldur á kaupgjaldsvísitalan að vera viðmiðunin. Og ég get játað það fúslega og er ekkert að draga neitt undan í því, að ég hef nokkuð syndgað í þessu efni líka, vegna þess að skattvísitalan núna síðustu tvö árin hefur ekki fyllilega nægt til þess að mæta hækkun kaupgjaldsvísitölunnar. Þetta er rétt og það stafar af því, eins og ég hef áður sagt, að ég hef talið að það væri þó skárra, að hækka ekki vísitöluna að fullu sem þessu nemur, heldur en að þurfa að grípa til annarra skattálaga, sem mundu ekki verða almenningi hagkvæmari. Þessar syndir mínar skal ég játa, en ekki þá, að mér hafi nokkurn tíma hugkvæmzt það, að hægt væri að leysa úr kjarabótamálum með þeim hætti, sem nú hefur gerzt, þar sem framfærsluvísitalan hefur hækkað stórkostlega miklu meira en kaupgjaldsvísitalan. Það mundi leiða til þess, að þá yrði farið að nota skattálögurnar til sveitarfélaga og ríkis beinlínis til þess að bæta upp kjaraskerðingu af öðrum ástæðum en þeim, sem stafa af því, að kaupið hækkar, í staðinn fyrir það, að skattvísitalan hefur alltaf verið hugsuð til þess að koma í veg fyrir það, að menn greiddu hlutfallslega hærra af sínu kaupi og kæmust í hærri skattflokk við það, að laun þeirra hækkuðu af verðlagsástæðum eða verðhækkunarástæðum. En þetta er grundvöllurinn undir skattvísitölunni. Þetta tel ég nauðsynlegt að taka fram.

Ég skal svo ekki orðlengja mikið um þetta enn. Ég vil aðeins endurtaka það, að ég er algerlega sammála hv. frsm. minni hl. beggja um, að það þarf að leggja ríka áherzlu á það að auka eftirlit með innheimtu söluskatts svo sem verða má. Það hafa farið fram allvíðtækar kannanir, hvernig söluskattsskil hafa verið og það er sem betur fer margt, sem bendir til þess, að þau hafi farið batnandi á undanförnum árum, einkum athugun, sem Efnahagsstofnunin hefur gert. Það er að vísu ófullkomið og getur aldrei orðið nákvæmt, en miðað við sömu aðferðir frá ári til árs, sem beitt hefur verið, þá er það ljóst, að söluskattsskilin hafa batnað. En auðvitað leiðir hækkun söluskatts til nauðsynjar á auknu eftirliti. Ég hef áður skýrt frá því og get gert það enn, að nú á þessu ári er þegar byrjuð rækileg athugun á því, hvort virðisaukaskattskerfið kynni að henta okkur og hvort rétt væri að innleiða það og þá fyrst og fremst með það í huga, að með því móti væri e.t.v. hægt að tryggja betri skil á skattinum. Ég held nú í sannleika sagt, að eini kosturinn við virðisaukaskattskerfið sé sá, að það tryggi betri skil, vegna þess að því miður fylgir því aukin skriffinnska og eftirlit og kostnaður, en segja má, að það geti vel svarað þeim kostnaði, ef hægt er að tryggja betri skil á skattinum.

Varðandi efnahagsmálastefnu Norðurlanda og það, sem hv. 4. þm. Reykv. ræddi í því efni, kaupgjald og verðlag, þá kemur það vitanlega ekki þessu máli við og hefur heldur ekki í þessum löndum verið á neinn hátt þáttur í söluskattsmáli. Þetta er almenn efnahagsmálastefna, að reyna að stuðla að þessu og ég hygg, að menn hafi viljað stuðla að þessu hér á Íslandi líka, en það hefur ekki tekizt af ýmsum ástæðum, sem ég sé ekki ástæðu til að fara út í hér, að undanskildu því, sem við vitum ósköp gerla, hverjar orsakirnar hafa verið til kjararýrnunar núna síðustu 2–3 árin. Það þarf ég ekki að orðlengja um, því það vitum við allir, að þar höfum við algjöra sérstöðu hér á Íslandi.

