12.12.1969
Sameinað þing: 23. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (2944)

117. mál, aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Sízt er orðum aukið, þó að sagt sé, að fá mál hafi komið betur undirbúin fyrir hið háa Alþ. heldur en það, sem nú er hér til meðferðar. Það er vitað, að verulegar athuganir áttu sér stað á því, hvort Íslendingar ættu að gerast aðilar að EFTA, um svipað leyti og til þeirra samtaka var efnt, þ.e. á árunum milli 1955 og 1960. Síðan var málið allt tekið upp til nýrrar skoðunar snemma á þessum áratug, þegar við blasti, að Efnahagsbandalagið mundi stækka með aðild Breta og nokkurra annarra EFTA-landa, vegna þess að menn gerðu sér grein fyrir, að ef slík ein stór efnahagsheild skapaðist í Evrópu, þá yrðu Íslendingar með einhverjum hætti að gera sérsamninga við þau samtök, þó að hitt hefði hér aldrei fylgi, að Íslendingar gerðust fullir aðilar slíkra samtaka. En úr þessum samruna varð ekki, heldur var honum slegið á frest fyrir synjun þáv. forseta Frakklands. Efnahagsaðstæður á Íslandi voru einnig á þessum árum slíkar, að ekki var talin knýjandi nauðsyn til nýrrar markaðsöflunar með þeim hætti, sem EFTA-aðild hlýtur að greiða fyrir. En þeir örðugleikar, sem Íslendingar hafa verið í síðustu 2–3 ár, og reynsla af óvissu og tekjumissi, sem við sárlega höfum orðið fyrir, varð til þess að vekja málið að nýju. Og nú hafa fulltrúar flokkanna starfað að þessu máli í full 2 ár. Á síðasta Alþ. var samþ. till. um, að Íslendingar skyldu leita eftir því að verða aðili samtakanna, og hefur auðvitað margföld athugun átt sér stað á málinu í sambandi við þá samningagerð alla, sem ég hygg, að engum blandist hugur um, að tekizt hafi í heild okkur á mjög happasælan hátt. Við höfum í öllum þeim atriðum, er við töldum hyggilegt að setja á oddinn, fengið framgengt því, er við töldum okkur nauðsynlegt. Frá því að þeim samningum var lokið, eru nú nokkrar vikur liðnar, svo að menn hafa í ljósi þeirrar niðurstöðu, sem þá fékkst, enn getað skoðað málið allt í heild. Það var því að margathuguðu máli, að till. sú, sem hér er til umr., var lögð fyrir hið háa Alþ. og útbýtt nú fyrir réttri viku.

Algert öfugmæli er þess vegna að halda því fram, að það sé farið að rasandi ráði við meðferð þessa máls, að menn hafi ekki haft nægan tíma né hafi nægan tíma til þess að átta sig á því. Það er ljóst, að ef málið verður afgr. fyrir jól, eins og að er stefnt, þá hefur þingleg meðferð þess staðið rúmar tvær vikur, og er það ámóta tími og mál, miklu miður undirbúin, en allflókin og veigamikll, hafa stundum haft til meðferðar. Vitna ég þá t.d. bæði í sambandslögin á sínum tíma, 1918, og ákvörðun um aðild okkar að Sameinuðu þjóðunum 1946.

Hér er því að einu og öllu þinglega að farið, og óneitanlega kemur það úr hörðustu átt, þegar hv. stjórnarandstæðingar finna að því, að þeim sé ekki ætlaður nægur tími til athugunar málsins, þegar menn hafa í huga þeirra eigin vinnubrögð, meðan þeir réðu lögum og lofum á Alþ. Þess er skemmst að minnast, að á síðasta valdaári þeirra, 1957–1958, þá sat Alþ. starfslaust að mestu frá því á haustdögum 1957 þangað til um miðjan maí 1958, þegar útbýtt var frv. um útflutningssjóð o.fl., sem hafði í sér fólgnar flóknar efnahagsráðstafanir. Það mál var síðan afgr. á rösklega hálfum mánuði. Því var útbýtt 13. maí, en afgr. 29. maí. Þetta var þó langur tími miðað við það, sem sams konar ráðstafanir höfðu fengið á þingi rétt fyrir jólin 1956, þegar frv. með sama nafni var útbýtt 19. des., en hlaut afgreiðslu þegar 22. des. Þetta frv. var með 40 gr. og tilvitnunum í marga lagastafi. Við, sem þá vorum í stjórnarandstöðu, fengum að sjá frv. ásamt grg. rétt fyrir miðnætti daginn áður og vannst sannast að segja naumur tími til þess að átta okkur á málinu. Við viðurkenndum hins vegar, að það væri nauðsyn á, eins og þá stóð, að afgr. málið. Við greiddum ekki atkv. á móti afbrigðum, þó að við teldum allar þessar ráðstafanir mjög hæpnar.

Ég vitna ekki í þessi dæmi til þess að segja, að þau séu til fordæmis, þvert á móti, þau eru víti, sem ber að varast. En þegar hv. stjórnarandstæðingar og einkum framsóknarmenn halda fjálgar ræður og skrifa hástemmt um lítilsvirðingu, sem hinu háa Alþ. sé sýnd með meðferð þessa máls, þá hljóta menn að rifja upp þessar staðreyndir, og það eru spor, sem hræða.

Nú skal ég játa, að þetta mál er miklu flóknara en eingöngu sú eina þáltill., sem hér liggur fyrir. Það eru nokkur önnur mál, sem eru í sambandi við það. Það er breyt. á l. um iðju og iðnað og um verzlunaratvinnu. Það eru breyt. á tollskrá og á söluskatti. Sannleikurinn er sá, að sumum þessara mála liggur ekkert á í meðferð þingsins, eins og frv. um iðju og iðnað. Um hin frv. gildir það, að þau verða að fá eftir atvikum skjóta þingmeðferð. Það er að vísu ljóst, að þau geta fengið ólíkt betri meðferð heldur en menn urðu að sætta sig við 1956, en því fer fjarri, að ríkisstj. hafi hug á því að knýja þessi mál endilega fram nú fyrir jól. Ef menn óska frekar eftir því að sitja hér fram yfir jól, fram í janúar, eða byrja aftur tiltölulega snemma í janúar, þá er það mjög til athugunar og sjálfsagt, að um það sé haft fullt samráð á milli manna. En ég bendi einungis á þá staðreynd, að nú er ráðgert, að Norðurlandaráð komi hér saman til fundar hinn 7. febr. og standi það þing í vikutíma. Meðan á því þinghaldi stendur, getur Alþ. ekki starfað. Við skulum þess vegna átta okkur á, að annaðhvort verðum við að haga málsmeðferð þeirra frv., sem hér liggja fyrir og segja má, að ekki skipti öllu máli, hvort séu afgr. deginum fyrr eða síðar, tollskráin og söluskatturinn, þannig, að menn kjósi heldur að afgr. þau í janúar í síðasta lagi, þ.e.a.s. áður en Norðurlandaráðið komi saman, eða menn semji um svo stuttan tíma til afgreiðslu þeirra eftir Norðurlandaráðsfundinn, að þau geti örugglega verið komin úr hendi nokkrum dögum fyrir 1. marz, þ.e.a.s. áður en ráðgerð EFTA aðild okkar hefst. Og það efast ég um, að hægt sé, ef menn eru ekki fúsir til fundarhalds hér í janúar. En eins og ég segi, það er síður en svo, að stjórnin hafi hug á því að þrengja þessum málum óathugað í gegnum þingið.

