30.10.1969
Efri deild: 8. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í C-deild Alþingistíðinda. (2806)

53. mál, byggingarsamvinnufélög

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég hef flutt hér á þskj. 58 frv. til l. um byggingarsamvinnufélög ásamt hv. 1. þm. Norðurl. v. Þetta frv. hefur áður verið til meðferðar hér á hv. Alþ. fyrir tveimur árum. Þá var því vísað til hæstv. ríkisstj., og mun ég koma örlítið að því síðar, en ég mun ekki að þessu sinni hafa langa framsögu fyrir þessu máli, tel, að þess gerist ekki þörf, þar sem málið hefur, eins og ég áðan sagði, legið hér fyrir áður, og var þá allítarlega rætt. Ég minni aðeins á það nú eins og fyrr, að eftir því, hvernig húsnæðismálunum er fyrir komið, má ekki sízt marka það, hversu raunveruleg velmegun þjóðfélags er á vegi stödd, og ég tel ekki ástæðu til þess að eyða löngum tíma til þess að rökstyðja þá þörf, sem er á því að koma húsnæðismálunum í betra horf en þau eru. Um það eru allir hv. alþm. áreiðanlega sammála, og ég minni jafnframt á það, að enda þótt talsvert aukið fjármagn hafi verið veitt til húsbygginga, þá er langt í frá, að það sé nægilegt, og biðraðir hjá húsnæðismálastjórn eftir lánum úr byggingarsjóði eru mjög ískyggilega langar, og sá tími, sem menn bíða eftir húsnæðislánum, er enn þá mjög langur.

Samkv. útreikningi Hagstofunnar í júnímánuði s.l., þá er byggingarkostnaður á teningsmetra 3889 kr. Þessi byggingarkostnaður var samkv. sömu heimildum 1231 kr. fyrir réttum 10 árum. Hefur því kostnaðurinn meira en þrefaldazt. Mér reiknast svo til, að hækkun hans sé 217%. Hér er auðvitað mjög ískyggileg þróun á ferðinni. Það er að vísu teygjanlegt hugtak, hver meðalstærð íbúða er, en ég hef reiknað hér eins og áður með 370 teningsmetra íbúð, og þá sýna þessar tölur opinberra aðila, að bygging slíkrar íbúðar ætti nú að kosta 1439 þús. kr. En hún hefði átt að kosta árið 1959 455 þús. kr. Og það vill segja, að á þessu 10 ára tímabili hefur byggingarkostnaður meðalíbúðar hækkað um 1 millj. kr. Og þó að húsnæðislánin séu nú um 400 þús. kr. út á hverja íbúð og nokkru meira í undantekningartilvikum þeirra, sem eru félagar í verkalýðsfélögum, sem fá aukaaðstoð, eins og kunnugt er, þá fer því ekki fjarri,að hver húsbyggjandi,sem hyggst byggja meðalíbúð og verður að hlíta þessum kostnaði, þurfi að leggja 1 millj. kr. fram úr eigin vasa. Það er því ljóst, að mjög mikil þörf er á því að vinna bug á þessari meinsemd, hinum háa byggingarkostnaði.

Ég tel, eins og hér hefur áður komið fram hjá mér í umr., að ein leiðin til þess að lækka þennan byggingarkostnað, sé sú að auka starfsemi byggingarsamvinnufélaganna og gera l. um þau annað en dauðan bókstaf, eins og þau því miður hafa verið um langt árabil, fyrst og fremst vegna þess, að þótt ríkisábyrgð sé fyrir hendi á skuldabréfum byggingarsamvinnufélaga, þá hefur enginn aðili í landinu talið sér skylt að kaupa þessi bréf og enginn aðili viljað kaupa þau að nokkru verulegu marki. Og ég minni á það, að þessi möguleiki til sölu á ríkistryggðum skuldabréfum byggingarsamvinnufélaga hefur verið skertur á s.l. árum, að ég hygg mjög mikið, með því ákvæði, sem lögtekið var, að tryggingafélög mættu ekki hér eftir lána einstaklingum án þess að leggja 1/4 á móti til byggingarsjóðs, 25%. Þetta ákvæði, hygg ég, að hafi verulega dregið úr, að ég ekki segi algerlega tekið fyrir, þeirri aðstoð, sem mörg tryggingafélögin vissulega veittu húsbyggjendum í þessu tilliti.

