27.01.1970
Neðri deild: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

126. mál, söluskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Við 1. umr. um þetta mál, frv. til l. um breyt. á söluskattslögum, tók ég eindregna afstöðu og þarf þess vegna ekki að endurtaka það, að ég er og hef alla tíð verið algerlega andvígur tekjuöflun ríkissjóðs með söluskatti.

Þá gerði ég grein fyrir því, hvers vegna ég er andvígur honum. Ég tel hann koma ranglátlega niður. Með honum verður ekki stefnt að því, að skattþunginn leggist á breiðu bökin. Hann leggst miklu fremur á bök hinna veikari fjárhagsaðila í þjóðfélaginu og hann innheimtist illa, honum er stolið undan. Það er viðurkennt af flestum, sem á það mál minnast, jafnvel af fjmrh. sjálfum, þó að hann segi nú, að það sé í minna mæli en oft áður. En vel skilar hann sér ekki í ríkissjóð og það er alveg vitað og einnig viðurkennt af flestum, að hann skilar sér því verr sem hann er hækkaður meir. Þá er freistingin meiri, úr því að möguleikarnir eru fyrir hendi, til þess að láta hann ekki skila sér í ríkissjóðinn og þarf því að herða með öllum ráðum á innheimtu hans.

Það er ekki um það deilt, að nærri lætur, að söluskatturinn verði nú hálfur þriðji milljarður kr. eftir þá hækkun, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. En eins og allir vita, er ætlunin að hækka söluskattinn nú um 3 1/2%. Hann hefur verið til þessa 7 1/2%, en verður nú hækkaður í 11 % á öllum vörum.

Ég sé það í nál. 1. minni hl. fjhn., hv. 4. þm. Austf., Lúðvíks Jósefssonar, sem ég hef ekki séð síðan ég kom á þing 1946, í eitthvað milli 20 og 30 ár, — ég hef aldrei séð það fyrr í þskj., að þm. væri svo viðkvæmur á taugum, að hann í nál. hreytti pólitískum skætingi í aðra þm. í leiðinni. Svona geta menn verið veikir fyrir. Látum það nú vera, ef við, ég eða Björn Jónsson alþm., hefðum verið í n. og verið eitthvað að angra hann þar í sambandi við afgreiðslu málsins. En því er ekki til að dreifa. Hann verður að koma að sínum pólitíska skætingi í okkar garð, þó að við höfum ekki verið viðriðnir nefndarstörfin og komum ekkert við sögu í nál., sem skýrir auðvitað frá nefndarstarfinu. En einsdæmin eru kannske verst, svo er sagt, og látum það þá vera. Hann hefur þurft að létta á sínum taugum og það er gott, ef það hefur tekizt með þessu. Hann vék einnig að þessu sama í framsöguræðu sinni áðan og sagði, að því hefði verið lýst yfir af ríkisstj. við meðferð EFTA–málsins, að hún hygðist bæta sér tekjutap vegna lækkaðra tolla með söluskattshækkun. Þetta er rétt. Þetta var ætlun ríkisstj. Hitt er aftur öllum mönnum augljóst mál, að ríkisstj. gat, ef hún vildi, valið einhverjar aðrar leiðir til áð bæta sér upp tekjutapið vegna EFTA–inngöngunnar heldur en að leggja á söluskatt. Um það get ég ekki ímyndað mér annað en ég og hv. 4. þm. Austf. séum sammála. Þetta var ekki eina nauðsynlega og undankomulausa leiðin. Þess vegna velur ríkisstj. söluskattsleiðina til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð algerlega á sína eigin ábyrgð, en ekki þeirra manna, hvorki mín né hv. 4. þm. Austf., sem lýstum því yfir, að við höfum alltaf á allri okkar þingmannsævi verið andvígir söluskatti og erum það enn og höfum lýst því yfir, að við greiðum atkv. á móti þessu frv. Samt eigum við að bera ábyrgð á því,ja, ekki hann, — ekki hann með því að greiða atkv. á móti því, en við með því að greiða líka atkv. á móti því, við eigum að vera ábyrgir fyrir frv. Svona „hundalógik“ er áreiðanlega borin hér á borð í taugaæsingi.