Ég tel sjálfsagt, að það verði athugað og haft samráð á milli flokka um það, hvernig vinnubrögðum verði bezt háttað. Hitt verða menn að skilja, að stjórnin hefði legið undir réttmætri gagnrýni, ef hún hefði ekki nú þegar lagt öll þessi frv. fyrir hið háa Alþ., vegna þess að öll eru þau hluti af þessu meginmáli. þó að misjafnlega fljótt þurfi að afgr. þau. Það er eðlilegt, að þingheimur óski þess, jafnt stjórnarstuðningsmenn sem andstæðingar, að það liggi ljóst fyrir, hverjar till. stjórnarinnar í þeim séu. Enda er það nú svo, að þó að sérstaklega tollskráin sé viðamikið mál að stærð, þá er breyt. á henni tiltölulega mjög einföld. Þar er fylgt meginreglum, sem menn verða að taka afstöðu til, með eða á móti. Þeir verða að segja annaðhvort já, já eða nei, nei, þeir sem vilja gegna sinni þingmannsskyldu. Fram hjá slíku komast menn ekki. En eðlilegt er, að þm. óski eftir að skoða þetta, þannig að það sé ekki annað í þessu fólgið heldur en þessar meginreglur og þau önnur atriði, sem fram er tekið, að séu í frv. Mér skilst, að stjórnarandstæðingar vilji hafa þessa skemmtilegu lesningu yfir jólahátíðarnar, og tel ég það þeim þá sízt of gott, sannast að segja.

Ég held þess vegna, að við getum sparað okkur aðfinningar um það, að hér sé verið að hafa óeðlilega málsmeðferð og fara öðruvísi að heldur en venja sé til og gera beri um meiri háttar mál, því að það tel ég þetta mál fyllilega vera, gagnstætt því, sem stjórnarandstæðingar segja öðru hvoru. Þeir segja í öðru orðinu, að þetta sé með allra stærstu málum, sem Alþ. hefur lengi fjallað um, og í hinu, að hér sé ekki um neitt stórmál að ræða. Skoðun mín er sú, að hér sé vissulega um mikið stórmál að ræða, en mál, sem menn hafa haft ekki einungis vikur og mánuði, heldur ár til þess að íhuga. Og ég legg þá einnig áherzlu á, að það hefur alltaf legið ljóst fyrir, að ef úr EFTA aðild yrði, þá verði nauðsynlegt að breyta tollskránni, og ráðgert hefur verið nú um árabil og komið fram í öllum umr., að þá yrði einnig að hækka söluskatt. Hitt játa ég svo, að það getur legið undir mati, hvað söluskattshækkunin eigi að verða mikil, til hverra hún eigi að ná og hverjar aðrar ráðstafanir þurfi að gera af því tilefni. En þannig er það með alla löggjöf, að um hana verður að taka ákvarðanir smám saman, af því að af einu leiðir oft annað. Fyrst er að koma sér niður á fyrsta stigið og taka síðan önnur í framhaldi af því. Þær allsherjarbreytingar á skattalöggjöf og tryggingarlöggjöf, sem sagt hefur verið að þyrfti að gera af þessu tilefni, er hægt að gera, þegar menn átta sig betur á, hvernig þetta verkar. Til þess verður nægur tími, hvenær sem þinghald verður eftir áramót og hvernig sem þinghaldinu verður háttað að öðru leyti. En annars hygg ég, að það sé allt of mikið gert úr þeirri þjóðfélagsumbyltingu, sem leiði af slíkri skattlagningu eins og söluskattinum. Það er algerlega fráleitt að halda því fram, að með því sé verið að gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari, eins og heyrzt hefur. Enda er það harla athyglisvert, að slíkur söluskattur er á öllum Norðurlöndum, hefur verið settur þar á af þeim flokkum, sem fyrst og fremst styðjast við verkalýðshreyfinguna. Þeir hafa talið vinning að slíkri skattlagningu í sívaxandi mæli, og á það einnig við um okkur, ekki síður en aðra. Enda bregður svo einkennilega við, að í öðru orðinu halda hv. stjórnarandstæðingar því nú fram, að of illa sé búið að fyrirtækjum og atvinnurekstri hér á landi. Þeir benda á það með réttu, að það þurfi að auka afskriftareglur og annað slíkt. Ef þessu hefði verið haldið fram fyrir nokkrum árum af okkur sjálfstæðismönnum, hefði sú bumba verið barin, að hér væri verið að ívilna þeim ríku. Nú er annað að heyra, og er það vissulega gleðilegt, ef það reynist svo, að þessir menn vilji með áhrifum sínum raunverulega stuðla að þessari breytingu.

Ég sé, hæstv. forseti, að ég verð ekki búinn með ræðuna fyrir kaffihlé og vildi þess vegna óska eftir að mega halda áfram eftir kl. 5. (Forseti: Það verður orðið við þeim tilmælum hæstv. forsrh. að gera hlé á fundinum til kl. 5.) – [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þá er því haldið fram, að hvað sem líði aðild að EFTA yfirleitt, þá sé þetta mjög óheppilegur tími, sem nú sé valinn til ákvörðunar, vegna þess að við blasi, að þessi samtök séu að leysast upp og væntanlega muni þau eða nokkur hluti þeirra mjög bráðlega renna saman við Efnahagsbandalag Evrópu. Ég hygg, að ég fari rétt með það, að hv. 1. þm. Norðurl. v., Ólafur Jóhannesson, hafi haldið því fram hér í umr., að undirbúningsviðræðum milli Bretlands og Efnahagsbandalagsríkjanna ætti að vera lokið fyrir mitt árið. Þetta er alger misskilningur. Það er að vísu svo, að snemma í þessum mánuði var haldinn fundur, toppfundur svokallaður, innan Efnahagsbandalagsins, og þar var samkomulag um, að teknar skyldu upp viðræður við þau ríki, sem þegar hafa sótt um aðild, þ.e.a.s. Bretland, Danmörk, Noreg og Írland. En ýmsum skilyrðum átti að vera fullnægt, áður en þær umræður hæfust. Í sjálfri samþykktinni, sem á þessum fundi var gerð, eru ekki sett nein ákveðin tímamörk, en í skýringum, sem látnar voru fylgja, er talað um, að umræðurnar eigi að geta hafizt ekki síðar en fyrir júnílok, þ.e.a.s. að þá eiga viðræður að hefjast milli þessara umsóknarríkja og Efnahagsbandalagsríkjanna, sem er allt annað en hv. þm. hélt fram, að viðræðunum ætti þá að vera lokið. Nú eru þessi tímamörk ekki einu sinni ákveðin, eins og ég segi, og það er ráðgert, að ýmsum skilyrðum þurfi að vera fullnægt, áður en þessar eiðræður hefjist, þ. á m. eiga Efnahagsbandalagsríkin eftir að koma sér saman um sameiginlega stefnu í landbúnaðarmálum, þ.e.a.s. ákvörðun um styrkveitingar til bænda, aðallega í Frakklandi og raunar víðar. Einnig er ráðgert, að þær komi sér saman um sameiginlega gjaldeyrisstefnu, jafnvel gjaldeyrissjóð, að þær komi sér saman um samfellda pólitíska stefnu, sem þeim hefur ekki tekizt enn þá, og sameiginlegt skilyrði, sem setja eigi væntanlegum viðsemjendum.

