03.12.1969
Sameinað þing: 18. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (2935)

92. mál, starfsreglur Norðurlandaráðs

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það var hinn 14. jan. 1967, að ríkisstj. Danmerkur flutti till. í Norðurlandaráði um aðild Færeyja að ráðinu. Á þingi ráðsins í Helsingfors það ár var þessari till. síðan vísað til laganefndar ráðsins. Til þess að þessi till. næði fram að ganga, þurfti að hafa samráð og fá samþykki ríkisstj. og annarra stjórnarvalda í þeim löndum, sem aðild eiga að Norðurlandaráði. Var því horfið að því ráði á þinginu í Helsingfors, að teknir voru upp beinir samningar í málinu í samráði við forseta ráðsins. Síðan var málið rætt á fundi utanrrh. Norðurlanda síðar á árinu 1967, og varð það niðurstaðan af viðræðum þeirra, að kosin var sérstök nefnd til þess að fjalla um ráðið, eftir að sameiginlegur fundur forsrh. Norðurlanda og forseta Norðurlandaráðs hafði verið haldinn hér í Reykjavík 8. og 9. okt. 1967. Var síðan skipuð nefnd með einum fulltrúa frá hverri ríkisstj. og einum frá hverju landi til þess að gera till. um aðild Færeyja og Álandseyja. En nokkru eftir að till. kom fram um aðild Færeyja að Norðurlandaráði, kom fram ósk um það frá Álandseyingum, að einnig þeir fengju aðild að ráðinu. Í nefndinni áttu sæti allir dómsmrh. landanna og forsætisnefnd ráðsins. Nefndin starfaði undir forustu Hermanns Kling, dómsmrh. Svíþjóðar. Þessi nefnd hélt nokkra fundi um þetta mál, og sinn síðasta fund hélt hún 12. ágúst s. l. Náðist þá samkomulag um það að mæla með því, að lögþing Færeyja kjósi tvo lögþingsmenn í Norðurlandaráð og landsþing Álandseyja einn fulltrúa. Jafnframt geta þessir sömu aðilar kosið hvor sinn stjórnarfulltrúa, þannig að í Norðurlandaráði mundu sitja tveir Færeyingar og einn Álandseyingur, sem ættu jafnframt sæti innan sendinefnda Dana og Finna. Í framhaldi af þessu var svo lagt til, að sú breyting yrði gerð, að fulltrúunum yrði fjölgað um tvo, upp í 18, frá Dönum, Svíum, Norðmönnum og Finnum og um einn frá Alþingi Íslendinga.

till., sem hér liggur fyrir og lögð er fram af hæstv. ríkisstj., segir, að Alþ. álykti að samþykkja starfsreglur Norðurlandaráðs, sem prentaðar eru hér á eftir sem fskj. með ályktun þessari, í stað starfsreglna þeirra, sem samþykktar voru með þál. 30. maí 1958. Þáltill. og þær starfsreglur, sem fylgja henni sem fskj., fela einungis í sér þær breytingar, sem leiða af aðild Færeyja og Álandseyja að Norðurlandaráði. Utanrmn. hefur fjallað um þessa till. og leggur einróma til, að hún verði samþ. óbreytt.

Það er rétt að geta þess, að sú fsp. kom fram í n., hver afstaða Íslands hefði verið til hinnar upprunalegu till. ríkisstj. Danmerkur um aðild Færeyja að ráðinu. Var þá upplýst, og skal einnig gert hér, að bæði af hálfu íslenzku ríkisstj. og hálfu sendinefndar Íslands í Norðurlandaráði var því þegar lýst yfir, að Íslendingar væru fylgjandi aðild Færeyinga að Norðurlandaráði, og í samræmi við þær yfirlýsingar hefur verið unnið að málinu af fulltrúum Íslands í nefndum þeim, sem um málið hafa fjallað.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum, en vil aðeins að lokum segja það, að Íslendingar munu að sjálfsögðu bjóða Færeyinga, frændur sína, velkomna til starfa og setu í Norðurlandaráði, einnig með þeim hætti, sem hér er gert ráð fyrir.