10.11.1969
Efri deild: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í C-deild Alþingistíðinda. (2846)

73. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Frv. það til l. um breyt. á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sem liggur hér fyrir á þskj. 82, er flutt af okkur fjórum framsóknarmönnum í þessari hv. d.

Um það munu flestir samdóma, að húsnæðismálin hjá okkur eins og öðrum þjóðum séu svo umfangsmikil og fjármagnið, sem varið er og hefur verið varið til íbúðabygginga svo stórfellt, að þau megi teljast eitt höfuðatriði efnahagsmála okkar. Einstaklingum er það oftast erfiðasta verkefnið að koma sér upp húsnæði og sá baggi er þeim hinn þyngsti, sem þeir bera, jafnvel á lífsleiðinni. Það er því ekki að undra, þótt þessi mál séu í sviðsljósi og að þeim beinist áhugi manna og þá sérstaklega unga fólksins. Lausn þessa mikla verkefnis með sem hagkvæmustum hætti hverju sinni er, þegar alls er gætt, ein af meginforsendum þess, að þjóðinni lánist að komast fram til bættra lífskjara.

Í húsnæðismálunum hefur á undanförnum árum, eins og alkunna er, misjafnlega til tekizt þrátt fyrir góð áform. Hvað sem því líður, höfum við öðlazt þá reynslu, að af henni má ýmsa lærdóma draga, sem verður að færa sér í nyt. Húsnæðismálalöggjöfina her að endurskoða í því ljósi, og því hefur verið heitið af stjórnarvöldunum, að svo skyldi gert. En til enda, veit ég ekki til, að hafi komið enn þá. Eitt er fullvíst, að hinn rauði þráður í sögu húsnæðismálanna og framkvæmd þeirra er sú staðreynd, hversu báglega hefur tekizt að ná því marki, sem stefna skyldi að, þ.e. að leysa húsnæðisþörf landsmanna með sem haganlegustu móti og minnstum tilkostnaði. Þrátt fyrir velviljaðan ásetning hefur öndvert gengið. Sífellt hefur ríkt tilfinnanlegur húsnæðisskortur. Í byggingarmáta hefur allt of mjög gætt óhófs og jafnvel prjáls, og svo hefur fjármagnsskorturinn þjakað allt byggingakerfið. Er svo komið hjá okkur, að þessi mál eru ein af meginorsökunum fyrir sívaxandi verðbólgu, þ.e.a.s., hvernig þeim er komið og hvernig hefur um marga þætti þess verið á haldið. Og okkur er meira en lítil hætta búin, ef svo heldur fram í þessu efni, sem verið hefur, og hér er kannske um að tefla einn veikasta hlekkinn í þjóðfélagsbyggingu okkar. Við það verður ekki miklu lengur búið, að svo skuli háttað í húsbyggingarmálum okkar, að ævinlega verði þeim samfara drápsklyfjar skulda, sem endalaust kvelja alla þá, sem meðaltekjur hafa, svo að ekki sé talað um láglaunafólk. Þessir hópar eru ærið fjölmennir og erfiðleika þeirra gætir tilfinnanlega með allri þjóðinni. Þessi mál verður því að taka nýjum og fastari tökum og líta þá til reynslunnar og vinna að því með öllum tiltækum ráðum, að framkvæmd þeirra verði í sem fyllstu samræmi við yfirlýsta og margyfirlýsta stefnu löggjafans um byggingu hóflegra íbúða á hagstæðu verði.

Þegar meta skal, hver ráð séu til lækkunar byggingarkostnaðar, kemur að sjálfsögðu margt til álita. En stærsti vandinn er auðvitað fjármagnsskorturinn, og svo þarf einnig að komast yfir þá tregðu, og jafnvel mætti segja sinnuleysi, sem allt of oft hefur ríkt um framkvæmd þeirra ákvæða löggjafarinnar, þar sem Húsnæðismálastofnuninni er beinlínis fyrirskipað að vinna að umbótum í byggingarmálum og lækkun á byggingarkostnaði eftir margháttuðum leiðum, sem löggjafinn nánar tilgreinir.

