05.03.1970
Efri deild: 51. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í C-deild Alþingistíðinda. (2828)

61. mál, sala Holts í Dyrhólahreppi

Frsm. meiri hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Frv. það til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja eyðijörðina Holt í Dyrhólahreppi í Vestur-Skaftafellssýslu, sem hér er til 2. umr., hefur landbn. fjallað um á nokkrum fundum, en ekki náð samstöðu um afgreiðslu þess, eins og kemur fram í nál. meiri hl. n. á þskj. 301. Landbn. hafði frv. shlj. þessu til athugunar á síðasta þingi og aflaði sér þá umsagna um málið frá landnámsstjóra og jarðeignadeild ríkisins, og að þeirri athugun lokinni lagði meiri hl. til, að sala umræddrar jarðar skyldi ekki heimil. Við umr. um frv. þá, kom það m.a. fram hjá fylgjendum frv., að skipti forstöðumanns jarðeignadeildarinnar og Jóhönnu Sæmundsdóttur og sona hennar hefðu verið með þeim hætti, að ekki væri undir því búandi að óbreyttu. Einnig hefði landbn. borizt bréf, sem Hörður Þorsteinsson og Einar Þorsteinsson, synir Jóhönnu, höfðu skrifað landbn. Nd. Alþ. hinn 14. jan. 1968, en þá var þetta frv. borið fram í hv. Nd. Af því, sem hér hefur verið sagt, þótti n. rétt að kanna þetta mál enn frekar en gert var í fyrra. Ég vil því leyfa mér að vitna til þessara bréfa, og í því bréfi, sem barst frá Herði Þorsteinssyni og Einari Þorsteinssyni, segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og við gerðum grein fyrir í greinargerð um kaupbeiðni móður okkar, hefur jarðeignadeild ríkisins staðið í útbyggingu, lögbanni og langvarandi málaferlum við móður okkar og okkur bræður sem forsvarsmenn aldraðrar móður.“ Enn fremur segir í þessu sama bréfi: „Herra Sveinbjörn Dagfinnsson, sem er forstöðumaður jarðeignadeildar ríkisins, á eftir einn möguleika til að koma hefndum fram á okkur, og hann vill halda þeirri leið opinni, eins og bréf hans frá 27. nóvember s.l. ber með sér. Sá möguleiki er, að þegar móðir okkar fellur frá, getur hann tekið af okkur jörðina, og af tilvitnunum í skrif bóndans í Álftagróf má ráða, að hann mundi kannske taka við Holtinu.“

Með hliðsjón af þeim ummælum, sem ég hef hér rakið, þótti n. rétt að rannsaka þessi skipti frekar og óskaði eftir upplýsingum frá forstöðumanni jarðeignadeildarinnar, Sveinbirni Dagfinnssyni, um gang þessara mála, og gaf hann n. þær í bréfi, og einnig svaraði hann spurningum, sem einstakir nm. óskuðu að fá svör við varðandi umrædd skipti. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, kynna hér hið skriflega svar forstöðumannsins, og er það á þessa leið:

Hæstv. landbn. Ed. hefur með bréfi, dags. 20. nóv. s.l., óskað upplýsinga um skipti notenda Holts og jarðeignadeildar ríkisins, þar á meðal málaferli þau, sem rekin eru gegn jarðeignadeildinni af leigutaka. Ríkissjóður eignaðist Holt í Dyrhólahreppi árið 1935, og þar bjó seljandi jarðarinnar, Þorsteinn Einarsson, áfram, þar til hann fluttist að Nikhóli í sömu sveit árið 1943. Eftir það var Holtið nytjað frá Nikhóli. Eftir lát Þorsteins hélt ekkja hans, Jóhanna Sæmundsdóttir, jörðinni til ársins 1953, að henni var sagt upp notum hennar, þar sem byggja átti jörðina í varanlega ábúð. Sonur Jóhönnu hóf allt að einu að nytja jörðina sumarið 1953, og var þá lagt lögbann við þeim notum. Lögbannið var niðurfellt með dómi Hæstaréttar í maí 1956 á þeim rökum, að fyrrv. umboðsmaður ríkisjarða í Dyrhólahreppi hefði gefið þeim hjónum, Jóhönnu og Þorsteini, fyrirheit um afnot Holts í lífstíð þeirra. Síðan sá dómur féll hefur Hörður Þorsteinsson fyrir hönd móður sinnar haft öll not af Holti og gerir enn. Frá 1956 og til þessa dags hafa af hálfu jarðeignadeildarinnar engin afskipti verið af Holti eða notum Nikhólsheimilisins af jörðinni.

