09.03.1970
Efri deild: 52. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í C-deild Alþingistíðinda. (2830)

61. mál, sala Holts í Dyrhólahreppi

Frsm. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki þreyta hv. þdm. með því að rifja upp sögu þessa máls, því að það er kunnugt hér í d. frá því í fyrra, og raunar hefur það miklu oftar borið á góma hér á Alþ., þó að aldrei hafi Alþ. borið gæfu til þess að afgreiða það með nokkrum hætti til þessa. Við hv. 4. þm. Sunnl. flytjum þetta mál. Það er um að heimila ríkisstj. að selja Jóhönnu Sæmundsdóttur jörðina Holt í Dyrhólahreppi, þar sem hún bjó um áraraðir og var eigandi jarðarinnar ásamt manni sínum, þar til ríkið keypti jörðina, vegna þess að sú ályktun lá fyrir, að jörðin mundi ekki verða byggileg vegna framkvæmda, sem ríkið eða vegagerð ríkisins lét framkvæma með því að veita saman tveimur stórum ám í nágrenni Holts til þess að brúa þær í einu lagi á þjóðveginum. Það var ekki í þágu þeirra hjóna, að þau urðu að víkja af jörðinni. Ríkið var að firra sig skaðabótum með því að bjóða þeim að kaupa jörðina og gerði það. Hins vegar fengu þau ábúðarrétt eða afnotarétt af jörðinni, þótt þau flyttu sig yfir á annað býli í sama hreppi. Nú hefur það komið upp úr dúrnum, að ágangur vatns á þessa jörð varð ekki slíkur sem menn óttuðust, og Jóhanna, sem býr ásamt syni sínum á Nikhóli í Dyrhólahreppi, sækir það fast að fá jörðina keypta að nýju.

Á s.l. ári voru það röksemdir, sem hv. meiri hl. landbn. færði fram fyrir þeirri skoðun sinni á málinu, að ríkið ætti ekki að selja þessa jörð, að hún lægi á milli annarra jarða, sem ríkið ætti, og það væri í þágu ríkisins hentugt að eiga þessa jarðartorfu óskipta.

Við, sem minni hl. skipum, tókum þessar röksemdir nú ekki alveg alvarlega, sökum þess að hvergi annars staðar höfðum við orðið þess varir, að nm. þessir eða ríkisstj. sem slík, en þeir eru stuðningsmenn hennar, hefði uppi þá stefnu í jarðeignamálum, að ríkið ætti að draga undir sig eða halda í sinni eigu jörðum fyrir það eitt, að þær væru svo vel fallnar til búreksturs, held þær jarðir, sem ríkið vildi eignast eða með engu móti láta af hendi. Það er ævinlega bundið við önnur atriði, vegagerð, flugvallargerð o.s.frv., en að ríkið legði kapp á að hafa eignarhald á jörðum til búreksturs, það hef ég hvergi annars staðar orðið var við nema í þessu máli.

Enn kom málið fyrir á Alþ., og því var vísað til landbn. Þar urðu allmiklar umr. um það, kannske í sérstöku tilfelli af því, að þessi hv. d. samþykkti málið í fyrra og hv. landbn. Nd., meiri hl. hennar, gaf út nál. um það í fyrra líka og mælti með því, að það yrði einnig samþykkt þar. Engu að síður dróst afgreiðsla málsins þar úr hömlu, svo að málið dagaði uppi á síðasta þingi, kannske fyrir þær sakir, að áhugi einhverra aðila málsins hefur nú verið meiri en búskaparáhuginn einn. Í n. sjálfri hefur reyndar ekki verið haldið fram neinni annarri skýringu en þeirri, sem áður hafði fram komið. Hún hefur að vísu verið flutt þar af utanaðkomandi aðilum, en hv. meiri hl. landbn. hefur nú tekið nýtt atriði upp í röksemdafærslu sína á nál. um, að ríkið eigi ekki að setja fyrri eigendum og ábúendum neinn kost á að kaupa jörðina að nýju vegna allt annarra atriða en áður hafa komið fram á plöggum hér í þingi. Það er sem sagt sagt það, sem segir í nál. meiri hl. landbn., að jarðirnar Álftagróf, sem er ríkisjörð, og Holt eiga sameiginleg og óskipt heimalönd og heiðalönd, og gengur búsmali jarðanna saman. Bóndinn í Álftagróf, sem þar hefur búið í tæp 40 ár, hefur sent landbrn. bréf, sem Alþ. hefur borizt ljósrit af, þar sem hann telur, að búskap hans í Álftagróf sé stefnt í svo mikinn voða, að hann muni segja ábýlisjörð sinni lausri, verði Holt selt. Upplýst er, að eignir ábúandans í Álftagróf í mannvirkjum eru miklar, og ríkissjóður er að lögum sem jarðareigandi skyldur að kaupa þær, standi ábúandinn upp af jörð sinni. Þetta eru rökin í ár gegn því að selja þeim, sem hafa nytjarétt og nytja Holtið, þá jörð.

