24.11.1969
Efri deild: 17. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í C-deild Alþingistíðinda. (2856)

91. mál, umferðarlög

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Við fjórir þm. í þessari hv. deild höfum leyft okkur að bera fram frv. á þskj. 107. Samkv. 3. málsgr. 27. gr. umferðarlaga getur enginn fengið leyfi til að aka leigubifreið til mannflutninga, nema hann hafi m.a. staðizt viðbótarpróf eða svokallað meirapróf og fullnægi að öðru leyti skilyrðum, sem nánar eru ákveðin í reglugerð. Nú hefur það oft viljað bera við í sveitum úti, að slíkir réttindamenn hafa ekki verið til staðar, og sérstaklega hefur það komið fram í sambandi við heimanakstursskóla, sem eru æði margir, að um flutninga á unglingum og skólabörnum hefur ekki tekizt að ná til svokallaðra réttindamanna. Því hefur raunin orðið sú, að bifreiðarstjórar hafa ekið skólabörnum og unglingum án þess að að hafa þessi viðbótarréttindi. Nú hefur það komið fram a.m.k. í einu skólahverfi á Suðurlandi, að kært hefur verið yfir þessum réttindalausu bifreiðarstjórum, sem annast slíkan akstur. Ég fékk fyrir nokkrum vikum bréf frá skólanefnd Laugalandsskóla í Holtum, sem er einn af fjölmennari barna- og unglingaskólum og er heimanakstursskóli. Vildi ég, með leyfi forseta, lesa upp úr þessu bréfi nokkrar glefsur, til þess að hv. þm. skilji betur það mál, sem við höfum hér borið fram. Þar segir m.a.:

„Í byrjun okt. 1969 voru opnuð tilboð í akstur á skólabörnum í Laugalandsskóla í Hóltum. Skólanefnd hafði skipulagt akstur þannig, að 7 af 8 leiðum var hægt að sinna með akstri jeppabifreiða og miðað við 5–8 börn í hverri bifreið. Í tveim tilfellum voru þó 9 börn, en aðeins 1/3 skólatímans. Tilboð í þennan akstur voru mismunandi, en að lokum samið um 8 kr. greiðslu á hvern ekinn km. Allur aksturskostnaður verður því um 370 þús. kr. fyrir yfirstandandi skólaár. Samið var m.a. við 7 bílstjóra, og hefur enginn þeirra svokallað meirapróf, sem umrædd grein gerir þó ráð fyrir, að slíkir hafi. Skólanefnd er kunnugt um, að borið hefur verið fram kæra um meint brot á gildandi reglum vegna þessa aksturs.“

Svo segir skólanefnd og undirstrikar það:

„Á meðan ekki fæst úr því skorið, hvort þessi ákvæði eru brot á gildandi reglum eða ekki, treysta skólanefnd og oddvitar viðkomandi hreppa, en þeir eru þrír, sem standa að skólanum, sér ekki til þess að halda uppi þessum akstri, og er því búið að loka skólanum, og þetta er einn af fjölmennustu skólunum á þessu svæði.“

Skólanefnd segir enn fremur í þessu bréfi, að hún áliti, „að útilokað sé að framkvæma þennan akstur skólabarna á þann veg, að aðeins menn með svokallað meirapróf annist hana, nema til komi stórkostlegur kostnaðarauki fyrir sveitarfélög og ríkið. Auk þess álítur skólanefndin, að akstursfyrirkomulag, sem hún hefur skipulagt, tryggi öryggi barnanna betur en nokkurt annað skipulag. Hér aka menn á leiðum, sem þeir eru þaulkunnugir, og með því að láta þá aka í mörgum jeppum frekar en í færri og stærri bílum styttist akstursleið barnanna stórlega.“

Og að lokum segir í þessu bréfi:

„Skólanefnd getur ekki sagt til um, hvernig sú lausn á að vera, sem til þarf, þar sem hana skortir kunnugleika á gildandi reglum og lagaákvæðum, en á hinn bóginn er skólanefndin sannfærð um, að skipulag á yfirstandandi skólaári sameini þrjá veigamikla kosti: Í fyrsta lagi: Öryggi barnanna er bezt borgið með því, að á hverri leið aki þeir menn, sem eru þeirri leið þaulkunnugir. Í öðru lagi: Akstursleið og þar með aksturstími verður mun styttri en með öðru fyrirkomulagi. Og í þriðja og síðasta lagi: Aksturskostnaði, sem fer vaxandi fyrir sveitarfélög, er hægt að halda innan sanngjarnra takmarka.“

Þetta segir skólanefndin við þennan skóla. Nú er það vitað, að ýmis tryggingafélög hafa tekið að sér að annast fyllstu slysatryggingar, þegar svo hefur staðið á, að svokallaðir minnaprófsmenn hafa aksturinn með höndum. Og margir aðrir aðilar, sem koma nærri þessum málum, hafa einnig litið fram hjá þessu réttindaleysi ökumanna og gert það í því skyni að lama ekki fullkomlega aksturskerfið.