Nú geta menn haft mjög mismunandi skoðanir á því, hvort það takist að koma sér saman fyrir ríkin um allt þetta á því rúma hálfa ári, sem hér er til stefnu. Þar veltur auðvitað mest á því, hvort Frakkland hefur í raun og veru breytt um stefnu frá tímum de Gaulles, eins og ýmsir halda, eða hvort hér er um, ef svo má segja, taktíska breytingu að ræða, vegna þess að núverandi valdhafar þar treysti sér ekki til að fylgja fram hinni einstrengingslegu stefnu hershöfðingjans, hins fyrrv. forseta. Út af fyrir sig trúi ég því, að Frakkar hafi breytt um stefnu, og hefur þó vantrú á því komið fram hjá ýmsum. En það er ljóst, að jafnvel þó að þessar viðræður gætu hafizt nú um mitt árið, þá er ráðgert, að þær taki langan tíma. Það má segja frá því, að þegar ráðherrar frá Lúxembúrg voru hér í sumar, ræddum við þessi mál við þá, sem eru þessu efni nákunnugir. Þeir létu uppi við okkur, að slíkar viðræður mundu taka svo langan tíma, að það væri útilokað, að Efnahagsbandalagið stækkaði fyrr en eftir 3–4 ár. Sömu skoðun hefur sá Breti, sem þessum málum er kunnugastur, formaður Íhaldsflokksins brezka, Heath, látið uppi, en hann var aðalsamningamaður Bretlands við samningsgerðina á sínum tíma, þær tilraunir, sem de Gaulle stöðvaði snemma árs 1963. Heath hefur nú látið uppi, að hann teldi, að þessu yrði ekki lokið fyrr en svo, að Bretland mætti ekki vænta þess að geta gerzt aðili fyrr en a árinu 1973 eða 1974. Wilson hefur talað um eitthvað skemmri tíma, en ekki bundið sig við ákveðið tímamark. En hann hefur þó sagt, að þetta væri gott, svo langt sem það næði, sem hingað til hefði gerzt, að Bretar yrðu að gera sér grein fyrir því, að þeir mundu ekki eiga kost á aðild nema þurfa að borga þá aðild dýru verði. Þeir yrðu að vera við því búnir, að það verð yrði svo hátt, að þeir treystu sér ekki til þess að greiða það. Hann hefur þannig allan vara á um aðild Breta. Enn er þess að gæta, að viðbúið er, að kosningar í Bretlandi verði á þessu tímabili, og líklegt er, að það geti verkað til truflunar á ýmsa vegu, bæði að menn verði hikandi fyrir kosningar að taka ákvarðanir og lendi í yfirboðum um harða kosti af Breta hálfu, eins og við þekkjum að eiga sér stað hvarvetna í stjórnmálaerjum. Ég held því, að rétt sé að gera sér grein fyrir því, að því fer fjarri, að það blasi við upplausn EFTA á næsta leiti. EFTA á eftir að standa enn allmörg ár. Og það er með öllu óvíst enn þá, hvort verður úr þessum samruna EFTA-ríkja við Efnahagsbandalagið.

Það hefur verið vikið að því hér í umr., óbeint þó, að þau tíðindi, sem gerðust í Finnlandi, þar sem Finnar afboðuðu þátttöku sína í áframhaldandi umræðum um NORDEK, bentu til þess, að þeir héldu, að Efnahagsbandalagið væri á næstu grösum. Það er vafalaust, að Haag-fundurinn átti nokkurn þátt í þessari ákvörðun Finna. Finnland hefur að ýmsu leyti sérstöðu, sem ég skal ekki fara frekar út í. NORDEK-umræðurnar eru hins vegar allt annars eðlis heldur en varðandi áframhald EFTA. Varðandi NORDEK er um það að ræða, hvort menn vilji ráðast í stofnun nýrra alþjóðlegra samtaka, sem bundin séu við fjögur ríki. Það má vel færa rök að því, að sú ljósglæta, sem hefur birzt í sambandi við Efnahagsbandalagsríkin, verði til þess, að mönnum þyki skynsamlegt að fresta ákvörðun um NORDEK, vegna þess að þar er um algera nýjung að ræða. Önnur Norðurlandaríki telja þetta aftur á móti ekki skynsamlegt. Það er og af síðari fregnum alveg ljóst, að innanríkismál í Finnlandi og það, að kosningar eiga að fara fram þar í marz, hafa ráðið ekki minna um þessa ákvörðun finnsku stjórnarinnar heldur en Haag-fundurinn. Er raunar ljóst af síðari ummælum forsætisráðherrans finnska, að það eru einungis sumir finnsku flokkanna, en ekki hans eigin flokkur, sem töldu, að þessa ályktun ætti að draga af því, sem gerzt hefur í Haag og tekin var ákvörðun um, áður en Finnum var í raun og veru ljóst, hvað hafði gerzt á Haagfundinum, sem enn er í raun og veru efnislega óljóst, eins og ég sagði, hverjar afleiðingar verða af.

