08.12.1969
Sameinað þing: 20. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (2939)

117. mál, aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þróun efnahagsmála í Vestur-Evrópu eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari og þá sérstaklega þróun viðskiptamála hefur í vaxandi mæli mótazt af auknu samstarfi þjóða í milli og vaxandi frjálsræði í viðskiptum. Segja má, að fyrstu sporin í þá átt hafi verið stigin með stofnun Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu í París 1943, en sú stofnun miðlaði bandarískri fjárhagsaðstoð við aðildarríkin, Marshall-fénu svonefnda, meðal aðildarríkjanna, auðveldaði gjaldeyrisviðskipti og vann að auknu frjálsræði í viðskiptum milli þeirra. Íslendingar gerðust strax aðilar að þessu samstarfi. Ári áður, eða 1947, höfðu 23 lönd gert með sér samkomulag um viðskiptamál, hið almenna samkomulag um tolla og viðskipti eða GATT, og hafa nú 74 lönd gerzt aðilar að þessu samkomulagi, þ. á m. Ísland, en 9 önnur lönd hafa tengsl við alþjóðastofnunina, sem komið var á fót með samkomulaginu. Utanríkisviðskipti þeirra þjóða, sem eru aðilar að GATT, nema um 80% alþjóðaviðskipta.

Næsta sporið á sviði efnahagssamvinnu í Vestur-Evrópu var stigið með stofnun kola- og stálsamsteypunnar árið 1952, en með stofnun hennar tóku framleiðendur kola og stáls í Frakklandi, Vestur-Þýzkalandi, Ítalíu, Belgíu, Hollandi og Lúxemburg upp nána samvinnu sín í milli. Þrem árum síðar tóku þessi sömu lönd upp viðræður um nánara efnahagssamstarf. Bretar tóku í fyrstu þátt í þeim viðræðum, en hættu þeirri þátttöku. Tveim árum síðar, eða 1957, gerðu þessi ríki með sér samning, Rómarsáttmálann svonefnda, um stofnun Efnahagsbandalags Evrópu. Grundvallaratriði Rómarsáttmálans eru þau, að allir tollar og öll höft í viðskiptum milli aðildarríkjanna innbyrðis hverfi og einum sameiginlegum tolli fyrir sérhverja vöru komið á fyrir bandalagsríkin gagnvart öllum ríkjum utan bandalagsins. Jafnframt var kveðið á um samræmingu á stefnu aðildarríkjanna í efnahagsmálum og víðtækum réttindum fyrirtækja og einstaklinga eins aðildarríkis í öðrum aðildarríkjum. Sameiginleg mál bandalagsins lúta sterkri yfirstjórn, og gert er ráð fyrir náinni samvinnu ríkjanna í stjórnmálum.

Skömmu eftir að Efnahagsbandalagið hafði verið stofnað, beittu Bretar sér fyrir því innan Efnahagssamvinnustofnunarinnar í París, að öll aðildarríki hennar mynduðu með sér svonefnt fríverzlunarsvæði. En með því er átt við bandalag, þar sem tollar og höft á viðskiptum milli aðildarríkjanna eru afnumin, en hvert ríki um sig ákveður tolla sína gagnvart ríkjum utan fríverzlunarsvæðisins, auk þess sem ekki skyldi vera um að ræða jafnvíðtæk, gagnkvæm réttindi og Rómarsáttmálinn gerði ráð fyrir. Um þetta mál fóru fram víðtækar umr. innan Efnahagssamvinnustofnunarinnar. Sem aðilar að henni fylgdust Íslendingar vandlega með þessum umr. Ég gaf Alþ. skýrslu um þær 18. febr. og 26. nóv. 1958. Þegar samningar innan Efnahagssamvinnustofnunarinnar um stofnun fríverzlunarsvæðis fóru út um þúfur, héldu þau 7 Evrópuríki, sem mestan áhuga höfðu haft á málinu, þ.e. Austurríki, Bretland, Danmörk, Noregur, Portúgal, Sviss og Svíþjóð,. með sér fund í Genf 1958 og í Ósló 1959 og gerðu síðan með sér samning í Stokkhólmi í ársbyrjun 1960, Stokkhólmssamninginn svonefnda, um stofnun Fríverzlunarsamtaka Evrópu, EFTA. Finnar sóttu um aukaaðild að samtökunum um það bil ári síðar og fengu hana. Aðrir hafa ekki bætzt í hópinn fyrr en nú, að Íslendingar hafa sótt um aðild.

Markmið Fríverzlunarsamtakanna var einnig að afnema alla tolla og öll höft á viðskiptum með iðnaðarvörur sín á milli. Hins vegar var ekki gert ráð fyrir samelginlegum tolli gagnvart löndum utan Fríverzlunarsamtakanna, heldur skyldi hvert ríki ráða sínum tollum gagnvart löndum utan samtakanna. Þá er ekki gert ráð fyrir jafnnáinni samvinnu í efnahagsmálum almennt og í Efnahagsbandalaginu og ekki fyrir hliðstæðum, gagnkvæmum réttindum fyrirtækja og þegna eins ríkis í öðrum ríkjum samtakanna, eins og gert var í Rómarsáttmálanum, né heldur neins konar stjórnmálasamvinnu. Aðildarríkjum Fríverzlunarsamtakanna skyldi og vera heimilt að segja sig úr samtökunum með árs fyrirvara, en engin uppsagnarákvæði eru í Rómarsáttmálanum.

Þótt Íslendingar hafi fylgzt vandlega með umr. um stofnun fríverzlunarsvæðis innan Efnahagssamvinnustofnunarinnar í París, var þeim ekki boðin aðild að stofnun Fríverzlunarsamtakanna og sóttust ekki heldur eftir henni. Efnahagskerfi okkar var þá svo ólíkt því efnahagskerfi, sem ríkjandi var og er í ríkjum Fríverzlunarsamtakanna, að ógerningur hefði verið fyrir Ísland að gerast aðili að þeim við stofnun þeirra. Auk þess stóð landhelgisdeilan þá sem hæst, og hefði verið óhugsandi frá sjónarmiði beggja aðila, Íslendinga og Breta, að þeir yrðu aðilar að sameiginlegu viðskiptabandalagi.

Ekki leið á löngu, áður en í ljós kom, að ýmis aðildarríki Fríverzlunarsamtakanna og þó fyrst og fremst Bretland, töldu sér óhagræði að þeirri skiptingu Vestur-Evrópu í tvær viðskiptaheildir, sem orðin var. Bretland og fleiri ríki sóttu því um aðild að Efnahagsbandalaginu. Fóru fram um það víðtækar umræður árið 1961. Um skeið virtist svo horfa, að samkomulag gæti náðst, og flest ríki Vestur-Evrópu yrðu einhvers konar viðskiptaheild. Þótti íslenzku ríkisstj. þá nauðsynlegt að kanna, hver verða mundi aðstaða Íslendinga og hvers konar tengslum þeir gætu náð við slíka viðskiptaheild. En hagsmunir okkar í því sambandi voru augljósir, þegar þess er gætt, að um 60% utanríkisviðskipta okkar voru og eru við þau lönd, sem voru að ræða um myndun viðskiptabandalags. Ákvað ríkisstj. þá, að sumarið 1961 skyldum við Jónas H. Haralz, sem þá var ráðuneytisstjóri í viðskmrn., fara til höfuðborga Efnahagsbandalagsríkjanna til þess að kynna sjónarmið okkar og fá upplýsingar um viðhorf stjórnvalda í þessum löndum, en sumpart áður og sumpart síðar voru sjónarmið okkar kynnt EFTA-ráðinu í Genf og stjórn Bretlands og stjórnum norrænu ríkjanna. Um þessar viðræður gaf ég Alþ. skýrslu hinn 12. nóv. 1962. Þessar samningaumleitanir fóru, eins og kunnugt er, út um þúfur, og féllu þá niður að verulegu leyti umr. hér um þessi mál, sem höfðu verið miklar um skeið.

Á fyrstu árum Fríverzlunarsamtakanna urðu Íslendingar ekki fyrir verulegu óhagræði vegna starfsemi samtakanna. Að vísu lækkuðu tollar á ýmsum sjávarafurðum smám saman innan Fríverzlunarsamtakanna, t.d. fóru Norðmenn að fá hærra verð í Bretlandi fyrir þær sjávarafurðir, sem samningurinn tekur til. En verðlag á sjávarafurðum var á þessum árum yfirleitt hvarvetna hækkandi, svo að tjónið var ekki tilfinnanlegt. Þegar tollar höfðu hins vegar að fullu verið afnumdir fyrir tveimur árum og sjávarútvegurinn við norðanvert Atlantshaf átti við vaxandi erfiðleika að etja, fór hins vegar aðstöðumunurinn að verða æ tilfinnanlegri. Einkum og sér í lagi kom þetta í ljós á árunum 1967 og 1968, þegar Íslendingar urðu fyrir meira efnahagsáfalli en þeir höfðu nokkurn tíma orðið fyrir á öldinni og meira áfalli en dæmi eru um, að nokkur nálæg þjóð hafi orðið fyrir á jafnskömmum tíma.