Eins og kom fram í bréfinu, sem ég var að lesa frá Laugalandsskóla, þá segja skólanefndarmennirnir, að þeir hafi lokað skólanum vegna kærunnar, sem fram hefur komið, þannig að ástandið er þarna mjög alvarlegt og þarf skjótrar lausnar við. Þetta vandamál höfum við, sem flytjum þetta frv., talið rétt að leysa með þeim hætti, að dómsmrh. fái í hendur heimild til þess að víkja frá áður nefndum ákvæðum umferðarlaganna. En heimildin sé bundin því skilyrði, að alveg sérstaklega standi á og um akstur á skólabörnum og unglingum sé að ræða í sveitum úti, þ.e.a.s. þegar ekki næst í svokallaða meiraprófsmenn. Og við flm. gerum líka ráð fyrir því, að miðað verði við það, að undanþága sé einungis veitt til eins árs í senn og leitað sé umsagna aðila, sem gerst eiga að þekkja ökumenn, þessir aðilar væru lögreglustjóri í viðkomandi umdæmi, bifreiðaeftirlitsmaður, og sennilega ætti einnig að leita umsagnar menntmrn. hvert sinn, þannig að ef þessum skilyrðum væri fullnægt, þá væri nokkurn veginn vel fyrir séð. Þannig yrði þetta algert undantekningarákvæði og mjög þröngt skoðað og skýrt.

Það er að sjálfsögðu hægt að benda á aðrar leiðir til úrlausnar þessum vanda, sem lengra væri til, en við tillögumenn teljum, að vandinn sé svo aðakallandi, að það verði að ráða bót á honum svo fljótt sem auðið er. Ég gæti t.d. vel hugsað mér það, að fellt væri úr l. meiraprófsskilyrðið, en inntekið almennt ökupróf með ströngum skilyrðum. En ég geri ráð fyrir, að slík till. þyrfti ítarlegrar athugunar við, og að mínu áliti er ekki tími til þess að bera slíka till. fram nú, eins og sakir standa. Ég t.d. tel, að ökumenn bifreiða þurfi ekki að kunna svo mjög mikið á vélar og annað slíkt, vegna þess að það er sérstakt fag. Og yfirleitt leita langflestir ökumenn til kunnáttumannanna um allt slíkt. Hins vegar ætti að leggja meira kapp á það, að þeir, sem aka t.d. leigubifreiðum til mannflutninga, ættu að ganga undir sérstakt próf einhvern veginn á þá leið, að þeir sýndu sig vera kurteisa og prúða menn í hvívetna og kynnu yfirleitt að umgangast farþega með þeim hætti, sem við ætti. En hins vegar að leggja kapp á það, að menn kunni á vél bifreiðar, það er meira og minna út í hött, eins og áður segir. Meirapróf, skilst mér, er til þess, að menn séu kunnugri um gang véla og samsetningu véla og séu til reiðu og geti gert við bifreiðar. Þetta er út af fyrir sig gott og blessað, en ég tel það út af fyrir sig ekkert höfuðatriði. Ég vildi aðeins minnast á þetta atriði. Ég hef heyrt marga kunnuga menn ræða einmitt um það, að það sé æði vafasamt að skipta ökumannsprófi í þessa tvo hluta. Undanþágur af ýmsu tagi frá réttindum hafa átt sér stað, líkt og í 1. gr. segir, þannig að þetta er ekkert nýmæli, sem felst í frv., sem hér liggur fyrir.

Ég vil geta þess, að ég hef fengið þær upplýsingar í menntmrn., að skólar af þessu tagi, sem ég hef rætt um, þ.e. barna- og gagnfræðastigsskólar, muni nú vera um 90 talsins og margir af þeim heimanakstursskólar. Þetta frv. snertir því æðimarga skóla í okkar landi, og vafalaust eru ökumenn á skólabílum margir hverjir og kannske að meiri hluta menn, sem ekki hafa það próf, sem lög í dag ákveða og tilskilja.

Ég ætla ekki að viðhafa fleiri orð um frv., en

vænti þess, að hv. dm. taki því vel og það fái sem greiðastan gang í gegnum d. Herra forseti. Ég vil svo að lokum óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til allshn.