Þetta mál er því allt algerlega í deiglunni, og því fer fjarri, að við eigum að miða okkar ráðstafanir við það, að sum EFTA-ríkin muni af skyndingu gerast aðilar Efnahagsbandalagsins. Við skulum einnig hafa það í huga, að það kemur ekki til greina, eftir því sem enn er vitað, að Svíþjóð gerist fullkominn aðili Efnahagsbandalagsins, og alveg útilokað, að Finnland geri það, og harla ósennilegt, að Sviss geri það. Það er því ljóst, að mörg EFTA-ríki verða utan Efnahagsbandalagsins, hvort sem samningaviðræður þar hefjast fyrr eða seinna og hvernig sem þeim lyktar. En hitt blasir við, og það skulum við einnig muna, að EFTAríkin hafa bundizt um það samtökum og því er marglýst yfir, að í viðræðum um aðild að Efnahagsbandalaginu muni þau, sem hyggjast gerast aðilar að því bandalagi, — þau ríki muni eftir föngum leitast við að tryggja öðrum EFTA-ríkjum þannig samninga við Efnahagsbandalagið í heild, að þau verði ekki verr sett eftir en áður. Enda er það mjög ólíklegt, svo að vægt sé til orða tekið, að Noregur og Danmörk vilji slíta þeim efnahagstengslum, sem þegar eru komin á við Svíþjóð og raunar Finnland einnig. Það er greinilegt, að þau munu eftir sem áður reyna að halda því, sem áunnizt hefur með EFTA-samtökunum, og tryggja, að þau tengsl rofni ekki, sem tekizt hefur með miklum erfiðismunum að skapa á milli Norðurlandaríkjanna einmitt fyrir milligöngu EFTA. Hvernig þau tengsl verða, er svo allt annað mál. Um það get ég ekki sagt á þessu stigi. En ég er sannfærður um, að einmitt sú staðreynd, að við blasa á næstu missirum samningar við Efnahagsbandalagið, á að verða hvöt fyrir Ísland til að gerast aðili að EFTA, vegna þess að svo varhugavert sem það er fyrir okkur að vera utan við EFTA og Efnahagsbandalagið, þeim mun hættulegra verður, ef við verðum utan við algera heild höfuðviðskiptaþjóða okkar, sameinaðra í Efnahagsbandalaginu. Með þessu segi ég ekki, — ég undirstrika það alveg greinilega, — ég tel, að það komi ekki til álita, að Ísland geti gerzt fullkominn aðili að Efnahagsbandalaginu. Það hefur verið rakið fyrr í þessum umr., að það bandalag er þeim mun sterkara á alla vegu og strangara, að Ísland á þar ekki heima, a.m.k. svo langt sem við getum séð. Hitt er mér ljóst, að við þurfum, ef þarna myndast ný, stór heild, að ná einhverjum viðskiptatengslum við þá efnahagsheild, vegna þess að þá eru þar samankomin þau ríki, sem við höfum haft a.m.k. helming og stundum allt að því 60% af okkar viðskiptum við, og það væri okkur stórhættulegt, ef við værum algerlega utan tengsla við þann mikla markað. Svo mikið tjón sem ég tel, að við höfum beðið af því að vera utan við EFTA, þá hafa þó viðskipti okkar við þau lönd haldizt í svipuðu horfi og þau voru næstu ár á undan, þar koma ýmsar ástæður til greina, en þau fara greinilega minnkandi við Efnahagsbandalagið, og ef þessi ríki tengjast öll saman og útiloka Ísland, þá erum við vissulega illa stödd. En við skulum hafa það í huga, að fullkomin aðild að Efnahagsbandalaginu eða innganga í Efnahagsbandalagið inn um einhverjar bakdyr, eins og hér hefur komið til greina, er útilokuð. En það er nauðsyn á einhvers konar samningum við þau samtök, og sú nauðsyn verður því ríkari sem þau verða sterkari og öflugri. Hvort það næst með viðskiptasamningum, hvort það næst með einhvers konar aukaaðild, það er mál, sem verður tekið upp á sínum tíma, þegar það liggur ljóst fyrir, hvort nokkuð verður úr þessari stækkun, og þá í hvaða mynd.

Við skulum treysta því, að þá verði haldið á þeim málum af þeim, sem verða við völd á þeim tíma, af skynsemd og hófsemd. En við eigum ekki að gera leik að því að útiloka okkur fyrir fram frá öllum skiptum við þann stóra markað, sem þar kemur upp, og leiðin til þess, að þau skipti verði auðveld eða okkur hagkvæmari, er einmitt sú, að við höfum samfylgd við aðra, ekki eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði hér á dögunum, að við ætluðum að láta aðra fara að semja fyrir okkur, slíkt hefur engum dottið í hug, en það er styrkur að samfylgd annarra og ekki sízt fyrir litla þjóð og lítið ríki eins og Ísland að vera í hópi annarra. Að því er styrkur, og við megum ekki ætíð óttast eða láta svo sem við missum okkar sjálfstæði, þó að við höfum eðlilega samvinnu við aðrar þjóðir.

En við skulum segja, að mönnum sýndist á sínum tíma, — eftir hvað mörg ár sem það verður, — að það væri ekki hyggilegt fyrir okkur að leita neinna sérsamninga við þessa nýju efnahagsheild, sem menn hafa misjafna trú á, hvort tekst að skapa eða ekki, og vildum draga okkur í hlé, hverju er þá tapað? Hvað höfum við misst með því að gerast aðilar að EFTA nú og vera þar aðilar í 3–4 ár, eins og ég geri ráð fyrir að vera muni, þangað til úr þessu fæst skorið til hlítar? Við skulum segja, að það væru hara 2–3 ár. Hverju er tapað? Ég sé ekki, að neinu yrði tapað. Þá hafa menn einmitt færi til þess, ef þeir telja skynsamlegt, að draga sig í hlé. Þá er komið nýtt viðhorf. Eftir nokkra reynslu geta menn gert upp sinn hug á ný án þess að þurfa formlega upp úr þurru, ef svo má segja, að segja sig úr EFTA. Menn geta neitað að vera með í þeim nýju tengslum, föstum eða lausum, sem þá verða mynduð. En það, sem við vinnum þegar í stað, er það, að við fáum tollfrelsi nú þegar innan EFTA-ríkja, strax og við göngum í þau samtök. En samkeppni af þeirra hálfu á Íslandi kemur ekki til að bitna á íslenzkum fyrirtækjum, ekki að neinu marki, fyrr en eftir fjögur ár og smám saman á 10 ára tímabili, þannig að við höfum allt að vinna á því árabili, sem hér er verið að tala um, en engu að tapa í raun og veru.

Við höfum meira að vinna en tollfrelsið eitt á þessu tímabili. Iðnþróunarsjóðurinn er einnig tengdur því, að við gerumst aðilar að EFTA. Ég get ekki annað en látið uppi furðu mína á því, að hófsamur maður eins og hv. 1. þm. Norðurl. v.. Ólafur Jóhannesson, skuli tala á þann veg, að auðvitað muni Norðurlandaríkin láta okkur í té iðnþróunarsjóðinn, hvort sem við gerumst aðilar að EFTA eða ekki, og gefa það í skyn, að ef þau gerðu það ekki, þá væru þau að hlutast til um innanríkismál okkar. Þetta segir maður, sem hefur tekið þátt í norrænni samvinnu lengi og er góður og gegn í sinni dómgreind, þegar hún er ekki blinduð af flokksofstæki. Það, sem hér er um að ræða, er, að menn hafa komið sér saman um að tengja stofnun tiltekins sjóðs þessara 5 ríkja við aðild okkar að þessum EFTA-samtökum. Það er algerlega háð því og eingöngu bundið við, að við gerumst aðilar að þessum samtökum. Það er ekki svo, eins og sumir góðviljaðir menn hafa sagt, að það hafi verið gengið með betlitösku til þess að fá þessi ríki af góðsemi til þess að skjóta saman peningum handa okkur, eins og sumir hér inni hafa raunar meiri reynslu af frá fyrri árum heldur en við. Látum það eiga sig.

Það, sem hér er um að ræða, er, að í sambandi við EFTA er tekin upp hugmynd, sem kemur fram hjá Norðurlandaþjóðunum sjálfum í sambandi við NORDEK. Í væntanlegum samningi um NORDEK er sérstakur kafli um samvinnu að fjáröflun, og er þá ætlazt til þess, að þessi ríki stofni 4 sameiginlega sjóði. Það eru sérstakur landbúnaðarsjóður, sérstakur fiskveiðasjóður, almennur fjáröflunarsjóður eða fjárveitingarsjóður og fjárfestingarbanki. Þessir aðilar stofna þessa sjóði til þess að efla samvinnu sín á milli. Öllum er vitanlegt, að Svíar eiga að greiða bróðurpartinn í þessa sjóði, vegna þess að þeir eru fjölmennastir og ríkastir. Og það er einnig vitað, að aðild hinna, hugsanleg aðild að NORDEK, er tengd því, að þessir sjóðir verði stofnaðir. Það dettur engum í hug í þessum löndum, að þarna sé verið að skjóta saman handa Norðmönnum, Dönum og Finnum í góðsemdarskyni. Þetta er til þess að efla samvinnu, það er til þess að gera aðstöðuna jafnari en hún væri ella.