Erfiðleikar sjávarútvegsins á undanförnum árum hafa í vaxandi mæli opnað augu manna fyrir því, að nauðsynlegt sé að breikka grundvöll íslenzks atvinnulífs, og þó einkum íslenzkrar útflutningsframleiðslu. Við þetta bætist, að fyrirsjáanleg er mikil fjölgun fólks á vinnumarkaði á næstu árum og áratugum. Hefur verið áætlað, að á árunum 1965–1385 fjölgi vinnufærum mönnum á landinu um hvorki meira né minna en 34 þús. Í því sambandi vaknar sú spurning, í hvaða atvinnugreinum sé auðveldast og hagkvæmast að búa þessu fólki arðbær störf. Aðstæður í sjávarútvegi og horfur í honum eru þannig, að litlar líkur eru til þess, að þar sé að finna ný arðbær störf fyrir svo mikinn fjölda fólks. Í iðnaði, sem framleiðir fyrir innanlandsmarkað, og í öðrum greinum iðnaðar, svo sem byggingariðnaði, mun þess ekki að vænta, að þar geti orðið völ á störfum fyrir svo mikla aukningu vinnandi fólks. Fólki við landbúnaðarstörf mun eflaust halda áfram að fækka. Þótt þörf væri fyrir fleira fólk við ýmiss konar þjónustustörf og samgöngur, er ekki við því að búast, að þær atvinnugreinar geti boðið nógu mörg ný störf. Þess vegna hníga öll rök að því, að vinna beri að því að koma á fót nýjum fyrirtækjum og nýjum atvinnugreinum jafnhliða því, sem unnið verði af alefli að eflingu þeirra atvinnugreina, sem nú eru stundaðar, og þá fyrst og fremst allra greina sjávarútvegs.

Öllum hugsandi mönnum er það eflaust ljóst, að þær geysilegu framfarir, sem orðið hafa á Íslandi á þessari öld, eiga fyrst og fremst rót sína að rekja til þess, að Íslendingum hefur tekizt að hagnýta mikilvægustu náttúruauðlind sína, fiskimiðin umhverfis landið, á mjög arðbæran hátt — á arðbærari hátt en nokkurri annarri fiskveiðiþjóð, sumpart með því að beita fullkominni veiðitækni og góðum fiskiskipum, sumpart með því að vinna á hagkvæman hátt úr einhverju bezta hráefni, sem nokkur fiskveiðiþjóð hefur yfir að ráða og þá ekki sízt með því að njóta frábærrar verkkunnáttu sjómanna og fiskvinnslufólks í landi. Mikil arðsemi íslenzks sjávarútvegs hefur verið undirstaða framfara og lífskjarabóta á Íslandi á þessari öld og gert þjóðinni kleift að styðja aðra nauðsynlega atvinnuvegi, sem ekki hafa reynzt samkeppnishæfir, og þá fyrst og fremst landbúnað. En aðstæður í sjávarútvegi landanna beggja megin við norðanvert Atlantshaf hafa verið að breytast til hins verra á undanförnum árum, svo sem erfiðleikar sjávarútvegsins, t.d. í Bretlandi, Noregi og Þýzkalandi, bera glöggt vitni um. Við getum því ekki vænzt þess, að íslenzkur sjávarútvegur verði jafntraust unðirstaða framfara og lífskjarabóta á næstu árum og áratugum og hann hefur verið á undanförnum árum og áratugum. Þegar höfð er hliðsjón af þessu og væntanlegri fjölgun fólks á vinnumarkaði á næstu áratugum, verður augljóst, að þörf er á nýjum fyrirtækjum og nýjum atvinnugreinum. Þá hlýtur að liggja beinast við að athuga, hverjar séu helztu náttúruauðlindir landsins við hlið fisksins á miðunum. Þá beinist athyglin að orkunni í fallvötnum landsins og jarðhitanum. Hér er um að ræða mikilvæga undirstöðu margs konar iðnaðar. Jafnframt beinist athyglin að því, að vinnandi fólk á Íslandi er vel menntað og prýðilega fært um að inna af höndum vandasöm störf. En sannleikurinn er sá, að í margs konar iðnaði er ekki mest komið undir góðu eða ódýru hráefni, né heldur ódýrri orku eða góðum vélakosti, heldur vel menntuðu og sérhæfðu vinnuafli. Hér á Íslandi er án efa völ á því.

Það, sem ég hef nú sagt, virðist ótvírætt benda til þess, að meginverkefni Íslendinga í atvinnumálum á næstu árum og áratugum eigi að vera að koma á fót útflutningsiðnaði, sem hagnýtir sér annað hvort eða hvort tveggja —orku þá, sem við getum framleitt, og gott og sérhæft vinnuafl, sem við höfum yfir að ráða. En þá er þess að gæta, að við getum ekki framleitt hér á landi neina þá vöru, sem fyrirtæki í öðrum löndum framleiða ekki líka. Framleiðsla okkar getur a.m.k. aldrei verið svo sérstæð, að ekki sé um að ræða nákomna samkeppnisvöru frá öðrum aðilum. Nú er svo komið, að allar iðnaðarvörur eru framleiddar fyrir geysistóran markað, sem fyrirtæki á markaðssvæðinu eiga tollfrjálsan aðgang að. En fyrirtæki í löndum utan markaðssvæðisins komast ekki að nema greiða toll. Svo að nefnd séu tvö helztu viðskiptalönd Íslendinga, Bandaríkin og Sovétríkin, þá eru þau hvort um sig geysistór markaður fyrir fyrirtæki innan landanna. En sala fyrirtækja utan þessara landa á markaði þeirra er torvelduð með tollum og viðskiptahömlum, og um þau viðskiptalönd okkar í Vestur-Evrópu, sem við eigum um 60% utanríkisviðskipta okkar við, gildir það, að þau hafa myndað tvö viðskiptabandalög, sem veita fyrirtækjum innan bandalaganna tollfrjálsan aðgang að stórum markaði, en fyrirtæki í löndum utan bandalaganna geta ekki selt vörur sínar á markaði bandalaganna nema greiða toll í flestum tilvikum. Samkeppnin er nú yfirleitt svo hörð í framleiðslu og sölu iðnaðarvarnings, að lítil von er til þess fyrir fyrirtæki, sem þarf að greiða toll, að keppa við fyrirtæki, sem selt getur vörur sínar tollfrjálst. Af þessu leiðir, að miklum erfiðleikum hlyti að vera bundið að koma upp nýjum útflutningsfyrirtækjum í iðnaði í því skyni að flytja til landa, þar sem greiða verður toll af vörunni. Eina von nýrra útflutningsfyrirtækja um gott gengi er fólgin í því að eiga aðgang að tollfrjálsum markaði.

Ef við Íslendingar lítum til helztu markaðslanda okkar, er augljóst, að engin von er um tollfrjálsan aðgang að bandaríska markaðinum. Bandaríkin gætu ekki veitt Íslendingum sérstakar tollaívilnanir vegna aðildar sinnar að GATT, vegna þess að hún skyldar einstök aðildarríki til þess að láta sömu tolla gilda gagnvart öllum öðrum ríkjum. Það eru aðeins viðskiptabandalög, sem GATT heimilar að gera mun á tollum gagnvart bandalagsríkjum og öðrum ríkjum. Augljóst er einnig, að ekki er hægt að grundvalla verulegan, nýjan útflutningsiðnað á markaði í Sovétríkjunum, þótt ekki væri nema vegna fjarlægðar. Ekki kemur til greina að tryggja Íslendingum tollfrjálsan aðgang að Efnahagsbandalagsmarkaðinum, þar eð Rómarsamningurinn óbreyttur verður með engu móti talinn aðgengilegur fyrir Íslendinga. Eini tollfrjálsi markaðurinn, sem hugsanlegt var, að Íslendingar gætu fengið aðgang að með kjörum, sem þeir gætu sætt sig við og væru þeim til hagsbóta, var markaður Fríverzlunarsamtakanna. Það er þess vegna; að sá möguleiki hefur undanfarið verið kannaður til hlítar. Það liggur nú ljóst fyrir, með hvaða kjörum Íslendingar geta gerzt aðilar að þessum markaði, sem um 40% utanríkisviðskipta þjóðarinnar fara nú fram við. Nú er það Alþ. að taka ákvörðun í málinu.

Með miklum rétti má segja, að við Íslendingar stöndum um þessar mundir á krossgötum í efnahagsmálum. Fyrirsjáanleg er mikil fjölgun á vinnandi fólki í landinu. Sá atvinnuvegur, sem á undanförnum áratugum hefur verið hornsteinn íslenzks atvinnulífs og undirstaða framfara og lífskjarabóta og verður án efa áfram arðbærasti atvinnuvegur Íslendinga, á í öllum Atlantshafsríkjunum, sem hann stunda, við erfiðleika að etja. En í öllum helztu viðskiptalöndum Íslendinga á sér stað ör iðnþróun, sem hefur fært og mun eflaust halda áfram að færa þjóðum þessara landa framfarir og batnandi lífskjör.

Sú spurning, sem við Íslendingar þurfum nú að taka afstöðu til, er þessi: Eigum við í aðalatriðum að halda efnahagskerfi okkar og atvinnulífi í sama eða svipuðu horfi og það hefur verið á undanförnum áratugum? Eigum við að freista þess að einbeita okkur að eflingu sjávarútvegs óg þá einkum aukinni fiskvinnslu og treysta því, að við getum á því sviði náð svo miklum árangri framvegis eins og hingað til, að það geti fært okkur hliðstæðar kjarabætur framvegis eins og fram að þessu? Eigum við að láta við það sitja að efla iðnað fyrir innanlandsmarkað og sætta okkur við smávægilegan útflutningsiðnað? Eigum við að láta okkur nægja að halda áfram að efla aðild okkar að alþjóðlegum samtökum og treysta því, að það verði okkur miklu meiri lyftistöng en átt hefur sér stað, og hafa þó í þessum efnum átt sér stað stórkostlegar framfarir á undanförnum árum? Getum við treyst því, að rekstur íslenzks landbúnaðar verði á næstu árum og áratugum svo miklu hagkvæmari og ódýrari en verið hefur, að það bæti kjör þjóðarinnar verulega?