Nú er það auðvitað misjafnt, hvernig byggingarsamvinnufélögunum tekst að halda niðri byggingarkostnaði. Það skal ég fúslega viðurkenna. Og nú hefur verið gerð tilraun af opinberri hálfu til þess að byggja ódýrar íbúðir með mikilli, vil ég segja, opinberri fyrirgreiðslu, þar sem framkvæmdanefndaríbúðirnar eru í Breiðholti hér í Reykjavík. Um þær byggingar hefur mikið verið rætt og ritað og mikil gagnrýni komið fram á framkvæmd þeirra. Og ég skal ekki hafa hér uppi neina gagnrýni á þá framkvæmd, en aðeins minna á það, að nú í sumar, 9. júlí, voru bornar fram í húsnæðismálastjórn spurningar í mörgum liðum um þessar framkvæmdir og hvernig þeim hefði vegnað, hvaða kostnaður hefði orðið við byggingarnar þar og ýmislegt fleira í því tilliti aðallega varðandi fjármögnun þessara framkvæmda, og af svörum, sem veitt voru af framkvæmdastjóra hennar núverandi eða formanns, eins og hann mun víst heita, þá varð söluverð á teningsmetra þarna í sambyggingum 2797 kr. og 3868 kr. á teningsmetra í einbýlishúsnæði. En sérfræðingar fasteignamatsnefndar Reykjavíkur hafa reiknað þetta með nokkuð öðru móti og fengið út þessar tölur: Í sambyggingunum 3878,50 á teningsmetra, í minni einbýlishúsunum 3924 kr. á teningsmetra og í stærri einbýlishúsunum 3960 kr. á teningsmetra. Þessi hús eru byggð á árunum 1967–1969, þeim var að mestu lokið fyrir árslok 1968. En byggingarkostnaður vísitöluhúss samkv. útreikningum Hagstofunnar var í árslok 1967 2768 kr. á teningsmetra, og vísitalan var óbreytt allt það ár, og í árslok 1968 3206 kr. Ef meðaltal þessara tveggja ára er tekið, kemur það í ljós, að byggingarkostnaðurinn ætti að vera 2987 kr. á teningsmetra, þannig að svo virðist, ef þessar tölur má leggja til grundvallar, sem Breiðholtsíbúðirnar hafi orðið nokkuð dýrari heldur en vísitöluhúsið á teningsmetra samkv. útreikningum Hagstofunnar. Ég hef að sjálfsögðu ekki sjálfur neitt haft með útreikninga á þessum tölum að gera, en ég vænti þess, að þær séu engu að síður réttar, og kostnaðurinn í Breiðholtinu, eins og ég sagði, byggður á upplýsingum núverandi formanns framkvæmdanefndar. Nú hef ég hér undir höndum reikninga frá einu byggingarsamvinnufélagi hér í borginni, Byggingasamvinnufélagi Reykjavíkur, og ég hygg, að það geti orðið til fróðleiks að gera samanburð á því, hvernig þeim hefur tekizt að byggja íbúðir og fyrir hvaða verð. Ég tek þá hér fyrst t.d. íbúðir, sem byggðar voru í Hraunbæ 36–42 hér í Reykjavík. Bygging þess húss hófst fyrri hluta sumars 1965 og hélt áfram eftir föngum. Húsið varð fokhelt um ári síðar og var að mestu lokið á miðju ári 1967. Íbúðir voru afhentar þannig í hendur eigenda, að lokið var öllu undir tréverk innan íbúða og húsinu var lokið að utan. Sameiginlegu rými í kjallara var ráðstafað eftir ákvörðun íbúðareigenda, þannig að seldur var hluti kjallara til annarra aðila, en afgangi var ráðstafað til sameiginlegra þarfa samkv. uppdráttum hússins. Þessar íbúðir í því ástandi, sem ég lýsti, voru seldar á þessu verði: Tveggja herbergja íbúðir 466.345;35, þriggja herbergja íbúðir 686:514,61, fjögurra herbergja íbúðir á 776.707;19 og fimm herbergja íbúðir á 899.604,76, og varð kostnaðarverð á teningsmetra að meðaltali um 1980 kr. Nú tek ég það skýrt fram, að þetta eru ekki fullgerðar íbúðir, og það þarf að áætla fyrir því, sem á vantar, og ég ætla ekki að gera það, ég læt þessar tölur tala sínu máli.

