18.12.1969
Sameinað þing: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í D-deild Alþingistíðinda. (2959)

117. mál, aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Frsm. 2. minni hl. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Það er kannske ekki ástæða til þess að ræða þetta mál öllu meira. Sennilega er það, sem máli skiptir, hvort heldur er með eða á móti, komið fram, og því verður sennilega lítið breytt úr þessu, hver úrslit málsins verða, því að hæstv. ríkisstj. virðist vera búin að bíta það í sig að afgreiða þetta mál nú fyrir jólin og handjárna þannig alla sína þm., að ekki sé við öðru að búast en málið verði samþ. þrátt fyrir það, hvernig það er í pottinn búið. Mér finnst samt rétt vegna þess, sem hæstv. viðskmrh. sagði hér í ræðu sinni áðan, að gera nokkrar aths., áður en afgreiðslu málsins lýkur hér í þinginu. Ég bar fram sérstaka fsp. til hæstv. viðskmrh. Ég sé hann nú því miður hvergi hér. Það er kannske tilgangslaust að vera að endurnýja þessa fsp., en ég býst við, að hann sé í húsinu, svo að ég get hinkrað við, þangað til hann kemur. Það er ekki orðið það áliðið enn þá. (Gripið fram í Hann er í kaffi.) Já, það er allt í lagi. Ég get beðið, meðan hann drekkur kaffi. (Forseti: Ef hv. þm. vill bíða með sína ræðu, þangað til hæstv. viðskmrh. kemur, þá er annar maður á mælendaskrá.) Nei, ég býst ekki við, að það verði svo langt, þangað til hæstv. ráðh. kemur hingað, fyrst hann er í þinghúsinu, að það sé ástæða til þess, að ég fari að gera hlé á máli mínu af þeirri ástæðu. Ég get hins vegar spjallað um eitt og annað á meðan og haldið svo áfram máli mínu, þegar ráðh. kemur.

Ráðh. er nú kominn, svo að ég get haldið áfram þess vegna. En ég bar þá fsp. fram, þegar ég flutti mína framsöguræðu hér áðan, hvað það raunverulega þýddi, þegar hæstv. forsrh. og aðrir talsmenn ríkisstj. væru að tala um það, að við ættum að hafa samfylgd með öðrum EFTA-þjóðum í samningum við Efnahagsbandalag Evrópu. Eins og ég rakti í minni fyrri ræðu, er það nú ákveðið af Efnahagsbandalagsins hálfu að taka upp viðræður við Bretland, Noreg og Danmörku eða þau ríki, sem óska eftir fullri aðild á síðara helmingi næsta árs og byrja þessar viðræður ekki síðar en 1. júlí 1970. Það var jafnframt ákveðið á Haag-fundi æðstu manna Efnahagsbandalagsríkjanna, þegar þessi ákvörðun var tekin um samningana við Breta, Norðmenn og Dani, að jafnhliða skyldi hefja viðræður við þau EFTA-lönd, sem ekki hafa óskað eftir fullri aðild, en óska samt eftir einhvers konar tengslum við Efnahagsbandalagið, en það eru Svíþjóð, Austurríki, Sviss og Portúgal. Nú segja hæstv. ráðh. og sérstaklega forsrh., að það sé mjög áríðandi fyrir okkur að komast inn í EFTA, áður en þessar viðræður hefjast, til þess að Íslendingar geti haft samfylgd með hinum EFTA-þjóðunum í samningum við Efnahagsbandalagið. Mér sýnist, að ef á að taka þessar yfirlýsingar hæstv. ráðh. alveg bókstaflega, þurfi Ísland að hafa sótt um einhvers konar tengsl við Efnahagsbandalagið fyrir 1. júli næsta ár til þess, að það geti orðið samferða hinum EFTA-löndunum í samningum þeirra við Efnahagsbandalagið.