Alveg með sama hætti hafa ríkin 4 játað, að eins og horfir, þá er eðlilegt, að gerður verði jafnari kostur Íslands og hinna ríkjanna. Þess vegna hafa þau fallizt á að stofna þennan iðnþróunarsjóð, að því áskildu, að við göngum í EFTA, vegna þess að það er lakari aðstaða okkar í byrjun í EFTA, sem er ástæðan fyrir því, að þessi sjóður er stofnaður. Þeir eru ekki að hlutast til um okkar mál. Þeir segja: Við játum mismuninn á aðstöðu, og það er skilningur okkar á þeirri ólíku aðstöðu, sem gerir það að verkum, að við viljum leggja þetta fé fram. — Hitt horfir svo allt öðruvísi við, ef við segjum: Við viljum ekki gerast aðilar að þessum samtökum, en þið eigið bara að gefa okkur þessa peninga, af því að við erum svo illa staddir. — Fram á slíkt hefur enginn farið. En hugsun sumra góðra manna sést af því, sem ég las í Tímanum fyrir skemmstu, — þar var sagt bara, að þessi sjóður væri svo sem ekki mikils virði, það kostaði 100 eða 1000 sinnum meira að iðnvæða Ísland, og það væri einhvers virði, ef þeir vildu gefa okkur þá peninga. Slíkt hefur aldrei komið til greina. Það er til þess að auðvelda takmarkaða samvinnu um ákveðin efni, sem hinir öflugri aðilar leggja þetta fé fram. Og þetta fé munum við fá, ef við gerumst aðilar að EFTA, alveg eins og við munum á næstu árum fá tollfrelsi hjá EFTA, meðan EFTA-samstarfið stendur. Hvort svo verður breyting á því tollfrelsi, ef einhver ríki ganga í Efnahagsbandalagið, það er mál, sem þá er eftir að semja um, og þá er einnig eftir að semja um, hvað um iðnþróunarsjóðinn verður. En þá erum við búnir að fá hann, og þá erum við búnir að ráðstafa honum að mestu eða öllu leyti til iðnþróunar á Íslandi. Það er því alveg ljóst, að við höfum stórlega hagsmuni, ekki sízt ef úr samningum við Efnahagsbandalagið verður, af því að vera búnir að gerast aðilar áður, sem sagt ekki seinna en á þessum vetri. Enda gera allir sér það ljóst, að í raun og veru er verið að spyrja um það nú, hvort við viljum vera aðilar að EFTA eða ekki. Það verður að grípa þetta tækifæri nú, eða við afsölum okkur þeim möguleikum, sem í því felast að vera þarna jafngildur aðili við okkar frænd- og vinaþjóðir.

Þá er því einnig haldið fram af sumum, að efnahagur okkar sé nú slíkur, að við höfum engan hag af því að gerast aðilar. Hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, hélt um það langa tölu. Eins og þegar hefur verið sýnt fram á hér í dag í umr., þá er auðvitað allur útreikningur hv. þm., sem byggist á því, hvað við mundum hafa unnið á undanförnum árum, ef við hefðum ekki þurft að greiða toll, algerlega út í bláinn, vegna þess að þar er miðað við það, að við höfum verið útilokaðir frá markaðinum. Markaðurinn í Bretlandi hefur fallið niður vegna þess, að menn gátu ekki staðið undir því að borga þennan 10% toll, því að í rauninni var um innflutningsbann að ræða á frystum flökum, a.m.k. þannig, að hægt væri að hugsa um alvarlega sölu, þar sem hinir höfðu kvóta með fyrir fram miklu hagkvæmara verði en okkar. Hv. þm. er svo kunnugur, að hann veit frá þeim árum, sem við höfðum mikið síldarlýsi og framleiddum það í verulegu magni, að þá var það yfirleitt ekki selt beint til Bretlands, heldur varð að selja það til Danmerkur, vegna þess að Danir fluttu það svo aftur inn til Bretlands. Þeir notuðu sér verðmuninn, sem kom af þessum tolli. Danir borguðu okkur heldur hærra en Bretarnir hefðu greitt og höfðu þannig hag af þessu, en við misstum af því háa verði, sem Danir fengu í Bretlandi. Markaðurinn var þannig í raun og veru lokaður, og það tjáir ekki að taka þessar tölur, meðan markaðurinn er lokaður, og segja, að af því að það var svona, meðan við vorum útilokuð, þá sé vonlaust, að við getum selt þangað síðar og haft hag af þessum markaði. En þá er einnig á það að líta, sem hv. þm. veit ofurvel og einnig var bent á hér í dag, að Sovétstjórnin hefur miðað sitt verð fyrir hraðfrystan fisk við verðlag á brezkum markaði og neitað að hafa hærra en brezki markaðurinn segði til um. Og þegar nú er samkomulag um það, að það er stórhækkað lágmarksverð á öllum innfluttum fiski í Bretlandi, þá horfir það mál allt öðruvísi við. Þá höfum við miklu sterkari aðstöðu en áður til þess að benda á í samningum, hvernig verðlagsþróunin í Bretlandi í raun og veru er, enda er það allra kunnugra manna mál, að af þessari breytingu muni leiða, að brezki markaðurinn hækki einnig verulega fyrir brezka framleiðslu. Brezka framleiðslan hefur undanfarið orðið lægri í verði vegna þess, sem þeir kalla ósanngjarna samkeppni hjá öðrum og þá ekki sízt hjá Norðmönnum, sem hafa stórlega styrkt sína framleiðslu og þannig undirboðið. Þetta undirboð er verið að reyna að forðast. Nú getum við haft mismunandi trú á því, hvað brezki markaðurinn verði okkur hagkvæmur. Um það getur enginn fullyrt í raun og veru. Það er ljóst, að þetta samkomulag, sem náðst hefur um ákveðið lágmarksverð, er okkur þegar í stað mjög hagkvæmt og að við fáum þar aukna möguleika. En ég, sem er ekki sérlega hrifinn af stjórnarfari í Sovét-Rússlandi, — ég hef alltaf talið, að það væri sjálfsagt, að við reyndum að selja sem allra mest til Sovét-Rússlands, til þess að við værum ekki einum aðila háðir. Við höfum orðið að þola það af Sovét-Rússlandi, að það hefur um árabil algerlega neitað að tala við okkur um fiskkaup, algerlega útilokað okkur þar frá markaði. Við höfum einnig á seinni árum orðið að þola það, að þeir hafa neitað algerlega að kaupa af okkur fyrir sambærilegt verð og Bandaríkjamenn hafa gert, en miðað við þetta lága verð í Bretlandi, sem hefur helgazt af undirboðum Norðmanna. Við höfum einnig séð þær miklu verðsveiflur, sem orðið hafa á Bandaríkjamarkaði. Við höfum séð áhrifin, sem þar koma af því, að páfinn leyfir mönnum að borða kjöt á föstudegi. Við ráðum ekki yfir smekk Bandaríkjamanna frekar en smekk Rússa eða vilja stjórnarvalda í Sovét-Rússlandi eða kreddum neytenda í Bandaríkjunum. Við höfum hvað eftir annað rekið okkur á, að það, sem við töldum öruggan markað í dag, fyndist okkur gagnslítill markaður á morgun. Við skulum ekki vera þau börn að halda, að þetta sé úr sögunni. Því fer fjarri. Við eigum því miður eftir að reka okkur á, að þetta á eftir að endurtakast. Það er stórlega aukin trygging fyrir okkur í því, að við fáum þennan aukna markað í Bretlandi. Það getur líka gert mögulegt að byggja hér upp niðursuðu- og niðurlagningarfiskiðnað og ýmislegt fleira, sem til greina getur komið og hingað til hefur ekki verið hægt að stunda vegna þess óhagræðis og taps, sem við höfum beðið af þessum tollgreiðslum þar í landi.

