03.12.1969
Sameinað þing: 18. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (2936)

92. mál, starfsreglur Norðurlandaráðs

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég tel rétt, að það komi fram í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að mér er vel kunnugt um, að frændur okkar Færeyingar eru yfirleitt mjög óánægðir með pá lausn, sem þetta aðildarmál þeirra að Norðurlandaráði hefur fengið að þessu sinni. Færeyingar sóttu um það að verða sjálfstæður aðili, og Danir studdu þá í því efni. En þessari beiðni þeirra eða umsókn var synjað. Og þó að það sé rétt, að meiri hluti færeyska lögþingsins hafi með töluverðum semingi fallizt á þá lausn til bráðabirgða, sem hér er ákveðin, þ.e. að Færeyingar fái tvo fulltrúa í dönsku sendinefndinni, er það ekki ofmælt, að þar í landi ríki mikil óánægja með þessa lausn málsins.

Ég spurðist fyrir um það í utanrmn., hver verið hefði afstaða Íslendinga til sjálfstæðrar aðildar Færeyinga að Norðurlandaráði, og mér var tjáð, eins og þegar er komið fram hér í ræðu frsm. n., að afstaða Íslendinga hefði verið jákvæð til sjálfstæðrar aðildar, en málið hefði strandað á öðrum og þá fyrst og fremst á Finnum og Svíum að því er mér skildist. Ég vil leggja á það áherzlu, að ég tel það í alla staði eðlilegt og raunar sjálfsagt, að við Íslendingar styðjum málstað Færeyinga í þessu efni, hvar og hvenær sem við getum, svo og að við styðjum þá yfirleitt í allri þjóðernisbaráttu þeirra eftir því, sem til okkar kasta getur komið.

Ég tel rétt að vekja athygli á því, að Færeyingar hafa nú sjálfsstjórn, sem er nokkuð sérstaks eðlis, þ.e. að verulegur hluti af þeirra málum heyrir undir lögþingið, sem er löggjafarþing í öllum innanlandsmálefnum, og þeir hafa sitt eigið framkvæmdavald, sína landsstjórn, sem fjallar um öll þau mál. Í heimastjórnarlögum Færeyinga frá 1947 eru að vísu nokkrir málaflokkar, sem Danir fara með enn þá, en að mjög verulegu leyti er það þannig, að Færeyingar, færeyska lögþingið og færeyska landsstjórnin, fer með löggjafar- og framkvæmdavald í færeyskum málum. Þetta er mjög sérstætt, og ég veit ekki til, að það sé um annað sambærilegt að ræða, og ég hygg, að það sé á engan hátt hægt að bera sjálfsstjórn Álandseyja saman við þá sjálfsstjórn, sem Færeyingar hafa þrátt fyrir allt nú í dag.

Við Íslendingar eigum að mínu viti að gæta þess alveg sérstaklega, minnugir okkar eigin sögu, að hvenær sem við eigum kost á að styðja Færeyinga í þeirra þjóðernisbaráttu, eigum við að leggja okkar lóð á vogarskálina. Ég vildi aðeins undirstrika þetta með þeim fáu orðum, sem ég hef nú sagt. Að gerðum þessum aths., sem ég taldi nauðsynlegt, að kæmu fram í sambandi við þetta mál, hef ég mælt með samþykkt þeirrar till., sem hér er á dagskrá.