Varðandi söluskattinn vil ég aðeins taka það fram, að ég hef áður skýrt frá því, að það hefur lengi verið haft í huga, að við mundum þurfa að mæta tollalækkunum, annaðhvort vegna aðildar að tollabandalögum eða almennt, vegna þess að tollar eru ekki hærri í nokkru nálægu landi og því yrðum við að stefna að lækkun tolla, sérstaklega hátolla. Þess vegna hefur söluskatturinn ekki verið hækkaður hér í 5 ár. Frá því að ég tók hér við mínu embætti, hef ég verið andvígur því að hækka söluskatt og það beinlínis með þessum rökum. Ég hef oftar, en einu sinni, skýrt frá því í fjárlagaræðum og víðar, að söluskattur er nú hér miklum mun lægri en í öllum nálægum löndum. Á Norðurlöndunum öllum er hann frá milli 11 og 12% og allt upp í 20% í Noregi, en hefur til þessa verið 7 1/2% hér og mundi nú fara upp í 11%.

Varðandi þær tölur, sem nefndar hafa verið um gróða og tap í sambandi við söluskattinn, þá sé ég ekki ástæðu til þess að ræða það hér. Það var gert mjög ýtarlega við fjárlagaafgreiðslu, og þar er að sjá nákvæmar áætlanir um það, hvað áætlað er, að söluskatturinn gefi í ár, miðað við breyttar innheimtuaðferðir og hvaða útgjöld eru hins vegar á fjárl. Og mér er ekki kunnugt um, að það hafi verið neinar deilur um þær útgjaldatill., sem samþykktar voru hér á Alþ. og leiddu að vissu leyti til þess, að það varð að afla nokkurra nýrra tekna. Hv. alþm. voru yfirleitt allir sammála um, að um mikið nauðsynjamál væri að ræða, þar sem voru flestar þær hækkunar till. Ég vil sérstaklega í því sambandi geta þess, að um 100 millj. af þeim eru hækkanir, sem beinlínis voru gerðar til þess að jafna aðstöðu almennings og sérstaklega láglaunafólks í sambandi við söluskattshækkunina, og að öðru leyti voru samþ. hér á Alþ. mjög verulegar hækkanir á framlögum til verklegra framkvæmda, sem ég man, að hv. frsm. minni hl. fjvn. lýsti hér sérstakri ánægju sinni yfir.