Við framsóknarmenn höfum lagt fram till., sem stefna í þá átt að afla fjármagns til byggingarframkvæmda og enn fremur í þá átt að létta undir með lántakendum. Þessar till. liggja hér fyrir í frv.-formi. Margar þeirra hafa áður legið hér fyrir hv. Alþ. og um þær nokkuð rætt, en þær hafa ekki komizt lengra áfram en til n. Þessar fjáröflunartill. byggjast eðlilega á auknum sparnaði, þannig að fjármunaráðstöfun almennings geti öðrum þræði komizt í þann farveg, sem leiða mætti til margvíslegra uppbyggjandi framkvæmda. En þetta er aðeins einn þáttur hins mikla vandamáls, en þó sá, sem getur haft víðtækt gildi og varanlegt í þjóðarbúskapnum, ef sæmilega tekst til í því skyni að lækka til muna byggingarkostnað og auðvelda þar með fólki að koma sér upp íbúðareign og halda henni síðan með bærilegu móti.

Sérfræðingar telja, að hjá okkur hafi vantað á tímabilinu frá 1960–1967 nærfellt 2000 íbúðir til að fullnægja áætlaðri þörf. Efnahagsstofnunin telur íbúðaþörfina 1967–1971 að meðaltali 1725 íbúðir á ári. Ef meðalstærð hverrar íbúðar væri 390 teningsmetrar, yrði kostnaðarverð, miðað við byggingarvísitöluna eins og hún var í júlí 1969, þ.e.a.s. 3889 kr. á teningsmetra, þessarar meðalibúðar 1 millj. 516 þús. kr. Í sambandi við þessar tölur, sem ég greindi áðan, má kannske reikna með því, að þessi áætlun um íbúðarfjölda árlega sé í hæsta lagi, vegna þess að það er vitað, að íbúafjöldinn hefur ekki aukizt, eins og áætlað var eða reiknað var með. En með því að ekki er um svo langt árabil að ræða, 1967–1971, er óvíst, að hin hæga íbúafjölgun miðað við það, sem áætlað var, hafi veruleg áhrif á þessar tölur. Og fjárfesting í 1725 íbúðum miðað við verðlag á miðju þessu ári mundi því nema alls um 2615 millj. kr.

Nú eru áætlaðir lánamöguleikar byggingarsjóðs um 470 millj., og verði ekki tekjustofnar sjóðsins auknir fram yfir það, sem nú er, þá er auðsæilega vís voði á ferð. Nú ætla ég að leyfa mér að íhuga, hvernig húsnæðismálin standa eða kunna að standa í byrjun júlí á næsta ári, og þá sýnist þetta koma í ljós:

1. Allir þeir, sem fá fyrri hluta láns eftir 1. nóv. 1969, og þeir, sem fá það eftir 1. febr. 1970, eiga ófenginn síðari hluta lánsins.

2. Þeir, sem eigi hafa skilað vottorði um fokhelt fyrir árslok 1969, enda þótt þeir hafi sótt um lán fyrir 16. marz 1969, hafa ekki fengið úrlausn.

3. Þeir, sem sótt hafa um lán frá 15. marz 1969 til og með 30. júní 1970, eru óafgreiddir.

Nú er ekki unnt að segja fyrir um það, hversu margir lánagreiðendurnir eru. En það má ætla, að tala þeirra gæti nálgazt 2000. Og þegar þessa er gætt, þá sýnist fjármagnsskorturinn vera kringum 900 millj. kr., eins og er, ef hér er rétt með farið. Það fer þess vegna ekki á milli mála, hversu brýna nauðsyn ber til þess að stórauka útlánagetu byggingarsjóðsins, enda hefur það verið okkur öllum fullljóst og það fyrir löngu, að mjög hefur á það skort, þótt sigið hafi nokkuð á hina verri hlið og það allverulega. Og þetta á ekki aðeins við um næsta ár. Ískyggilegar horfur eru í þessu efni á næsta ári, og að óbreyttu á þetta við um langa framtíð. Þess vegna verður fjármögnun að sjálfsögðu að koma til og það í ríkum mæli.

Ef við tökum þetta mál frá atvinnulegu sjónarmiði, þá er það ekki síður nauðsynlegt að halda uppi byggingarstarfsemi, og þess vegna er þetta mjög mikilvægt að því leyti og enn fremur, að byggingarstarfsemin verði sem jöfnust frá ári til árs. Á því er geysimikil þörf, eins og við vitum öll, og sízt má vera um samdrátt í þeirri starfsemi að ræða á tímum atvinnuleysis. Þá ætti ekki aðeins að sinna íbúðarhúsabyggingum fram yfir það, sem verið hefur, heldur og líka öðrum byggingum, t.d. á vegum hins opinbera, en það er annað mál.