Auðvitað mætti reyna þetta. Þetta er sú stefna að vilja áfram byggja einvörðungu á hinum svonefndu hefðbundnu atvinnuvegum, sem nú er einnig farið að kalla þjóðlega atvinnuvegi. Ef Íslendingar vilja hafa þetta að höfuðmarkmiði stefnu sinnar í efnahagsmálum, ef Íslendingar hafa trú á því, að þessi stefna geti fært þeim nægilegar framfarir og nægilega bót lífskjara, þá er stofnun umfangsmikils útflutningsiðnaðar óþörf og þá um leið aðild að tollfrjálsum markaði eins og Fríverzlunarsamtökin eru.

Hin spurningin er sú, hvort ekki sé nauðsynlegt að koma á fót nýjum atvinnugreinum við hlið sjávarútvegs, iðnaðar fyrir innanlandsmarkað, landbúnaðar, samgangna og margvíslegrar þjónustustarfsemi til þess að sjá hinum vaxandi fólksfjölda fyrir arðbærari atvinnu, auka fjölbreytni atvinnulífsins og tryggja vaxandi arðsemi þess. Ef við svörum þessari spurningu játandi, felst í því svari, að Íslendingar eigi að gerast aðilar að tollfrjálsum markaði eins og Fríverzlunarsamtökunum. Það er ekki hægt að segja, að nauðsynlegt sé, að Íslendingar komi á fót verulegum útflutningsiðnaði samtímis hinu, að Íslendingar eigi ekki að gerast aðilar að Friverzlunarsamtökunum. Þetta tvennt hlýtur að fara saman. Það er ekki hægt að koma hér á fót umfangsmiklum útflutningsiðnaði, nema því aðeins að við eigum aðgang að tollfrjálsum markaði eins og Fríverzlunarsamtökin eru. Það er hægt að segja: Við þurfum ekki á að halda neinum verulegum útflutningsiðnaði, enda mundum við ekki reynast samkeppnishæfir á erlendum mörkuðum á því sviði. Við verðum að láta okkur nægja hina hefðbundnu atvinnuvegi Íslendinga og reyna að komast eins langt á því sviði og hugsanlegt er. Þá er hægt að segja, að ástæðulaust sé, að Íslendingar gerist aðilar að Fríverzlunarsamtökunum. En það er ekki hægt að segja, að okkur sé nauðsyn á útflutningsiðnaði og einnig hitt, að við eigum ekki að gerast aðilar að Fríverzlunarsamtökunum. Í því felst augljós mótsögn.

Að mjög vel athuguðu máli hefur ríkisstj. komizt að þeirri niðurstöðu, að ekki sé hægt að treysta til frambúðar á hina svonefndu hefðbundnu atvinnuvegi Íslendinga. Í því felst síður en svo vanmat á gildi þeirra eða vantraust á framtíð þeirra. Allra sízt felst í því vanmat á gildi íslenzks sjávarútvegs eða vantraust á framtíð hans. Sjávarútvegur hefur verið og verður áreiðanlega um langan aldur aðalatvinnuvegur Íslendinga, vegna þess að hann hefur verið og verður áfram arðbærasti atvinnuvegur Íslendinga. Að sjálfsögðu á jafnan að leggja á það megináherzlu að bæta tækni við fiskveiðar og fiskvinnslu og vinna ötullega að því að auka og bæta vinnslu hins verðmæta afla hér innanlands. En þetta jafngildir að sjálfsögðu ekki því, að ekki sé nauðsynlegt að renna fleiri arðbærum stoðum undir íslenzkt atvinnulíf og þá sérstaklega undir íslenzka útflutningsframleiðslu. Þetta telur ríkisstj. nauðsynlegt. Ítarlegar athuganir hafa sýnt, að vænlegasta og hyggilegasta leiðin til þess að auka fjölbreytni atvinnulífsins og bæta útflutningsskilyrði er að koma á fót nýjum útflutningsiðnaði, sem ýmist hagnýtir þá orku, sem við getum framleitt, eða það ágæta vinnuafl, sem við höfum yfir að ráða, og helzt hvort tveggja jöfnum höndum. En ef við eigum að geta komið á fót umtalsverðum útflutningsiðnaði, er aðild að samtökum eins og Fríverzlunarsamtökunum nauðsynleg. Þetta eru meginrökin fyrir því, að Íslendingar eigi að gerast aðilar að Fríverzlunarsamtökum Evrópu.

Auðvitað er það ekki vandalaust að stíga jafnmikilvægt spor og hér er um að ræða. Öll spor eru vandasöm. Og þá auðvitað ekki sízt þau, sem eru stór. Að sjálfsögðu fylgja því ekki aðeins kostir, heldur einnig ýmis vandi, að gerast aðili að samþjóðlegum samtökum eins og Fríverzlunarsamtökunum.

Ég skal nú fara nokkrum orðum um það hagræði, sem af aðildinni hlýzt og síðan um þann vanda, sem við er að etja í því sambandi.

Ég hef þegar gert grein fyrir því, að vilji menn koma á fót umtalsverðum útflutningsiðnaði á Íslandi, sé aðild að Fríverzlunarsamtökunum forsenda þess. Þá er eðlilegt, að menn spyrji, hvaða útflutningsiðnaður getur komið hér til greina? Um þetta atriði fjallar eitt af fskj. þáltill., ritgerð þeirra hagfræðinganna, Jóns Sigurðssonar og Péturs Eiríkssonar, og efnaverkfræðingsins, dr. Vilhjálms Lúðvíkssonar. Þeir benda réttilega á, að þegar könnuð séu þau tækifæri, sem fram undan séu, til aukins útflutnings, eigi ótvírætt fyrst að telja aukinn útflutning sjávarafurða, sem byggist á frekari vinnslu aflans hérlendis, betri nýtingu aflans og nýtingu fiskstofna, sem nú eru lítt eða ekki veiddir. Næst sjávarvöruiðnaði megi síðan telja annars konar útflutningsstarfsemi, sem njóti hagstæðra ytri skilyrða hér á landi. Nefna þeir í því sambandi stóriðju, sem byggist á ódýrri vatnsorku og jarðhita, ullariðnað, sútun og skinnaiðnað og annan iðnað; sein byggist á að- gangi að sérstæðum innlendum hráefnum. Einnig nefna þeir minkarækt vegna ódýrs fóðurs og aukningu ferðamannastraums vegna sérkenna landsins og náttúrufegurðar. Þá benda þeir á nauðsyn þess að efla einnig útflutningsiðnað, sem ekki njóti sérstöðu vegna gæða landsins eða vegna sjávarins umhverfis það, heldur hyggist fyrst og fremst á hugkvæmni og verkkunnáttu þjóðarinnar og vinnu úr erlendum sem innlendum hráefnum: Benda þeir á, að hér virðist helzt koma til álita þær iðngreinar, þar sem flutningskostnaður er ekki þungur á metunum og innflutningsmarkaðurinn er fremur stór miðað við stærð hagkvæmra framleiðslueininga.

Í ritgerðinni er á það bent, að Íslendingar hafi um langan aldur flutt út niðursoðið og niðurlagt fiskmeti án þess þó, að hér hafi orðið um verulegan útflutningsiðnað að ræða. Í sumum löndum Fríverzlunarsamtakanna er verulegur tollur á þessum vörum. Hann fellur niður, ef Íslendingar gerast aðilar að Fríverzlunarsamtökunum, og ætti því aðildin að geta stuðlað að verulegri framleiðslu og útflutningsaukningu í þessum iðnaði.

Um spuna og vefjariðnað er það að segja, að ástæða hefur verið til þess að ætla, að töluverður útflutningur geti orðið til landa Fríverzlunarsamtakanna, fái Íslendingar tollfrjálsan aðgang að þeim markaði, þ.e. ef niður féllu verulegir tollar á framleiðsluvörum þessa iðnaðar.

Þá er í ritgerðinni á það bent, að útflutningur á prjónavörum hafi á síðasta ári að langmestu leyti farið til Sovétríkjanna, en nokkuð til Bandaríkjanna. Við aðild að Fríverzlunarsamtökunum mundu falla niður tiltölulega mjög háir tollar á afurðum prjónlesiðnaðarins. Hann hefur yfir að ráða verulegri ónotaðri afkastagetu, og er því mjög mikilvægt fyrir hann að fá nýjan útflutningsmarkað.

Þá er bent á, að í löndum Fríverzlunarsamtakanna séu háir tollar á veiðarfærum. Íslendingar búa yfir mikilli reynslu og verkkunnáttu í framleiðslu veiðarfæra, þannig að hugsanlegt væri að flytja út ýmsar tegundir þeirra.

Á fatnaðarvörum mundu tiltölulega háir tollar falla niður. Ýmsir hafa talið íslenzkan fataiðnað standa miklum mun hallara fæti en hann gerir í raun og veru. Á undanförnum árum hefur þegar verið um dálítinn útflutning að ræða á öðrum fatnaði en prjónafatnaði. Hér er flutningskostnaðurinn mjög lágur í hlutfalli við verðmæti vörunnar. Einhverjir útflutningsmöguleikar eru eflaust fyrir hendi á þessu sviði.