Hv. þm. segir sem svo: Hvað eigum við að vera að leita eftir þessu nú? Við höfum ekkert lýsi, við höfum ekki fiskimjöl o.s.frv. Þar að auki er verðið á þessu svo hátt, að okkur munar ekkert um það, þó að við gætum selt eitthvað til Bretanna og brezki neytandinn yrði að borga þetta nú, vegna þess hvað lítið er til af vörunni.

Það er rétt. Við höfum ekkert lýsi nú og sáralítið af fiskimjöll. En hvað stendur það lengi? Eigum við virkilega að byggja á því til frambúðar, að það verði slík alger ördeyða í síldveiðum eins og verið hefur síðustu árin? Það er jafnfráleitt að ætla að byggja á síldveiðunum eingöngu eins og segja, að þær komi aldrei aftur. Kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða. Við þekkjum þessar sveiflur í okkar fiskveiðum, og þó ekki eingöngu í síldveiðinni. Hv. þm. vitnar oft til þess t.d., að það hafi verið selt meira af hraðfrystum fiski úr landi árin 1958 og 1959 heldur en gert hafi verið á seinni árum, og segir, að þetta sé að kenna rangri stjórnarstefnu. Auðvitað veit hv. þm. ofurvel, að það eru allt aðrar orsakir, sem hér koma til greina. Það, sem gerði að verkum hina miklu framleiðslu hraðfrystihúsanna bæði á árinu 1958 og 1959, var óvenjulega mikil frysting á karfa og síld, sem var á þessum árum. Árið 1958 var þriðjungur framleiðslunnar frystur karfi og síld. 1959 var það fullur helmingur framleiðslunnar, sem var karfi og síld. Á síðasta ári voru sambærilegar vörutegundir, sem við gátum fryst, einungis eitthvað sjöundi hluti af allri þeirri framleiðslu. Þetta er ekki vegna rangrar stjórnarstefnu, nema hv. þm. telji, að við getum ráðið yfir karfanum og síldinni og sagt fyrir um, hvar hún eigi að vera í sjónum á hverjum tíma. Þetta er háð óvissu þessa atvinnuvegar, og það er algerlega óverjandi, að vegna þess, að við höfum ekki í dag þessa vöru til að selja, og vegna þess, hvað lítið við höfum af henni, fáum hátt verð fyrir, þá eigum við að miða við, að slíkt ástand eigi að vara alltaf. Hygginna manna háttur er að búa sig undir erfiðleika til að standa þá ekki illa uppi, eins og hv. þm. og hans félagsbræður gleymdu 1966, þegar þeir snerust á móti álbræðslu og Þjórsárvirkjun í framkvæmd. Þá báru þeir það ekki sízt fyrir, að það væri svo mikill skortur á vinnuafli, að þessar framkvæmdir mundu leiða til nýrrar verðbólgu og ofþenslu á vinnumarkaði. Við bentum aftur á móti á, að það væri hygginna manna háttur að byrgja brunninn, áður en barnið væri dottið ofan í, við ættum að nota þann góða tíma, sem þá var, til þess að geta tekið við mönnum í vinnu, þegar verr stæði á. Hver varð reynslan árin 1967, 1968 og 1969 ? Blandast nokkrum manni hugur um, að það vorum við, sem fórum hyggilegar að þarna en þessir menn, sem vilja ætið laga staðreyndirnar í hendi sér eftir því, sem þeir halda að þeim henti, í stað þess að við verðum auðvitað að laga okkur eftir staðreyndunum, reikna með því, að stundum getur gengið vel og stundum illa, og eftir föngum búa okkur undir erfið ár með ráðstöfunum. Eins hljóta allir að viðurkenna, að við höfum stóran hag af því að efla okkar markaðsmöguleika einnig fyrir fiskafurðir. Hvort sem við þurfum á því að halda í dag eða ekki, þá getum við þurft á því að halda næstu daga eða næstu ár, og mundum við þó vitanlega vera mun betur staddir einnig í dag, ef við gætum valið úr brezkum markaði, sovézkum markaði og bandarískum markaði.

Hv. þm. gerði mjög lítið úr þeim möguleikum, sem við hefðum varðandi iðnaðarframleiðslu hér á landi, og skemmti sér og einstaka öðrum mönnum, sem ekki höfðu lesið þá skýrslu, sem hann vitnaði í, með því að lesa villandi glefsur úr hinni ágætu skýrslu Guðmundar Magnússonar prófessors. En það var athyglisvert, að þm. sleppti því, sem er aðalatriði málsins varðandi skýrslu Guðmundar Magnússonar, að hún fjallaði ekki fyrst og fremst og ekki að neinu verulegu leyti um aukna möguleika Íslendinga til þess að selja iðnaðarvörur erlendis. Hér á bls. 154 segir þvert á móti: „Dvalið hefur verið af ásettu ráði næstum eingöngu við innanlandsmarkaðinn og harðnandi samkeppni þar í þessari skýrslu.“ Þetta er það, sem maðurinn fjallaði um. Það var um, hvaða áhrif EFTA hefði á innanlandsmarkaðinn. Hann gerir grein fyrir því, af hverju hann fari ekki út í aðra sálma, og það er algerlega villandi og sannast sagt ósamboðið jafnslyngum málfærslumanni og hv. þm. er að reyna að vera svo að teygja og gera gabb að þeim orðum, þegar prófessorinn segir eitthvað á þá leið: Þetta er atriði, sem ég get ekki sagt um, það geta verið möguleikar eða möguleikar ekki. Ég hef ekki haft kost á að kynna mér það.

En hann sýnir alveg glögglega fram á það, að hættan fyrir okkur á okkar innanlandsmarkaði og fyrir þann innlenda iðnað, sem hér er nú þegar, er miklu minni en menn hafa ráðgert. Og það er aðalefnið í hans skýrslu og höfuðþýðing hennar, að svo rækilega hefur verið sýnt fram á það efni. Segja má, að það hefði verið æskilegt að fara ítarlega út í aukningu iðnaðarvöruútflutnings í þessari skýrslu einnig. Hann segir einfaldlega: Ég einn með takmarkaðan tíma hef ekki færi á því, það er ekki á eins manns færi að gera það.

En það voru líka þrír sérfræðingar fengnir til að semja slíka skýrslu, þeir Jón Sigurðsson hagfræðingur, Pétur Eiríksson hagfræðingur og dr. Vilhjálmur Lúðvíksson efnaverkfræðingur. Þeir sömdu um þetta allítarlega álitsgerð, en hv. 4. þm. Austf. minntist ekki á þá skýrslu frekar en hún væri ekki til, heldur var að tala um, að sú skýrsla, þar sem berum orðum er tekið fram, að ekki sé fjallað um útflutninginn, — hann var að velta sér upp úr því, að þar væri ekki fjallað um það, sem tekið er fram, að maðurinn leiddi hjá sér að fást við og gerði glögga grein fyrir, af hverju hann fjallaði ekki um það.