Skoðun okkar framsóknarmanna er sú, að þessi fjármögnun, sem nauðsyn er á til byggingarsjóðs, eigi að koma með auknum sparnaði, enda vísast og það vitum við öll jafn vel, að fram kvæmdir yfirleitt eiga sér ekki stað, nema til komi sparnaður í einhverri mynd. En þegar talað er um sparnað nú á tímum, þá hlýtur maður að leiða hugann að því, hverjar líkur séu til þess, að hægt sé að koma sparnaði á, þegar svo hefur gengið sem raun er á undanfarið. Það hefur ekki farið fram hjá neinum, að gegndarlaus verðbólga ásamt margítrekuðum gengisfellingum er að sjálfsögðu lítt til þess fallin að halda uppi, hvað þá heldur að ýta undir sparnaðarviðleitni almennings. Margvísleg óhófseyðsla, svo og ótímabær og fljótræðisleg fjárfesting, ekki aðeins einstaklinga, heldur og ekki síður fyrirtækja og hins opinbera á liðnum árum sýnir glögglega flótta fólksins undan verðbólgueldinum. Hér skulu þessi viðbrögð fólksins sízt átalin út af fyrir sig. Þetta er ill afleiðing af rangsnúinni stjórnarstefnu. Hér er yfirleitt um sjálfsvörn fólksins að ræða gegn áþján, sem almenningur á minnsta sök á.

Með þeim verðtryggingum og öðrum hlunnindum, sem fylgja ættu þeirri skuldabréfa- og vísitölutryggðu spariskírteinasölu á vegum byggingarsjóðs, sem till. okkar framsóknarmanna gera ráð fyrir, mætti ætla, að dregið gæti eitthvað úr og jafnvel að einhverju leyti komið í veg fyrir það tjón, sem verðfall peninga og verðbólga kynni annars að valda sparifjáreigendum, og ynnist þá tvennt í senn. Þessar fjáröflunarleiðir, sem frv. okkar á þskj. 82 fjallar aðallega um, eru þekktar með nágrannaþjóðum okkar, og hafa þær sumar farið svipaðar leiðir í þágu íbúðalánakerfis hjá sér og þær taldar hafa gefizt vel. Vil ég nú í nokkrum orðum rekja þessar till. okkar.

Í 1. gr. frv. er það lagt til, að lán Byggingarsjóðs verði afborgunarlaus þrjú fyrstu árin í stað eins árs og lánstíminn verði lengdur úr 26 árum í 35 ár. Í öðru lagi, að vísitölubinding á vöxtum af þessu lánum falli til fulls niður. Það er verulegur ávinningur að hyggju okkar flm. frv. Hins vegar þykir okkur ekki rétt á þessu stigi að gera till. um, að vísitölubinding á afborgunum, eins og á stendur, verði látin falla niður. Eins og okkar till. er háttað, væri það ekki fullkomlega eðlilegt og einnig með hliðsjón af byggingarsjóðskerfinu, eins og því er fyrir komið og það hefur verið byggt upp. Hins vegar erum við að sjálfsögðu fylgjandi því, að bindingin verði felld niður, eins fljótt og auðið er, og við höfum trú á því, að eigi líði langur tími, þar til ráðizt verði að verðbólgunni og það af einbeitni og heilum hug og í raun og veru leysist þá þessi vandi og margur annar, sem við er að etja í efnahagsmálum okkar. Og það verður að segja eins og er, að vísitöluuppbyggingin, sem upp kom eftir samkomulagið 1964 milli ríkisstj. og verkalýðsfélaganna, hafi byggzt fyrst og fremst á því, að alvarleg tilraun yrði af ríkisstj. hálfu gerð til þess að ráða niðurlögum á verðbólgunni eða koma í veg fyrir, að hún ykist a.m.k. Það hlýtur að hafa verið meginforsenda samkomulagsins að þessu leyti.

Í 1. gr. frv. segir, hverja þóknun Veðdeild Landsbankans, sem vinnur á vegum Byggingarsjóðs, eigi að fá í staðinn fyrir að greiða fyrir þessum lánamálum. Leggjum við til, að vísitölubinding sú á 1/4% af lánsfjárhæðinni, sem Landsbankinn fær, verði að fullu felld niður. Þessar brtt. okkar í sambandi við 1. gr., teljum við, að stefni að nokkru að því að létta undir með lántakendum.

Þá komum við að 2. gr. þessa frv. Þar er lagt til, að hafin verði verðbréfasala á vegum Byggingarsjóðs með vissum hætti. Nú er það vitaður hlutur, að verðbréfasala hér á opinberum markaði hefur hvergi nærri gengið vel og eiginlega verið í ófremdarástandi. Annars staðar í vestrænum heimi hefur verðbréfasala haft þjóðhagslega mikilvæga þýðingu á fjölmörgum sviðum innan efnahagslífsins. En svo hefur ekki verið hjá okkur enn þá. Með því að leggja til, að þessi skuldabréf verði vísitölutryggð til fulls og auk þess, að andvirði bréfa að vissu marki megi draga frá skatt- og útsvarsskyldum tekjum, ætlum við, að fólk mundi fremur leggja í það að kaupa slík bréf en ella. Þessi bréf verði með samsvarandi vöxtum og samskonar vísitölubindingum og útlán frá byggingarsjóðnum. En það er að sjálfsögðu erfitt að segja fyrir um það, hvernig þessi sala kynni að ganga og hvort hún mundi auka fjármögnun íbúðalánakerfisins, þrátt fyrir það, að fjölmargir einstaklingar og jafnvel fyrirtæki í okkar landi hafi ríka þegnskapartilfinningu og vildu gjarnan stuðla að góðu málefni. Þætti e.t.v. sumum fulllangt gengið að kaupa bréf til 35 ára. En á hitt má þó líta, að slík bréf, sem væru ríkistryggð, væri hægt að nota sem handveð, ef nauðsyn krefði, og þess vegna gætu þau orðið býsna haldgóð og raunar mikils virði. Vísitölutryggingin, og ég tala ekki um frádráttinn frá útsvars- og skattskyldum tekjum, hlyti að höfða til æði margra, enda þótt bréfið yrði að telja til eignar og grunnvexti af því til tekna. Eins og ég sagði áður, hefur leið lík þessari verið farin annars staðar og talin hafa gefizt vel.

Í öðru lagi leggjum við svo til, að á vegum Byggingarsjóðs ríkisins fari fram sala á sparifjárskírteinum, og um það er sama að segja og skuldabréfin, að þau eiga að vera vísitölutryggð á sama hátt og lánsfé sjóðsins og með sams konar vöxtum. En þá kemur líka til greina, að eigendum slíkra skírteina eru tryggð mikilsverð hlunnindi. Þeir eiga að hafa forgang að lánum til bygginga eða kaupa á íbúð. Þeir eiga einnig rétt til 21% hærra láns en venjulegu láni nemur hjá Byggingarsjóði, og skilyrði eru sett um lágmarkskaup skírteina. Og ef menn vilja losna við skírteini af þessu tagi, þurfa þeir að tilkynna með árs fyrirvara til Byggingarsjóðs eða Veðdeildar, að þeir óski eftir því að leysa þau til sín og fá þá peningagreiðslu í stað þeirra. Þessi langi tími er náttúrlega til þess að tryggja Byggingarsjóð, að hann missi ekki af fjármununum svo fljótt sem annars væri. Og við flm. teljum, að ekki sé óeðlilegt að hafa svo langan frest, til þess að selja megi bréfin aftur til veðdeildarinnar eða Byggingarsjóðs.

Þá hef ég rætt um 2. gr. þessa frv. okkar, sem felur í sér tvær leiðir til fjáröflunar fyrir Byggingarsjóð ríkisins. Þá vildi ég fara nokkrum orðum um 4. gr. frv. Á árinu 1965 var í sambandi við kjarasamninga gert samkomulag um húsnæðismálin milli ríkisstj. og verkalýðsfélaganna. Þá var ákveðið, að hefja skyldi byggingu íbúða í Reykjavík samkv. áætlun. Þeir félagsmenn í verkalýðsfélögum, sem keyptu þessar íbúðir, skyldu eiga kost á allt að 80% lánum út á verðmæti íbúðanna. Það var gert ráð fyrir því, að veitt yrðu lán úr Byggingarsjóði ríkisins út á þessar íbúðir, er samsvöruðu lánum, sem aðrir húsbyggjendur fengju úr þessum sama sjóði. Að öðru leyti skyldi ríkisstj. útvega fjármagn til framkvæmdanna. Þannig höfum við flm. skilið ákvæði þessa samkomulags. — Og þá var tekið fram, að samið yrði við Atvinnuleysistryggingasjóð um lánveitingar út á þessar íbúðir og kæmu þau lán til viðbótar lánum frá Húsnæðismálastjórn.

