15.12.1969
Efri deild: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í C-deild Alþingistíðinda. (2875)

120. mál, vegalög

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Frv. þetta, er ég flyt ásamt þeim hv. 4. þm. Sunnl. og hv. 3. þm. Vestf. er um smálagfæringar á vegalögum. Það er gert ráð fyrir því í vegalögum, að sýsluvegir megi aldrei vera styttri en 200 m og aldrei ná nær býli en 200 m. Þetta fyrirkomulag hefur valdið misræmi á milli bæja, og held ég, að það hafi ekki verið meining löggjafans á sínum tíma, og er því lagt til í frv. þessu, að vegir heim að bæjum, þar sem vegalengd er yfir 200 m, skuli tilheyra sýsluvegum. Ég geri ekki ráð fyrir, að hér sé um marga staði að ræða á landinu, en þeim mun færri, sem þeir eru, því meira er óréttlætið, og vænti ég, að um það geti orðið samstaða hér á hv. Alþ. að lagfæra þetta misræmi með því að samþykkja þá breyt., sem hér um ræðir á vegalögum. Og til samræmis við þetta er lagt til, að síðasta mgr. sömu lagagr. falli niður.

Þá er í 2. gr. þessa frv. lagt til, að þau sýslufélög, sem þess óska, fái rýmri fjárráð en nú er. Í l. um framlag til sýsluvegasjóðs er ákveðið, að það skuli samsvara andvirði þriggja daglaunastunda fyrir hvern íbúa miðað við kaupgjald í almennri verkamannavinnu hjá Vegagerð ríkisins. Í frv. þessu er lagt til, að sýslunefndir megi sjálfar ráða því, hvort reiknað er með andvirði þriggja eða fjögurra dagvinnustunda. Skoðun okkar flm. er sú, að sýslunefndir munu ekki hækka gjald þetta á hreppsfélögum nema því aðeins, að brýna nauðsyn beri til. Breyting þessi hefur ekki mikið að segja varðandi mótframlag ríkisins samkv. 28. gr. vegal., þar sem segir, að mótframlag til sýsluvegasjóða skuli árlega nema upphæð, sem sé eigi lægri en tvöföld upphæð innheimtra sýsluvegasjóðsgjalda um land allt. Verkefni sýsluvegasjóða hafa stórum aukizt á yfirstandandi ári, þar sem sýsluvegir hafa lengzt um 653 km og eru nú orðnir 2795 km eða sem næst 1/4 hlutinn af öllu vegakerfi landsins. Í frv. er um réttlætismál að ræða, þar sem verkefni Vegasjóðs hafa færzt yfir á sýsluvegasjóði, og ef sýslunefndir vilja hækka framlög hreppsfélags til sýsluvegasjóðs, þá hækka hlutfallslega framlög Vegasjóðs þar á móti, ef frv. þetta verður að l.

Í till. til þál. um vegáætlun 1968–1972 frá s.l. vori er á bls. 51 greint frá tekjum sýsluvegasjóða. Þar kemur það fram, að þær sýslur, sem eru fámennar og hafa einnig litlar tekjur af fasteignum, verða nú að horfast í augu við aukin verkefni án þess að hafa fjárhagslega möguleika á að veita þá þjónustu í vegagerð, sem nú er talin nauðsynleg. Frv. þetta, ef að l. verður, mun bæta talsvert úr þeim vandræðum eða úr þeim örðugleikum, sem þarna er við að etja. Að sjálfsögðu hefði mátt breyta vegalögum á ýmsan annan hátt til þess að mæta þeim örðugleikum, sem hér eru, en hér er farið bil beggja, þannig að til þess að ná í aukið ríkisframlag til sýsluvegasjóðs, verða framlög heima fyrir að hækka einnig, til þess að ríkisframlag fáist hækkað. Ég lít svo á, að hér sé um þýðingarmikið mál að ræða, sem hv. alþm. eiga létt með að styðja. Það ber ekki svo að skoða þetta frv. þannig, að við flm. þess höfum ekki neitt annað við vegalög að athuga. Því fer fjarri, og læt ég nægja að vitna í ummæli okkar framsóknarmanna um þau mál, þegar vegalög hafa verið til umr. hér á undanförnum þingum.

Ég legg til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgmn.