22.01.1970
Efri deild: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í C-deild Alþingistíðinda. (2879)

122. mál, lax- og silungsveiði

Flm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég vil hér á eftir í stórum dráttum fjalla um frv. okkar þriggja þm. hv. Ed. um breyt. á lax- og silungsveiðalöggjöfinni. L. frá 5. júní 1957 eru umfangsmikill lagabálkur, alls í 118 gr. í 18 köflum og í sérprentun frá hv. Alþ. 25 bls.

Ég ætla mér ekki þá dul, að geta fjallað um allt þetta mál nú þegar, heldur mun ég leitast við að ræða um þær gr., sem gerðar eru á breyt., og skýra þær nokkuð, svo mun ég einnig á eftir fjalla um málið.

Það er öllum hv. þm. vel kunnugt, að þetta mál er mikið viðkvæmnismál og harðar deilur eru uppi um það. Þegar svo stendur á, koma fram gagnstæðar skoðanir og fullyrðingar. Afstaða er mjög tekin eftir hagsmunum, og er þá miðað við einkahagsmuni, en ekki þjóðarhagsmuni og hvað framtíðin kann að bera í skauti sér. Mér þykir rétt að taka hér strax fram, að þetta frv. er flutt með fullri vitund hæstv. landbrh. og kom fram, eftir að flm. höfðu beðið um fjögurra vikna tíma vegna óska ráðh., en hann átti lengi von á einhverju samkomulagi um málið, og einmitt þau atriði valda mestri deilu. Svo fór, að ekkert kom, og sá ég þá ekki ástæðu til þess að draga flutning lengur. Einnig vil ég sérstaklega undirstrika, að frv. er að langmestu leyti samhliða frv. um sama efni, er hæstv. ráðh. flutti á s.l. þingi í maí s.l., en var ekki rætt meira en við 1. umr. Þó gerum við hér mikilsverða till. til breyt., og mun ég nú taka þær til samanburðar, svo að þm. geti betur gert sér grein fyrir í hverju mismunurinn er fólginn.

Í 7. gr. er nýtt ákvæði um takmörkun ádráttar í sjó, sem var eins í frv. hæstv. ráðh., en þar er aukin friðun við alla árósa í sjó. Í l. frá 1957 er þessi takmörkun 500 m, en hér er lagt til að hún verði 1000 m í ósum straumvatns með minna en 25 rúmmetra á sek., en 2000 m í vatnsmeiri ám.

Í 8. gr., sem er viðbót hjá okkur og að mínu áliti raunverulega það ákvæði, sem mestum deilum veldur, en það er 14 daga samfleytt friðunartímabil á allri veiði frá 20. maí til 15. júlí ár hvert, en gr. hljóðar orðrétt þannig:

„Á tímabili því, sem um getur í 1. málsgr., má hvergi stunda laxveiði lengur en 3 mánuði. Í veiðivötnum, þar sem laxveiði í net er iðkuð, er skylt að friða lax og annan göngufisk fyrir hvers konar veiði í 14 daga samfleytt á tímabilinu 20. maí til 15. júlí ár hvert. Skulu veiðifélög, hvert á sínu félagssvæði, ákveða þennan friðunartíma innan nefndra takmarka og breyta honum frá ári til árs. Taka slík ákvæði gildi, þá er veiðimálastjórn staðfestir þau. Nú ákveður veiðifélag eigi veiðitíma samkv. þessari málsgr., og skal veiðimálastjóri og veiðimálastjórn þá kveða á um hann. Með sama hætti skal með fara, þar sem veiðifélag er eigi starfandi.“

Í 9. gr. er einnig nokkur mismunur á friðunarákvæðinu. Við gerum ekki ráð fyrir möguleika á því að stytta friðun fyrir netalögnum úr 96 stundum niður í 72 stundir, en þannig var frv. hjá hæstv. ráðh. 9. gr. okkar frv. er þannig:

„Á veiðitíma þeim, er getur í 18. gr., skal lax og göngusilungur vera friðaður frá allri veiði, annarri en stangarveiði, 96 stundir á viku hverri, frá föstudagskvöldi kl. 10 til þriðjudagskvölds kl. 10. Ádrátt má aldrei hafa frá kl. 9 síðdegis til kl. 9 árdegis og aldrei nema 2 daga í viku hverri, þriðjudag og miðvikudag. Stangarveiði og veiði með færi má eigi stunda frá kl. 10 síðdegis til kl. 7 árdegis og aldrei lengur en 12 stundir á sólarhring hverjum. Rétt er að setja nánari reglur um stangarveiðitíma með sama hætti og ákveðið er í 2. málsgr. 18. gr. Nú fer lax og göngusilungur um stöðuvatn, og skal hann friðaður þar, svo sem nú var sagt.“

Til samanburðar má geta þess, að í hinu frv. stendur, að friðunartíma þennan megi stytta í 72 stundir, eins og áður var vikið að, á viku, sé að dómi veiðimálastjóra og veiðimálanefndar og hluthafandi veiðifélags engin hætta á, að um þverrandi fiskstofn sé að tefla á viðkomandi veiðisvæði. Að öðru leyti eru gr. samhljóða.

Í 11. gr. setjum við flm. inn ákvæði um, að ekki megi flytja út hrogn úr landinu nema með samþykki fisksjúkdómanefndar og að fengnu útflutningsleyfi viðkomandi yfirvalda. Í hinu frv. sagði um þetta atriði: „Hrogn er óheimilt að flytja úr landi nema að fengnu leyfi ráðh. með tilteknum skilyrðum, ef þurfa þykir, enda mæli veiðimálastjóri með útflutningnum.“ Þetta samþykki veiðimálastjóra hrekkur hvergi nærri til, ef um útflutning til Bandaríkjanna er að ræða, því að kröfur þeirra um fullvissu á heilbrigði eru svo strangar, að þeir taka aðeins gild vottorð frá sérfræðingum um málið. Okkar ákvæði eru því óhjákvæmileg, ef við viljum geta flutt út hrogn.

Í 21. gr. okkar, sem er 20. gr. í hinu frv., er fjallað um ákvæði, sem allir nm. í endurskoðunarnefndinni voru sammála um að leggja til, að lögleitt yrði, en það er að skylda menn til að gera með sér félagshverfi um hvert fiskihverfi. Þetta er merkilegt nýmæli og mun áreiðanlega sanna gildi sitt, áður en langt um líður. Öllum var það ljóst í n., að fastara skipulag verður að komast á í þessum málum, en það stefnir brátt að hnút, sem verður ekki leystur án íhlutunar ríkisvaldsins, en unnt að komast hjá því, ef menn taka á sig rögg og gera allar nauðsynlegar breyt. á I. Það höfum við einnig í huga með fleiri breyt., sem við leggjum til.

Í 38. gr. er kveðið á um það, að við Tilraunastöð háskólans í meinafræði á Keldum skuli starfa sérfræðingur í fisksjúkdómum, og skal hann vera fisksjúkdómanefnd til aðstoðar og ráðuneytis. Þessi maður fær m.a. það ábyrgðarstarf að undirrita heilbrigðisvottorð um útflutning á eldisfiski frá landinu í framtíðinni. Það er því óhjákvæmilegt að okkar dómi, að þessi maður sé ákveðinn til starfa í l., en í frv. hæstv. ráðh. var gert ráð fyrir þessum manni, eins og það er orðað, „þá er fé verður veitt til þess.“ Mér finnst ekki gæta mikillar bjartsýni um möguleika á fiskeldi né nauðsyn sé fyrir að búa í haginn fyrir útflutning á silungi með svona orðalagi. Við lítum aftur með bjartsýni á þá möguleika, sem hér bíða eftir okkur, ef við viljum hagnýta þá öllum til ávinnings og ánægju.

Í 48. gr. frv. fjöllum við um stjórn veiði- og fiskræktarmálanna. Er gr. þannig:

„85. gr. (áður 100. gr.) verði upphafsgr. XIII. kafla: Um stjórn veiði- og fiskræktarmálanna, og orðist svo:

1. Ráðh. hefur yfirstjórn allra veiði- og fiskræktarmála. Til aðstoðar ráðh. um stjórn þessara mála eru: 1. Veiðimálastjórn, sbr. 86. gr. 2. Veiðimálastjóri, sem jafnframt er framkvæmdastjóri veiðimálastjórnar. 3. Fiskræktarráðunautur, sem jafnframt hefur yfirumsjón með klak- og eldisstöðum ríkisins. 4. Eftirlitsmenn með veiði.

2. Rétt er ráðh., eftir till. veiðimálastjórnar, að setja reglugerð um verksvið, vald og ábyrgð þessara aðila innbyrðis í samræmi við ákvæði laganna.

3. [nýtt ákvæði.] Veiðimálastofnun Íslands er veiðimálastjórn með veiðimálastjóra og fiskræktarráðunaut samkv. l. þessum.“

Áður hafa veiðimálanefnd og veiðimálastjóri ekki verið viðurkennd sem ákveðin stofnun í lögum. Hér er nokkur munur á hjá okkur og hjá hæstv. ráðh. Við leggjum til, að veiðimálastjóri verði framkvæmdastjóri veiðimálastjórnar, einnig að ákveðið verði, að fiskræktarráðunautur verði fastráðinn, og þá kemur fjárveiting til hans starfssviðs. Í dag er að vísu ráðinn fiskifræðingur, en hefur ekki fengið viðurkenningu og ekki verið gert ráð fyrir honum í frv. hæstv. ráðh. Hér gætir enn mismunandi viðhorfa um bjartari framtíð í þessum efnum.

Í 49. gr. eru ákvæði um skipun veiðimálastjórnar, sem við nefnum svo nú, en í frv. hæstv. ráðh. er haldið fram að nafninu veiðimálanefnd, þótt fjölgun úr þremur mönnum upp í fimm sé að ræða. E.t.v. skiptir nafnið ekki meginmáli, en önnur hagsmunasamtök, t.d. Búnaðarfélag Íslands og Fiskveiðifélag Íslands hafa nafnið stjórnir á sínum nöfnum, og svo er víðar. Frv. eru sammála um skipan manna í þessa stöðu, þ.e.a.s. frá hvaða hópum mennirnir koma. Okkar gr. er þó orðuð nokkuð á annan veg. Hún er 49. gr. í frv. og er svo:

„1. Veiðimálastjórnin er skipuð 5 aðalmönnum og jafnmörgum varamönnum til 5 ára í senn. Ráðh. skipar formann og varaformann í veiðimálastjórn án tilnefningar. Aðra nm. og varamenn skipar ráðh. eftir tilnefningu eftirtalinna aðila: 1. Búnaðarfélags Íslands, 2. Landssambands stangaveiðimanna, 3. Landssambands veiðifélaga, 4. Hafrannsóknastofnunar Íslands.

2. Veiðimálastjórn er ráðh. til aðstoðar um veiði- og fiskræktarmál. Getur hún gert till. um allt, er að málum þessum lýtur. Samþykkis veiðimálastjórnar skal leita um setningu reglugerða og annarra ákvæða um friðun eða veiði. Veiðimálastjórn hefur jafnframt með höndum yfirstjórn klak- og eldisstöðva ríkisins.“

Eins og kunnugt er, þá er sér stjórn um þessa stöð núna, og það eru menn, sem sumir hverjir a.m.k. þekkja sáralítið til þessara mála. Með þessari skipan er kveðið fast á um stjórn veiðimálanna og veiðimálastofnunin fær viðurkenningu í l., sbr. 3. lið 48. gr. í okkar frv., en svo er ekki í dag, eins og ég áðan sagði. Það er jafnan fjallað um persónuna veiðimálastjóra í núgildandi l. Skipan hér verður því með sama sniði og er hjá Búnaðarfélagi Íslands og Fiskifélagi Íslands, og virðist það ekki óeðlilegt. Það er að okkar dómi enginn vafi á því, að hér er stefnt til heilla fyrir veiðimálin í landinu og eins fiskræktina, sem vissulega mun verða gildur þáttur fyrir marga bændur og aðra í náinni framtíð, ef löggjafinn ber gæfu til þess að skapa svigrúm fyrir þá starfsemi í landinu.

Næstu gr., frá nr. 53 til 58, fjalla um stofnun Fiskræktarsjóðs og tekjur til hans og ráðstöfun á þeim. Í frv. hæstv. ráðh. voru þessi atriði nokkuð með öðrum hætti og ekki mótað ákveðið með þá von í huga, að sjóðurinn gæti gert verulegt gagn í framtíðinni, sem hlýtur að vera von allra, er vilja átak í veiði- og fiskræktarmálunum. Ég mun fara hér yfir till. okkar, eins og þær eru hér, en gera ekki nánar beinan samanburð á frv. og bið hv. alþm. að kynna sér nánar, í hverju munurinn er fólginn. 53. gr., um stofnun Fiskræktarsjóðs, lán og styrkveitingar til fiskræktar, orðist svo:

„Stofna skal sjóð, er nefnist Fiskræktarsjóður. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að aukinni fiskrækt í ám og vötnum og efla klak, fiskakynbætur og fiskaeldi í landinu. Sjóðurinn veitir lán og styrki til byggingar slíkra stöðva, enda fullnægi þær settum skilyrðum, eftir nánari ákvæðum reglugerðar um starfsemi sjóðsins.“

54. gr.: Stofnfé sjóðsins er framlag úr ríkissjóði að upphæð 10 millj. kr., þegar fjárveiting er veitt á Alþ. til þess. Stofnfé sjóðsins er höfuðstóll hans, er eigi má skerða til lána og styrkveitinga.“

55. gr.: „Tekjur sjóðsins eru: 1. Vextir af höfuðstóli. 2. Árlegt framlag úr ríkissjóði, er nemi minnst 1 millj. kr. Árlegt framlag frá Stofnlánadeild landbúnaðarins, er nemi búnaðarmálasjóðsgjaldi af laxi og silungi. 4. 2% af veiðitekjum veiðiréttareigenda, er innheimtist af veiðifélögum. 5. 2% af seldum veiðileyfum innan Landssambands stangaveiðimanna, enda óheimilt að leigja eða framselja öðrum aðilum afnot veiðiréttinda en þeim, sem félagar eru í þeim samtökum. Landssamband stangaveiðimanna sér um og annast innheimtu þessara tekna sjóðsins. 6. Tekjur af seldum veiðikortum árlega til þeirra, er veiði vilja stunda í ám og vötnum landsins, enda öðrum óheimil veiði en handhöfum slíkra korta. Verð slíkra ákvæðiskorta telst hæfilegt: a) Til erlendra veiði- og ferðamanna kr. 1000. b) Til innlendra veiðimanna yfir 16 ára aldur kr. 300. c) Til unglinga innan við 16 ára aldur kr. 50. 7. 5% af heildartekjum vatnsafls í landinu, er orku selja til almennra nota. 8. Leyfisgjald af hverjum þeim, er stundar laxveiði í net eða aðrar gildrur, og þykir hæfilegt, að slíkt gjald sé 2% af aflaverðmæti. 9. Aðrar tekjur.“

56. gr.: „1. Ráðh, setur Fiskræktarsjóði starfsreglur í reglugerð, þar sem kveðið er á um skilyrði þau, er fullnægja þurfi til þess að hljóta lán eða styrki úr sjóðnum. 2. Veiðimálastjórn hefur stjórn og rekstur Fiskræktarsjóðs með höndum. Fiskræktarsjóð skal ávaxta í Búnaðarbanka Íslands.“

Þar sem næstu gr. eru á sömu lund og frv., þarf ég ekki að fjalla um þær og mun því fara nokkrum orðum um 55. gr., en það er um tekjumöguleika Fiskræktarsjóðs, en einmitt 5. liðurinn hefur orðið tilefni til æsingarláta og mikilla blaðaskrifa löngu áður en framsaga við frv. var flutt, og man ég ekki mörg dæmi um slíkt áður. Í þessu sambandi má ég vera ánægður, því frv. hefur með þessu fengið hina beztu auglýsingu, og það er ánægjulegt, að menn kynni sér, hvað við erum að fara, og ég geri þá kröfu til allra, er hér hafa hagsmuna að gæta, að þeir lesi frv. og meti það hleypidómalaust. Enginn okkar flm. ætlar sér þá dul, að við séum með einhverja þá patentlausn, sem gildir gagnvart öllum atriðum í þessu erfiða máli, en við leggjum á það höfuðáherzlu, að menn hugleiði málið af alvöru og leggi sig fram um lausn á því. Ella verður niðurstaðan hér hin sama og víða erlendis, að ríkisvaldið verður fyrr eða síðar knúið til þess að grípa inn í og taka veiðimálin undir sinn verndarvæng. Þetta hefur skeð í mörgum nágrannalöndum, sem við þekkjum vel til í. Vilja menn þetta? Er það þetta, sem menn bíða eftir? Ég held ekki. Ég reikna með, að ekki sé um neinn ágreining að ræða varðandi fjóra fyrstu liðina í tekjuöflun sjóðsins eftir 55. gr. Hins vegar er 5. liðurinn, eins og áður hefur verið tekið fram, þannig: „2% af seldum veiðileyfum innan Landssambands stangaveiðimanna, enda óheimilt að leigja eða framselja öðrum aðilum afnot veiðiréttinda en þeim, sem félagar eru í þeim samtökum.“ Það er þetta skilyrði, sem bætt er við, sem hefur valdið úlfaþytnum og menn hafa kallað ýmsum nöfnum, t.d. eignarnám o.fl. Ég vil taka það mjög skýrt fram, að okkur flm. er þetta skilyrði ekki hið minnsta fast í hendi, og það er komið inn sem tilmæli frá Landssambandi stangaveiðimanna og hafði verið rækilega kynnt áður við ýmis tækifæri og alls engin mótbára komið fram áður. Í þessu sambandi má minna á fundi, sem stjórn L.Í.S., en það er skammstöfun Landssambands stangaveiðimanna, hélt í jan. 1969, nánar tiltekið 28. jan. 1969, með stjórn veiðiréttareigenda, og þar voru m.a. mættir Sigurður Sigurðsson, formaður stjórnar veiðiréttareigenda, Hinrik Þórðarson á Útverkum og Óskar B. Teitsson í Víðidalstungu ásamt fleirum. Á þessum fundi var gerð ljós grein fyrir þessum skilyrðum, og margt fleira var rætt um sjóðinn. Engin mótbára kom þá fram og hefur ekki heyrzt fyrr en á veiðimálaráðstefnunni í s.l. mánuði. Ekki komu heldur fram mótmæli frá Búnaðarfélaginu í febr. 1969 um þessi atriði, og enginn fundur í Félagi stangaveiðimanna né félagi áhugamanna um fiskrækt hefur látið heyra frá sér aðvörun um þetta atriði. Ég leit því svo á, að menn gætu sætt sig við þetta fyrirkomulag, og tók því þetta skilyrði inn. Hér er aðeins bryddað á ákveðnum fyrirmælum, sem geta verið á margvíslegan hátt, og verður vitanlega tekið til athugunar, með hvaða hætti það má bezt verða. Hins vegar er sjálfsagt að falla frá því, ef það er raunverulega svo viðkvæmt mál, eins og sumir segja. Stangaveiðimenn sýndu líka strax vilja til þess að ná sættum með því að samþykkja í lok veiðimálaráðstefnunnar eftirfarandi tillögu: „5. liður 55. gr. frv. verði svohljóðandi: 2% af seldum veiðileyfum,“ og þá er öllu öðru sleppt. Þar með er það ljóst mál, að þetta atriði er ekki til þess að rífast lengur út af, og á hinn bóginn vil ég undirstrika, að ekki var imprað á öðrum atriðum til að mótmæla, þótt mönnum yrði oft gefinn kostur á því að taka til máls, og var frv. eðlilega margnefnt á áðurnefndri ráðstefnu. Ég er ekki með þessu að segja, að menn séu á eitt sáttir, öðru nær, en þetta talar þó sínu máli. Í fullri hreinskilni sagt er mér kunnugt um, að margir bændur eru ánægðir með, hvað lagt er til í frv., og styðja það efnislega. Þetta eru menn, sem skilja, að ekki er farsælt til lengdar að nota alla veiðitækni til gegndarlauss dráps á laxinum við veiðar í netum og vakna svo einn góðan veðurdag við það, að búið er að ganga svo á stofninn, að voði er fram undan eða jafnvel enn verra. En netaveiðabændur voru líka snjallir. Þeir fundu eitt atriði, sem gat orðið þeim til framdráttar, ef vel var á haldið. Þess vegna tóku þeir umrætt skilyrðisákvæði eitt sér út og æstu menn upp út af því, en steinþögðu yfir því atriði, sem ég persónulega tel raunverulega vera orsök óánægju þeirra. Þetta atriði er um friðun í 14 daga á tímabilinu frá 20. maí til 15. júlí ár hvert fyrir allri veiði í veiðivötnum, þar sem laxveiði í net er stunduð. Því miður vilja þeir bændur, sem hagsmuni hafa af netaveiðum, ekki enn þá auka friðunina á þessum tíma, en reynslan sýnir, að veiðin færist fram á sumarið og gengið er á þann stofn af laxi, er kemur fyrr í árnar, og svo hitt, sem e.t.v. er enn alvarlegra, að langmestur hluti snemmveidda laxins er hrygnur. Það skal játað, að hér geta verið nokkrir hagsmunir í veði við fyrstu sýn, en ekki veldur sá er varar í þessum efnum. Enginn veit með vissu, hvaða afleiðingar gegndarlaus veiði á snemmgengna laxinum hefur í för með sér.