Í öðru lagi vil ég minna á, að þetta sama byggingarsamvinnúfélag hefur verið að byggja og er nýbúið að ljúka við eða fyrir um ári síðan íbúðir í Hörðalandi 2, 4 og 6. Í þessu húsi eru 18 íbúðir, tveggja, þriggja og fjögurra herbergja. Bygging hússins hófst á miðju ári 1967, og allir eigendur voru fluttir í íbúðir sínar ári síðar, eða á miðju ári 1968. Eigendur tóku við íbúðum sínum tilbúnum undir tréverk og málningu með forstofu og dyrasímum og annarri sameign fullfrágenginni að undanskilinni lóð og stigagangar einungis málaðir. Fullnaðaruppgjöri er ekki lokið, en þó er hægt að fullyrða, að heildarkostnaður hússins á framangreindu byggingarstigi mun vera mjög nálægt 9 millj. 950 þús. og mun láta nærri, að kostnaður á teningsmetra verði um 2000 kr. Um kostnað hverrar íbúðar má gera ráð fyrir, að hann verði sem næst þessi: Fjögurra herbergja íbúð 702 þús.; þriggja herbergja 575 þús.; tveggja herbergja 398 þús.; tveggja herbergja, aðeins minni 364 þús. Einnig í þessu tilviki er eftir að fullgera íbúðirnar, og ég ætla nú að freista þess að gera áætlun um það, hvað það kosti að fullgera t.d. fjögurra herbergja íbúð, sem er 345 teningsmetrar, og samkv. áætlun, sem ég hef fengið frá þessu byggingarsamvinnufélagi, mun það kosta einhvers staðar á milli 200–250 þús. kr. að fullgera hana. Og ef við tökum nú hærri töluna, kemur það í ljós, að kostnaður á teningsmetra í fjögurra herbergja íbúð, 345 teningsmetra, verður 2760 kr. á teningsmetra. Ég hygg, að ég hafi með þessu sýnt, að þetta byggingarsamvinnufélag hafi a.m.k. ekki skilað lakari árangri en þær framkvæmdir, sem framkvæmdar voru af opinberri hálfu í Breiðholti. Nú er það vitað, að margs konar erfiðleikar hafa verið á vegi þessa byggingarsamvinnufélags eins og annarra, og það hefur búið við l. um byggingarsamvinnufélög, eins og þau eru nú, m.a. þá erfiðleika, sem eru því samfara að vanta fjármagn, og ég hygg vafalaust, að ef betur væri að byggingarsamvinnufélögum búið, eins og t.d. þetta frv. gerir ráð fyrir, hefði þessu félagi tekizt að byggja íbúðirnar ódýrar. Ég hef fyrir því orð þeirra, sem fyrir þessum framkvæmdum standa, og ég hygg nú, að það þurfi ekki að rökstyðja það í löngu máli, hvaða breytingu það hefði í för með sér, ef t.d. fjármagn væri alltaf nægilegt fyrir hendi. Það er skylt að geta þess, að nú alveg upp á síðkastið hefur byggingarsamvinnufélögunum verið veitt svolítil aukafyrirgreiðsla. Eins og hv. dm. muna, voru samþ. hér í fyrra l. um breyt. á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, hinn 17. maí, á þann veg, að byggingarsamvinnufélög voru tekin í hópinn með byggingarmeisturum og byggingarfyrirtækjum, sem byggja íbúðir, sem fyrirhugað er að selja fullgerðar til einstaklinga, sem fullnægja útlánareglum húsnæðismálastjórnar. Þá var húsnæðismálastjórn heimilað að veita lán til þeirra, áður en íbúðirnar væru seldar. Þessi breyting, þessi lagasetning, var gerð samkv. frv., sem við fluttum hér einhverjir framsóknarmenn á þinginu í fyrra, og varð til þess að lagfæra og jafna aðstöðu byggingarsamvinnufélaganna og gera hana sambærilega að þessu leyti við það, sem aðrir njóta. Þetta er nýkomið til framkvæmda, eftir því sem ég bezt veit, þannig að þessi fyrirgreiðsla hefur ekki haft áhrif á þær íbúðir, sem ég var áðan að gera grein fyrir. Húsnæðismálastjórn hefur framkvæmt þessi l. þannig, að byggingarsamvinnufélögum þeim, sem reglulega fást við byggingarstarfsemi, — það eru fjögur byggingarsamvinnufélög hér í Reykjavík, Byggingarsamvinnufélag Reykjavíkur, Byggingarsamvinnufélag atvinnubifreiðastjóra, Byggingarsamvinnufélag verkamanna og sjómanna og Byggingarsamvinnufélag starfsmanna ríkisstofnana, — er veitt sú fyrirgreiðsla, að þau geta byrjað að fá lán, þegar fyrsta áfanga er lokið. Það er venjulega uppsteyptur kjallari eða ámóta framkvæmd, og síðan fá þau húsnæðismálastjórnarlánið á 18 mánuðum. En fyrri greiðslan til byggingarmeistaranna er áfram eins og hún var, þannig, að venjulega líða 9 mánuðir milli lánveitinganna. Það er byrjað að lána, þegar húsin eru fokheld, og síðan líða 6–12 mánuðir, þangað til öll lánin eru veitt og þessum mönnum er heimilað að taka lánið út á húsið, þ.e.a.s. áður en ákveðinn kaupandi er kominn að þeim. Ég veit ekki, hvort þessi framkvæmd er fyllilega sambærileg. Ég hef ekki getað fengið fullnægjandi upplýsingar um það, en ég ætla, að hún sé nokkuð sambærileg, og má þá segja, að örlítið hafi verið komið til móts við byggingarsamvinnufélögin að þessu leyti. En það er alveg áreiðanlegt, að byggingarsamvinnufélögum hefur tekizt að byggja mjög ódýrar íbúðir, og ég þarf ekki að vitna í annað en það fjaðrafok, sem varð hér fyrir tveimur árum, þegar Byggingarfélag verkamanna og sjómanna gaf út yfirlýsingar sínar um það, hvað íbúðirnar við Reynimel hefðu kostað. Það varð að vísu mikið deilumál, og ég hef nú hvergi séð endanlegar niðurstöður þess, en ég hygg þó, að hvergi hafi komið fram áreiðanlegar heimildir fyrir því, að þar hafi verið rangt frá skýrt, og ég trúi því, a.m.k. þangað til annað sannast, að þessar íbúðir hafi verið byggðar ódýrt. Ég trúi því tæpast, að það hefði legið í láginni, svo mjög sem þessar framkvæmdir voru gagnrýndar, ef það hefði sýnt sig síðar, að hér hefði verið algerlega með staðlausa stafi farið.

