27.10.1969
Efri deild: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í C-deild Alþingistíðinda. (2801)

31. mál, rannsóknarstofnun skólamála

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 31 ásamt þeim hv. 2. þm. Austf. og hv. 1. þm. Norðurl. v. frv. til l. um ráðgjafar- og rannsóknarstofnun skólamála, eins og við höfum leyft okkur að nefna þetta fyrirhugaða fyrirtæki. Samkv. þessu frv. á verkefni stofnunarinnar að vera tvíþætt. Í fyrsta lagi fjallar frv. um sálfræðiþjónustu í skólum, og það er a-liður 2. gr., sem að þessu verkefni lýtur, en þar segir, að stofnunin eigi að vera ráðgjafi kennara, fræðsluyfirvalda, foreldra og nemenda í skólum barna- og gagnfræðastigsins um tilhögun náms og námsmat, náms- og starfsval nemenda, einstaklingsrannsóknir á afbrigðilegum nemendum ásamt ráðgjöf við val nemenda til sérkennslu, svo og sálfræðileg meðferð nemenda með skerta geðheilsu. Hinn aðalþáttur starfseminnar á að vera framhald af því, sem nefnt hefur verið skólarannsóknir. Um það fjallar b-liður 2. gr., en þar er verkefnið nánar skilgreint þannig: að framkvæma stöðugar rannsóknir á því, hversu námsefni skólanna, kennsluaðferðir, próftilhögun, námsbækur, skólaskyldualdur nemenda, skólabyggingar o.fl. samrýmist aðkallandi þörfum þjóðlífsins og á hvern hátt því verði við komið, að allir fái sem jafnasta aðstöðu til náms, hvar sem þeir búa á landinu. Á grundvelli þessara rannsókna skal stofnunin gera till. um nauðsynlegar breytingar.“

Ég mun nú leyfa mér, herra forseti, að fara hér nokkrum orðum um hvorn þessara liða og reyna að sýna fram á það, hvernig heppilegt geti verið að koma þessum málum fyrir undir einu þaki hjá einni stofnun, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.

Um fyrra atriðið, þ.e. sálfræðiþjónustuna í skólum, er það að segja, að ég hygg, að það sé samhljóma álit skólamanna, að fjölbreytni nútíðarþjóðfélags geri foreldrum hartnær ókleift að leysa uppeldis- og félagsleg vandamál barna og unglinga með erfðavenjum einum saman. Hlutur skólanna eykst mjög ört í þessum efnum og verður fyrr en varir og er kannske þegar orðinn það víða litlu minni heldur en heimilanna. Enda er það svo, að sálfræðiþjónusta í skólum uppeldisstigsins, þ.e. þessum skólum, sem þetta frv. fjallar um, barna- og unglingaskólum, og kennslufræðilegar rannsóknir eru reknar í stórum stíl í flestum þróuðum þjóðfélögum, einkum eftir síðari heimsstyrjöldina. Ég hygg, að þessi sálfræðiþjónusta hafi hafizt fyrir um það bil hálfri öld, í Bandaríkjunum upp úr 1915, í Bretlandi 1913, í Danmörku um 1930, og í Noregi var mikil hreyfing á þessu eftir síðari heimsstyrjöldina. Sálfræðiþjónustan hefur að margra dómi einangrazt um of við vandamál afbrigðilegra nemenda, en félagsleg ráðgjöf og námshandleiðsla er einnig nauðsynleg hverjum nemanda, svo að hann fái notið hæfni sinnar sem bezt og hann geti fundið sem öruggastan lífsgrundvöll fyrir sig og þjóðfélagið. Þessu marki, hyggja menn, að ekki verði náð, nema í skólanum sjálfum eða fræðsluhéruðunum sé sérmenntað fólk til þessara starfa, er hafi að bakhjarli stofnun, sem geti veitt aðstoð við þau vandamál, sem ekki verða þar leyst.