Um húsgagna- og innréttingasmíði er svipaða sögu að segja og um fataiðnaðinn, að aðstaða hennar hefur verið talin mun veikari en hún er í raun og veru. Ljóst er þó, að ýmiss konar endurskipulagning verður að fara fram í þessum iðnaði, bæði innan einstakra fyrirtækja og greinarinnar í heild, ef um möguleika á útflutningi á að vera að ræða. Ef höfð er hliðsjón af breytingum, sem urðu innan þessarar greinar, þegar innflutningur innréttinga var gefinn frjáls á sínum tíma og hafinn nokkur innflutningur húsgagna, bendir fjölmargt til þess, að á þessu sviði geti útflutningur komið til greina.

Enginn vafi er á því, að aðild að Fríverzlunarsamtökunum mundi mjög bæta skilyrði umbúðaiðnaðarins til útflutnings, auk þess sem hann mundi njóta góðs af aukningu útflutnings í öðrum greinum.

Um skinnaiðnað, leðuriðnað og feldskurð er það að segja, að tollar á unnum vörum og skinnum og leðri eru háir í löndum Fríverzlunarsamtakanna. Útflutningur sútaðra skinna og skinnavöru hefur vaxið mjög á allra síðustu árum. Tollar í löndum Fríverzlunarsamtakanna á loðsútuðum gærum eru talsverðir. Í ritgerð sérfræðinganna er það nefnt sem dæmi í þessu sambandi, að ef fluttar væru út árlega 900 þús. loðsútaðar gærur í stað 900 þús. saltaðra gæra, yki þetta útflutningstekjur um því sem næst 300 millj. kr. á ári.

Þá er á það bent, að um útflutningsmöguleika muni vera að ræða í steiniðnaði og leirmunagerð vegna sérstæðra hráefna hér á landi og í raftækja- og rafeindaiðnaði vegna góðs vinnuafls. Málm- og skipasmíði ætti og tvímælalaust að geta orðið útflutningsgreinar. Íslendingar búa yfir sérþekkingu á fiskveiðum og búnaði fiskiskipa og verkkunnáttu á því sviði. Enn fremur benda sérfræðingarnir á útflutningsmöguleika að því er snertir skartgripi, málningarvörur og plastvörur. Þá er í skýrslunni bent á þýðingu niðurfellingar tolla í sambandi við aðild að Fríverzlunarsamtökunum fyrir ýmiss konar efnaiðnað, sem notar mikla orku, en jafnframt undirstrikað, að erfitt sé að spá með sæmilegu öryggi um arðsemi fyrirtækja á þessum sviðum. Raunverulegir útflutningsmöguleikar hljóti að þróast á grundvelli náinnar þekkingar einstakra iðnrekenda á framleiðsluaðferðum og markaðsskilyrðum.

Þetta var um hugsanlega aukningu iðnaðarvöruútflutnings. Um áhrif aðildar að Fríverzlunarsamtökum Evrópu á íslenzkan sjávarútveg er það að segja, að á engu sviði eru ákvæðin neikvæð. Þau eru hins vegar jákvæð að mörgu leyti. Í fyrsta lagi falla niður tollar á ýmsum vörum, sem nú eru fluttar til landa Fríverzlunarsamtakanna, og er hér um að ræða frystan fisk, síldarlýsi, þorskalýsi, búrhvalslýsi, fiskimjöl, loðnumjöl, hvalkjöt, rækju og niðursuðuvörur. Verð á öllum þessum vörum getur hækkað sem tollinum nemur. En tollar á þessum vörum gagnvart löndum, sem standa utan við Fríverzunarsamtökin, eru yfirleitt u.þ.b. 10% í aðalmarkaðslandinu, Bretlandi. Í öðru lagi aukast söluskilyrði í löndum Fríverzunarsamtakanna á þessum vörum og öðrum, sem lítið sem ekki hafa verið fluttar þangað. Í þriðja lagi hækkar verð í Bretlandi á freðfiskflökum, og við það verður markaðurinn í öðrum löndum stöðugri og tryggari. Í fjórða lagi má búast við aukinni eftirspurn eftir aðalútflutningsvöru okkar, frystum fiskflökum, í löndum Fríverzlunarsamtakanna á næstu árum, auk þess sem vænta má áfram hækkaðs verðs í Bretlandi á frystum fiskflökum fyrir framleiðendur innan Fríverzlunarsamtakanna. Ef Íslendingar gerast aðilar að Fríverzlunarsamtökunum, hafa þeir jafna aðstöðu og aðrir framleiðendur freðfisks innan Fríverzlunarsamtakanna til þess að öðlast hlutdeild í væntanlegri aukningu eftirspurnar á þessum markaði. Stæðu Íslendingar utan Fríverzlunarsamtakanna, hefðu þeir litla sem enga von um nokkra þátttöku í aukningu eftirspurnarinnar, þar eð framleiðendur freðfisks innan Fríverzlunarsamtakanna standa miklu betur að vígi en Íslendingar.

Áhrif aðildar að Fríverzlunarsamtökunum á íslenzkan landbúnað yrðu eingöngu jákvæð. Reglur Fríverzlunarsamtakanna taka yfirleitt ekki til viðskipta um landbúnaðarvörur. En af aðild Íslands mundi það leiða, að markaður fengist á Norðurlöndum fyrir 1700 tonn af dilkakjöti á talsvert hærra verði yfirleitt en nú fæst í aðalmarkaðslandinu, Bretlandi.

Vandinn, sem því fylgir fyrir Íslendinga að gerast aðilar að Fríverzlunarsamtökunum, er fyrst og fremst fólginn í því, að Íslendingar verða að afnema alla verndartolla. Tollar geta verið tvenns konar, verndartollar og fjáröflunartollar. Með verndartollum er átt við toll af innfluttri vöru, sem einnig er framleidd í landinu. Tollurinn hækkar verð innfluttu vörunnar, og getur framleiðslukostnaður sams konar innlendrar vöru þess vegna verið hærri en innflutningsverð erlendu vörunnar, en innlenda varan samt verið ódýrari á heimamarkaðinum eða skilað framleiðanda hagnaði, ef hún er seld á sama verði og erlenda varan. Það eru slíkir verndartollar, sem afnumdir hafa verið í Fríverzlunarsamtökunum. Tilgangurinn með því hefur verið sá að auka verkaskiptingu og fá fram lækkun framleiðslukostnaðar í tollvernduðum atvinnugreinum. Með fjáröflunartolli er hins vegar átt við toll af innfluttri vöru, sem ekki er jafnframt framleidd í landinu. Í Fríverzlunarsamtökunum er ekki gert ráð fyrir afnámi slíkra tolla. Sérhverju aðildarríki Fríverzlunarsamtakanna er frjálst að haga þeim eins og þeim sýnist.

Þótt samstarf ríkjanna í Fríverzlunarsamtökunum hafi haft í för með sér afnám allra verndartolla í viðskiptum milli aðildarríkja Fríverzlunarsamtakanna, er hverju þeirra eftir sem áður frjálst að halda bæði verndartollum og fjáröflunartollum gagnvart öðrum ríkjum. Segja má, að það sé beinlínis einn tilgangur viðskiptasamtaka eins og Fríverzlunarsamtakanna að mismuna fyrirtækjum innan samtakanna og fyrirtækjum í löndum utan þeirra með þeim hætti, að fyrirtæki í löndum innan samtakanna geti selt vöru sína tollfrjálst og án viðskiptahafta innan samtakanna en fyrirtæki í löndum utan samtakanna, sem selja vilja vöru sína innan markaðssvæðis, verða að sæta því, að af henni sé greiddur tollur og hún verði því dýrari en vörur, sem framleiddar eru á markaðssvæðinu.

Nokkur hluti íslenzks iðnaðar hefur vaxið upp í skjóli mjög hárra tolla á þær vörur, sem hann framleiðir, ef þær eru fluttar inn frá útlöndum. Talið er, að í þeim greinum iðnaðar, sem einkum verða fyrir áhrifum af afnámi verndartolla, hafi unnið um 3500 til 4000 manns árið 1967. Hér er fyrst og fremst um að ræða eftirtaldar greinar súkkulaði og kexgerð, drykkjarvöruiðnað, gólfdreglaiðnað, prjónlesiðnað, skógerð, fataiðnað, húsgagna- og innréttingasmíði, skinna- og leðuriðnað, sútun, málningargerð, sápugerð, sementsframleiðslu, raftækjasmíði og spuna og vefnað. Í þessum greinum vinnur u.þ.b. fimmtungur þess mannafla, sem starfar við iðnað á Íslandi, og um það bil 5% af öllum starfandi mönnum í landinu. Þegar verndartollar á framleiðsluvörum þessara iðngreina hafa verið afnumdir, verða fyrirtækin að vera búin að lækka framleiðslukostnað sinn svo mikið, að framleiðsluverðið verði samkeppnisfært við sams konar erlenda vöru, eða breyta framleiðslu sinni með einhverjum hætti í það horf, að þess konar vara sé framleidd; sem reynist samkeppnisfær. Fyrir neytandann er hér um að ræða verðlækkun bæði á innfluttu vörunni, vegna afnáms verndartollsins og á innlendu vörunni, ef það tekst að lækka framleiðslukostnað hennar. Slík framleiðslukostnaðarlækkun getur hins vegar reynzt erfið fyrir fyrirtækið, og er hér um að ræða aðalvandkvæðin í sambandi við þátttöku í slíku viðskiptabandalagi sem Fríverzlunarsamtökin eru.