Að tekjuliðir séu áætlaðir allt of lágir í frv., eins og hv. 4. þm. Reykv. sagði, það skal ég auðvitað ekkert fullyrða um. Um það getur enginn fullyrt fyrir fram. Sannleikurinn er hins vegar sá, að síðustu árin hefur þetta verið áætlað mjög nærri lagi. Og þegar hann talar um mikinn mun, sem hafi verið, upp á nokkur hundruð millj. kr., þá tekur hann þar með, að ég hygg, svokallaða eyrnamarkaða tekjustofna, sem hafa verið að hækka með sérstökum ráðstöfunum, t.d. vegaskattinn, sem hækkaði mjög verulega og felur auðvitað ekki í sér neina áætlun í fjárl., og ýmis önnur gjöld, sem eru veigamikill þáttur í innheimtu ríkissjóðs. En staðreyndin, sem við stöndum andspænis í þessum efnum síðustu árin, er því miður sú sorgarsaga, að tekjurnar hafa verið áætlaðar of háar, miðað við óhjákvæmileg ríkisútgjöld, þannig að það er búinn að vera halli á ríkisbúskapnum nú síðustu árin og ég hygg, að það megi miklu fremur deila á mig fyrir það og hefur reyndar stundum verið gert, að það hafi verið rekinn hallarekstur hjá ríkissjóði, sem er alveg hárrétt. Ýmsir góðir vinir mínir og glöggir menn í stjórnarandstöðuliðinu hafa bent á, að auðvitað geti það ekki gengið til lengdar, og ég er algerlega sammála því.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að það hefði bara leitt til þess; að ég hefði eytt minna, ef ég hefði áætlað þetta með öðrum hætti. Það hygg ég að sé mikill misskilningur. Mér þætti raunar fróðlegt að fá að sjá það, ef hv. þm., sem hefur nú aðgang að nokkuð stóru blaði, dytti nú í hug einhverja helgina, að setjast niður við að finna út, hverju ég hefði beinlínis eytt í óþarfa hvert árið. Það kann vel að vera, að hann finni út nokkur hundruð millj. af þessu tagi, en ég á eftir að sjá þessar tölur. Ég hef a.m.k. ekki viljandi greitt úr ríkissjóði neina fjárhæð, sem ég hef talið mögulegt að komast hjá að greiða. Það held ég, að ég geti fullyrt með góðri samvizku. En það að áætla tekjurnar of lágar og fara enn glannalegar í fjárhagsáætlunum, sem minn mæti samstarfsmaður, 3. þm. Vesturl., hefur nú stundum deilt á mig fyrir og það vafalaust með töluverðum rétti, þá hef ég nú meiri ástæðu til að hlusta á þá gagnrýni og hygg, að hún sé réttmætari en hin, að ég hafi hér farið eitthvað óskynsamlega að ráði mínu og hafi fyrir bragðið ekki haldizt á þessum peningum, af því að ég hafi áætlað skakkt.

Ég sé nú, að þetta hefur orðið lengra mál hjá mér heldur en ég vildi og eins og ég sagði áðan, þá er það síður en svo, að ég telji rétt, að efna hér til almennra umr. um efnahagsmál. Það gefast ótalmörg önnur tilefni til þess. En það er kannske eðlilegt, að inn í þetta komi það atriði, hvort það séu til peningar til þess að gefa eftir þær tekjur, sem brtt. fjalla um. Við því er ekkert að segja. Við erum þar ekki á sama máli, ég og hv. 4. þm. Reykv. og þó að ég viti, að við viljum báðir gjarnan geta komizt á sama mál, ef við gætum, þá held ég, að það sé ekki hægt í þessu sambandi, þannig að um þetta þýðir ekki frekar að karpa.

En sem sagt, niðurstaða mín er sú, að ég tel ekki mögulegt, afkomu ríkissjóðs vegna, þó að það kynni að vera æskilegt af öðrum ástæðum, að skerða tekjur ríkissjóðs jafnmikið og hér er lagt til og verð því mjög að mælast til, að þessar till. verði felldar, en að öðru leyti vísa ég til þess, sem ég þegar hef sagt, að það er ákveðinn ásetningur að afnema söluskatt af neyzlufiski. Því hefur þegar verið lýst yfir í sambandi við fjárlög, að verðhækkun á kjöti og smjöri verður greidd niður, þannig að verðhækkun kemur ekki til á þessum vörum og einnig hafa verið gerðar ráðstafanir með sérstökum fjárveitingum til að hækka fjölskyldubætur og til þess að hækka greiðslur lífeyristrygginganna eða ellitrygginganna, einmitt með það í huga, sem menn hafa talað hér um, að létta þunganum af þeim, sem lakast eru settir.

Það er skoðun mín eftir athugun á öllum aðstæðum málsins, að vegna þeirra breytinga, þ.e.a.s. ef allt gengur eins og til er ætlazt með lækkun á vöruverði vegna tollabreytinganna og vegna þeirra niðurgreiðsluráðstafana, sem ég hef hér gert ráð fyrir og vegna hækkunar á söluskatti, þá eigi ekki að þurfa að verða nein teljandi hækkun á vísitölu vegna þeirra kerfisbreytinga, sem hér er verið að gera.