Byggingarframkvæmdir hófust svo samkv. þessari áætlun í apríl 1967, og húsunum var valinn staður í Breiðholti í Reykjavík. 1. áfanga þessarar áætlunar mun nú vera lokið. Í þessu hverfi, Breiðholtshverfi, hafa risið upp 335 íbúðir, og heildarkostnaðurinn, eins og hann er talinn vera nú í dag, mun nema 396 millj. kr. Vegna þessara framkvæmda hefur Byggingarsjóður lagt út tæpar 281 millj. Miðað við venjuleg lán hefði sjóðurinn átt að lána 154 millj. kr. Vegna þessara Breiðholtsframkvæmda hefur Byggingarsjóður ríkisins 127 millj. kr. minna til úthlutunar innan hins almenna veðlánakerfis Byggingarsjóðs. Þessi geysilega skerðing á fjármunum Byggingarsjóðs hefur náttúrlega valdið því, að ekki hefur reynzt unnt að fullnægja nema takmörkuðum hluta af eftirspurn þeirra lána, sem áttu raunverulega að geta gengið fyrir sig eftir reglum hins almenna veðlánakerfis, og þetta hefur þannig valdið alvarlegu tjóni mörgum húsbyggjanda, því að ekki hefur komið til lána til þeirra, vegna þess að Byggingarsjóður hefur lagt svo mjög af mörkum fram yfir það, sem eðlilegt má teljast miðað við húsnæðismálakerfið í heild. Til þess nú að bæta úr þessu og Byggingarsjóður geti fengið þessar 127 millj. m.a., þá gerum við till. um það, að framkvæmdanefnd byggingaráætlunar endurgreiði Byggingarsjóði það fé, sem hann hefur varið til framkvæmda í Breiðholti umfram venjuleg íbúðarlán, enda úthluti svo Húsnæðismálastjórn síðar þessu fjármagni eftir þeim venjulegu leiðum, sem farnar eru í veðlánakerfinu. En till. okkar um það, hvernig framkvæmdanefndin á að fá það fé í hendur, svo að hún geti greitt það til Byggingarsjóðs, er á þá leið, að ríkissjóði sé skylt að afla þessa fjár til fulls og láta það af hendi til framkvæmdanefndar, svo að hún geti staðið í skilum með það fjármagn, sem þannig hefur verið greitt úr Byggingarsjóði fram yfir það, sem eðlilegt má kalla, og fram yfir það, sem talið var, að vera ætti eftir samkomulaginu frá 1965 að dæma, sem ég hef rakið hér.

Þessar eru þá okkar till. á þessu stigi í sambandi við þessi mál öll, og ég hef rakið hér lítillega till. í höfuðdráttum. Ég vænti þess, að hv. d. sjái það, að hér þarf að stinga við fæti og eitthvað að gera, og komi fram till., sem teljast líklegri til þess að greiða úr þessum mikla vanda, þá mun ekki standa á okkur framsóknarmönnum að fylgja þeim, en þær till. hafa enn ekki legið fyrir og enda engar till. í fjáröflunarátt legið fyrir, að því er þetta varðar, nema frá okkur framsóknarmönnum. Að okkar áliti er það tilraunarinnar virði að stofna til fjáröflunar eftir þeim leiðum, sem í till. okkar greinir. Hinn alvarlegi fjárskortur Byggingarsjóðs og hin knýjandi lánsfjárþörf allra þeirra, sem brjótast í því að koma þaki yfir höfuð sér og sinna, knýr svo fast á, að það verður eigi hjá því komizt fyrir ríkisvaldið að leysa úr þessum margþætta vanda með öllum tiltækum ráðum. Og ef sæmilega tækist til um framkvæmdir og ekki sígur enn meir á hlið erfiðleika og vandræða í efnahagslífi þjóðarinnar, er nokkurn veginn víst, að till. þessar gætu komið að verulegu gagni og það fyrr en seinna.

Herra forseti. Ég hef þá lokið máli mínu um þetta frv., sem hér liggur fyrir. Ég vildi vænta þess, að þegar þessari umr. lýkur, verði því vísað til 2. umr. og til heilbr.- og félmn.