Ríkisstj. taldi sjálfsagt að gera ekki till. til Alþ. um jafnmikilvægt spor og aðild Íslands er, án þess að farið hefði fram rækileg rannsókn á ástandi og horfum í íslenzkum iðnaði með sérstöku tilliti til hugsanlegrar aðildar Íslands að Fríverzlunarsamtökunum. Þess vegna fól hæstv. iðnmrh., Jóhann Hafstein, dr. Guðmundi Magnússyni prófessor á s.l. vori að kanna ástand og horfur í íslenzkum iðnaði, einkum með tilliti til hugsanlegrar aðildar Íslands að Fríverzlunarsamtökunum. Er niðurstaða rannsókna hans birt sem fskj. með þáltill. Jafnframt hafa af hálfu einstakra rn., og þá fyrst og fremst iðnmrn., fjmrn. og viðskmrn., farið fram rækilegar athuganir á fjölmörgum atriðum í þessu sambandi í samráði við iðnrekendur, og ítarlegar viðræður hafa átt sér stað við þá um öll atriði, sem máli hafa verið talin skipta í sambandi við hugsanlega aðild Íslands að Fríverzlunarsamtökunum.

Hér er að sjálfsögðu ekki ástæða til þess að rekja niðurstöður hinna víðtæku rannsókna dr. Guðmundar Magnússonar prófessors. Þó er rétt að benda á, að meginniðurstaða þeirra er sú, að staða íslenzks iðnaðar er mun styrkari en menn virðast almennt hafa talið og að iðnþróun á Íslandi mundi eflast við aðild að Fríverzlunarsamtökunum á grundvelli þeirrar samningsgerðar, sem nú er kostur á. Ég tel rétt að geta hér nokkurra atriða úr niðurstöðum athugana hans á samkeppnishæfni helztu tollvernduðu iðngreinanna.

Hann telur, að aðild að Fríverzlunarsamtökunum muni hafa lítil áhrif á afkomu í brauð- og kökugerð, hins vegar sé kexgerð illa undir samkeppni búin og sé þar nauðsyn á tækniaðstoð til að koma á ýmiss konar breytingum. Sælgætisgerð hefur notið svo til algers innflutningsbanns, og mundi aðild að Fríverzlunarsamtökunum gera ýmiss konar breytingar í þeirri iðngrein nauðsynlegar, fyrst og fremst samruna fyrirtækja samfara endurnýjun á vélakosti. Aðild að Fríverzlunarsamtökunum mundi ekki hafa áhrif á öl- og gosdrykkjagerð sökum þeirrar verndar, sem felst í fjarlægð íslenzka markaðarins frá erlendum framleiðslufyrirtækjum. Fyrir ullarþvott, spuna og vefnað fylgja stækkun markaðar meiri kostir en gallar. Um skógerð segir, að framleiðni hafi stóraukizt á undanförnum árum, og mundi hún eflaust fremur eflast en dragast saman. Fatagerð hafi sýnt þvílíka aðlögunarhæfni, að ástæða sé til þess að ætla, að hún standist samkeppni á flestum sviðum. Húsgagnagerð hafi einnig staðizt erlenda samkeppni og eigi á því sviði að vera um skilyrði til útflutnings að ræða. Svipað sé að segja um innréttingasmíði. Skinna- og leðuriðnaður sé vænlegur útflutningsiðnaður og gildir hið sama um fyrirhugað minkaeldi. Málningar- og lakkgerð virðist fyllilega samkeppnisfær. Hreinlætisvörur virðast einnig samkeppnisfærar. I málmsmíði sé um að ræða verðmæta þekkingu og reynslu auk þess, sem hún njóti staðarverndar, þannig að ástæðulaust sé að óttast um framtíð hennar. Ekki muni verða um frekari samdrátt í smíði rafmagnstækja að ræða, og aðstaða í plastiðnaði og umbúðaiðnaði breytist ekki til hins verra. Þar eð ekkert sé því til fyrirstöðu í Fríverzlunarsamtökunum, að um sé að ræða ríkiseinkasölu eins og t.d. þá, sem Áburðarverksmiðjan hefur, mundi staða hennar ekkert breytast, enda hefur starfsemi hennar verið í fullu samræmi við reglur Fríverzlunarsamtakanna. Þá heimilar samningur Fríverzlunarsamtakanna ráðstafanir vegna, tímabundinna erfiðleika fyrirtækja eins og þeirra, sem Sementsverksmiðjan á við að etja. Sérstaka athygli vekur prófessorinn á framtíð íslenzks niðursuðuiðnaðar úr sjávarafurðum og þeim möguleikum, sem á því sviði skapist á erlendum markaði við aðild að Fríverzlunarsamtökunum. Auk niðursuðuiðnaðarins telur hann, að þegar með aðild að Fríverzlunarsamtökunum muni geta hafizt útflutningur frá fyrirtækjum í innréttingasmíði, prjónaiðnaði og skinna- og leðuriðnaði. Af nýjum greinum bendir hann sérstaklega á efnaiðju og rafeindaiðnað. Auðvitað eru viðhorfin mjög mismunandi í einstökum iðngreinum. Nýjar útflutningsgreinar munu eflaust vaxa upp á grundvelli ýmissa þeirra iðngreina, sem nú eru stundaðar í landinu. Í því sambandi er auðvitað mikilvægt, að þannig verði búið í haginn fyrir þessi fyrirtæki, hvað snertir aðlögun að nýjum aðstæðum, aðgang að fjármagni og aðstöðu gagnvart erlendum markaði, að viðbrögð þeirra geti verið heilbrigð. En einmitt hefur verið höfð hliðsjón af þessu við samningsgerðina um aðild Íslands að Fríverzlunarsamtökunum.

Raddir hafa heyrzt um, að atvinnu allra þeirra, sem starfi í svonefndum vernduðum iðngreinum, sé stefnt í hættu við aðild Íslands að Fríverzlunarsamtökunum. Ekkert bendir þó til þess, að það hafi við hin minnstu rök að styðjast. Reynsla annarra þjóða og þá fyrst og fremst Norðmanna, þar sem aðstæður eru að ýmsu leyti líkastar því, sem hér á sér stað, hefur verið sú, að jafnvel lítil iðnfyrirtæki, sem áður voru tollvernduð, hafa reynzt miklu færari um að lækka framleiðslukostnað sinn með bættum vélakosti og nýjum vinnubrögðum en menn höfðu þorað að gera sér vonir um, þegar aukin samkeppni sýndi fram á nauðsyn tollalækkunar. Iðngreinar, sem voru tollverndaðar í Noregi, þegar Fríverzlunarsamtökin voru stofnuð, hafa eflzt og styrkzt þar í landi, en ekki dregizt saman.

Á það má og benda í þessu sambandi, að ýmsar greinar íslenzks iðnaðar hafi ekki aðeins vaxið upp í skjóli tollverndar, heldur einnig innflutningshafta. Þegar afnám innflutningshafta var hafið í byrjun þessa áratugar, töldu margir, að ýmsar iðngreinar mundu ekki standast frjálsan innflutning erlendrar samkeppnisvöru. Reynslan hefur þó orðið sú, að innflutningsfrelsið hefur yfirleitt ekki veikt aðstöðu þessara iðngreina, heldur styrkt hana. Þetta ætti að geta verið vísbending um, að afnám verndartolla ætti ekki heldur að þurfa að veikja stöðu hinna tollvernduðu Iðngreina, nema þá að tollverndin væri svo óeðlilega mikil, að hún leiddi til augljósrar sóunar á vinnuafli og fjármunum og ætti að afnema hana, hvort eð væri. Engu að síður verður að gera sér ljóst, að sú lækkun framleiðslukostnaðar og sú endurskipulagning í tollvernduðum iðngreinum, sem afnám tollverndar hlýtur að hafa í för með sér, er erfið í framkvæmd og langt frá því að vera vandalaus.

Þá veldur afnám verndartollanna einnig því, að ríkið þarf að endurskipuleggja tekjuöflun sína. Í stað verndartollanna verða að koma aðrir tekjustofnar. Mun ríkisstj. leggja til, að í stað þeirrar tollalækkunar, sem koma mun til framkvæmda í samhandi við aðild Íslands að Fríverzlunarsamtökunum, komi hækkun á söluskatti. Er jafnframt til athugunar að breyta söluskattinum í svonefndan virðisaukaskatt, sem nú er ýmist búið að koma á eða er verið að koma á í flestum löndum Vestur-Evrópu í stað söluskatts. Virðisaukaskattur er fólginn í því, að tekinn er lægri hundraðshluti af verði vörunnar í skatt á hverju viðskiptastigi. Er talið, að miklu auðveldara sé að koma í veg fyrir undanbrögð með virðisaukaskattkerfinu en núgildandi söluskatti.

