13.04.1970
Efri deild: 68. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í C-deild Alþingistíðinda. (2921)

207. mál, Seðlabanki Íslands

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég skal á þessu stigi málsins ekki hafa mörg orð um það frv., sem hér liggur fyrir, enda á ég sæti í þeirri n., sem lagt hefur verið til, að því yrði vísað til. En ég vil þó aðeins taka það fram, að ég er frv. með öllu andvígur, og ég tel, að í því felist síður en svo nokkurt öryggi fyrir launþegana eða verkalýðinn í landinu, þó að samþ. yrði.

Þetta mál var auðvitað á sínum tíma, mjög ítarlega rætt hér á hv. Alþ., þegar sú breyt. var gerð sumarið 1961 með brbl. að færa gengisskráningarvaldið frá Alþ. til Seðlabankans. Við þær umr. var það upplýst, að það fyrirkomulag, að Alþ. ákvæði gengisskráninguna, væri hvergi í Evrópu vestan járntjalds a.m.k., nema í Belgíu. Skal ég ekki segja um það, hvort Belgir hafa sama fyrirkomulag í dag, en alls staðar annars staðar er það seðlabankinn í samráði við ríkisstjórnina, sem ákveður gengisbreytingarnar. Ekki er kunnugt um það, að það sé í nokkru Vestur-Evrópulandanna baráttumál verkalýðshreyfingarinnar, að þessu verði breytt, og ástæðan til þess, að svo er, er að mínu áliti augljós. Vitanlega eru gengisfellingar alltaf neyðarúrræði, sem ekki verður gripið til, nema óhjákvæmilegt sé að mati stjórnvalda. Ástæðan til þess, að slíkar ráðstafanir eru gerðar, eru venjulega þær, að verðlagsþróunin innanlands hefur farið úr skorðum miðað við það, sem er í helztu viðskiptalöndum, eða að það hefur átt sér stað meiri verðbólga innanlands en í viðskiptalöndunum. Slíkt hlýtur alltaf að valda útflutningsatvinnuvegunum miklum örðugleikum, og þegar sú leið er farin, sem engan veginn þarf alltaf að vera sú sjálfsagða, að leiðrétta þetta með því að breyta genginu, þá er það vegna þess, að það er að mati stjórnvalda þrautaminnsta leiðin. Það eru því engar líkur á því, að mínu áliti, að nokkur ríkisstjórn mundi fara út í gengisfellingu, nema hún ætti örugglega meiri hl. Alþ. á bak við sig í því máli. Ef einhver ríkisstjórn gerði slíkt, hlyti hún þegar í stað að hljóta vantraust. Að því leyti breytir það því að mínu áliti engu, hvort gengisskráningarvaldið er í höndum Seðlabanka og ríkisstjórnar eða í höndum Alþ.

Hins vegar, ef þarf að breyta genginu og það á að vera háð því, að samþ. sé lagafrv., þá skapar það í fyrsta lagi mjög mikla hættu á spákaupmennsku, svörtum gjaldeyrismarkaði og öðru slíku, eins og reynslan hefur líka sýnt oftar en einu sinni, þegar gengislækkunarfrv. hafa legið í fleiri vikur fyrir Alþ., eins og var bæði 1960 og líka árið 1950. En auk þess hefur það bakað atvinnuvegunum mjög mikla örðugleika, þegar allar gjaldeyrisyfirfærslur, nema þær bráðnauðsynlegustu, eru stöðvaðar um lengri tíma. Það er því ekki öðrum en spákaupmönnum um gjaldeyri í hag að hafa þetta fyrirkomulag, en það veldur hins vegar öllum almenningi miklum óþægindum. Ég tel því fyrir mitt leyti mjög fjarri lagi, að það ráði bót á neinum vanda að breyta hér um.

Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til þess að fara út í neinar deilur eða umr. um aðstæðurnar í efnahagsmálum árið 1961, það er þrautrætt mál. Á hinu vildi ég vekja athygli, að það fær, held ég, ekki að neinu leyti staðizt, að verkalýðurinn hafi orðið fyrir 25% kjararýrnun þá á einu til tveimur árum. Vegna gengislækkunarinnar hækkaði vísitala framleiðslukostnaðar um eitthvað 10–12%, þegar áhrifin voru öll komin fram. Það var að vísu ekki bætt með vísitölubótum, því að vísitölukerfið var þá afnumið í bili. Hins vegar komu á móti þessu skattalækkanir, hækkanir fjölskyldubóta og aðrar síðari ráðstafanir, sem gerðar voru til þess að bæta a.m.k. þeim verst settu kjaraskerðinguna af völdum gengislækkunarinnar, og þegar tillit var tekið til þess alls í framfærsluvísitölunni, þá hækkaði hún ekki nema um 3–4%. Nú segi ég ekki, að þetta hafi verið rétt mat á því fyrir alla, hvað kjaraskerðingin var mikil, en hitt held ég, að sé fjarri öllu lagi, að hún hafi getað numið 25%.