Ég hef nú drepið á helztu atriðin í frv., sem athuga þarf til samanburðar við fyrri frv. og gildandi l., en þetta mál allt er svo mikilvægt fyrir bændur og landslýð allan, að ekki verður skilið við það í framsögu án þess að ræða á við og dreif um laxveiði í landinu og hin nýju viðhorf, sem skapazt hafa nú á seinni tímum, og hvað blasir við í náinni framtíð, og atriði, er þola enga bið til lausnar.

Ég vil, með leyfi forseta, lesa hér kafla úr ágætri grein eftir Ingvar Gíslason alþm., sem hann reit í Árbók Félags áhugamanna um fiskrækt, er kom út á síðasta ári. Hin ágæta grein Ingvars er þannig:

„Í ágætri áramótaræðu, er forseti Íslands flutti 1. jan. s.l., gerði hann að umræðuefni sambúð lands og þjóðar, hvernig örlög og saga þjóðarinnar eru samofin landinu, sem hún byggir, og hversu verulega afkoma hennar var háð landsgæðum, þekkingu manna og nýtingu þeirra. Þannig hefur þetta verið um aldir, og svo mun það verða á ókomnum öldum, að því er bezt verður séð. Menn velta því fyrir sér, hverjar séu auðlindir þjóðarinnar. Slíkt er eðlilegt, því að auðlindir og nýting þeirra eru grundvöllur atvinnulífsins í landinu, undirstaða afkomu fólksins, sem það byggir, og allrar menningarstarfsemi. M.ö.o., þær eru grundvöllur alls þjóðlífs. Auðlindir gera landið byggilegra, en hverjar eru auðlindir landsins? Í stuttu máli: Landið með gögnum sínum og gæðum og hafsvæðið umhverfis það. En til viðbótar þessu verður að nefna það, sem sízt má gleymast, en það er þekkingin. Án þekkingar og kunnáttu verða landsgæði ekki nytjuð. Auðlindir, sem þjóðin hvorki þekkir né kann að notfæra sér, eru því tæpast landsgæði í eiginlegum skilningi. En þær geta orðið það, þegar þjóðin öðlast þekkingu á þeim og tileinkar sér kunnáttu til þess að nýta þær. Ókannað land og hafsvæði eru eins og læstar dyr, þekkingin er lykillinn að þessum dyrum.“

Svo heldur hann áfram, og ég tek hér kaflann, sem hann kallar: Rányrkju:

„Landnám 20. aldarinnar hefur þó sínar skuggahliðar. Hafi forfeður okkar frá fyrri öldum gert sig seka um rányrkju og landsspjöll með eyðingu náttúrugæða og landsnytja, þá gerum við það engu síður, 20. aldar menn. Rányrkjan og landsspjöllin eru jafnvel enn ægilegri á okkar tímum, enda eru eyðingartækin stórvirkari en áður var. Þessi rányrkja á sér stað til lands og sjávar. Hún er framin af bændum og sjómönnum, af ráðandi mönnum þjóðarinnar, öllum landslýð, að vísu í mismunandi miklum mæli og ekki á öllum sviðum, sem betur fer. Þessi rányrkja er eyðing landsnytja, og eyðing landsnytja fer ýmist fram með beinni ofnýtingu og ágangi á landi og sjó eða með vanrækslu á nýtingu og viðhaldi landsgæða.“

Hann heldur svo áfram; ég ætla að lesa hér, með leyfi forseta, smániðurstöðu:

„Þó ber að viðurkenna, að skilningur á þessu efni hefur dálítið glæðzt á síðustu árum. M.a. hafa ýmsir forystumenn á sviði landbúnaðarmála lýst áhuga sínum og skilningi, sem telja verður mikilsvert, því að hér er ekki sízt um að ræða hagsmunamál fyrir bændastéttina og framtíð sveitanna. Á Alþ. eiga fiskræktarmálin auknum skilningi að mæta, sem m.a. kemur fram í flutningi þingmála, er lúta að þessum efnum. Ég vil heldur ekki gera lítið úr áhuga ýmissa embættismanna á þessu sviði, þó að frumkvæðisskorturinn hafi fram til þessa verið almennt ríkjandi hjá hinu opinbera, bæði á Alþ. og með hinni æðstu stjórn. Þó má telja það til tíðinda og ber að þakka það, að landbrh. skipaði n. manna til að yfirfara lög og reglur um fiskeldismál, og mun sú n. hafa lokið störfum, þegar þetta er ritað, í febrúar 1969. Staðreyndin er sú, að það, sem miðað hefur í átt til skilnings á þessu stórmáli, er mest að þakka framtakssömum áhugamönnum, sem því miður njóta allt of lítillar fyrirgreiðslu þrátt fyrir merkilegt starf og árangursríkar framkvæmdir, svo langt sem þær ná.“

Hér er vissulega drepið á mörg mikilvæg atriði, sem eru þess verð, að veitt sé full athygli og unnið sé að framgangi þeirra af einurð. Á margan hátt má segja að árið 1969 væri talið tímamótaár varðandi lax- og silungsveiði og undirbúning að stóru átaki í fiskræktarmálum landsins. Þessi mál hafa verið meir rædd á s.l. ári en nokkru sinni, og þótt menn séu ekki sammála um leiðir, þá blandast engum lengur hugur um nauðsyn þess, að raunhæfar aðgerðir eigi sér stað á þessu sviði nú þegar. Þessi almenni áhugi á lax- og fiskræktarmálum á rót sína að rekja til hópa áhugamanna, sem verja tíma og fé til þess að vinna málefninu lið. Það var að áeggjan L.Í.S. og Félags áhugamanna um fiskrækt, að hæstv. landbrh., Ingólfur Jónsson, skipaði n. manna til þess að endurskoða l. frá 5. júní 1957 um lax- og silungsveiði. Þessi n. náði að vísu ekki fullkominni samstöðu um öll atriði málsins, en nefndarstörfin hafa verið hvati til umræðna um málið, og það er vel. Fyrir bragðið eru þessi mál komin svo í sviðsljósið, að ekki verður látið staðar numið, fyrr en lausn er fengin með breyt. á l. og fjármagn tryggt. Hér má löggjafinn ekki vera sem dragbítur á framsókn mála, heldur ber honum að skapa svigrúm til þess að menn geti látið þekkingu og fjármagn njóta sín. Nokkrir ungir menn eru við nám í þessum fræðum, og væri hneisa að geta ekki tekið við þeim og veitt þeim starfsaðstöðu hér á landi, er þeir snúa heim aftur. Raunar þarf ekki að gera ráð fyrir því, að l. verði ekki samþ. á næstunni, því að bæði hefur hæstv. landbrh. boðað nýtt frv. af sinni hálfu, og svo var gerð sérstök ályktun um þessi mál á landsfundi Sjálfstfl. s.l. haust, og áhugamennirnir senda ályktanir frá sér jafnt og þétt. Spurningin verður aðeins, með hvaða hætti hv. Alþ. mun afgreiða þau frv., sem fram koma, og hvaða ákvæði verða í væntanlegum l. um lax- og silungsveiði, svo og hvað verður gert til þess að efla fiskræktina í landinu.

Sýnilegt er, að átök verða um till. um aukna friðun, og því ætla ég að fjalla nokkru meira um þann þátt. Hér skipast menn í tvo hópa, og ræður sennilega eingöngu hagsmunasjónarmið mestu um afstöðu manna til friðunarinnar. Rétt er að undirstrika, að aukin friðun er vandamál, sem verður að athugast vel, og nauðsyn er á því að afla aukinni friðun velvilja þeirra, sem líða kunna fyrir hana í hugsanlegum tekjumissi fyrst um sinn.

Um friðunarmálin hafa séð dagsins ljós fjöldi greina, og margir hafa deilt, bændur innbyrðis sem aðrir. Til þess að gefa nokkurt sýnishorn af sjónarmiðum, vil ég, með leyfi forseta, lesa hér úr tveimur greinum eftir menn, sem þekkja til í þessum efnum, en hafa fullkomlega gagnstæð sjónarmið. Fyrri greinin er eftir Einar Gestsson, Hæli, rituð í Suðurland, laugardaginn 7. sept. 1968:

„Á aðalfundi Veiðifélags Árnesinga 27. apríl var, eins og frægt hefur orðið, samþykkt af stórum meiri hluta félagsmanna tillaga, sem efnislega fól í sér, að engin veiði yrði leyfð fyrsta hálfan mánuðinn hins venjulega veiðitíma. Ástæðan fyrir till. var af flutningsmönnum talin vera sú, að mjög hefði borið á hin síðari ár, að göngulaxinn kæmi nú seinna en áður, en það væri mjög óheppilegt, einkum vegna stangaveiðinnar, því að hagkvæmara er, að veiðin dreifist á allan veiðitímann. Því bæri að friða fyrstu göngurnar, sem lengst fara, og kunnugir vita, að í þeim efnum eru hrygnur í miklum meiri hluta. Við töldum tillöguna hófsama og sanngjarna og að hún ekki skerti hagsmuni manna neitt að ráði, því að venjulega væri á þessum tíma veiði það dræm, að hún gerði víðast ekki meira en að borga fyrirhöfn. Vissulega mætti tillaga þessi harðri mótstöðu, og var flest reynt til þess að aftra því, að hún næði fram að ganga, og ýmist hótað skaðabótakröfum eða menn virtu hana að vettugi. Þeir, sem að till. stóðu, létu sér fátt um finnast og þótti ekkert undarlegt við afstöðuna eftir gangi mála að undanförnu. Það er ekkert óvanalegt, að menn taki munninn fullan í baráttunni, baráttu hitans, slíkt jafnar sig venjulega.“