Hv. heilbr.- og félmn. gerði það að till. sinni fyrir tveimur árum um þetta frv., að því yrði vísað til hæstv. ríkisstj., og rökstuðningur þess var sá, að heildarskoðun húsnæðismálalöggjafarinnar stæði yfir, og n. vísaði málinu til ríkisstj. í trausti þess, að heildarendurskoðuninni yrði hraðað og henni lokið á yfirstandandi ári og að við þessa endurskoðun yrði m.a. könnuð vandlega sú reynsla, sem fengizt hefur af starfsemi byggingarsamvinnufélaga og þætti þeirra við lausn húsnæðisvandamálanna með það fyrir augum að skapa byggingarsamvinnufélagsmönnum heilbrigðan og eðlilegan starfsvettvang til frambúðar. Þessi endurskoðun, sem hér er vikið að, mun hafa komið fyrst til tals í sambandi við samninga á árinu 1965. Og ég minnist þess, að þegar frsm. hv. heilbr.- og félmn., hv. 3. landsk. þm., var að gera grein fyrir þessari málsmeðferð hér fyrir tveimur árum, lét hann í ljós þá skoðun, að sú n., sem endurskoðunina átti að framkvæma, húsnæðismálastjórn, hefði þá þegar verið búin að hafa alveg nægilegan tíma til þessa starfs, og hann vænti þess og tryði því og legði raunar áherzlu á, að þessu væri hraðað, og tryði því að svo mundi verða gert. Og í þessu sama trausti samþykktu flm. þessa frv. þá málsmeðferð, að frv. yrði vísað til ríkisstj. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að á þessari heildarendurskoðun hefur ekkert bólað, og ég gerði þá fsp. til hæstv. félmrh. fyrir jól í fyrra á hv. Alþ., hvað þessari heildarendurskoðun liði, því að mig var farið að lengja eftir því, að eitthvað sæist frá n. um þetta mál. Svör hans voru þá þau, að það væri alveg verið að ganga frá lánveitingum samkv. gildandi kerfi. En um heildarendurskoðun eða yfirleitt nokkra endurskoðun var alls ekki rætt í hans svari, og það var ómögulegt að skilja mál hans á annan veg en þann, að ekkert væri að þessari endurskoðun unnið, og það hygg ég líka vera hið rétta. Það er ekkert unnið að þessari endurskoðun eða var ekki fyrir ári síðan. Svona málsmeðferð er vitanlega alveg fráleit, og það er ómögulegt að una því, að frv. manna um ekki ómerkari mál en aðstöðu byggingarsamvinnufélaga liggi í einhverri ótiltekinni endurskoðun árum saman uppi í stjórnarráði, og þess vegna er það, að við flm. teljum, að Alþ. verði að láta uppi einhverja afstöðu til þessa máls, þ.e. hvað vill Alþ., hvað vill hv. meiri hluti Alþ. gera í málum byggingarsamvinnufélaganna? Ég álít, að það sé spurning, sem hann verður að svara, og þess vegna er þetta mál flutt, og nú reynir á, hvort menn vilja samþykkja þetta frv. eða fella það. Það kemur vissulega til greina. En það kemur ekki lengur til greina að mínum dómi að fresta þessu máli af tylliástæðum eins og þeim, að það sé beðið eftir einhverri heildarendurskoðun húsnæðismálalöggjafar, sem vitað er, að ekkert er unnið að.