Í september árið 1960 hóf Hörður Þorsteinsson fyrir hönd Jóhönnu Sæmundsdóttur málaferli gegn ríkissjóði og krafðist skaðabóta að fjárhæð 427500 kr. fyrir afnotamissi af Holti árin 1953–1956. Bótakröfur stefnanda voru síðar hækkaðar í 449113 kr. Samkv. skattframtölum voru árstekjur Jóhönnu af búrekstri í Nikhóli með Holti undir síðasta árið, áður en hún missti afnot Holts 24718 kr., tekjur Harðar 7946 kr. og Einars 14446 kr. Með dómi aukadómþings í Skaftafellssýslu nú í nóv. var kröfu stefnanda vísað frá héraðsdómi.

Jarðir þær, sem næst liggja Holti, eru Fell og Álftagróf. Beitiland Holts og Álftagrófar eru sameiginleg, en búsmali allra jarðanna mun ganga saman. Á Álftagróf, en sú jörð liggur næst Holti, býr Tómas Lárusson og hefur rekið þar búskap í rösk 35 ár. Tómas ber mikinn ugg í brjósti, verði eigendaskipti að Holti. Telur hann búskap í Álftagróf með því stefnt í voða og telur, að það kunni að valda því, að hann hætti búskap í Álftagróf.

Það er eindregin skoðun mín, að það sé andstætt hagsmunum ríkisins að sleppa eignarhaldi á Holti, meðan næstu jarðir, Álftagróf og Fell, eru ríkiseign, m.a. vegna sameiginlegra nota af útlandi jarðanna. Jafnframt tel ég, að það ástand geti haldizt áfram, nema sérstakar aðstæður breytist, að ábúendur Nikhóls hafi leigunot af Holti innan þeirra marka, sem ákvörðuð yrðu í leigusamningi. Ég er reiðubúinn að mæta á fundi n., þegar óskað verður, og skýra betur sjónarmið mín og gefa þær upplýsingar, sem um verður beðið varðandi þetta mál.“

Þetta er hið skriflega svar forstöðumanns jarðeignadeildarinnar. Þá kom það fram, í viðræðum n. við forstöðumann jarðeignadeildarinnar, að athugun hafi verið gerð á því, hvort unnt hefði verið að koma á sættum í málum þessum, sem lýst hefur verið hér að framan, en sækjendur málsins töldu það ekki koma til greina.

Þær niðurstöður, sem meiri hl. n. hefur komizt að eftir að hafa fengið þessar upplýsingar, eru þessar:

1. Þær forsendur, sem til þess lágu, að jörðin var keypt og ábúð var felld niður, eru enn í fullu gildi, sbr. umsögn landnámsstjóra og sem einnig sannaðist m.a. af því, að á s.l. sumri hljóp Klifandi úr farvegi sínum og braut varnargarð og skemmdi nytjalönd.

2. Jarðirnar Álftagróf og Holt eiga sameiginleg og óskipt heimalönd og heiðalönd, sem torvelt er að skipta og nærri ógerlegt að girða sundur vegna brattlendis, og því er nauðsynlegt að hafa nokkurt vald á hagnýtingu landsins, þar sem jafnan má vænta árekstra í óskiptum löndum og það því fremur, þar sem landþrengsli eru.

3. Jarðeignadeild ríkisins hefur ekki efnt til málareksturs á hendur Jóhönnu Sæmundsdóttur og sona hennar, en hins vegar leyft þeim leiguafnot af Holti gegn vægu gjaldi, eða 135 kr. á ári.

4. Þá var upplýst á fundi n. með forstöðumanni jarðeignadeildarinnar, að Jóhanna Sæmundsdóttir og sonur hennar, Hörður, gætu áfram haft leiguafnot af Holti.

5. Þegar Jóhanna Sæmundsdóttir óskaði eftir því við sýslunefnd Vestur-Skaftafellssýslu, að n. mælti með því, að Jóhanna fengi jörðina keypta, þá fékkst sýslunefndin ekki til þess að taka afstöðu til málsins. Og þegar sams konar beiðni var lögð fyrir hreppsnefnd Dyrhólahrepps, þá klofnaði nefndin og fékkst ekki um það samstaða. Má af því draga þá ályktun, að í heimabyggð sé sala jarðarinnar ekki talin eðlileg og sjálfsögð.

6. Umsagna landnáms ríkisins og jarðeignadeildar ríkisins var leitað um frv., og mæltu báðar stofnanirnar gegn því, að heimild væri veitt til sölu jarðarinnar.

Með vísun til alls þessa leggur meiri hl. til, að frv. verði fellt.