Ég vil leyfa mér í þessu sambandi að vitna í greinar um sálfræðiþjónustu í skólum, sem forstöðumaður þeirrar stofnunar, sem um þetta fjallar hér í Reykjavík, Jónas Pálsson, ritaði í Morgunblaðið hinn 2. og 3. þ. m., og með leyfi forseta vil ég rifja upp nokkur atriði úr þessum greinum, en vil biðja þá hv. alþm., sem um þetta mál koma til með að fjalla, að kynna sér þær umfram það, sem ég hef hér tök á eða tíma til að vitna til þeirra. En þessi forstöðumaður rifjar það upp, að hann hafi flutt allmörg erindi á s.l. vetri um hlutverk og starfsaðstöðu sálfræðiþjónustunnar í barnaskólunum. Svo segir hann, með leyfi forseta:

„Bent var á og gagnrýnt harðlega réttindaleysi þessa þáttar í skólastarfinu, lagalegt tilveruleysi og alger skortur á fjárhagslegri viðurkenningu af hálfu fræðsluyfirvalda ríkisins. Sálfræðiþjónusta barnaskóla í Reykjavík hvílir á einni eða tveim setningum frá 1960 í samþykkt fræðsluráðs borgarinnar um kennsluleiðbeiningar og skólaþroskað fólk, en sálfræðiþjónusta er þar alls ekki nefnd á nafn. Illkvittnislega orðað má segja, að við séum þar notuð, en ekki viðurkennd. Áhrif þessa réttindaleysis eru drjúg á okkur starfsfólkið og starfsaðstöðu okkar gagnvart kennurum og foreldrum.“ En síðan segir: „En hvernig er sálfræðiþjónusta í Reykjavík á vegi stödd í dag? Hverju hefur hún áorkað, og hvers virði er hún nemendum og kennurum og foreldrum? Það er naumast viðeigandi, að sá, er þetta ritar, svari spurningunni, þar eð honum er málið skylt. Ég held, að mikilvægasta staðreyndin um sálfræðideild skóla, sem rekin er sem deild í fræðsluskrifstofu Reykjavíkur, sé einfaldlega, að hún er þó enn þá til. Hún hefur þrátt fyrir allt ekki verið lögð niður. Starfsfólkið hefur flest þraukað hið sama s.l. 6–8 ár. Stjórnunarmenn borgarinnar hafa lagt fé til starfsins og stutt það myndarlega á ýmsa lund, sem ber að þakka og viðurkenna. Mörgu hefur þó verið stórlega áfátt um starfsgrundvöll af hálfu borgaryfirvalda í Reykjavík. Það er örugg sannfæring mín, að nú nálgist tímamót. Sú tegund starfsemi, sem ég og mitt nánasta samstarfsfólk hefur reynt að byggja upp, mun renna út í sandinn og týnast, ef ekki verður hafizt handa um að styrkja og efla starfið á marga vegu án tafar.“

Í framhaldi af lýsingum á aðstöðu sálfræðideildar barnaskóla Reykjavíkur ræðir forstöðumaðurinn síðan nokkuð um Höfðaskóla, en það er skóli, sem hefur verið sérstaklega ætlaður vangefnum börnum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Höfðaskóli, sem hefur starfað síðan 1961 í hálfbyggðu húsi við Sigtún, sýnir vel afstöðu fræðsluyfirvalda og ríkisvalds til kennslu og meðferðar afbrigðilegra nemenda. Skólann sækja m.a. heilasködduð börn, sem þó eru fær um verulegt bóklegt og verklegt nám. Skólinn hefur starfað undir ágætri forystu Magnúsar Magnússonar, og þar hafa unnið mjög hæfir kennarar. Þrátt fyrir endurteknar tilraunir forstöðumanns skólans, sálfræðideildar skóla og samþykkt nú fyrir skömmu frá fræðsluráði Reykjavíkur um formlega stofnun skólans, hefur hann samt ekki verið stofnaður af hálfu ríkisvaldsins. Skólinn er formlega ekki til. Magnús Magnússon er ekki skólastjóri, þótt honum beri sá titill sannarlega og vissulega ekkert síður en öðrum, sem veita skóla forstöðu. Undirritaður er löngu sannfærður um, að þessi andstaða gegn uppeldissálfræðilegu starfi í skólum og vöntun á aðstoð til andlegra og líkamlegra fatlaðra nemenda er ekki nema að litlu leyti fjárhagslegt atriði, heldur tákn um djúpstæða, menningarlega og sálfræðilega afstöðu til þátta í mannlegu lífi og samfélagi.“

Ég skal ekki þreyta hv. dm. á frekari upplestri úr þessari grein forstöðumanns sálfræðiþjónustunnar hér í Reykjavík að þessu sinni, en það eru vissulega fleiri atriði, sem þarna væri vert að gefa gaum að.

