26.01.1970
Efri deild: 38. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í C-deild Alþingistíðinda. (2883)

148. mál, dýralæknar

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Þróunin á undanförnum árum hefur orðið sú, að þjónusta sú, sem dýralæknar veita, hefur farið ört vaxandi. Löggjafinn hefur fyrir sitt leyti tekið tillit til þess, og með lagabreytingum hefur dýralæknaumdæmum verið fjölgað allmikið á hinum síðari árum. Á þinginu 1958 var fjallað um frv. þess efnis að skipta þáverandi Austurlandsumdæmi í tvö svæði og að dýralæknir hefði búsetu á hvoru þeirra um sig. Þetta frv. var þá afgr. sem l. og staðfest sem l. nr. 7 1959. Þá var svæðinu skipt þannig, að Austurlandsumdæmi skyldi ná um Múlasýslu suður á Breiðdalsheiði, en A.- Skaftafellssýsluumdæmi ná um A.-Skaftafellssýslu og austur að Breiðdalsheiði. Bæði þessi umdæmi dýralækna eru víðlend, en vegalengdin frá Höfn í Hornafirði austur í Breiðdal er þó miklu mun meiri en vegalengdin frá Egilsstöðum suður í Breiðdal. En við skiptinguna, eins og hún var ákveðin á sínum tíma, var mjög miðað við það, að fjöldi búfjár á hvoru svæði um sig yrði sem jafnastur. Nú hefur reynslan sýnt, að dýralæknirinn, sem á heimilisfang á Hornafirði, á mjög erfitt með sökum vegalengda og oft torfæru á þeim vegi yfir vetrarmánuðina að veita þá þjónustu austur í Breiðdal, sem þörf er á. Þeir, sem búa í þessu hreppsfélagi, telja aðstöðu sína verða betri, ef þeir eigi sókn til dýralæknis að Egilsstöðum. Íbúar Breiðdalshrepps hafa því á s.l. ári samþ. á búnaðarfélagsfundi heima í hreppnum svofellda till.: „Aðalfundur Búnaðarfélags Breiðdæla, haldinn að Staðarborg 15. maí 1969, skorar á þm. Austurlandskjördæmis að beita sér fyrir því, að Breiðdalur sé lagður undir umdæmi dýralæknis á Egilsstöðum.“ Sú skýring fylgir, að till. þessi hafi verið samþ. með öllum greiddum atkv.

Þessi till. hefur verið send þm. Austf. og þess farið á leit, að þeir reyndu að koma fram á þingi því, sem nú situr, þessari lagabreytingu. Frv. þetta er því flutt í samræmi við þessar óskir Breiðdælinga, og það er borið fram af mér í þessari hv. d. í samráði við aðra þm. úr Austurlandskjördæmi.

Í þessu frv. felst sú eina breyt. á gildandi l., að skilin milli umdæmanna verði ekki á Breiðdalsheiði, eins og nú er, heldur við mörkin milli Breiðdalshrepps og Beruneshrepps, þannig að það verði aðeins þrír syðstu hrepparnir í S.-Múlasýslu, sem eiga sókn til dýralæknis l. samkv. að Höfn í Hornafirði.

Ég vænti þess, að hv. þd. líti á þetta mál með góðum skilningi og að það fái góða og hraða afgreiðslu. Ég legg svo til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.