Um frv. sjálft skal ég vera stuttorður, þar sem það hefur áður verið rætt hér nokkuð. Þetta frv. er flutt óbreytt. Við meðferð þess hér fyrir tveimur árum komu fram nokkrar ábendingar frá hv. 3. landsk. þm., sem sumar eru, að ég hygg nú, þess eðlis, að sjálfsagt sé að taka þær að einhverju leyti til greina. En ég hef nú ekki farið út í það, eða við, að breyta frv. Það má alltaf gera það, enda voru þessar ábendingar ekki um neitt meginefni frv. En samkvæmt þessu frv. þá eru það þrjár eða fjórar meginbreytingar frá gildandi l., sem lögð er áherzla á, og þá auðvitað fyrst og fremst það, að það verði settar ákveðnar reglur um það, að það sé einhver aðili, sem er skyldaður til þess að kaupa ríkistryggð skuldabréf byggingarsamvinnufélaganna, því að öðrum kosti er þetta ákvæði um ríkisábyrgð mjög haldlítið, og það hefur verið náttúrlega þannig í framkvæmdinni, eins og allir þekkja, að þessi ríkistryggðu skuldabréf byggingarsamvinnufélaganna hafa gengið kaupum og sölum með óheyrilegum afföllum í mörgum tilfellum, og hefur þetta stórhækkað byggingarkostnaðinn að því leyti í mörgum tilfellum. Það þekkja allir. Því er gert ráð fyrir því í þessu frv., að Seðlabankanum sé skylt að kaupa ríkistryggð skuldabréf fyrir eigi lægri fjárhæð en 75 millj. kr. árlega. Hér er að vísu um mjög lága fjárhæð að ræða og sömu fjárhæð og var í þessu frv. fyrir tveimur árum, þó að síðan hafi skollið yfir tvær gengisfellingar og byggingarkostnaðurinn stórhækkað af þeim sökum. Þó höfum við samt ekki farið geystar í málið en þetta, að það er sama fjárhæð, sem Seðlabankanum hefur verið gert samkv. frv. að leggja fram í þessu skyni. Og þó að hér sé um lága fjárhæð að ræða, sem e.t.v. væri ástæða til að biðja afsökunar á, hversu lág hún er, þá mundi þó, ef þetta yrði að l., verða verulegur munur á aðstöðu byggingarsamvinnufélaga eftir en áður.