Nú yrði það of langt mál, ef ég færi að lesa miklu meira úr þessu, en ég vil nú gefa hv. þm. tækifæri á að heyra hið andstæða sjónarmið. Magnús Magnússon, vel þekktur veiðimaður á Eyrarbakka, segir í sinni grein:

„Um veiðimál okkar Árnesinga hefur verið rætt og ritað nú um hríð, og sýnist sitt hverjum, en sem aðalþráður tvíþættur kemur fram í fyrsta lagi ofveiði, sem stofnar fiskistofni vatnahverfisins í bráða hættu, og þar til viðbótar kemur sú þokukennda hugmynd um jöfnun veiðihlunninda.“

Síðar segir Magnús:

„Þeir mörgu, sem tala um ofveiðina, láta oftast hjá líða að birta skýrslu máli sínu til sönnunar, en vitna í þetta og hitt, sem hafi einhvern tíma verið, án þess þó að sannprófun eða samanburður geti átt sér stað. Þetta er mikill ágalli, en ein röksemd, sem fram er sett, er þó undanskilin þessu, en það er, að bezt veiðist ávallt í Hvítá fyrstu veiðidaga vikunnar, en svo jafnan mjög lítið, og telja þeir, að þar með sé fullsönnuð ofveiðikenningin. Þetta með veiðina er augljóst fyrirbæri og getur naumast öðruvísi verið, svo framarlega sem nýta á laxastofn vatnahverfisins, en ekki að láta hann að mestu koma, fara og deyja drottni sínum. Þegar ekkert net liggur í hálfa vikuna og laxinn á greiða för um vatnið og vegalengdir ekki meiri en svo, að hann kemst um mestan hluta jökulvatnsins, þar sem ávallt er aðalveiðin í á friðunartímanum, þá segir það sig sjálft, að fleiri fiskar fara um og á efri svæðin en þegar öll net liggja og allir taka eitthvað af þeim laxahópi, sem fram hjá fer, en þar sem lengd neta og bilin milli þeirra, eins og mönnum er kunnugt um, er takmarkað af breidd vatnsins.“

Síðar segir hann:

„Þegar bændur fengu að njóta veiðiaðstöðu jarða sinna, kom þrátt fyrir allar takmarkanir mikill fengur á land, og í ljós kom, að laxastofninn er mjög stór. Og þrátt fyrir mikla netaveiði, þá lækkaði ekki tala veiddra laxa á stöng. Þetta sannar, að netaveiðin í jökulvatninu er sjálfsögð með skynsamlegri takmörkun þó, sem byggist á því, að laxastofninum sé haldið við.“

Deilan stendur sem sé um það, að geta úrskurðað, hvað sé skynsamleg takmörkun.

Ég vil undirstrika, að mikið vandamál er að ákveða nauðsynlega friðun og ekkert algilt svar er til í þessu efni, heldur verður heilbrigð skynsemi að ráða og eðlileg varúð, svo að við stofnum ekki laxveiðinni í beinan voða.

Ég hef nú rætt um aukna friðun á laxveiði á hafi úti, og það er til fyrirmyndar, að við höfum bannað alla veiði í sjó hér hjá okkur. Hins vegar er ekki mikill munur á því að veiða laxinn í net aðeins 100 m inni í stórum ós, sem sjór fyllir við flæði, og að veiða laxinn t.d. 10–100 m frá ströndinni eða ósnum sjálfum sjávarmegin. Öllum er bannað að drepa í sjónum, en löggjöfin hefur leyft vissa veiði í sjálfum ósnum, sem vel getur verið eðlileg, en gæta verður hófs í þeim efnum. Ég lít svo á, að hinn óbreytti borgari eigi hliðstæðan rétt til veiða undan ströndinni eins og bóndinn, sem hefur nytjar af ósnum vegna legu lands síns að ósnum. Hitt er svo annað mál, hvort almenna nauðsyn beri til þess að takmarka réttinn hjá báðum aðilum á báðum svæðunum eða aðeins á öðru svæðinu. Um það má deila. En einmitt í þessu mati á milli hagsmuna og réttar til nytja liggur vandinn. Allir viðurkenna hér nauðsyn á friðun á fiski í sjó fyrir ýmsum veiðarfærum á ýmsum tímum. Hví skyldi ekki gilda hið sama í straumvatni? Vissulega takmarkar löggjafinn veiðimöguleikana, og ákveðnar reglur eru settar um fjölda stanga og á hvaða tíma veiðin má fara fram, og þessum reglum er stranglega fylgt eftir. Hvers vegna er þetta gert? Auðvitað vegna þess, að nútímatæknin getur hreinlega gengið af fiskinum dauðum og eytt veiði í ákveðnum ám. Einnig hafa skapazt ýmsar siðareglur í stangaveiðinni, sem hver góður og heiðarlegur stangaveiðimaður hefur í heiðri og fylgir sem lögum. Í þessu sambandi má spyrja margs, sem ekki er tími til að fjalla hér um, en minna má á, að í Jónsbók, kafla 56, eru þessi ákvæði: „Ganga skal guðsgjöf til fjalls sem fjöru, ef gengið vill hafa.“ Hér er sannarlega munað eftir þeim, sem ofar búa og eiga sinn rétt, eins og guð og áin veitir honum til framfæris. Þetta gat gengið óbreytt öld eftir öld. En getur þetta gengið í dag? Ég vil svara því neitandi. Veiðitækni með netum hefur fleygt fram, og nú er svo komið, að hin hárfínu girnisrnet eru svo fiskin, að það er hin mesta skammsýni að takmarka ekki notkun þeirra, jafnvel banna alveg.

Ég tel, að við eigum sterkari leik á borði með kröfu um, að aðrar þjóðir banni eða takmarki mjög laxveiði í sjó, ef við sjálfir förum hér að með góðu fordæmi. Þeirri staðreynd verður ekki á móti mælt, að veiði hefst nú fyrr en áður var víðast hvar á landinu, og gegn þessari uggvænlegu þróun verður að sporna með aukinni friðun fyrst á vorin og stuðla þannig að því, að snemmgengni laxinn fái að njóta sín aftur.