Nei, það hefði vissulega verið hægt að fara aðrar leiðir til þess að afla þeirra tekna, sem EFTA–inngangan sviptir okkur. Ríkisstj. segir, að hún muni þurfa um 500 millj. kr. í ríkissjóð til þess að bæta sér upp þetta tekjutap af tollalækkuninni. En þetta frv. þýðir ekki bara um 500 millj. kr. hækkun. Það er talið, að í því felist um 800—850 millj. kr. hækkun. 350 millj. kr. umfram það, sem leiðir af tollalækkuninni. Kannske hv. 4. þm. Austf. telji, að við berum líka ábyrgð á þessari upphæð, sem leggst á skattþegnana. Það er sennilegt.

Mér virðist það liggja ljóst fyrir, ef þetta er rétt og móti því hefur hæstv. ríkisstj. ekki borið á nokkurn hátt, að hún er í leiðinni að afla sér tekna, sem nema um eða yfir 300 millj. kr. umfram það, sem leiðir af tollalækkuninni. Þetta er raunar bókstaflega viðurkennt í nál. hv. meiri hl., því að þar segir:

„Gerir frv. þetta ráð fyrir nokkurri hækkun söluskatts (það er nú reyndar hvorki meira né minna en 3 1/2%) og að með því verði unninn upp tekjumissir ríkissjóðs og auk þess fengnar tekjur til handa ríkissjóði vegna aukinna framlaga til verklegra framkvæmda og hækkunar á bótum almannatrygginga.“

Sem sagt, verklegra framkvæmda og trygginga. Auðvitað verður þetta ekki lagt í neina sérstaka skúffu vegna þeirra hluta. En það er viðurkennt þarna, að auk þess sé aflað tekna handa ríkissjóði og það er talið, að sú aukatekjuöflun nemi um 300 millj. kr., sem hæstv. ríkisstj. viðurkennir, að sé ekki á neinn hátt í sambandi við EFTA–inngönguna.

Það olli engum vandkvæðum að fá því fram komið fyrir jólin að láta afgreiðslu söluskattsmálsins bíða og aðskilja það frá afgreiðslu EFTA–málsins, enda var það auðvitað algerlega sjálfstætt mál út af fyrir sig, hvaða tekjuöflunarleiðir væru farnar til þess að bæta upp tollalækkunina að því er varðaði hag ríkissjóðs. Við erum hér að fjalla um þetta algerlega sjálfstæða mál og hæstv. ríkisstj. verður að eiga það á hættu, að ef þetta mál yrði fellt, þyrfti hún að stinga upp á einhverri annarri tekjuöflunarleið til þess að koma endum ríkissjóðsins saman. Vitanlega treystir hún á sinn meiri hl. á hv. Alþ. við að koma þessu máli í örugga höfn, hvað svo sem minni hl. segir, er sem sagt alveg staðráðin í því að fella allar till. minni hl., og því hefur þegar verið lýst yfir fyrir hönd ríkisstj., að svo verði gert. Það er aldrei neitt vinsælt að benda á skatta, sem eiga að leggjast á herðar skattþegnanna. En ég verð að segja það, að ég mundi með góðri samvizku styðja hverja hugsanlega leið aðra til tekjuöflunar heldur en söluskattinn. Ég mundi t.d. hiklaust segja, að ég vildi heldur, að þeirra 500 millj. kr., sem afla verður vegna tollalækkunarinnar, væri aflað með eignarskatti, sem væri t.d. tekinn af eignum umfram visst lágmark. Þar með væri þó fenginn grundvöllur fyrir tekjuöflun, sem hægt væri að láta leggjast á eignaraðilana í landinu, á visst lágmark. En það hefur vafalaust ekki verið hugsað til þess að fara þá leið. Eða velja þá leið einmitt á þessum tímamótum, sem margar nágrannaþjóðir okkar hafa valið fremur en söluskattsleiðina, nefnilega virðisaukaskattinn, sem talið er, að hafi þó þann kost umfram söluskattinn, að hann skili sér betur, að það sé auðveldara að „kontrolera“ hann. Og það er ekki lítill kostur, þó það væri rétt, sem hæstv. ráðh. segir, að hann muni hins vegar kosta allmikla skriffinnsku, en það gerir söluskatturinn líka. Skattaeftirlitskerfið kostar ekki neitt lítið. Án þess mundi hann áreiðanlega innheimtast afleitlega. En það er tilkostnaður, sem verður þó að kosta til, til þess að hafa úti öll spjót, svo að hann skili sér að meiri hluta. Þannig kemur nú alls ekki kostnaðarlaust eða fyrirhafnarlaust í ríkissjóðinn það af honum, sem þangað skilar sér nokkurn tíma.

Mér finnst eðlilegt, að spurt sé, hvort það sé ekki í undirbúningi og hvort ekki hafi verið framkvæmanlegt nú á þessum tímamótum að taka upp virðisaukaskatt í staðinn fyrir söluskatt. Það er önnur leiðin, sem mér kemur í hug að benda á og ætti að hafa verið fær, því að það mál hefði getað verið um langan tíma að undanförnu í undirbúningi hjá hæstv. ríkisstj., ef hún hefði haft hug á að taka það úrræði nú og leysa málið með því. Einnig má spyrja um það, hvort hæstv. ríkisstj. hugsi sér t.d. að vinna að því að undirbúa, að söluskatturinn verði leystur af hólmi innan einhvers ákveðins tíma með því að taka upp virðisaukaskatt. Ég endurtek það, að ég tel það mikið til bóta, ef það er rétt, sem fullyrt er af skattayfirvöldum, að hann hafi þann kost, að auðveldara sé að „kontrolera“ hann og hann skili sér þannig betur en söluskattur.

Það eru hér ýmsar brtt. við þetta frv., sem fyrst og fremst víkja að því að undanþiggja söluskatti ákveðna vöruflokka, sem almenningur kemst ekki hjá að kaupa af brýnustu lífsnauðsynjum. Slíkar till. höfum við í stjórnarandstöðunni margoft flutt, ýmist þessi flokkur í þetta skiptið eða annar flokkur öðru sinni og þetta hefur verið stráfellt hverju sinni. Því er borið við, að það sé erfitt að undanþiggja ákveðnar vörutegundir skattinum. Ógerlegt er sagt, að hafa hann mismunandi háan vegna framkvæmdaatriða og þannig staðið gegn því, að það sé gert. Ég er alveg samþykkur þeim till., sem í þessa átt ganga og einnig till. í þá átt, að ekki verði settur söluskattur á stóra útgjaldaliði fólks, eins og t.d. raforkuverð og hitaveitugjöld og ég get ekki skilið, að það sé ekki framkvæmanlegt, ef hæstv. fjmrh. vildi aðeins sjá af þeim tekjum, sem ríkissjóður missti við að undanþiggja þessa innlendu vöru– og þjónustuflokka. Það ætti hann þó að geta, ef ekki væri um meiri tekjuöflun að ræða heldur en þá, sem þarf til að vega á móti lækkuðum tollum. Hann ætti að geta fengið 500 millj. kr. inn, þrátt fyrir að innheimta söluskattsins væri takmarkaðri og undan felldir ýmsir neyzlu vöruflokkar og þjónusta, eins og t.d. raforkan og hitaveitugjöldin. En hann segist þurfa á meiri tekjuöflun að halda og það er ekkert dulið af meiri hl. og það virði ég við hann.

En ef svo fer, að engar till. fáist samþykktar um að undanþiggja brýnustu nauðsynjar söluskattinum, þá teldi ég, að reynandi væri að bera fram till. um lækkun söluskattsins í 2 1/2% í staðinn fyrir 3 1/2% og miða þannig tekjuöflunina nokkurn veginn við það, sem upplýst er, að tollarnir lækki um vegna inngöngunnar í EFTA. Þó teldi ég ekki rétt að bera fram slíka till. fyrr en við 3. umr., ef þá væri komið í ljós, að engin af brtt. um að undanþiggja nauðsynjavöruflokka söluskattinum hefðu verið samþykktar. Þá væri það eðlilegt við 3. umr. að lækka söluskattinn, þannig að hann yrði ekki 11%, heldur 10%.

