28.04.1970
Neðri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í C-deild Alþingistíðinda. (2796)

228. mál, náttúruvernd

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki ástæða til þess að bæta miklu við þá myndarlegu ræðu, sem hv. frsm. menntmn. hefur flutt, en þó langar mig til þess að fá að bæta við aðeins örfáum setningum um það nýja viðhorf í náttúruverndarmálum, sem þetta frv. er byggt á. En það er tvímælalaust, að þetta frv. er byggt á nýjum viðhorfum í náttúruverndarmálum, enda var ætlazt til þess, að svo yrði gert í þeirri þáltill. sem flutt var hér fyrir tveimur árum og samþykkt lítið breytt af hv. Alþ.

Í þeirri þáltill. var það sjónarmið sett fram, að undirbúa skyldi nýja löggjöf um náttúruvernd og gera ráðstafanir, sem stuðla að því, að almenningur eigi aðgang að heppilegum stöðum til útivistar og náttúruskoðunar.

Með þessari þáltill. voru þessi mál fléttuð saman, náttúruverndin sjálf í þrengri merkingu, sem áður hafði meira tíðkazt, og útivistarmálin eða réttara sagt umgengni þjóðarinnar við landið.

Það vegur mjög þungt nú í þessum málum, að menn eru óðfluga að gera sér grein fyrir því, að hreinlegt, óspillt og aðlaðandi umhverfi, sem almenningur hefur greiðan aðgang að, eru landkostir, eins og búsæld, góð fiskimið, fallvötn og önnur náttúrugæði, og mig langar til að segja það enn, sem ég hef sagt áður hér á Alþ. og annars staðar, að ég tel aðstöðu okkar lands vera slíka, að hreint loft, ómengað vatn og sérkennilegt og fagurt landslag muni framvegis verða meðal sterkustu þátta í þjóðarauðnum, ef við berum gæfu til þess að fara skynsamlega að og taka góð ráð í tíma.

Kannske finnst sumum þurfa að tiltaka nánar, hvað átt er við með ummælum af þessu tagi, eða öllu heldur á hverju svona ummæli eru byggð. Ég mun ekki fara langt út í það að þessu sinni, því að ég ætla aðeins að segja hér nokkrar setningar, en ég vil þó segja þetta:

Fólk úr öðrum löndum mun framvegis flykkjast til þess lands eða þeirra landa, sem eru vel í sveit sett og framangreindum kostum búin, en það er Ísland alveg tvímælalaust í ríkum mæli. Í slíkum löndum verður sífellt meira og meira annríki við að taka á móti gestum, og móttaka gesta verðum í þeim löndum stærri og stærri þáttur í þjóðarbúskapnum, og þannig hygg ég, að það verði hér, ef við förum skynsamlega að.

Þá er annað atriði, sem ég vil leggja áherzlu á og sem liggur til grundvallar þeirri skoðun, sem ég setti fram áðan. Það verða sífellt eftirsóttari lífsgæði, ég sagði lífsgæði, að eiga heima í ómenguðu, eðlilegu umhverfi, og hafa góðan aðgang að útivist í óspilltu fjölbreytilegu landslagi. Eftir því sem mengun og önnur vandkvæði þéttbýlislandanna þrengja meir að, eftir því verður það þýðingarmeiri þáttur í viðhorfum manna, í hvaða umhverfi þeir eiga kost á að lifa, í hvaða umhverfi þeir eiga kost á að eiga heima. Það verður með öðrum orðum metinn sífellt ríkari og ríkari þáttur í lífskjörum manna, hvers umhverfis þeir eiga kost á að njóta. Þetta þýðir, að þau lönd, sem eru vel sett í þessu tilliti, hafa að öðru jöfnu betri lífskjör að bjóða en hin, sem ekki hafa þessa aðstöðu.

Lífskjör mótast ekki aðeins af fæði, klæðum og húsnæði, heldur ekki þótt við sé bætt því, sem í daglegu tali er kallað menningarlíf, svo sem listir, ástundun bókmennta og annað þvílíkt, heldur einnig af því, hvort menn eiga kost á því eða ekkí að lifa í eðlilegu og viðkunnanlegu umhverfi. Hér er því um landkosti að ræða á borð við aðra þýðingarmestu þætti. Þess vegna eru náttúruverndarmál í þeim skilningi, sem þau eru nú flutt fram og ætlunin er að framkvæma þau, í fyllsta máta hagnýt mál, eins og hv. frsm. réttilega lagði mikla áherzlu á, samhliða því menningarlega, sem í því felst, að leggja rækt við land sitt og allt umhverfi.