Ég verð nú að segja það sama um þetta eins og fyrr, að búskaparhugmyndir ríkisstj. og hv. meiri hl. landbn. þessarar d. gegn því að selja þessa jörð eru nú þannig, að mér finnst þeir ekki frambærilegir. Ábúandinn í Álftagróf hefur búið þar í tæp 40 ár. Skyldi hann ekki hvort eð er fara að bregða búi? Það er ekki mjög algengt, að menn búi miklu lengur en þann tíma, enda mun hann vera orðinn maður við aldur, svo að það er ákaflega hætt við, að ríkið mundi einhvern tíma lenda í því að þurfa að standa frammi fyrir þeirri staðreynd, að hann ætlaði að bregða búi, og það er eins og hv. meiri hl. n. hafi hugsað sér að þráast við í lengstu lög, að ríkissjóður þurfi að gegna jarðeigendaskyldum sínum á þessari jörð, og það eru nú rökin fyrir því, að ekki megi selja allt aðra jörð. Ég verð rétt að segja það, að ekki finnst mér þetta sannfærandi rök frekar en þau fyrri, sem flutt hafa verið í þessum efnum.

Minni hl. landbn. leggur til sem áður, að frv. verði samþ. og væntir sér stuðnings meiri hl. þessarar hv. þd. við það eins og áður, enda þótt skeleggasti fylgismaður minni hl. í þessari n. frá því í fyrra sé því miður fallinn frá.

Varðandi röksemdafærslu fyrir því, að þessa jörð eigi ekki að selja, vil ég enn taka fram, að Holt er sérstakt lögbýli og engin leið að rugla því saman við aðra jörð. Þar er annar ábúandi. Nytjarnar eru sundur skildar annað en það, að búsmali gengur saman í högum og sumt af heimalöndum er sameiginlegt, en það gefur ekki og hefur aldrei gefið bóndanum í Álftagróf neinn rétt til þess að nytja Holt, og það, að hann muni verða að standa upp af jörð sinni og hætta búskap, ef Holt yrði selt, er ég í miklum vafa um, að eigi við nokkur rök að styðjast. En ef svo væri, þá er ekki fráleitt að láta sér detta í hug, að það sé orsök að þeim nábúakryt, sem þarna er uppi. En ekki get ég séð, að það ættu að vera rök þess eðlis að gera þeim gömlu ábúendum og eigendum Holts erfiðara fyrir um að kaupa þá jörð.

Enn fremur er það sett fram sem rök fyrir því, að ríkið eigi ekki að láta jörðina Holt ganga úr sinni eigu, að landeigandi hafi miklar skyldur og kannske skaða af viðskiptum við ábúendur í Álftagróf. Mér sýnist þetta ekki vera röksemdir, sem mæla með því, að ríkið eigi að sækja það mjög fast að vera jarðeigandi á þessum slóðum a.m.k. En hvað um það, nú er ljóst orðið, að rökin, sem notuð eru til að mæla gegn samþykkt þessa frv., eru breytileg frá ári til árs, og ég verð rétt að segja það, að ekki sýnast mér rökin í ár vera meir sannfærandi en þau, sem illa dugðu meiri hl. n. í fyrra.