Mér þykir það furðulegt, að till., sem oft hefur verið borin fram til þess að stuðla að betri innheimtu söluskatts og er nú enn flutt og sem ég hef alltaf verið sannfærður um, að hefði við full rök að styðjast, einmitt í sambandi við innheimtu söluskattsins, skuli aldrei ná fram að ganga. Það er till., sem nú er á þskj. 276, um að fyrirskipa öllum fyrirtækjum og afgreiðslustöðum, þar sem söluskattur er innheimtur, að taka upp peningakassa, sem auðvelt sé að stimpla í öll söluskattsskyld viðskipti, þannig að eftirlitsmenn í fjmrn. einir eigi aðgang að viðkomandi hólfi kassans og geti þannig „kontrolerað“ allt, sem í gegnum hann fer. Jú, hæstv. fjmrh. kemur hér og segir, að þetta sé nú þekkt fyrirbæri í öðrum löndum, meira að segja í Bandaríkjunum og vafalaust hafi Bandaríkjamenn ekki tekið þetta upp að ófyrirsynju eða vitandi það, að þetta bæri engan árangur. Nei, hæstv. ráðh. viðurkenndi, að þetta væri að mjög miklu leyti framkvæmanlegt í viðskiptum hjá okkur. En því ekki að taka þetta upp gagnvart þeim hluta viðskiptanna, sem þetta nær til? Hvers vegna þessi sífelldu undanbrögð að gera þetta, því það er vitað, að þetta mundi bæta að verulegu leyti innheimtuna á söluskattinum, útiloka möguleika á að stela undan? En það er sífelldlega látið undir höfuð leggjast, ár eftir ár, hvernig sem stjórnarandstaðan hér hamrar á þessari uppástungu og bara beitt úrtölum. Það finnst mér ekki nógu gott. Vitað mál er, að með því að taka þetta upp, þá væri búið að auðvelda nokkuð eftirlitið, gera það umfangsminna að öðru leyti í viðskiptunum, ef það nær ekki til þeirra að öllu leyti. Og þá væri auðveldara að taka á viðskiptunum að öðru leyti og eftirlitinu með innheimtu söluskattsins af þeim, t. d. með útdrætti, ef fimmti hver skattþegn væri dreginn út algerlega eftir blindri tilviljun og ætti yfir sér vofandi, ef um skattsvik væri að ræða, að hans skattaskjöl kæmu upp. Og því betur er sú leið framkvæmanleg, sem hún á að ná yfir takmarkaðra svið.

Ef þetta hvort tveggja væri gert, væri hægt að „kontrolera“ söluskattinn og koma að mestu eða kannske öllu leyti í veg fyrir, að honum væri stolið undan, þ.e. lagður á skattþegnana, innheimtur af þeim, en komi ekki til nota í þarfir ríkisins, eins og nú hefur meira og minna borið við fram til þessa, af því að eftirlitið hefur ekki verið nógu gott og ekki leitað neinna úrræða, þau ekki nýtt, sem þó er vitað um og menn viðurkenna, að gætu komið að haldi. Ég hefði haldið, að hæstv. ríkisstj. tæki hverri þeirri till. opnum örmum, sem að því stuðlaði, að innheimta söluskattsins yrði fullkomnari, söluskatturinn skilaði sér betur í ríkissjóðinn og fæ ég ekki skilið þá tregðu, sem alltaf verður vart við varðandi aðgerðir í þessa átt. Það er engu líkara, en það séu til staðar einhverjir brjóstmylkingar, sem verða að hafa svigrúm til þess að stela undan skatti, sem er þó það versta í þjóðfélaginu. Það er ranglætið, sem við slíkt skapast. Þeim heiðarlegu er hegnt sem skattþegnum, en hinum er gefinn kostur á að komast upp með lögbrot af grófustu tegund, því að það verða skattsvik að teljast. Ég álít ámælisvert, ef ekki fæst samþykkt till. um að taka í notkun þessa peningakassa, sem svona eru útbúnir og eru alkunnir í þessari þjónustu og til viðbótar þá að öðru leyti útdráttarkerfið, svo að sérhver skattþegn geti átt það á hættu, að hans skattaskjöl komi til ýtarlegrar rannsóknar og skattsvik komist þannig upp, hvar sem niður væri borið. Það vita auðvitað engir fyrir fram.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um málið, það er alveg óþarft, að öðru leyti en því, að ég endurtek það, að það er mín till., að þetta frv. verði fellt. Mér þykir líklegt, að, að öllum öðrum till. felldum muni ég flytja eða standa að flutningi till. um, að söluskatturinn verði lækkaður í 10%, þegar útséð er um það, að ekki fáist horfið frá þessari skattainnheimtu í söluskattsformi né heldur neinar lagfæringar í þá átt að takmarka innheimtu hans af brýnustu lífsnauðsynjum. Ég tel, að það eigi að takmarka söluskattinn við það, að hann geti „dekkað“ um 500 millj. kr.

Ég mun greiða atkv. á móti þessu frv.