Skilningur á þessum efnum kallar þá á alveg nýtt verðmætamat. Menn verða að endurskoða allt sitt mat á verðmætum. Og þetta viðhorf verður að koma til greina án tafar í þjóðarbúskapnum, svo að engu verði spillt að ófyrirsynju.

Maður heyrir stundum, að náttúruvernd sé bara rómantískir draumórar, sem ekki sé í neinum tengslum við hagnýtan þjóðarbúskap. Sem betur fer er mikil rómantík í náttúruvernd, en það er líka miklu meira í náttúruvernd en rómantíkin ein, eins og ég hygg, að ég hafi sýnt fram á að nokkru leyti með þessum fáu orðum og hv. frsm. sýndi rækilega fram á í sínu erindi.

Náttúruvernd, eins og hún er hugsuð og stefnt er að með þessu frv., hefur stórfellda þýðingu fyrir íslenzkan atvinnurekstur og þjóðarbúskap. Í þessu ljósi verða menn að skoða það frv., sem hér liggur fyrir, en höfuðtilgangur þess er að sjálfsögðu sá, að verja landið skemmdum og óeðlilegum átroðningi og gera jafnframt eðlilegar ráðstafanir til að auðvelda mönnum umgengni við landið.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að auðvelda þéttbýlisbyggðarlögum að koma sér upp útivistarsvæðum, en það er eitt hinna mest aðkallandi nauðsynjamála, að hvert þéttbýlisbyggðarlag tryggi sér útivistarsvæði, og geta þar mörg byggðarlög stundum unnið saman, eins og fagurt fordæmi er að skapast um, að því er ég bezt veit, hér á Reykjanesi, þar sem öll þéttbýlissvæðin hér við sunnanverðan Faxaflóa munu sameinast um það á næstunni að gera hér voldugan útivistargarð, sem á að ná þvert yfir Reykjanesið, frá Elliðaám og á Krísuvíkurbjarg. Þetta, sem þarna er fyrirhugað, mættu aðrir taka sér til fyrirmyndar.

Ég skal svo ekki orðlengja meira um þetta að neinu ráði, en mér er það ljóst og hygg, að okkur sé það öllum ljóst í mþn., sem höfðum góða samvinnu um þetta mál, eins og hv. frsm. gat um, að einn veikasti hlekkurinn í þessu máli er auðvitað sá, hvað þessi vísir að náttúruverndarsjóði, sem við gerum ráð fyrir að koma á fót, er í raun og veru veikur. Samt sem áður er það byrjun og væri gott byrjunarskref, en það er vitað mál, að í þessum efnum er auðvitað ekki hægt að gera neinar viðunandi ráðstafanir né viðunandi framkvæmdir nema að hafa talsverð fjárráð.

Þá vil ég minnast á það, sem á að vera einn sterkasti þáttur frv., að þar er gert ráð fyrir að koma á fót öflugri samvinnu á Náttúruverndarþingi, undir forystu Náttúruverndarráðs, allra þeirra aðila í landinu, sem vegna áhuga síns og aðstöðu allrar eru líklegir til þess að vilja leggja þessum málum lið, og gerum við okkur vonir um, að sú samvinna, sem þar er fyrirhuguð, verði málinu mjög til eflingar og stuðnings í framkvæmd.

Mþn. á eftir að gera till. um ráðstafanir vegna mengunar, umfram það sem gert er ráð fyrir í þessu frv., en það þótti ekki ástæða til að hafa ítarlegri ákvæði um þau efni í þessu frv. en það hefur að geyma. En þar er talsverðu starfi ólokið á vegum n., sem sennilega beinist einkum að því að koma upp öflugri forystu í þeim málum. Enn fremur er eftir að vinna að endurskoðun l. um Þingvelli, eins og hv. frsm. tók fram.

Vera má, að sumum komi ýmis ákvæði þessa frv. nýstárlega fyrir sjónir og falli ekki allt, sem þar er að finna, við fyrstu sýn. En ég bið menn að fella ekki dóma sína nema að vel yfirveguðu ráði og flýta því ekki um of, enda gefst hv. þm. og öðrum landsmönnum tóm til þess í sumar að íhuga þetta mál og kynna sér. Vona ég, að næsta haust megi takast samtök um að gera frv. þetta að l. og þá með þeim breyt., sem nauðsynlegar teljast að góðra manna yfirsýn.