16.03.1970
Efri deild: 56. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (2864)

91. mál, umferðarlög

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég er meðflm. að umræddu frv. Ég hef litlu við það að bæta, sem frsm. meiri hl. n. hefur fært fram, nema ég vil ítreka það, sem kom fram hjá honum, að nauðsyn ber til þess að leysa visst vandamál, sem við er að etja úti um sveitir landsins, og þýðir ekki fyrir hið háa Alþ. að loka augunum fyrir.

Ég ber fyllsta traust til bifreiðaeftirlitsmanna og lögreglustjóra, sem hverju sinni yrðu að veita slíkar undanþágur og tel það mundu jafngilda því, að veitt væri hverju sinni hið svonefnda meira próf, sem ég veit ekki, hversu margir hv. alþm. hafa, en ég hef og veit alveg, hversu mikil öryggisaukning það er að hafa það. Ég skal láta það liggja á milli hluta, en ég tel það tímabært að endurskoða umferðarlögin í heild, en tek undir þau atriði, sem hér hafa komið fram, að það kannske mundi verða til að tefja fyrir framgangi málsins á þessu stigi. Ég þekki það erlendis, þó að sumir vilji segja, að það sé kannske óeðlilegt að gera aðrar og minni kröfur til þeirra, sem aka skólabörnum, að þá er það samt svo víða erlendis, að þeir, sem aka skólabifreiðum, hafa ekki réttindi til þess að aka leigubifreiðum til mannflutninga, en þar er hins vegar gengið ríkt eftir því, að slíkar bifreiðar séu ákaflega vel auðkenndar sem skólaflutningabifreiðar, og það væri atriði, sem vissulega gæti komið til álita, bæði af hálfu Bifreiðaeftirlits og lögreglustjóra að setja ákvæði um að merkja og auðkenna slíka bifreið þannig, að aðrir ökumenn eigi hægt með að þekkja það, að það eru slíkar bifreiðar, sem eru á ferð einmitt með farþega, sem við viðkomustaði fara kannske á stundum ógætilegar en ætla mætti, að þeir fullorðnu geri. Ég er ekki að segja, að það sé reglan, en það má ætla það, að það sé kannske meiri hætta á því, að börn og unglingar fari einmitt ógætilegar að í sambandi við viðkomustaði sinna skólabifreiða en fullorðið fólk gerir í sambandi við viðkomustaði almenningsbifreiða, og er það þó vissulega ekki í nógu góðu horfi.

Ég tek undir það, sem frsm. meiri hl. tók hér fram, að það er rík ástæða til þess fyrir hið háa Alþ. að hraða þessu máli í gegn til þess að leysa brýnan vanda, sem víða, mjög víða, miklu víðar kreppir að úti um landið en ég hygg, að hv. þm. margir hverjir geri sér grein fyrir.