Á s.l. ári gerðust þeir atburðir, að nokkrar þjóðir, sem eiga hagsmuna að gæta í laxveiði í landi sínu, samþykktu á alþjóðaráðstefnu 10 ára friðun á laxi í net og á línu í hafinu. Þó voru Danir, Svíar og V.-Þjóðverjar ekki aðilar að þessu. Hér á landi hafa stangaveiðimenn mjög beitt áhrifum sínum í þessa átt, og í ágætri greinargerð frá L.Í.S. um baráttuna fyrir takmörkun og friðun á laxveiði í net og á línu í N. Atlantshafi geta hv. þm. lesið meira um þetta. Það verður hægt að útvega mönnum þessar grg., ef þeir hefðu áhuga á. Því miður hefur þátttaka veiðiréttareigenda ekki verið sterk í þessum málum, en engir munu þó eiga meira undir, að hér takist vel til en einmitt þeir. Það er staðreynd, að laxinn fer landa á milli, og þótt enn þá sé ekki vitað, hvaða áhrif mikil veiði í sjó hefur á laxastofninn hér á landi, verðum við að hafa vaðið fyrir neðan okkur til öryggis fyrir framtíðina.

Sem dæmi um, hvert stefnir með veiðar í sjó, vil ég nefna eftirfarandi: Árið 1965 voru tveir línubátar við laxveiðar í N.-Atlantshafi, en árið 1968 veiddust 630 tonn hjá línubátunum og á s.l. ári um 700 tonn. Í Noregi eru veidd um 2 þús. tonn á ári af laxi, og þar af um 85% í sjó. Þar bera menn mjög mikinn kvíðboga í brjósti vegna stóraukinna sjóveiða rétt utan við fiskveiðitakmörk þeirra. Talið er, að við veiðum um 2% af laxinum í N.- Atlantshafi, en það er um 120 tonn á ári, og leist mér svo til, eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, að um 13–14 þús. stykki séu tekin í netin, en 15–17 þús. stykki séu veidd á stöng.

Einn þýðingarmesti kafli frv. fjallar um stofnun Fiskræktarsjóðs. Þetta er gamalt áhugamál margra manna. Nú eru, eftir því sem mér hefur verið sagt, 11 klak- og eldisstöðvar í landinu. Ríkissjóður rekur eina stöð, en aðrar eru í einkaeign. Öllum þessum stöðvum er eitt sameiginlegt, þ.e. fjármagnsskortur. Það eru ekki ýkjur, að sumar þessara stöðva mundu fyrir löngu úr sögunni, ef ekki kæmi til ódrepandi áhugi þeirra, er standa að þeim. Úr þessu verður að bæta. Því verður ekki með nokkru móti trúað fyrirfram, að hér á landi megi ekki með góðum árangri reka klak- og eldisstöð, er framleiði seiði í árnar, svo og einnig stöð með hreint fiskeldi, eins og gert er nú mjög víða erlendis með ágætum árangri, eins og t.d. í Danmörku, en þar er þessi atvinnugrein svo arðsöm, að hún gefur af sér 1 milljarð ísl. kr. í útflutningi. Eiga þó Danir við feiknaerfiðleika að etja í sambandi við gott vatn.

Ég vil minna á tilvitnanir, sem frv. fylgja frá ýmsum aðilum um þetta efni. Á ýmsu hefur gengið í rekstri þessara stöðva, eins og oft vill verða, þegar ekki er nægileg þekking fyrir hendi, en mjög takmörkuð fræðsla er hér á landi. Úr þessu öllu ber brýna nauðsyn til að bæta, til þess að rekstur eldisstöðvanna megi verða traustur. Hér má í þessu sambandi benda á nokkur veigamikil atriði sem skilyrði fyrir láni eða styrkveitingu úr væntanlegum Fiskræktarsjóði, en þau gætu verið þessi: Að lagðir séu fram fullkomnir uppdrættir að byggingaframkvæmdum, gerð klakeða eldisstöðvarinnar eða byggingum, samþykktum af viðkomandi yfirvöldum. Að fyrir liggi ljósar upplýsingar um það, að nægilegt fjármagn sé fyrir höndum til framkvæmda og reksturs með væntanlegri aðstoð Fiskræktarsjóðs. Að nægilegt og heilsusamlegt vatn sé fyrir hendi. Að gönguskilyrði séu í viðkomandi stöð, sé ráð fyrir slíku gert varðandi framtíðarrekstur. Efnagreining vatns liggi fyrir o.s.frv., er sannað gæti, að það væri nothæft til slíkrar starfsemi. Að fyrir liggi ítarlegar upplýsingar um þær fisktegundir og fiskstofna er rækta skal eða ala í stöðinni, að fiskræktarráðunautur hafi áður fjallað um þessi atriði og sé því meðmæltur og stjórn sjóðsins taki þetta til nánari fjárhagslegrar afstöðu eða meðferðar.

Ekki verður hjá því komizt að minna á nýtt félag, sem ætlað er það hlutverk að rækta laxfisk eða silung hér í stórum stíl, eftir því, sem Morgunblaðið segir 4. jan. s.l. Þetta félag heitir Laxeldi h.f. og á að starfa við Mývatn eða nágrenni. Aðilar að þessu félagi eru fjársterkir Íslendingar innanlands og erlendis, sem taldir eru snjallir menn á viðskiptasviðinu og mundu varla hætta fjármagni sínu í svona fyrirtæki, ef vonin væri ekki nokkuð góð um þokkalegan arð. Ég vil fagna því, að menn koma auga á þessa möguleika hér, og þá er það hlutverk hv. Alþ. að hafa samþykkt viðeigandi lög til eflingar allri svona starfsemi. Augljóst er því, að ekki mun skorta verkefni fyrir væntanlegan Fiskræktarsjóð, og því nauðsynlegt að tryggja honum raunhæfar tekjur.

Í ræðu þeirri, er hæstv. landbrh. hélt á veiðimálaráðstefnu í s.l. mánuði, gerði hann að umtalsefni nauðsyn á aukinni fræðslu í þessum efnum og þörfina fyrir vel menntaða menn. Ráðh. sagði frá því, að nokkrir ungir menn væru að nema þessi fræði, og vænti vinnu þeirra hér á landi. Því verður löggjöfin að gera þessum mönnum kleift að koma hingað til starfa með því að skapa þeim starfsskilyrði, en þau eru alls ekki fyrir hendi í dag og verða það ekki, nema sérstakt átak sé gert í auknu fjármagni til veiði- og fiskræktarmálanna almennt séð. Hér þurfa að starfa sérstakir fiskræktarráðunautar og sérfræðingar í fisksjúkdómum til trausts og halds fyrir bændur og aðra, sem starfa í þessum málum.

