10.11.1969
Efri deild: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í C-deild Alþingistíðinda. (2849)

73. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Einar Ágústsson:

Það er nú að vísu næsta þýðingarlítið, að við séum að tala hér um húsnæðismálin hver við annan, þessir þm., sem höfum árum saman flutt till. um úrbætur í þeim, sem aldrei hefur verið hlustað neitt á. Og þess vegna held ég, að ég nenni nú ekki að fara að halda hér neina ræðu, þó að vissulega væri ástæða til þess. En ég stend upp hér til þess að taka mjög fast undir þá kröfu, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Reykn., um það, að það verði ekki öllu lengur haldið áfram þeim skrípaleik, sem uppi hefur verið hafður í fjögur og hálft ár, að endurskoðun á l. um húsnæðismál standi fyrir dyrum og öllum úrbótum, sem mönnum hefur dottið í hug, að mættu koma fram til leiðréttinga á húsnæðismálunum, verið vísað frá með hliðsjón af þessari endurskoðun. Það er áreiðanlega rétt, sem hv. þm. sagði, að hvernig sem það kann að hafa verið um þessa endurskoðun, að hún hafi farið eitthvað af stað, þá er ekki unnið við hana núna, og til sannindamerkis um það vil ég geta tvenns, annars vegar þess, að í fyrra bar ég fram fsp. til hæstv. félmrh. um það, hvað þessari endurskoðun liði, — eða hvort það var í hitteðfyrra, ég man það ekki fyrir víst, — og svar hans var þá einfaldlega það,að hann fór að lesa þar upp, hve mikið fjármagn væri fyrir hendi til þess að úthluta, en minntist ekki einu orði á þá endurskoðun lagaákvæða, sem við erum hér að tala um. Og svo hitt, að um daginn, þegar hér í þessari hv. d. var rætt frv. frá okkur nokkrum framsóknarmönnum um aðstoð við byggingarsamvinnufélög, þá sagði hv. 3. landsk. þm., sem mjög hefur látið sig þessi mál varða, það, að hann liti svo til eins og ég, að þessi endurskoðun stæði ekki yfir, eins og sakir standa. Ég tel því, að það sé mjög þarft og raunar sjálfsagt, að það verði enn á ný gerð fsp. til hæstv. félmrh. um þessa marglofuðu og margsviknu endurskoðun á húsnæðismálalöggjöfinni, og ég fagna því út af fyrir sig því framtaki, sem hv. 5. þm. Reykn. sýnir í því, því að það er gott að skipta með sér verkum í þessu. Menn verða þreyttir á því að bera fram sömu fsp. ár eftir ár án þess að fá nokkur svör við þeim, og ég sé ekki annað en það sé heppilegt, að einhver annar taki það nú að sér.

Annars langaði mig til þess að segja örlítið um eitt atriði, sem hv. frsm. ræddi hér. Það er um vísitölubindinguna á skuldabréfunum. Ég er honum sem einn af flm. frv. að vísu sammála um það, að eins og Byggingarsjóður er byggður upp nú, þá er það tæpast mögulegt að fella niður vísitöluákvæði frekar en orðið er, þ.e.a.s. þau séu hálf, vegna þess að það vantar þá svo miklar tekjur í staðinn. En í raun og veru er þetta náttúrlega hreinasta óhæfa,að það séu húsbyggjendurnir einir, sem eru látnir borga verðtryggingu á lán sín. Allir aðrir fá óverðtryggð lán. Þessir menn einir, sem kannske hafa minnsta möguleikana oft til þess að standa undir þeim lánum, sem þeir taka, verða að bera þessar byrðar. Og eins og við munum allir, sem hér erum viðstaddir, þá var það fyrir 21/2–3 árum samþ. hér á hv. Alþ., að allar fjárskuldbindingar skyldu verðtryggðar. Þessi lög hafa aldrei komið til framkvæmda. Og það væri kannske ástæða til þess að bæta einni fsp. við til hæstv. ráðh., ef þeir mættu vera að því að koma hér einhvern tíma: Hvernig gengur með framkvæmdina á verðtryggingu fjárskuldbindinga? Ég hygg, að verulegur skriður hafi komið á það mál, vegna þess að verkalýðshreyfingin samdi um það við ríkisstj. og atvinnuveitendur á sínum tíma, að húsnæðislán skyldu vísitölutryggð, þá hafi það, bæði eins og hv. frsm. gat um, verið gert í trausti þess, að eitthvað verði gert frekar í verðbólguviðnáminu, og svo líka þá meðfram út af hinu, að menn ætluðu sér áreiðanlega þá að verðtryggja öll lán.

Ég skal ekki vera að þreyta þessu fáu dm., sem hafa haft tíma til þess að vera viðstaddir í dag, á því að vera að halda hér lengri ræðu. En ég verð að segja það, að húsnæðismálin ættu að vera meira virði fyrir alþm. en svo, að helmingur þeirra eða rúmlega það láti sig engu skipta það, sem um þau er sagt.