27.01.1970
Neðri deild: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

126. mál, söluskattur

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Mér fannst rétt að gera með örfáum orðum grein fyrir því, af hverju það var, að ég greiddi atkv. á móti þessu frv., en það stafar af því, að ég hef frá fyrstu tíð verið á móti þeirri skattlagningaraðferð að innheimta söluskatt af brýnustu lífsnauðsynjum almennings, eins og t.d. mat, vinnufötum, ljósi og hita, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv.

Mér finnst hægt að tala um það að innheimta söluskatt af ýmsu, sem ekki tilheyrir frumþörfum manna, en með söluskatti viðreisnarstjórnarinnar er í raun og veru verið að draga af þeim fátæku bita og sopa, líkt og heylítill bóndi gerir við búfé sitt. Það voru til í mínu ungdæmi bændur, sem vanfóðruðu kýrnar og ærnar, en höfðu kannske stríðalda gæðinga sína inni við töðustall. Mér finnst atferli hæstv. ríkisstj. minna mig á slíka bændur. Verðbólgan og gengisfellingarnar hafa leikið alþýðu manna hér á landi grátt á undanförnum árum og nú hefur atvinnuleysið bætzt við. En samt heldur hæstv. ríkisstj. áfram að skara í verðbólguglæðurnar. Þetta frv. er sá skörungur, sem ég spái að æsi til nýs launastríðs, því eins og allir vita á almenningur ekki aðra leið, þegar hann hættir að geta borið þær byrðar, sem á veik bök eru lagðar, heldur en að heimta þá meiri laun.

Mér er ljóst, að einhvern veginn þarf ríkisstj. að bæta upp tekjutapið af tollalækkuninni, sem nú hefur verið samþ. hér í þessari hv. d. Eðlilegast hefði verið að hækka beina skatta, þannig að hinir efnuðu bæru þar þyngstu byrðarnar, tækju á sig meginhlutann af því, sem nú þurfti að bæta við, í staðinn fyrir það, sem tapazt hafði með tollalækkununum. En með söluskatti, sem sífellt er verið að hækka og nær orðið til flestra lífsnauðsynja, borga þeir mest, sem flesta hafa til að fæða og klæða, eins og allir vita, en það fer oftast saman, að þeir eru fátækastir og hafa af minnstu að taka. Þetta er svo kunnugt, að það þarf varla að nefna það.

Ríkisstj. þykist ætla að jafna þennan mun að einhverju leyti, þó ekki liggi nú fyrir neitt ákveðið um það frá henni, en maður hefur jafnvel heyrt, að það standi til að auka eitthvað við fjölskyldubætur og aðrar bætur til þess að draga á þann hátt e.t.v. eitthvað úr mestu erfiðleikum þeirra fátækustu. En um þetta liggur þó ekkert ljóst fyrir.

Ég tel, að á því væri mikil þörf, þegar þetta frv. verður orðið að lögum eins og það liggur hér fyrir, að eitthvað yrði gert til þess að auka fjölskyldubætur, mæðralaun og aðrar slíkar bætur, örorku– og ellilífeyri, til þess að reyna að koma í veg fyrir, að þeir, sem þyngstar byrðarnar bera í sambandi við fjölskyldumál og í sambandi við þennan söluskatt, þyrftu ekki að fara eins illa út úr þessari löggjöf og mér virðist að hljóti að verða.

Fjölskyldubætur eru t.d. núna ekki nema liðlega 4.000 kr. fyrir hvert barn. Við vitum, hversu lítill hver þúsund króna seðillinn er, þegar á að fara að nota hann og þessar bætur tel ég að þurfi að hækka verulega. Hámarkslaun verkamanna með 8 tíma vinnu á dag yfir árið eru, held ég, ekki há. Ég held, að þau hljóti að hrökkva skammt, þó fjölskyldan sé ekki nema 4–5 í heimili, hvað þá ef fleiri eru.

