19.11.1969
Sameinað þing: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (2932)

92. mál, starfsreglur Norðurlandaráðs

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér liggur fyrir, er um staðfestingu á samkomulagi um breytta skipan Norðurlandaráðs, sem hefur orðið milli ríkisstj. Norðurlandaríkjanna fimm og forseta Norðurlandaráðs. Breytingin er í því fólgin, að Færeyjar og Álandseyjar fái fulltrúa hvorar um sig, Færeyjar í hópi fulltrúa danska ríkisins og Álendingar meðal fulltrúa Finnlands. Í samræmi við þá breytingu er svo ætlazt til þess, að nokkur fjölgun eigi sér stað hjá fulltrúum annarra, þannig að fulltrúum Noregs og Svíþjóðar fjölgar um tvo og Íslands um einn. Ætlunin er, að þessi breyting nái fram að ganga frá 1. jan., en vegna kosninga og vitundar annarra um, að ekki standi á okkur, er æskilegt, að þessi breyting verði samþ. sem fyrst. Sá háttur var valinn að endurnýja samþykkt á starfsreglunum í heild í staðinn fyrir að gera breytingu. Það er auðveldara, ef hægt er að hafa þetta á einum stað, heldur en með því að breyta reglunum frá 1958. Þetta er einfalt mál, sem margoft hefur verið rætt, og sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða um það. Það er að vísu rétt að taka fram, að meðal Færeyinga er nokkur óánægja með þessa skipan. En lögþing þeirra hefur fallizt á hana að meirihluta, og danska ríkisstj. og forsetar dönsku deildarinnar hafa gert þetta að till. sinni, svo að einsýnt virðist vera að samþykkja málið, eins og það liggur fyrir. Ég leyfi mér að leggja til, að málinu verði vísað til 2: umr. og hv. utanrmn.