28.04.1970
Efri deild: 82. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í C-deild Alþingistíðinda. (2928)

233. mál, lífeyrissjóður bænda

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki efnislega að ræða þetta frv. Því var útbýtt núna um það leyti, sem þingfundur var settur, og ég hef ekki kynnt mér það, eins og það kann að vera. Hins vegar hef ég nokkuð kynnzt þeim grundvelli, sem þetta frv. er byggt á. Það var frv., sem n., er var skipuð af Búnaðarþingi, samdi og lagði fram á Búnaðarþingi á s.l. vetri. Ég vil þakka það við þetta tækifæri, hvað það hefur gengið vel, vil ég segja, að fjalla um þetta mál, eftir að frv. var samið í vetur, og að það skuli vera lagt fyrir þing að þessu sinni, því að ég tel það mikinn ávinning, að bændastéttin og bændasamtökin á þessu sumri geti kynnt sér þetta mál, áður en það verður endanlega afgreitt.

Ég tel ekki hyggilegt, að það verði afgreitt, án þess að bændasamtökin segi sitt um það og án þess að málið sé kynnt fyrir bændum, því að þótt það sé búið að tala um lífeyrissjóð bænda á undanförnum árum, þá held ég, að það hugtak sé mörgum hverjum bóndanum óljóst, eins og það kann að verða í framkvæmd, og því hyggilegt að ætla þennan tíma til að kynna málið.

Mér fannst það vera tónninn í þeim, sem fjölluðu um þetta mál á Búnaðarþingi í vetur, að þeir byggðu lífeyrissjóðinn upp að nokkru leyti, vil ég segja, á öðrum sjóði, sem bændur hafa lagt í á undanförnum árum, en það er fjármagn, sem þeir hafa lagt í Stofnlánadeild landbúnaðarins, og nemur, að ég hygg, nálægt 100 millj. kr., frá því að þeir fóru fyrst að leggja í Stofnlánadeild. Ég hef ekkert kynnt mér um það í þessu frv., hvort þar er svo ráð fyrir gert, að það gjald, sem bændur borga nú í Stofnlánadeildina, hverfi smám saman eða á 20 árum, eins og talað var um á Búnaðarþingi, og að þeir þurfi ekki að verða fyrir miklu meiri útgjöldum vegna lífeyrissjóðsins. Ef reyndin verður sú, að Stofnlánadeildin og það gjald, sem þangað fer, heldur áfram og bændur verða auk þess að borga í lífeyrissjóðinn af þeim tekjum, sem þá verða eftir, þá hygg ég, að það verði ærið íhugunarefni hjá mörgum bóndanum, hvað mikið þeir vilja hraða þessu máli.

Ég vil minna á það, sem stendur í ályktun Búnaðarþings í vetur og hljóðaði þannig: „Fáist ekki jákvætt svar við afnámi Stofnlánadeildangjaldsins samhliða því, sem álit stjórnskipuðu nefndarinnar liggur fyrir, verði máli þessu vísað til búnaðarsambandanna, sem leiti umsagnar bænda um það.“ Þess vegna væri gott að heyra nú hjá hæstv. fjmrh., hvernig hann lítur á þetta mál, þannig að það verði hægt að ræða Stofnlánadeildarmálið eða það gjald, sem þangað fer frá bændum, samhliða því, sem rætt er um lífeyrissjóðinn, vegna þess, að mér fannst það vera grundvallaratriði hjá Búnaðarþingi í vetur, hvernig því máli yrði tekið.

Það er alveg rétt, að það liggur náttúrlega ekki ljóst fyrir, þegar um lífeyrissjóð bænda er að ræða, hver mótaðilinn er, sem á að borga í þann lífeyrissjóð, eins og annars staðar er, þar sem ríki eða bæjarfélög eða aðrar stofnanir eiga í hlut. Og því er það, að það hefur verið horfið að því, að sá hlutinn kæmi frá neytendum. Og ég hygg, að það sé mjög svipað og á sér stað hjá öðrum þjóðum, þar sem lífeyrissjóðir bænda gilda.

Efnislega ætla ég ekki að fara meira út í þetta mál nú, en ég tel hyggilegt, eins og málið er í eðli sínu, að það verði sent til umsagnar af hálfu hv. fjhn. Stéttarsambandi bænda og Búnaðarfélagi Íslands og að bændasamtökin geti kynnt bændum málið á þessu sumri og að það liggi þá ljósar fyrir í haust, hvert viðhorf bændastéttarinnar er til þess lífeyrissjóðs, sem þetta frv. fjallar um, en það hef ég ekki ennþá getað kynnt mér.