Verkamaður með 8 tíma vinnu getur kannske komizt í 150 þús. kr. tekjur yfir árið, ef alltaf er stöðug vinna. Það er ekki hægt að fara hart með þessar tekjur, til þess að þær geti hrokkið fyrir lífsþörfunum. Ég hygg, að 4 manna fjölskylda þurfi um 100 þús. kr. fyrir fötum og mat, ef sparlega er með farið. Þá sjáum við, að af því eru teknar 11 þús. í söluskatt. Maðurinn verður að borga af þessari litlu upphæð 11 þús. kr. í söluskatt af matnum og fötunum.

Mér er ljóst, að söluskattur er mjög þægileg skattlagningaraðferð fyrir ríkisstjórnir og líka þá, sem eru efnaðir. Þeir komast vel út úr sínum sköttum á þennan hátt. En ég held, að þessi skattlagningaraðferð verki alveg eins og mölur í tekjum þeirra fátæku.

Ég man nú vel eftir því, svo gamall er ég, að einu sinni var Alþfl., sem er annar stjórnarfl. núna, mjög mikið á móti óbeinum sköttum. Hans talsmenn töluðu um það á sinni tíð, að byrðarnar ættu þeir að bera, sem breiðust hefðu bökin. Þetta var nú á þeim dögum, þegar ég var ungur og þótt ég væri aldrei Alþýðuflokksmaður, þá hlustaði ég vel á það, sem fram fór og var hrifinn af þessari kenningu og taldi hana réttláta. Nú hefur þetta mjög breytzt hjá þessum flokki og nú tekur hann þátt í því að dreifa sköttunum aðallega á þá, sem veikasta hafa aðstöðuna til þess að bera þá. Þetta tel ég mjög illa farið og ég harma það, að Alþfl. skuli hafa farið út á þessa braut. Nú eiga veiku bökin að bæta á sig, en hin breiðu ekki að sama skapi, skv. því frv., sem hér liggur fyrir.

Mér finnst alltaf, að með söluskatti sé líkast því sem læðzt sé að skattborgurunum með lævíslegum hætti, eins og þegar veiðimaður læðist í hentugt færi við fórnardýr sitt. Þannig kemur þessi leiðinlegi skattur mér fyrir sjónir. Það er svo illt að vara sig á honum. Maður veit miklu betur um skattinn sinn, ef maður fær hann sér á gjaldseðli, en þessi söluskattur, hann grípur inn í allt, sem maður kaupir. Þess vegna er erfitt fyrir almenning að vara sig á þessum skatti og engin leið er að komast undan honum auðvitað, þar sem hann leggst á brýnustu lífsnauðsynjar. Nú er hann t.d. kominn á hvern bita og sopa, nema mjólkina.

Árni Óla rithöfundur segir frá því í bók, sem hann hefur nýlega skrifað um Viðeyjarklaustur, að bændum þótti illt að búa undir osttollinum illræmda, sem lagður var á bændur hér í nágrenni Viðeyjarklausturs til þess að fæða munkana og halda klaustrinu uppi. Og það fór nú þannig, að þessi tollur fór með tímanum að gjaldast illa. Munkarnir létu þó nokkuð koma í staðinn fyrir skattinn. Þeir báðu fyrir sálum þeirra, sem skattinn áttu að greiða. En mér er ekki kunnugt um það, að ríkisstj. biðji fyrir þeim, sem söluskattinn eiga að borga, frekar en aðra skatta, þannig að henni ferst miklu verr en munkunum, þó að þetta væri illur og óréttlátur skattur.

Það er nú einn höfuðgallinn á söluskattinum, að ríkið, sem á að njóta hans, býr ekki svo um hnútana, að skatturinn, sem hinir snauðu hafa verið píndir til þess að borga, komi örugglega allur til skila. Það eru af mjög mörgum taldar miklar líkur til þess, að svo sé ekki, hann skili sér ekki að fullu og hefur það komið fram í umr. um þetta mál á Alþ. En valdhafarnir vilja ekki gera öruggar ráðstafanir til innheimtunnar. Það kann að vera, að það séu ýmsir erfiðleikar á því, að gera þessar ráðstafanir alveg fullkomlega öruggar, en ég hygg þó, að með þeirri till., sem að vísu var samþ. hér áðan, en er þó ekki nema heimildartill., um peningakassa í viðskiptafyrirtækjum, þar sem söluskatturinn er greiddur um leið og viðtakandi vörunnar greiðir hana, þá sé mikið öryggi í því fólgið. Og ég vil vonast til þess, að hæstv. fjmrh., sem ég er alveg sannfærður um að vill ná skattinum í ríkiskassann, geri nú sitt til þess að þessi leið verði prófuð.