Lækkun sú, sem gert er ráð fyrir á verndartollum fullunninnar iðnaðarvöru í sambandi við aðild Íslands að Fríverzlunarsamtökunum, mun lækka tolltekjur ríkissjóðs um því sem næst 235 millj. kr. Jafnhliða er gert ráð fyrir hlutfallslega meiri lækkun á tollum á hráefni og vélum, og mun sú lækkun hafa í för með sér tekjulækkun hjá ríkissjóði um því sem næst 165 millj. kr. Sú tollalækkun, sem stæði í beinu sambandi við aðild Íslands að Fríverzlunarsamtökunum, næmi þess vegna um 400 millj. kr. Hins vegar hafa frekari tollalækkanir á nokkrum vörum verið ráðgerðar, og enn fremur er fyrirhugað að endurgreiða tolla á hráefnum og vélum, sem greiddar hafa verið í tiltekinn tíma, áður en aðaltollalækkunin kemur til framkvæmda. Mun þetta lækka tekjur ríkissjóðs um því sem næst 100 millj. kr. til viðbótar, þannig að fyrirhugaðar tollalækkanir munu lækka tekjur ríkissjóðs um nálega 500 millj. kr. Mun frv. að nýrri tollskrá verða lagt fram síðar í þessari viku, og þá mun hæstv. fjmrh. gera grein fyrir þessu máli öllu.

Þá langar mig til að fara nokkrum orðum um þau ákvæði stofnsamnings Fríverzlunarsamtakanna, sem fjalla um svonefndar samkeppnisreglur, þ.e. þau ákvæði samningsins, sem ætlað er að koma í veg fyrir; að óbeinum viðskiptahömlum sé beitt í því skyni að spilla því viðskiptafrelsi, sem efnt er til með niðurfellingu tolla og hafta. Í þessu sambandi eru það einkum ákvæði 16. gr. samningsins, sem máli skipta. Hugmynd sú, sem liggur að baki 16. gr., er sú, að óeðlilegt sé, að einstök aðildarríki geti komið í veg fyrir eða torveldað, að aðilar í einu aðildarríki geti stofnsett fyrirtæki í öðrum aðildarríkjum, ef slíkar ráðstafanir brjóta í bága við megintilgang samtakanna, sem er aukning milliríkjaviðskipta. Með þessu er þó ekki þar með sagt, að fyrirtæki í aðildarríkjum Fríverzlunarsamtakanna eigi t.d. að fá að njóta hér á landi sömu aðstöðu og íslenzk fyrirtæki, heldur mega hömlur á stofnsetningu fyrirtækja, sem framleiða eða verzla með þær vörur, sem samstarfið tekur til, ekki vera þannig, að dregið sé úr þeim ávinningi, sem unnt er að ná með afnámi tolla og hafta.

Þessum ákvæðum hefur þó aldrei verið ætlað að vera hliðstæð atvinnurekstrarákvæðum í stofnsamningi Efnahagsbandalags Evrópu. Í þeim ákvæðum er gert ráð fyrir frjálsum hreyfingum fjármagns og vinnuafls og frelsi til atvinnurekstrar hvarvetna innan aðildarsvæðisins. En þetta á ekki við um Fríverzlunarsamtökin. Ákvæði 16. gr. taka ekki til landbúnaðar eða fiskveiða eða framleiðslu um borð í fiskiskipum. Og þau taka ekki heldur til almennrar þjónustustarfsemi, svo sem starfsemi banka og vátryggingarfélaga, gistihúsarekstrar og flutningastarfsemi. 16. gr. tekur því til verzlunar og iðnaðar, en einungis til verzlunar með þær vörur og framleiðslu á þeim vörum, sem stofnsamningur Fríverzlunarsamtakanna tekur til og venjulega eru nefndar EFTA-vörur. Er hér um að ræða þær vörur, sem yfirleitt eru kallaðar iðnaðarvörur. Af þeim vörum, sem við Íslendingar nefnum yfirleitt sjávarafurðir, eru þessar fyrst og fremst EFTA-vörur: freðfiskflök, lýsi, fiskimjöl, loðnumjöl, hvalkjöt, rækjur og niðursuðuvörur. Af þeim vörum, sem hér á landi eru yfirleitt nefndar landbúnaðarvörur, eru skinn og ull EFTA-vörur.

Á fyrstu starfsárum Fríverzlunarsamtakanna var oft um það rætt, að ekki væri nógu ljóst, hvað ákvæði greinarinnar fælu í raun og veru í sér. Hins vegar er ekki um það vitað, að mismunandi skoðanir á efni hennar hafi valdið nokkrum deilum milli aðildarríkjanna eða einstakra fyrirtækja eða borgara í aðildarríkjunum. Á fundi sem ráðh. ríkja Fríverzlunarsamtakanna héldu með sér í Bergen í maí 1966, komu þeir sér saman um túlkun á þessari grein, og hefur skilningur á henni síðar verið byggður á þessari svonefndu Bergen-samþykkt. Samkv. henni taka ákvæði 16. gr. til þessarar atvinnustarfsemi: 1. heildverzlunar og umboðsverzlunar með EFTA-vörur, 2. fyrirtækja, sem starfa að samsetningu á EFTA-vörum úr einstökum hlutum, og 3. fyrirtækja, sem framleiða EFTA-vörur, sem mestmegnis á að flytja út til annarra aðildarríkja. Rétturinn, sem 16. gr. veitir aðilum í einu aðildarríki til þess að stofna iðnaðarútflutningsfyrirtæki í öðru aðildarríki, er þó mjög takmarkaður. Ekki er um þennan rétt að ræða, ef: 1. stofnun fyrirtækisins hefur í för með sér eignarrétt á innlendum náttúrugæðum, og verður að líta þannig á, að hér sé einnig átt við hagnýtingu náttúrugæða eins og fiskstofna, 2. ef stofnun fyrirtækisins veldur nauðsyn á aðgangi að fjármagnsmarkaði landsins, og 3. ef um er að ræða fjárfestingu í starfandi fyrirtæki, og þýðir þetta, að ákvæðin taka aðeins til nýrra fyrirtækja, ef um framleiðslufyrirtæki er að ræða.

Rétt er að taka það fram strax, að þar eð samningur Fríverzlunarsamtakanna tekur ekki til fiskveiða almennt né landbúnaðar, kæmi aldrei til greina, að erlendir aðilar gætu óskað þess að fá að stunda hér fiskveiðar eða landbúnað. Vinnsla um borð í skipum er einnig talin til fiskveiða, svo að hið sama mundi t.d. gilda um vinnslu um borð í fiskiskipum. Akvæði gr. veita og engum erlendum aðila rétt til þess að stofna hér fyrirtæki til fiskvinnslu. Í fyrsta lagi er fiskstofninn innan fiskveiðimarkanna að sjálfsögðu ein af náttúruauðlindum landsins, og þess vegna hafa erlendir aðilar engan rétt til þess að stofna til framleiðslu til hagnýtingar á honum, samkv. Bergen-samkomulaginu. Í öðru lagi er freðfiskur ekki skilyrðislaus EFTA-vara í sama skilningi og iðnaðarvörur, þar eð sérreglur hafa gilt og gilda enn um hann í Bretlandi. Á það má og benda í þessu sambandi, að nýr fiskur og síld eru ekki EFTA-vörur og samningur Fríverzlunarssmtakanna fjallar ekki um rétt til löndunar úr erlendum fiskiskipum. Þá er rétt að benda á, að erlend fyrirtæki gætu ekki heldur sótt um leyfi til að fá að hefja hér iðnaðarframleiðslu fyrir innanlandsmarkað, þar eð ákvæði 16. gr. taka eingöngu til fyrirtækja, sem fyrst og fremst ætla að flytja út. Við allar þessar takmarkanir bætist það, að innan Fríverzlunarsamtakanna eru engar brigður á það bornar, að sérhvert aðildarríki getur sett löggjöf, sem gerir stofnun nýrra fyrirtækja háða sérstöku, opinberu leyfi. Ekkert aðildarríkjanna setti að vísu slíka löggjöf í framhaldi af stofnun Fríverzlunarsamtakanna, og virðist það benda til þess, að ekkert þeirra hafi óttazt óeðlileg eða skaðleg áhrif ákvæða 16. gr. Þegar hugsanleg aðild að Efnahagsbandalaginu komst á dagskrá í Noregi, settu Norðmenn hins vegar nýja löggjöf um leyfi til stofnunar fyrirtækja í fiskiðnaði. Slík löggjöf hafði áður verið í gildi um aðrar atvinnugreinar í Noregi. Með slíkri löggjöf hér væri hægt að gera stofnun hvers konar fyrirtækja háða leyfi stjórnvalda, erlendra fyrirtækja og innlendra. Þess vegna hafa samhliða flutningi þessarar till. til þál. tvö frv. verið lögð fyrir hið háa Alþ., annað um breytingu á l. um verzlunaratvinnu og hitt um breyt. á l. um iðju og iðnað. Þar er gert ráð fyrir því, að gera megi stofnun nýrra fyrirtækja háða samþykki innlendra stjórnarvalda. Innan Fríverzlunarsamtakanna eru ekki brigður á það bornar, að heimilt sé að setja hvers konar skilyrði fyrir leyfi. Neita mætti um leyfið, ef stjórnvöld teldu ekki þörf á nýju fyrirtæki í þeirri grein, sem um er að ræða, annaðhvort í landinu öllu eða á þeim stað, sem um er að ræða. Neita mætti um leyfi, ef vinnuafl er ekki talið fyrir hendi, ef það er talið hafa truflandi áhrif á atvinnulíf eða viðskipti o. s. frv. Þess ber þó að gæta, að ekki mætti samtímis neita um stofnun fyrirtækis, sem ákvæði 16. gr. taka til, en leyfa stofnun nákvæmlega sams konar íslenzks fyrirtækis á sama stað. Ef íslenzk yfirvöld vilja ekki leyfa stofnun erlends fyrirtækis, sem 16. gr. tekur til, væri undantekningarlaust hægt að finna rökstuðning fyrir neitun, sem hinn erlendi aðili yrði að taka gilda. Hann gæti ekki kært neitunina fyrir neinum dómstóli. Hann gæti beðið ríkisstj. sína að taka málið upp við íslenzk stjórnvöld eða við ráð samtakanna í Genf. Hann gæti þó ekki vænzt neins árangurs af slíku, og hann gæti ekkert við því sagt, þótt íslenzk stjórnvöld veittu innlendum aðila slíkt leyfi síðar, enda gætu aðstæður þá verið orðnar breyttar.

Ákvæði 16. gr. taka til heildverzlunar, umboðsverzlunar og samsetningarfyrirtækja, bæði að því er snertir stofnun fyrirtækja og hlutdeildaröflun í gömlum fyrirtækjum. 16. gr. gerir ráð fyrir því, að aðila í einu aðildarríki Fríverzlunarsamtakanna sé heimilt að hafa með höndum slíka starfsemi í öðrum aðildarríkjum. Engu að síður getur það verið á valdi íslenzkra stjórnarvalda að koma í veg fyrir þá erlenda starfsemi á þessum sviðum, sem þau vilja koma í veg fyrir. Að því er snertir stofnun slíkra fyrirtækja væri hægt að beita lögheimildum til þess að leyfa ekki stofnun nýrra fyrirtækja. Að því er snertir hlutdeildaröflun mætti beita gjaldeyrislöggjöf til þess að gera óæskilega hlutdeild algerlega óeftirsóknarverða. En um það er enginn ágreiningur innan Fríverzlunarsamtakanna, að öll fyrirtæki yrðu að sjálfsögðu við stofnun og í rekstri háð öllum reglum um gjaldeyrisviðskipti, skattamál, verðlagsmál o.s.frv. Það eru að sjálfsögðu mjög mikilvæg tæki til takmörkunar á atvinnurekstri erlendra aðila, þegar gjaldeyrisyfirfærslur eru háðar leyfi eða opinberu eftirliti, svo sem er hér á landi, og er það ekki að neinu leyti í ósamræmi við reglur Fríverzlunarsamtakanna. Á það er þó rétt að henda í þessu sambandi, að núgildandi löggjöf heimilar allt að helmingsaðild erlendra aðila að íslenzkri heildverzlun, iðju og iðnaði. En nær engin brögð hafa verið að því, að sú heimild hafi verið hagnýtt. Að mjög vandlega athuguðu máli er það þess vegna skoðun ríkisstj., að aðild Íslands að Fríverzlunarsamtökunum samfara þeim lagabreytingum, sem lagt er til, að gerðar verði á gildandi lögum um verzlunaratvinnu, iðju og iðnað, færi erlendum aðilum eða erlendu fjármagni engan þann rétt á Íslandi, sem íslenzk stjórnvöld vilja ekki veita.

Ýmsir velta því fyrir sér, hverja þýðingu það muni hafa fyrir aðild Íslands að Fríverzlunarsamtökunum, ef þau aðildarríki þeirra, sem sótt hafa um inngöngu í Efnahagsbandalagið, fengju aðild að því. Hér er um að ræða Bretland, Danmörku og Noreg auk Írlands. Eðlilegt er, að menn hugleiði þetta, ekki hvað sízt nú, þegar fregnir hafa borizt um; að væntanlega muni samningaviðræður um þessi efni hefjast á næsta ári. Hafa raddir heyrzt um það hér á landi, að af þessum sökum ættu Íslendingar að slá aðildarumsókn sinni á frest. Um þetta er í fyrsta lagi það að segja, að engum, sem til þekkir, blandast hugur um, að samningaviðræður munu taka alllangan tíma um aðild þessara ríkja að Efnahagsbandalaginu. Í öðru lagi er augljóst, að þótt samningar tækjust um aðild þessara ríkja að Efnahagsbandalaginu; verða þau ekki aðilar að því á einum degi. Það tók 8 ár að koma Efnahagsbandalaginu á fót, eftir að stofnun þess var ákveðin, og það tók 7 ár að koma Fríverzlunarsamtökunum á fót. Engum kunnugum blandast hugur um, að ef aðild fyrrnefndra ríkja að Efnahagsbandalaginu yrði samþ., mundi aðlögun þeirra að því taka mörg ár. Í þriðja lagi bendir allt til þess, að Efnahagsbandalagið mundi taka ýmiss konar breytingum við aðild fyrrnefndra fjögurra ríkja. Annars hefðu aðildarumsóknir þeirra auðvitað ekki sætt þeirri andstöðu innan Efnahagsbandalagsins á liðnum árum, sem raun ber vitni.

Íslendingum ber hins vegar að gera sér skýra grein fyrir því, að komi til aðildar þessara fjögurra ríkja að Efnahagsbandalaginu, hvenær sem það verður, býr það Íslendingum meiri vanda en þann, sem við er að etja í sambandi við aðild að Fríverzlunarsamtökunum. En það væri að draga algerlega ranga ályktun af staðreyndum málsins að rökstyðja frestun á aðild Íslands að Fríverzlunarsamtökunum með því, að nefndar þjóðir kunni að ganga í Efnahagsbandalagið á næstu árum. Aðild Íslands að Fríverzlunarsamtökunum nú mundi þvert á móti auðvelda Íslendingum að takast á við þann vanda, sem þá yrði um að ræða. Enginn veit að vísu, hver sá vandi mundi verða, þar eð enginn getur vitað, hvernig samningur Efnahagsbandalagsins og fyrrnefndra ríkja yrði. Því meiri horfur, sem á því eru, að slíkir samningar takist, þeim mun meiri ástæða er til þess fyrir Íslendinga að leggja áherzlu á sem skjótasta aðild að Fríverzlunarsamtökunum, þar eð það styrkir aðstöðu okkar í utanríkisviðskiptunum.

Þá er að síðustu rétt að bera saman óskir þær, sem settar voru fram af Íslands hálfu, er leitað var eftir aðild að samtökunum, og niðurstöður þeirra samningaviðræðna, sem fram hafa farið síðan. Aðalóskirnar voru þessar:

1. Þess var óskað, að Íslendingar fengju þegar við inngöngu að njóta tollfrelsis við innflutning á markaði aðildarríkja Fríverzlunarsamtakanna á öllum þeim vörum, sem aðildarríkin hafa afnumið tolla á, og afnáms þeirra viðskiptahafta, sem framkvæmd hafa verið. Á þessa ósk hefur verið fallizt.

2. Þess var óskað, að Íslendingar fengju 10 ára aðlögunartíma til þess að afnema þá verndartolla, sem þeim ber að afnema. Var óskað samþykkis á því, að verndartollalækkunin við inngöngu í Fríverzlunarsamtökin yrði 30%, en síðan yrði engin tollabreyting gerð í fjögur ár. 70% tollanna yrðu síðan afnumin í sjö áföngum á sex árum, þ.e. 10% í hvert skipti. Á þetta hefur verið fallizt. Það er okkur í sjálfsvald sett, hvaða breytingar við gerum á tollum auk þessa. Fyrirhugað er að lækka jafnframt hráefnistolla um því sem næst 50% og vélatolla niður í 7%. Er þessi hlutfallslega meiri lækkun á hráefnatollum og vélatollum við það miðuð, að ekki verði um neina raunverulega minnkun tollverndar fyrir iðnaðinn í heild að ræða á fyrstu fjórum árunum, sem Íslendingar væru aðilar að Fríverzlunarsamtökunum. Raunveruleg verndartollalækkun hæfist því ekkí fyrr en að fjórum árum liðnum. Hún yrði pá framkvæmd á sex árum. Fyrstu fjögur árin, sem Íslendingar væru aðilar að Fríverzlunarsamtökunum, yrðu því eins konar undirbúningstími að verndartollalækkuninni, og hún má taka sex ár. Þegar tekið er tillit til þess, að Íslendingar fá þegar í stað að njóta tollfrelsis fyrir sínar EFTA-útflutningsvörur, fá fjögur ár til þess að búa sig undir afnám verndartollanna og síðan sex ár til þess að afnema þá, hlýtur að verða ljóst, að hér er um mjög hagstæða samningsniðurstöðu að ræða.