Annað nýmæli er hér í frv., sem skyldar sveitarstjórnir til að láta byggingarsamvinnufélög, sem starfa í viðkomandi sveitarfélagi, sitja fyrir um úthlutun lóða. Þetta er líka atriði, sem nokkurri gagnrýni sætti hér, þegar málið var síðast til meðferðar. Ég skal viðurkenna það, að eins og mál hafa skipazt nú með því getuleysi ýmissa aðila til þess að hefja byggingarframkvæmdir vegna þess ástands, sem ríkir í þjóðfélaginu, þá er þessi þörf í svipinn ekki eins brýn. Það eru í svipinn nægar lóðir hér í Reykjavík fyrir þá fáu aðila, sem treysta sér til að ráðast í byggingarframkvæmdir með þeim óheyrilega kostnaði, sem þeim fylgir nú. En þegar frv. var upphaflega flutt, þá var þessu ekki þannig hagað, og ég hygg og ég vona nú, að þetta ástand geti fljótlega skapazt, að það verði meiri eftirspurn eftir lóðum en framboð, og þá er að mínum dómi gott að hafa þetta ákvæði fyrir byggingarsamvinnufélögin, og ég viðurkenni það, að þessi forgangur er settur þarna vegna þeirrar trúar, sem við flm. höfum á þessu samvinnuformi, og ég get vel skilið það, að þeim, sem ekki trúa á samvinnu eða treysta henni til góðra hluta, þyki þetta ákvæði óþarft og þeir vilji fremur, að byggingarmeistararnir sitji fyrir um lóðir, eða a.m.k. séu jafnréttháir, en þetta er okkar skoðun, sem þarna kemur fram. Um hana má deila, en hún er sett þarna fram.

Eitt nýmælið enn er það, að láta bann l. við að selja íbúðirnar, nema stjórn byggingarsamvinnufélags hafi áður hafnað forkaupsrétti, aðeins gilda í 15 ár. Allir vitum við, að þetta bann hefur verið sniðgengið talsvert, og það má segja, að mönnum sé nokkur vorkunn, þó að þeim þyki það hart að þurfa að hlíta því að selja íbúðir sínar með kvöðum, einungis vegna þess að þær eru í byggingarsamvinnufélagi, þegar svo hefur verið ástatt, að félögin hafa verið lítils megnug um að veita þeim nokkra teljandi aðstoð. En ég tel sjálfsagt, að ef það yrði svo, að það væri verulega mikils virði að vera meðlimur í byggingarsamvinnufélagi og það kæmi veruleg aðstoð til greina vegna þess, að þá ætti þetta ákvæði að halda gildi og þá ætti að leggja áherzlu á, að þetta yrði framkvæmt, en hins vegar væri eðlilegt, að eftir 15 ár, svona um það bil, þegar öll lánagreiðsla þessa byggingarsamvinnufélags er gengin út og lán eru greidd upp, verði byggingarnar á ný eins settar og aðrar og yrðu þá seldar frjálsri sölu.

Það er eitt nýmælið enn, að byggingarsamvinnufélögin skuli undanþegin greiðslu opinberra gjalda, og ég hygg, að ég þurfi ekki að rökstyðja það. Það er svona enn ein fyrirgreiðslan við þetta félagsform, sem þetta frv. fer fram á.

Ég skal ekki, herra forseti, vera að eyða tíma þingsins í það að vera að rökstyðja hér mál, sem áður hefur verið mikið rætt, og skal þess vegna láta þessari ræðu lokið. Ég endurtek það, að hv. d. og hv. Alþ. verður að mínum dómi að segja til um það með þetta frv. eins og raunar öll, sem hér eru flutt, hvort það vill, að það nái fram að ganga eða ekki. En ég segi það fyrir mitt leyti, að ég vil ekki sætta mig við það enn á ný, að því sé slegið á frest með einhverjum ótilteknum ástæðum, sem ekki hafa svo við nein rök að styðjast.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.