En eins og þarna kemur fram af því, sem ég las, hefur þó um nokkurt skeið verið starfræktur vísir að því starfi, sem þetta frv. fjallar um í 2. gr., a-lið. Sálfræðiþjónusta í barnaskólum í Reykjavík hefur verið starfrækt síðan á árinu 1960 sem deild í Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur og algerlega kostuð af Reykjavíkurborg. Þar hafa samkvæmt skólaskýrslum hér í Reykjavík starfað tveir til þrír sálfræðingar, einn félagsráðgjafi og einn kennari, að vísu báðir í hálfu starfi, og barnalæknir hefur verið starfandi þarna eða verið þarna til ráðgjafar. Þetta fólk hefur, eftir því sem ég hef bezt getað aflað mér upplýsinga um, unnið við erfið skilyrði ágætt starf, og sannar það, þó að ekki kæmi annað til, hver nauðsyn þessi þáttur í skólastarfinu er. Í síðustu skólaskýrslu barna- og gagnfræðaskóla Reykjavíkur, gerir forstöðumaðurinn, áðurnefndur Jónas Pálsson, nokkra úttekt á þessu starfi, og ég held, að ég lýsi því ekki betur á annan hátt en þann að vitna til þess, með leyfi forseta, en þar segir:

„Forstöðumaðurinn vill nota tækifærið og benda á, að sálfræðiþjónusta skóla í Reykjavík hefur ekki enn fengið viðurkenningu fræðslumálastjórnar ríkisins í formi lagaákvæða eða reglugerðar. Ríkissjóður tekur heldur ekki þátt í greiðslu kostnaðar við þjónustuna. Þessi staðreynd ásamt því, að ríkisvaldið hefur enn ekki látið lögfesta og vernda með einhverjum hætti starfsheiti sérfræðinga, sem þessum störfum gegna, sálfræðinga, uppeldisfræðinga og félagsráðgjafa, dregur vafalaust verulega úr áhrifum og notagildi sálfræðilegra leiðbeininga í skólum. Vöntun á viðurkenningu hefur sennilega ýmisleg áhrif á sérfræðingana sjálfa, hugmynd þeirra um hlutverk sitt og ekki síður, hvernig augum aðrir líta á verk þeirra, foreldrar, kennarar og almenningur. Skýr ákvæði um hlutverk sálfræðiþjónustu í skólum, skyldur og réttindi starfsmanna hennar, er helzta verkefnið, sem liggur fyrir á þessu sviði, ef tryggja á faglegar framfarir og endurnýjun sálfræðiráðgjafar í samræmi við örar breytingar skólastarfs og samfélagshátta.“

Ég hef hér vitnað til þeirrar sálfræðiþjónustu, sem framkvæmd hefur verið í Reykjavík, bæði vegna þess, að ég er kannske henni einna kunnugastur, og svo líka ,og ekkert síður vegna þess, að hún mun þrátt fyrir allt vera lengst á veg komin á okkar landi. En vitað er, að önnur sveitarfélög hafa einnig ráðizt í það að ráða til starfa menn til þess að sinna þessu verkefni, og er þess skemmst að minnast nú í haust, að Samband sveitarfélaga á Reykjanesi mun hafa ráðið einn sálfræðing til þessara starfa hjá þeim öllum, og þau skipta kostnaði af launum hans milli sín. Og ég vil svo láta þess getið jafnframt, að það má vel vera, að fleiri slíkar ráðstafanir hafi verið gerðar, án þess að mér sé nokkuð sérstaklega kunnugt um það, enda skiptir það ekki kannske öllu máli. Aðalatriðið er hitt, að þeir, sem að þessum málum starfa, finna til þess, að starfsemi þeirra er ekki viðurkennd af ríkisvaldinu, og þeir telja, að það sé óhagræði a.m.k., þó að ekki sé nú of djúpt tekið í árinni, fyrir þá, sem að því starfa, að svo er ekki, og það hái þeim jafnvel í starfinu, þar sem þeir, sem þessa þjónustu þurfa helzt að nota, viðurkenni ekki þessa menn, eins og skyldi, út af þessu.

Hitt meginverkefni frv. er varðandi rannsóknir á námsefni, og um það fjallar b-liður 2. gr. Einnig þar hefur nokkurt starf verið unnið á undanförnum árum. Ég hygg, að það hafi verið 7. júní 1966, sem Andri Ísaksson sálfræðingur var settur til starfa í menntmrn. með bréfi, þar sem sagði um verkefni hans, að það skuli vera að annast fræðilega rannsókn á íslenzka skólakerfinu, og verði hún undirstaða tillögugerðar um nauðsynlegar breytingar til að samræma skólakerfið breyttum þjóðfélagsháttum og nýjum sjónarmiðum í skóla- og uppeldismálum. Ég hef upplýsingar um það, að Andri Ísaksson hefur starfað að þessu verkefni þangað til núna á þessu hausti, að hann er horfinn af landi brott til framhaldsnáms. Jafnframt hefur mér verið tjáð, að í hans stað hafi verið settur sérfræðingur í stærðfræði, eftir því sem ég veit bezt, til þess að samræma stærðfræðikennslu í skólum, og um þetta er ekki nema gott eitt að segja. En þau verkefni, sem Andri Ísaksson hefur unnið að og mér er kunnugt um, eru t.d. tilraun til að gefa gagnfræðaprófinu gildi með samræmingu í íslenzku, dönsku, ensku og reikningi. Í öðru lagi útgáfa námsskrár fyrir gagnfræða- og landspróf til hagræðis, sérstaklega í fámennum skólahéruðum. Í þriðja lagi ráðstefna, sem hann gekkst fyrir sumarið 1969 í Hamrahlíðarskólanum, sem mun hafa verið vísir að góðu starfi. Í fjórða lagi má nefna álitsgerð námsbrautanefndar, sem nýlega hefur verið útbýtt hér á hv. Alþ. um fjölgun námsbrauta fyrir gagnfræðinga og landsprófsmenn, og var undirstaða þeirrar bráðabirgðalagasetningar, sem gerð var í sumar og nú er að einhverju leyti hafin framkvæmd á. Um þetta allt er ekki nema gott eitt að segja, og þó að ég sé ekki sjálfur dómbær um þessa hluti, þá hef ég það fyrir satt, að sitthvað gott hafi af þessu starfi leitt. En það, sem okkur flm. þykir á skorta, er það, að þessum málum er ekki skipað á, ég vil segja, eðlilegan hátt. Hér er aðeins um að ræða setningu manns með bréfi menntmrn., sem ég tel, að hljóti að gera honum erfiðara um vik að framkvæma verkefni sitt, og í öðru lagi er það alkunna, að þessi maður hafi verið gersamlega kaffærður í verkefnum, þannig að honum hefur verið ómögulegt að rísa undir þeim verkefnum öllum, sem honum voru af rn. og hæstv. menntmrh. falin, hversu góður starfskraftur sem þessi maður annars kann að vera, sem ég dreg sízt í efa. En svo oft hafa þessi mál verið rædd á hv. Alþ., að ég hygg, að það sé ekki þörf á því, að ég sé að tína fram mörg rök fyrir því, hversu nauðsynlegt þetta starf er.

Við flm. álítum, að þetta starf þurfi að auka og efla, það þurfi að skapa grundvöll þess og viðurkenningu með lagasetningu og með reglugerðarákvæðum eftir því, sem við á. Það er skoðun okkar, sem þetta frv. flytjum, að þessi störf, sálfræðiþjónustan í skólunum og skólarannsóknirnar, séu í eðli sínu svo skyld, að það sé hentugt og heppilegt og verði ódýrast í framkvæmd, að þeim sé sinnt af sömu stofnuninni og einhver sú tilhögun verði upp tekin, eins og þetta frv. gengur út á. Og þó að það kannske út af fyrir sig sanni ekkert, mætti það kannske verða einhvers konar vísbending, að sá maður, sem menntmrn. fyrst velur til þess að veita skólarannsóknum forstöðu, er einmitt sálfræðingur.

Í 2. gr., b-lið, er enn fremur rætt um það, hversu mikið nauðsynjamál það sé og réttlætismál, að allir fái sem jafnasta aðstöðu til náms, hvar sem þeir eru búsettir á landinu. Og ég hygg nú, að ef slík stofnun, sem hér um ræðir, væri búin að starfa einhvern tíma, ætti hún að hafa bezt tök á því eða bezt tækifæri til þess að kynnast því, hvar skórinn kreppir helzt að í þessu efni og hvaða ráð séu helzt tiltækust til úrbóta, þannig að því er hreyft í frv., að einnig þetta hlutverk yrði falið stofnuninni. En ljóst er, að hér er um mjög stórt fjárhagslegt atriði að ræða, þannig að mér er það auðvitað algerlega ljóst, að frekari lagasetningar og fjárveitingar þurfa til að koma, áður en stofnunin getur sinnt þessu hlutverki að nokkru marki, eins og henni er markað svið í frv.

