16.03.1970
Efri deild: 56. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í C-deild Alþingistíðinda. (2862)

91. mál, umferðarlög

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Mig langar til að leggja hér nokkur orð í belg, og auðheyrt er, að skoðanir manna fara nokkuð á mis í þessu efni, en hér er um nokkurt vandamál að ræða og er víðtækara en fram kemur í grg. með frv., því að það mun vera staðreynd, að margir menn, víða úti um land sérstaklega, sem aka fólki, hafa ekki til þess full réttindi, en eru ágætir ökumenn engu að síður. Þeir hafa ekki tekið hið meira próf, svo nefnda, en eru ágætis vörubílstjórar eða bilstjórar á öðrum ökutækjum, og eru fengir til að aka fólki til og frá vinnustað. Þetta er mjög algengt í sjávarþorpum úti um allt land. Það eru orðnir samningar um það víða, að það þarf að aka fólki í matartíma og kaffitíma til og frá í vinnustað, og þetta vandamál er leyst, þó að ekki sé lögum samkv. með því að fá hæfan mann til aksturs. Ég er á þeirri skoðun, að þetta mál þurfi að endurskoðast rækilega. Væri kannske æskilegast, að það væri gert í heild, úr því að þetta er orðið vandamál víða, bæði með skólabörn og flutninga á öðru fólki, og það sé tekið þeim tökum, að þeim, sem eru hæfir í akstri, þó að þeir hafi ekki fullkomna vélarþekkingu, sem er eitt af undirstöðuatriðum í meira prófinu, sé gefinn kostur á því, e.t.v. með vissum skilyrðum, að inna þetta starf af hendi, því að það, sem krafizt er af manninum við aksturinn, er, að hann skili öruggum og góðum akstri án slysahættu og auðvitað, að hið notaða ökutæki sé í hæfu ástandi til þess að flytja fólk. Þetta er mikið mál, og ég vildi beina því til hæstv. allshn., að hún hugleiddi þetta milli 2. og 3. umr., hvort hér sé ekki nauðsyn á að taka málið til endurskoðunar í þessu ljósi.

Ég vil ekki út af fyrir sig vera að gera minni kröfur fyrir skólabörn fremur en einhverja aðra, en það er nú einu sinni svo, að það hefur ekki verið framkvæmanlegt að hafa allt öryggi í þessum efnum, og það hefur rekið á reiðanum hingað og þangað úti um land, og það má eiginlega ekki halda svona áfram. Ég persónulega tel það rétt, að hæfur maður fái að aka fólki til og frá ákveðnum stað, sé þess gætt, að maðurinn standist ákveðið ökupróf, sem þarf alls ekki að vera minna á neinn hátt í þessu tilfelli fremur en hið meira bilstjórapróf, sem veitir þá manninum allsherjarréttindi til að aka fólki gegn leigugjaldi. Hér er um að ræða, að maðurinn fái að aka fólki til og frá ákveðnum stað, án þess að hann taki sérstakt gjald fyrir, en er í þjónustu annaðhvort skólanefndar ákveðins héraðs eða vinnuveitanda. Það, sem skiptir meginmáli frá mínu sjónarmiði, er, að maðurinn sé hæfur til akstursins og sanni það, sennilega æskilegast í eitt skipti fyrir öll, og síðan fái hann slíka viðurkenningu. En þetta þýðir vissa breyt. á umferðarl., en ekki það, að maðurinn þurfi að sitja mjög langan tíma á skólabekk til þess að öðlast vissa þekkingu á vél. Ég vildi gjarnan minna á það, að það eru gerðar þær kröfur, sem eru orðnar ósanngjarnar, í meira prófi, að fær vélstjóri þarf að sitja jafnlangan tíma við þetta vélanám og maður, sem bókstaflega þekkir ekkert á vél. Þetta eru gamlar kröfur, orðnar úreltar í dag, og það þyrfti að taka vissa þætti þessara mála til allsherjarendurskoðunar.