Hv. þm. lagði á það mikla áherzlu að reyna að sýna fram á, að íslenzkur iðnrekstur væri með öllu ósamkeppnisfær. Hann vék sér þó alveg hjá því að tala um þá möguleika, sem við höfum vegna ódýrrar orku, og annað slíkt, ódýrari en aðrir geta boðið nú á tímum. En hans rökfærsla hné í raun og veru að því, að hér væri allur atvinnurekstur vonlaus. Hann sagði: Hvernig eigum við að geta keppt um skipasmíðar við Breta, sem borga 40% niður í togurum? - Og það var ekki hægt að skilja annað af því, sem hv. þm. sagði, heldur en hann héldi, að það væru skipasmíðastöðvarnar, sem væru styrktar á þennan veg. Það varð að skilja þetta svo eftir samhengi ræðu hans. En það eru einmitt fiskveiðarnar brezku, sem eru styrktar með því, að útgerðármennirnir fá borgað 40% í togurunum. Og það er e.t.v. ein af skýringunum á því, sem hv. þm. hefur oft látið sér verða tíðrætt um, af hverju menn hafi ekki ráðizt í byggingu íslenzkra togara, að togarar eru yfirleitt í öðrum löndum nú á dögum byggðir með samsvarandi styrk til útgerðarmanna og hann upplýsti að Bretar borguðu þarna til nýrra togara. Eru menn hér reiðubúnir, hv. þm. og aðrir, að segja, að við eigum að fara að kaupa slík skip, ef við eigum að snara út 40% af stofnkostnaðinum og láta skipin í té útgerðaraðila með svo mikilli afskrift strax í upphafi? Þetta er atriði, sem þarf að skoða til hlítar til að átta sig á kostnaði skipanna og öllum möguleikum. En þetta sýnir einungis, að það er sjávarútvegurinn, sem þarna á í örðugleikum. Það er ekki iðnaðurinn, það er sjávarútvegurinn, sem verður að stríða við þessa hörðu samkeppni. Hann verður að stríða við niðurborgun á þessum stóru skipum, sem Bretar, Þjóðverjar og Kanadamenn gera á sínum skipum. Það erum við, sem verðum að stríða við Norðmenn. sem vegna síns stórkostlega hagnaðar af fragtflutningi geta borgað stórkostlega niður útflutning á hraðfrystum fiski. Það er þessi óeðlilega samkeppni, sem við eigum við að stríða í sjávarútvegi, ekki síður og í miklu ríkari mæli en í iðnaði. Rökfærslan hjá hv. þm. snerist sem sé svo gersamlega við, að hann sannaði í raun og veru, ef ætti að taka mark á hans rökum, að ólíft væri á Íslandi. Sem betur fer er það ekki svo. Við eigum hér við örðugleika að etja, en við getum að miklu leyti með skynsamlegum ráðstöfunum bætt úr þeim, jafnað okkar sveiflur. Ein leiðin til þess er að ganga í EFTA. Það bjargar ekki öllu, það gerbreytir ekki okkar þjóðfélagi, en það er leiðin inn í framtíðina, sem verður okkur til heilla, eins og ég hygg öllum öðrum, sem EFTA-aðilar hafa gerzt.

Þó að það sé alveg rétt, að það er mjög miklum örðugleikum bundið að gera í einstökum atriðum grein fyrir því, hvaða áhrif EFTA-aðild hefur á einstakar atvinnugreinar innan iðnaðarins eða einstök fyrirtæki, þá rennum við ekki algerlega blint í sjóinn með þessi efni. Það er búin að skapast reynsla nú nokkuð á annan áratug af starfsemi EFTA. Við, sem höfum fylgzt með störfum Norðurlandaráðs, vitum, að það var mikill óhugur, ekki sízt í ýmsum Norðmönnum og þá ekki sízt þeim, sem voru þar í erfiðari hlutum landsins, við það að ganga inn í EFTA. Þeir óttuðust, að heil byggðarlög mundu lenda í vandræðum eða atvinnugreinar fengju ekki staðizt. Á seinni árum höfum við hins vegar hlustað á það æ ofan í æ á fundum Norðurlandaráðs, að allir fulltrúar þar undantekningarlaust hafa lagt á það ríka áherzlu, hvílík blessun EFTA hafi orðið fyrir uppbyggingu atvinnuveganna í öllum þessum löndum. Og ég skal játa, að það eru ekki sízt þessar skýrslur, sem gefnar hafa verið af mönnum úr öllum flokkum og ekki sízt af hálfu verkalýðsmannanna, sem hafa sannfært mig um, að við værum að kasta frá okkur gullnu tækifæri með því að vera utan við þessi samtök. Ég fæ aldrei skilið, af hverju sams konar lögmál eiga ekki að gilda um Íslendinga og aðra.

Það var að vísu sagt í upphafi, að EFTA mundi fyrst og fremst verða þeim stóru aðilum til hags. En það er alveg rétt, sem prófessor Guðmundur Magnússon segir í sinni ágætu skýrslu á bls. 55 í grg. með þessari till., með leyfi hæstv. forseta:

„Gagnstætt því sem var gert ráð fyrir, eru það ekki stóru iðnríkin (Bretland og Svíþjóð), sem mest hafa eflzt vegna fríverzlunar innan EFTA, heldur minni ríkin (Austurríki, Sviss, Noregur og Portúgal). Eins og gera má ráð fyrir, hefur samvinnan byggzt á því, að bæði innflutningur og útflutningur landanna hefur aukizt, enda er það forsenda þess, að gagnkvæmur ávinningur verði af samstarfinu.“

Það eru einmitt þessi minni ríki, og það eru einmitt afskekktari hlutar Noregs, sem hafa haft mestan ávinning af þessu samstarfi, og það eru einmitt þeir verst stæðu innan þessara þjóðfélaga, sem leggja ríkasta áherzlu á það nú að efla samstarfið. Það er ekki stóriðnaðurinn í Noregi eða Danmörku, sem sækir fyrst og fremst á um nánara efnahagssamstarf Norðurlandaríkjanna. Það eru verkamannaflokkarnir, sem þar skera sig úr og eru einhuga um, að NORDEK muni verða þeim til góðs. Þeir segja sem svo: Við sjáum að vísu ekki fyrir allar afleiðingar NORDEKs, en sú nánari samvinna, sem við höfum þegar öðlazt innan EFTA, það er hún, sem hefur orðið okkur til slíks hagræðis, að við teljum, að við eigum að halda áfram á þessari sömu braut.