Ég leyfi mér að geta um það hér eða ræða það hér í örstuttu máli, að þetta mál, jöfnun námsaðstöðu í skólunum, hefur verið mjög ofarlega á baugi á hv. Alþ. mörg undanfarin þing, og a.m.k. þrisvar sinnum hafa verið fluttar um það þáltill., þ.e. að rannsókn á þessu verkefni og stærð þess fari fram og hvað helzt væri til úrbóta í því. Á s.l. þingi, hygg ég, að samþ. muni hafa verið þáltill., sem í þá átt gekk, að einhverjum embættismönnum yrði falið að rannsaka þetta mál. Ég hef haldið uppi spurnum um niðurstöður þeirrar rannsóknar, en engin svör fengið, og ég hygg, að það sé sanni næst, að þessi rannsókn hafi enn þá ekki farið fram, og er það vissulega miður, því að til þess að ráðast gegn viðfangsefninu þurfa menn þó væntanlega fyrst og fremst að þekkja stærð þess. Nú hefur komið hér fram á Alþ. frv., frá hv. 9. þm. Reykv., Hannibal Valdimarssyni, um það, að ríkissjóði verði gert að greiða 25 þús. kr. til hvers nemanda, sem stundar nám utan heimilis síns. Og í sambandi við það frv. verður vafalaust kannað þetta viðfangsefni.

En hvernig sem hægt verður að ráða bót á því, og mér sýnist nú, að tæpast sé hægt að ráðast gegn því án þess að finna nýjan tekjustofn, því að mig grunar, að hér sé um mjög stórvægilegt viðfangsefni að ræða, legg ég áherzlu á það, einnig í sambandi við flutning þessa frv. og athugun þess, að þessu máli verði ekki gleymt, því að það er eitt brýnasta réttlætismál, hygg ég, þeirra, sem á landsbyggðinni búa, einmitt þetta, því að það er auðvitað algerlega óhæf þróun, að menn, sem hafa tiltölulega góða atvinnu og góða atvinnu í mörgum tilfellum og vilja vera utan Faxaflóasvæðisins, þurfi að taka sig upp þaðan, vegna þess að þeir þurfi að fylgja börnunum sínum eftir á námsbrautinni og þeir geti ekki komið þeim til náms og þroska á annan hátt en halda fyrir þau heimili og reyna þá að þrengja sér inn á mjög fullsetinn, eins og nú er, vinnumarkað í þéttbýlinu.

4. gr. frv, gerir svo ráð fyrir því, að menntamálaráð og menntmrh. setji reglur um störf stofnunarinnar, því að hér er, eins og allir sjá, aðeins um rammalagasetningu að ræða, ef þetta frv. yrði samþ. Það eru mörg atriði, sem eftir er að ráða fram úr fyrir því. Í þeirri reglugerð er m.a. kveðið á um fjölda þeirra sérfræðinga, sem vinni við sálfræðiþjónustuna og viðfangsefni þeirra í einstökum skólum og fræðsluhéruðum, því að það leiðir auðvitað af eðli málsins, að þau störf, sem hér er um að ræða, a.m.k. í a-liðnum, 2. gr., verða að vinnast á staðnum, þau verða að vinnast í skólunum sjálfum að verulegu leyti, og okkur flm. finnst það vera eðlilegt að hafa hliðsjón af umdæmum námsstjóra, sem munu víst vera 6 eftir núgildandi l., þó að aðeins þrír þeirra starfi, þegar starfssvæðin eru nánar skilgreind, og það er eðlilegt, að það verði að því stefnt, að þessir sérfræðingar, þegar fram í sækir a.m.k., verði búsettir á starfssvæði sínu. Það er ein af eðlilegum kröfum þeirra, sem í dreifbýlinu búa, vil ég segja, að þeir sérfræðingar og aðrir opinberir starfsmenn, sem málum þeirra sinna öðrum fremur, séu búsettir á því svæði, sem þeir starfa á, og það getur án sérstakra átaka e.t.v. orðið til þess að jafna nokkuð búsetuna í landinu, því að það er vitað, að ef slíkir menn, sérfræðingar og mennta- og vísindamenn, setjast niður á einhverjum stað utan Reykjavíkur, þá gera þeir umhverfi sitt byggilegra. Þeir laða að sér aðra, sem fremur vilja búa á þeim stöðum, eftir að slíkir menn eru setztir þar að.