Eitt af því, sem nær algjörlega hefur verið vanrækt þrátt fyrir lagabókstafinn, er rannsókn á vötnum og ám landsins og möguleikum fyrir fiskastiga. Hér er geysiþýðingarmikið verk framundan fyrir hina ungu vísindamenn.

Eitt viðkvæmasta deilumálið í laxveiðinni er, með hvaða hætti erlendir veiðimenn skulu hafa aðgang til veiða hér á landi. Nú sem stendur greiða útlenzkir veiðimenn um eða yfir 40 millj. fyrir sinn snúð, og fróðir menn segja, að með góðri uppbyggingu og laxeldi megi skjótlega tvöfalda þessa upphæð. Kemur þá einnig inn veiði í vötnum, sem ekki eru nytjuð núna. Á þetta atriði drap Steingrímur Hermannsson í ágætri ræðu á fyrrnefndri veiðimálaráðstefnu. Hann bendir réttilega á það, að illa fari á því, að íslenzkir stangaveiðimenn yrðu brátt annars flokks veiðimenn í landi sínu. Erlendir auðkýfingar geta slegið alla út í einu vetfangi, ef þeir hefðu frjálsan aðgang að ánum hér.

Sem innskot vil ég benda á það, að öllum er fyrirskipað í l. að fara eftir ákveðnum reglum í viðskiptum sínum við erlenda menn, og svo verður einnig að vera hér í laxveiðimálunum, jafnvel þótt með nokkrum öðrum hætti sé. Frv. okkar fjallar ekki um þetta atriði til neinnar niðurstöðu. Málið er of flókið, til þess að slíkt verði gert án undangenginnar mikillar athugunar. En leggja má heildarlínu og síðar kveða nánar á um framkvæmdaatriði í reglugerð. Það, sem skiptir mestu máli, er að fastmóta l. um þetta atriði, því að ella fer illa fyrir báðum aðilum, veiðiréttareigendum og veiðimönnum. Ég tel æskilegast, að þetta vandamál verði tekið til raunhæfrar athugunar og hleypidómalaust. Enginn Íslendingur hefur þau réttindi, að hann geti að eigin vild gert þá samninga við erlenda aðila um einhver afnot af landi eða eignum hér, að ekki komi til samþykkis hins opinbera á einn eða annan hátt. Og hið sama hlýtur að gilda um veiðiréttinn og framsal á honum til erlendra aðila. Sem dæmi um, hve réttur manna er þröngur á vissum sviðum, má nefna það, að enn hefur alls ekki fengizt leyfi til þess að selja saltaða tunnu af síld frá skipi beint erlendis, þótt stórhagnaður væri að því fyrir viðkomandi aðila og örstutt í land í hinni erlendu höfn, en meira en þúsund mílur að landi hér. Ekki er eignarrétturinn metinn mikils hér né hagsmunir viðkomandi eigenda. Hvernig, sem þessu máli lyktar, er eitt víst, að fullkomin skrásetning og upplýsingar um greiðslur erlendra veiðimanna verða að liggja fyrir og með hvaða rétti þeir fá veiðiréttindi sín hér á landi. Allt annað brýtur gersamlega í bága við þá meginreglu um viðskipti Íslendingsins við erlendan aðila í einu eða öðru formi.

Ég hef nú í stórum dráttum fjallað um þetta frv. og rakið nokkur atriði, sem það snertir á víðari grundveili. Sjálfsagt mætti enn fara um þetta fleiri orðum, en þar sem ég er þegar orðinn langorður, mun ég stytta mjög mál mitt.

Til frekari áherzlu á vissa þætti, sem við viljum leggja áherzlu á og fjallað er um í frv.: Mörg ákvæði eru tvímælalaust til stórra bóta frá því, sem var í hinum eldri lax- og silungsveiðilögum, svo sem um aukna friðun, lögbindingu veiðifélaga, stofnun Fiskræktarsjóðs, aukið eftirlit og löggæzlu, ákvæðin um dómsvald fyrir brot á löggjöfinni og stórhækkuð sektarákvæði. Við viljum skapa skýrari ákvæði og markalínu á milli þeirra, er eiga að hafa með höndum framkvæmd l., og þá í þeim efnum tekið tillit til sérfrv. þess, er þrír nm. sendu landbrh., en ekki var lagt fyrir Alþ. Landbrh. skýrði hins vegar frá því, að frv. þremenninganna lægi fyrir til sýnis og afnota fyrir þm.

Hin veigamestu atriði, sem í þessu frv. eru, en voru ekki í frv. hæstv. landbrh. frá síðasta Alþ., fjalla um í fyrsta lagi aukna friðun, annað breytingu á fyrirkomulagi um stjórn veiði- og fiskræktarmálanna, í þriðja lagi stjórn og rekstur Laxeldisstöðvar ríkisins í Kollafirði og í fjórða lagi stofnun og starfsmöguleika Fiskræktarsjóðs.

Þótt ekki sé lengra um liðið en frá s.l. vori, þegar landbrh. lagði fyrrgreint frv. fyrir Alþ. í maímánuði, þá hafa ýmsir þeir atburðir gerzt, sem kalla á skjóta og víðtæka endurbót á lax- og silungsveiðilöggjöfinni. Má í því efni sérstaklega nefna sífellt vaxandi laxveiði á línu og net í Atlantshafi, aukna ásókn útlendinga í veiðiréttindi í íslenzkum ám og vötnum, þjóðarnauðsyn á að hefja fiskeldi sem búgrein og stóran þátt í útflutningstekjum þjóðarinnar, stóraukna fiskrækt, aukna fræðslu um þessi þýðingarmiklu mál, rannsóknir og lýsingar á vatnasvæðum landsins og síðast en ekki sízt skyldur vatnsaflsstöðva og orkuvera við fiskræktarmálin. Það er því ekki seinna vænna en að hv. Alþ. fjalli um mál þessi og að það verði reynt, hvort meiri hl. fáist fyrir því að beina þeim inn á svipaðar brautir og aðrar menningarþjóðir hafa talið nauðsynlegt.

Herra forseti. Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, að frv. verði vísað til landbn.