Ríkisstj. hefur viljað treysta á þegnskap allra þeirra mörgu manna og aðila, sem eiga að standa skil á skattinum til ríkisins. Ég efa alls ekki, að það eru margir, sem eru þessa trausts verðir, en það væri ekkert óeðlilegt að mínum dómi, ef miðað er við kunnan mannlegan breyskleika, þó að ekki væru allir, sem gætu staðizt þá freistingu, sem því er samfara, að meðhöndla fé hins opinbera eins og sína eign, þegar það er tiltölulega auðvelt án þess að upp um það þurfi að komast. Þess vegna er það ákaflega áríðandi að mínum dómi og gerir mönnum léttara að greiða skattinn, ef það er nokkurn veginn örugglega tryggt, að hann geti komizt til skila þangað, sem hann á að fara, í ríkiskassann.

Söluskattur í svo stórum mæli sem nú er orðið um að ræða hér, eftir að þetta frv. verður að l., hann er, – eins og ég hef áður vikið að, – mjög óréttlátur gagnvart hinum fátæku í landinu og því hættulegri fyrir þá, þegar verðbólga er hraðfara og gengisfellingar stórstígar og tíðar, eins og hér hefur átt sér stað á síðasta áratug. Reynslan er yfirleitt sú, að fátæka fólkið, sem er meiri hluti þjóðarinnar og það líklega mikill meirihluti þjóðarinnar, það mætir tekjuskerðingu og skattpíningu með sífellt auknum sparnaði, um aðrar leiðir er ekki að ræða fyrir þetta fólk. Þessi sparnaður gengur m.a. og kannske aðallega út á það að spara fæðið, sem fólkið þarf. Það fer að kaupa fæðu, sem er ódýr, en getur þó veitt því saðningu í bili. En hins er þá auðvitað ekki gætt, sem ekki er von, að þá sparar það sér þær fæðutegundir, sem mest og bezt næringargildi hafa inni að halda og nauðsynlegastar eru fyrir heilsuna, fyrir líkamann. Það er gömul reynsla, að þessi sparnaður bitnar fyrst og fremst á hinum innlendu landbúnaðarvörum, kjöti, smjöri, nýmjólk, rjóma o.fl., eins og komið hefur fram í þessum umr. og ég veit af nokkurri þekkingu að er fullkomlega rétt, salan á þessum vörutegundum hefur minnkað. Og það er reynslan, að þess gætir alltaf fyrst, að fólkið fer að spara þessar vörur, þegar harðnar í ári og tekjurnar minnka. Þetta hygg ég, að geti haft mjög alvarlegar afleiðingar, bæði í sambandi við heilsufar þessa fólks, sem ekki getur veitt sér að kaupa þessar hollu fæðutegundir, sem landið gefur af sér og um leið fyrir hina láglaunuðu bændastétt, sem má þola það, að tekjur hennar skerðist enn. Við slíku er hún ekki búin. Hún þyrfti fremur á því að halda, að markaðir örvuðust fyrir hennar framleiðslu.

Ég er mjög sammála því, sem fram kemur í nál. 2. minni hl. fjhn., að það hefði nú í sambandi við EFTA–aðildina átt að taka allt tekjuöflunarkerfi ríkisins til endurskoðunar og hafa við þá athugun það að grundvallarreglu, að helztu lífsnauðsynjar yrðu sem minnst og helzt ekkert skattlagðar. Ég er viss um, að með því móti mundi hagur ríkisins og þjóðarheildarinnar vera bezt tryggður og þá væri helzt von um frið og kyrrð í þessu landi.

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. með lengra máli og læt máli mínu því lokið.