Ég get nú ekki gizkað á það og það er kannske alveg tilgangslaust að vera nokkuð að hreyfa því, hve marga starfsmenn þyrfti við slíka stofnun eins og þessa. Ég geri mér það ljóst, að svona starf þarf að vinnast nokkuð í áföngum. Það er ekki endilega víst, að það verði í fyrstu lotu eins margir starfsmenn við slíka stofnun og þyrfti að vera, þegar starf hennar væri komið í fullan gang. En svona til viðmiðunar má geta þess, að í Noregi er miðað við einn skólasérfræðing ásamt tilheyrandi starfsliði fyrir hverja 3000 nemendur í þéttbýli, en lægri tölur í strjálbýli. Nú hef ég ekki við höndina tölu um nemendur á barna- og gagnfræðaskólastiginu. Ætli þeir séu ekki einhvers staðar nálægt 21000, ég hygg það. Þá mundi það þýða það, að hér væri um 7 skólasálfræðinga að ræða, ef þessi regla yrði innleidd. Og eitthvert starfslið þyrftu þeir að hafa, þannig að hér er vissulega um nokkurt fjárhagsatriði að ræða. En út af þeim kostnaði, sem af þessu frv. leiðir, ef það yrði að l., þá er það álit margra skólamanna, sem ég hef talað við um þetta, að kostnaðurinn mundi að verulegu leyti fást uppi borinn með betra og bættu fyrirkomulagi á kennslumálum. Það er afskaplega dýrt, að nemendur sitji eftir í bekk, þurfi að læra sama námsefnið tvisvar, kannske þrisvar. Það er líka dýrt og kannske dýrast af öllu, sú kennsla, sem kemur hvorki nemendum né þjóðfélagi að fullum notum, og hvert það skref, sem hægt væri að stíga í átt til þess að draga úr slíku, og ég tala nú ekki um afnema það, mundi spara þjóðfélaginu stóra fjármuni bara í efnahagslegu tilliti, að ekki sé nú minnzt á allt annað. Sumir hafa gengið svo langt að segja, að það væri jafnvel betra að fella niður sumar af þeim greinum, sem nú eru kenndar, en að vanta þessa þjónustu, sem hér um ræðir. Ég er t.d. alveg sannfærður um það fyrir mitt leyti og byggi það bara á mínu leikmannssjónarmiði sem faðir barna á þessum skólastigum, að það er verið að kenna sömu hlutina ár eftir ár og meira að segja verið að kenna sömu hlutina á báðum skólastigum, bæði í barnaskólunum og gagnfræðaskólunum, og hvað lítið, sem hægt er að draga úr þessu, og auka kennsluna á öðrum hagkvæmari sviðum, er stórkostlegur þjóðfélagslegur ávinningur.

Ég hef þá, að ég held, lokið þessari framsöguræðu. Ég tek það enn þá einu sinni fram, að þetta frv. er ekki flutt til þess að gera út af fyrir sig lítið úr því, sem unnið hefur verið á þessum sviðum, heldur til þess að leggja áherzlu á, hvað þar hafi verið gott starf unnið, sem þurfi að auka að miklum mun, og ég vil svo aðeins að lokum leyfa mér að draga saman í örstuttu máli það,sem ég hef verið að reyna að segja.

1. Sálfræðiþjónustu í skólum ber að efla. Það er einróma krafa allra skólamanna, og ótal raddir hafa komið fram um það.

2. Rannsóknarstörf á námsefni, kennsluaðferðum, próftilhögun, námsbókum, skólaskyldualdri, skólabyggingum o.fl. þ.h. þarf að stórauka.

3. Þessar tvær greinar eru svo skyldar, að hagkvæmt og heppilegt er, að þeim sé stjórnað frá einni stofnun, sem við flm. höfum nefnt í frv. ráðgjafar- og rannsóknarstofnun skólamála.

4. Koma þarf málum þannig fyrir, að allir fái sem jafnasta aðstöðu til náms, hvar sem þeir búa á landinu og verði þetta enn fremur hlutverk stofnunarinnar.

5. Menntmrh. setji reglur um störf stofnunarinnar og þ. á m. um fjölda þeirra sálfræðinga og félagsráðgjafa, sem að sálfræðiþjónustu vinna, og viðfangsefni þeirra í hinum einstöku skólum og fræðsluhéruðum landsins.

6. Hafa skal hliðsjón af umdæmum námsstjóra, þegar ákveðin eru starfssvæði þessara manna, og stefnt að því, að þeir verði búsettir hver á sínu starfssvæði.

7. Kostnaður af störfum stofnunarinnar fæst að verulegu leyti uppi borinn í bættri kennslutilhögun, ef frv. verður að lögum.