3. Þess var óskað, að innflutningur á freðfiskflökum til Bretlands yrði tollfrjáls. Náðst hefur samkomulag milli Breta annars vegar og freðfiskútflytjenda í Fríverzlunarsamtökunum hins vegar, þ.e. Norðmanna, Dana og Svía, um nýtt fyrirkomulag varðandi innflutning á frystum fiski til Bretlands, og verða Íslendingar aðilar að samkomulaginu, ef þeir ganga í Fríverzlunarsamtökin. Er samkomulagið fólgið í því, að freðfiskútflytjendur innan Fríverzlunarsamtakanna mega flytja til Bretlands tollfrjálst eins mikið af frystum flökum og þeim sýnist, ef innflutningsverðið er ekki undir vissu lágmarki. Verðið, sem um er rætt, er svipað og við Íslendingar fáum nú á Bandaríkjamarkaði, en það er hærra en verðið, sem ríkt hefur á brezka markaðinum. Þetta nýja kerfi á að ganga í gildi 1. jan. n.k. Mun innflutningsverð á frystum flökum þá hækka í Bretlandi. Brezkir freðfiskframleiðendur eru ekki bundnir af þessu lágmarksverði, en talið er víst, að verð í Bretlandi muni hækka upp í lágmarksverðið. Verðhækkanirnar eru háðar því skilyrði, að ekki hafi orðið óvænt þróun á markaðinum og innflutningur frá öðrum aðildarríkjum Fríverzlunarsamtakanna orðið fyrir truflunum af þeim sökum. Kerfið er enn fremur byggt á þeirri forsendu, að hlutur brezks freðfisks aukist ekki óeðlilega mikið á kostnað innflutts freðfisks frá hinum aðildarríkjum Fríverzlunarsamtakanna og innflutningur frá Norðurlöndum valdi ekki vandræðum á brezka markaðinum. Enn fremur verður reynt að sjá til þess, að lönd utan Fríverzlunarsamtakanna fái ekki aðstöðu til þess að spilla markaðinum fyrir aðildarríkjum Fríverzlunarsamtakanna. Ef samkomulagið reynist ekki vel í framkvæmd, er gert ráð fyrir viðræðum milli samningsaðilanna. Enn fremur áskilja Bretar sér rétt til þess að ræða við hina samningsaðilana, ef innflutningur freðfiskflaka frá Norðurlöndum fer fram úr 33 þús. tonnum á árunum 1971 og 1972 og í ljós kemur, að sá innflutningur virðist hafa valdið verulegum truflunum á brezka markaðinum.

Hugmyndir brezkra stjórnvalda varðandi freðfiskinnflutninginn til Bretlands voru lengi vel þær að taka aftur upp heimild til innflutnings á takmörkuðu magni freðfisks til Bretlands frá hinum aðildarríkjum Fríverzlunarsamtakanna, og var þá ætlazt til þess, að þau, að Íslandi meðtöldu, ef það gerðist aðili að Fríverzlunarsamtökunum, skiptu sjálf milli sín því magni, sem brezk stjórnvöld vildu leyfa tollfrjálsan innflutning á. Af Íslands hálfu hafði það verið tekið skýrt fram, að Íslendingar teldu þá lausn algerlega ófullnægjandi frá sínu sjónarmiði. Hins vegar var brezku stjórninni skýrt frá því, að Íslendingar teldu lágmarksverðkerfi geta komið til greina. Innan Fríverzlunarsamtakanna voru Norðmenn helztu talsmenn hugmyndarinnar um lágmarkskerfið. Er talið, að ástæða þess, að brezka stjórnin féllst að síðustu á þessa hugmynd, sé sú, að brezkur sjávarútvegur, sem á í miklum erfiðleikum, muni með þessu móti fá hækkað verð á heimamarkaði, en freðfiskframleiðendur innan Fríverzlunarsamtakanna munu njóta verðhækkunarinnar einnig. Hins vegar verður 10% tollur á freðfiski, sem lönd utan Fríverzlunarsamtakanna flytja til Bretlands.

4. Þess var óskað að innflutningur á olíu og benzíni þyrfti ekki að verða frjáls, heldur mætti áfram verða háður innflutningsleyfum, til þess að unnt væri að beina kaupum á þessum vörum til Sovétríkjanna í því skyni að tryggja útflutningsmarkað Íslendinga þar í landi. Á þetta var fallizt.

5. Þess var óskað að þurfa ekki að gefa innflutning eftirtalinna vörutegunda að fullu frjálsan fyrr en 1975: sælgæti, öl, sement, línur og kaðlar, spennar og húsgögn. Að því er snertir þrjár fyrstu vörutegundirnar, hefst innflutningur þó ekki fyrr en árið 1972. Þá má geta þess, að innflutning á sams konar burstum og framleiddir eru af Blindra iðn þarf ekki að leyfa.

6. Í tvíhliða viðræðum við önnur norræn lönd var þess óskað, að komið yrði á fót á Íslandi norrænum iðnþróunarsjóði að upphæð 14 millj. dollara, eða 1232 millj. kr., í því skyni að auðvelda aðlögun íslenzks iðnaðar að markaði Fríverzlunarsamtakanna. Var gert ráð fyrir því, að Svíar greiddu 5.4 millj. dollara í sjóðinn, Danir, Norðmenn og Finnar 2.7 millj. dollara hverjir um sig og Íslendingar 0.5 millj. dollara. Mundi féð verða greitt í gjaldeyri til Íslands á fyrstu fjórum árunum, eftir að Ísland gerðist aðili að Fríverzlunarsamtökunum, einmitt á því tímabili, sem tollvernd íslenzks iðnaðar héldist í stórum dráttum óbreytt, en hann væri að búa sig undir afnám verndartolla á síðustu 6 árum aðlögunartímabilsins. Sjóðurinn gæti veitt lán með hagstæðum kjörum og styrki vegna tækninýjunga og markaðsleitar. Enga vexti ætti að greiða af framlögum hinna Norðurlandanna, en gert er ráð fyrir að þau yrðu endurgreidd á 10 árum og endurgreiðslurnar hæfust eftir 15 ár. Ætti sjóðurinn að geta lagt til hliðar svo mikinn tekjuafgang, að Íslendingar gætu eignazt sjóðinn innan 25 ára tímabilsins. Ríkisstjórnir annarra norrænna landa féllust á þessar óskir, og er gert ráð fyrir því, að samningur um stofnun sjóðsins verði undirritaður innan skamms, en hann tekur að sjálfsögðu ekki gildi nema Ísland verði aðili að Fríverzlunarsamtökunum.

7. Í tvíhliða viðræðum við önnur norræn lönd var þess einnig óskað, að þau leyfðu innflutning á allt að 2.200 tonnum af dilkakjöti. Takmarkanir eru á innflutningi kjöts til Norðurlanda, auk þess er innflutningsgjald af kjöti til Svíþjóðar. Niðurstaða viðræðnanna hefur orðið sú, að önnur norræn lönd hafa fallizt á að leyfa þegar á fyrsta ári aðildar Íslands að Fríverzlunarsamtökunum innflutning á 1.700 tonnum af dilkakjöti. Danir hafa samþykkt innflutning á 500 tonnum, Finnar á 100 tonnum, Norðmenn á 600 tonnum og Svíar á 500 tonnum. Svíar hafa heitið því að taka síðar til velviljaðrar athugunar aukningu á því magni, sem flytja má inn án greiðslu innflutningsgjalds, ef sölumöguleikar reynast vera fyrir hendi. Aðalkostur aukinnar sölu á kindakjöti til Norðurlanda er fólginn í því, að þar fæst mun hærra verð en í aðalmarkaðslandinu, Bretlandi. Niðurstaða samningaviðræðnanna að þessu leyti má því teljast mjög hagstæð.

Þeim óskum, sem settar voru fram af Íslands hálfu í ræðu þeirri, sem ég flutti í ráði Fríverzlunarsamtakanna 23. jan. 1969, er aðildarbeiðni Íslands kom fyrst til umræðu, hefur því verið fullnægt í öllum aðalatriðum, en ræðan er prentuð með grg. þáltill. sem fskj. Þeir embættismenn, sem fyrst og fremst hafa haft samningsgerðina með höndum í einstökum atriðum, eru Þórhallur Ásgeirsson, ráðuneytisstjóri í viðskmrn., og Einar Benediktsson deildarstjóri. Sé ég ástæðu til þess að láta í ljós sérstakt þakklæti til þeirra fyrir einstaklega vel unnin störf. Mig langar einnig til að láta í ljós þakklæti til ráðs Fríverzlunarsamtakanna og starfsmanna þess fyrir mikla lipurð í samningaviðræðunum, skilning á óskum Íslands og sanngirni í afstöðu sinni til þeirra. Sérstakar þakkir er mér bæði ljúft og skylt að færa ríkisstj. annarra norrænna landa fyrir einstaka velvild í garð Íslendinga í sambandi við undirbúning aðildarumsóknarinnar og á öllum stigum samningaviðræðna, og þó ekki hvað sízt í sambandi við stofnun Norræna iðnþróunarsjóðsins.

Allar ákvarðanir á einstökum stigum málsins hafa að sjálfsögðu verið teknar af ríkisstj. í heild, en EFTA-nefnd þingflokkanna hefur jafnan verið höfð með í ráðum, þegar taka hefur þurft ákvarðanir, þótt hún eða einstakir fulltrúar í henni beri að sjálfsögðu ekki ábyrgð á neinni ákvörðun, sem tekin hefur verið. Samstaða í nefndinni hefur hins vegar verið ágæt, og ég vona, að segja megi, að nefndarmenn hafi fundið, að vilji hafi verið til þess, að þeir fylgdust með öllu, sem í málinu gerðist, að þeir hafi jafnan fengið tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og fengið svör við öllum spurningum, sem upp hafa komið. En ábyrgð á því, sem gert hefur verið, er að sjálfsögðu á herðum ríkisstj. einnar. Nú er það Alþ. að taka lokaákvörðun í þessu mikilvæga máli. Öll gögn hafa verið lögð á borðið. Það er mjög eindregin skoðun ríkisstj., að Alþ. eigi að samþykkja þá þáltill., sem hér liggur fyrir. Það er skoðun ríkisstj., að með því móti mundi verða stigið eitt stærsta sporið, sem lengi hefur verið stigið, til þess að gera íslenzkt atvinnulíf öflugra og fjölbreyttara og leggja traustan grundvöll að áframhaldandi framförum og lífskjarabótum á Íslandi.