Ég tel sjálfsagt, að við notum okkur af þeirri reynslu, sem þau ríki og þær þjóðir, sem okkur eru nánastar, hafa fengið í þessum efnum, en stingum ekki höfðinu í sandinn eins og strúturinn eða látum hræðsluna taka af okkur ráðin, af því að við treystum Íslendingum ekki til þess að starfa með öðrum þjóðum og standa sig þar jafnvel. Auðvitað lendir íslenzkur íðnaður að nokkru leyti í erfiðleikum við það að gerast aðili að EFTA. Það ber enginn á móti því. Það skapast vissir örðugleikar. Þess vegna er þetta fjögurra ára tímabil fyrst, og síðan á hann að samlaga sig breyttum aðstæðum á sex árum. Slíkt þyrfti ekki að gera, ef menn óttuðust ekki sérstaka erfiðleika. En þegar við lítum á það, hverra annarra kosta er völ, þá er áhættan miklu minni við það að aðhafast eitthvað og reyna að bjarga sér heldur en sitja kyrr og aðhafast ekkert. Í því liggur mesta hættan. Það tjáir ekki að neita því, hvort sem við viljum eða ekki og kysum annað. Síldin er horfin í bili, hún kemur einhvern tíma aftur, en hvenær hún kemur, það veit enginn. Okkur hefur ekki enn tekizt að finna aðrar fisktegundir til að koma í hennar stað. Þorskveiðar eru sveiflum háðar, hafa ætíð verið og verða, bæði veiðar, verð og markaðsmöguleikar. Ekki tjáir fyrir ríki að ætla að byggja eingöngu á svo sveiflukenndum atvinnuvegi. Það er að vísu rétt, sem hv. þm. segir, að það má gera mikið til þess að efla atvinnu innanlands og bæta hag þessara fyrirtækja með því að auka vinnslu afurðanna hér. En þá skulum við líka gá að því, að þá verðum við að hafa tryggingu fyrir, að markaður fáist, og markaðarins verður þeim mun erfiðara að afla sem við fullvinnum meira úr vörunni heima fyrir, af því að þá koma iðnaðartollar á vöruna. Þess vegna er það einnig skilyrði til þess, að úr þessu geti orðið, að við gerumst aðilar að þessum samtökum, til þess að þessir möguleikar verði ekki kæfðir strax í fæðingunni með óhæfilegri tollaálagningu, heldur höfum við samkeppnismöguleika á við aðra.

Þó að ég vitnaði í það áðan, að orkusala og ódýr orka skapaði okkur mikla möguleika og það sé víssulega rétt, að íslenzkur iðnaður byggist að verulegu leyti og að öllu leyti getum við sagt á þeim rafmagnsvirkjunum, sem hér hafa orðið á síðustu hálfri öld, þá fer því fjarri, að þegar talað er um iðnuppbyggingu einhvers lands, þá sé eingöngu verið að hugsa um stóriðju og að ekkert annað en stóriðja komi til álita. Mesta stóriðjulandið á Norðurlöndum er Svíþjóð. Samkvæmt tölum, sem ég hef fengið og er sagt að séu þær nýjustu, sem hér eru tiltækar, þá voru í árslok 1966 16618 iðnfyrirtæki í Svíþjóð. Af þeim voru 7000, sem höfðu færri menn en 10 í vinnu. 3800 fyrirtæki höfðu 11–20 manns í vinnu. 3300 fyrirtæki höfðu 20–50 manns í vinnu. Við sjáum, að allur þorrinn af iðnfyrirtækjum í Svíþjóð hefur notið góðs af þessari EFTA-samvinnu, og hann er einmitt smáfyrirtæki af þeirri stærð, sem við getum vel hugsað okkur og auðveldlega náð, og mörg fyrirtæki hér á landi eru nú þegar jafnstór þessum fyrirtækjum. Það er alveg eins fráleitt að hræða menn með stóriðju og segja, að það sé stefnt að því, að allir Íslendingar eigi að vinna að stóriðju, og segja, að öll björgun liggi í stóriðju. Björgunin liggur fyrir okkur í iðnvæðingu, í því að bæta okkar framleiðsluvöru nú þegar, í því að nota okkar orku til þess að vinna ýmislegt annað, stóriðju líka. Það er að vísu rétt, að flutningskostnaður er okkur oft erfiður. En það er athyglisvert, að það báxit, sem álið er hér unnið úr, er flutt alla leið frá Ástralíu. Engu að síður borgar sig að flytja það hingað, og ég heyrði mann starfandi við álverksmiðjuna í sumar segja frá því, að flutningskostnaðurinn á þessu báxíti frá Ástralíu til Íslands væri lægri alla þessa leið en ef ætti að senda sams konar magn af vöru innan endimarka þess litla lands, Sviss, með járnbraut eða þeim farartækjum, sem þar eru notuð. Það sýnir, hvað flutningskostnaður getur stundum haft sáralitla þýðingu miðað við mörg önnur atriði, sem til greina koma. En Svisslendingar, sem nú eru ein mesta iðnaðarþjóð í heimi, byggðu ekki sinn iðnað fyrst og fremst upp á stóriðju, þeir byggðu hann upp á því, að þeir eru dugleg og starfsöm þjóð. Eins og Svisslendingur sagði eitt sinn við mig: Í raun og veru höfum við ekkert í þessu landi annað en fjöll, jökla og eitthvað af ám og örlítið graslendi. Engu að síður er þetta orðin ein allra efnaðasta þjóð í heimi, fyrst og fremst fyrir sinn smáiðnað, alveg eins og Svíar. Þeir hafa að vísu mikinn stóriðnað, en eins og ég vitnaði til, þá eru langflest fyrirtæki þeirra í tiltölulega litlum iðnaði, og fjöldi manna starfar við þau, enda blómgast þau út um allt þeirra mikla land og auka þar hagsæld. Þetta veit ég, að hv. þm. skilur og veit, og þm. almennt, ef þeir láta ekki utanaðkomandi öfl trufla sig.

Það gladdi mig mikið, að hv. 4. þm. Austf. sagði á dögunum og reigði sig töluvert: Ég er ekki hræddur við EFTA, ég óttast ekki EFTA. — Ég met það, að hann, svo skynsamur maður og hugumprúður, skuli ekki óttast EFTA. En það hefur alltaf þótt heldur ljótt og grátt gaman af þeim mönnum, sem ekki eru hræddir sjálfir, — því að ef menn eru hræddir sjálfir, gera þeir ósjálfrátt aðra einnig hrædda, — að leika sér að því að gera börn og óvita hrædd og hræða úr þeim allt vit. Sama dag og hv. þm. sagði hér inni bísperrtur: Ég er ekki hræddur við EFTA, — þá stóðu lítil börn hér fyrir utan þinghúsið með spjald, sem stóð á: Við erum hrædd! — Ætli hv. þm. hafi ekki ráðið, hvernig spjaldið var saman sett? Það væri sök sér; ef hann hefði verið dálítið hræddur sjálfur, en að gera sér leik að því að gera blessuð börnin dauðhrædd um miðjan dag og auglýsa hræðsluna á spjaldi, það er grár leikur, alveg eins og það er furðulegur barnaskapur hjá þeim mæta manni, hv. 1. þm. Norðurl. v., að segja: Ræða yðar skal hvorki vera já, já né nei, nei, eins og sagt var, og afneita þar með orðum hinnar helgu bókar. En hann gleymdi þá, hvaðan það kom, sem umfram er. En látum það eiga sig. Hitt er miklu verra fyrir flokk, sem sækir eftir því að verða aðalúrslitaflokkur í málefnum þjóðarinnar, að halda, að æðsta stjórnvizkan felist í því að þora aldrei að taka ákvörðun, þegar mest við liggur. Sá flokkur á áreiðanlega langt eftir, þangað til íslenzkir kjósendur treysta honum.