27.01.1970
Neðri deild: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

126. mál, söluskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég boðaði það við 2. umr. málsins, að ég mundi e.t.v. við 3. umr. freista þess að bera fram brtt. við frv. um söluskattinn. Það fór svo sem ég hugði, að felldar voru allar þær till., sem í þá átt gengu að takmarka söluskattsinnheimtuna, létta henni af brýnustu nauðsynjum, en hins vegar var samþ. till., sem heldur ætti að drýgja tekjur ríkissjóðs af söluskattinum, þ.e.a.s. kassatillagan, sem ég lét í ljós furðu mína yfir áðan, að ekki fengist samþ., hversu oft sem hún væri borin fram, þar sem hún væri þó líkleg til þess að stuðla að því, að söluskatturinn skilaði sér betur til hæstv. fjmrh. Hann hefur sennilega lagt þarna líknarhöndina á að bjarga þessu í land og setur svo upp kassana og notar sjálfsagt heimildina til þess að draga þarna meiri björg í bú.

Mín till. er aðeins um það, að 1. gr. frv. breytist á þann veg, að í stað orðanna: 11%, komi 9 1/2%. Þetta eru lágar tölur, sem þarna eru nefndar í þessari till., en þær þýða það þó samt, ef till. hlýtur samþykki, að söluskatturinn lækkar um nokkur hundruð millj. kr. Samt sem áður ætti hann að standa vel undir þeim skakkaföllum, sem ríkissjóður verður fyrir af lækkun tolla skv. tollskránni, eins og hún hefur verið afgreidd. Ég legg þessa till. fram, herra forseti, og óska þess, að leitað verði afbrigða um hana, þar sem hún er bæði of seint fram komin og skrifleg.