Hæstv, viðskmrh. sleppti því í ræðu sinni hér áðan að svara nákvæmlega fsp. minni um þetta efni. Hins vegar fór hann að gera samanburð á aðstöðunni nú og 1962, þegar ríkisstj. lýsti yfir því, að þá væri ekki tímabært að hefja samninga við Efnahagsbandalagið sökum þess, að áður en við gerðum það, þyrftum við að fá vitneskju um, hver yrði niðurstaðan í viðræðum þeirra ríkja við Efnahagshandalagið, er ýmist hafa óskað eftir fullri aðild eða aukaaðild að því. Ráðh. svaraði þessu á þann veg nú, að aðstaðan væri önnur núna en verið hafði 1962. Ég sé ekki, að nein breyting hafi á orðið í þessum efnum. Þær aðalástæður, sem réðu því þá, að ekki var talið ráðlegt að sækja strax um tengsl við Efnahagsbandalagið, eru alveg eins fyrir hendi nú. En þessar ástæður voru í fyrsta lagi þær, að áður en við gætum ákveðið, um hvers konar tengsli við ættum að sækja við Efnahagsbandalagið, yrði það að liggja fyrir, hver yrði niðurstaðan í samningum þeirra landa, sem ýmist höfðu óskað eftir fullri aðild eða aukaaðild að bandalaginu. Þetta var m.a. byggt á því, að fyrr en þessi niðurstaða lægi fyrir, væri ekki hægt til fullnustu að átta sig á því, hvað t.d. aukaaðild þýddi. En ástæðan var svo sú, að Ísland hafði sérstöðu í mörgum málum og þurfti að óska eftir ýmsum undanþágum, sem hin ríkin þurftu ekki að fara fram á, og það gat orðið erfitt fyrir Efnahagsbandalagið, jafnvel þótt það vildi, að fallast á þessar undanþágur í samningum við Íslendinga vegna þess, að önnur ríki, sem kynnu að vera að semja við það samtímis, kynnu þá að krefjast hins sama. Báðar þessar forsendur eru enn fyrir hendi; þær hafa ekkert breytzt síðan 1962. Það er ekkert skýrara nú en þá, hver munur er á aukaaðild og tolla- og viðskiptaleiðinni í meginatriðum samkv. þeirri skýringu, sem hæstv. ríkisstj. gaf þá. Efnahagsbandalagið hefur enga samninga gert á því tímabili, sem skýra þetta neitt nánar, og þess vegna er óvissan sú sama í þessum efnum nú og þá, og sérstaða Íslands til samninga er nákvæmlega sú sama nú og þá. Hún hefur ekkert breytzt. Við þurfum að fara fram á nákvæmlega sömu undanþágur í samningum við Efnahagsbandalagið núna og við þurftum að gera þá.

Þess vegna get ég ekki skilið það, sem hæstv. viðskmrh. var að segja hér áðan, að það hefði einhver breyting orðið á í þessum efnum, sem gerði það eðlilegt, að ríkisstj. breytti stefnu sinni, og í staðinn fyrir það, að hún vildi bíða átekta þá, ættum við nú að sækjast eftir að vera í samfylgd með hinum EFTA-þjóðunum. En ég vil vegna þess, hve svör ráðh. voru ógreinileg um þetta efni, endurnýja þá fsp. mína, hvað þessi ummæli ráðh. þýða, þegar þeir eru að tala um það, að við eigum að vera í samfylgd með hinum EFTA-þjóðunum. Þýðir það nokkuð annað en það, að við eigum nú alveg á næstu mánuðum að sækja um einhvers konar tengsl við Efnahagsbandalagið, svo að við getum fylgzt með hinum EFTA-þjóðunum, eftir að þær hefja samninga sína við Efnahagsbandalagið á síðari hluta þessa árs?

Það er nú búið að svara ýmsum atriðum í ræðu hæstv. ráðh., svo að ég tel ekki ástæðu til þess að endurtaka það eða gera þau að frekara umtalsefni. En ég vildi aðeins víkja að nokkrum atriðum, sem ekki hefur verið minnzt á í þessum umr. Það var m.a., þegar hæstv. ráðh. var að réttlæta það, að aðeins væru felldir niður eða lækkaðir verndartollar á vörum, sem eru fluttar frá EFTA-löndunum. Hæstv. ráðh. taldi það alveg óþarft, að slík tollalækkun ætti sér einnig stað á hliðstæðum vörum, sem kæmu frá öðrum löndum, að það væri engin hætta fólgin í því fyrir okkur að mismuna viðskiptaþjóðum okkar á þennan hátt. En ég gat ekki fundið það, að ráðh. færði nein haldbær rök fyrir þessu, enda er það í raun og veru heldur ekki hægt vegna þess, að við vitum ekki fullkomlega um það, hvaða áhrif þetta hefur, fyrr en það kemur til framkvæmda. Það má vel vera, að það sé rétt hjá ráðh., að Bandaríkin geri ekki sérstakar aths., þó að þau verði fyrir slíkri mismunun. Þó ætti hæstv. ráðh. að vera kunnugt um það, að Bandaríkin eiga í meiri og minni deilum við Efnahagsbandalag Evrópu vegna þess, að þau telja, að þeir tollar, sem bandalagið leggur á amerískar vörur, séu ósanngjarnir. Og við vitum ekkert um það, ef við tökum slíka mismunun upp, nema slíkar aths. eigi eftir að koma fram. Og ég veit það, að sumar þjóðir í Austur-Evrópu — þó að þar sé kannske ekki Rússum til að dreifa af þjóðum, sem verzla við okkur í beinum viðskiptum og hafa ekki jafnvirðiskaup — telja það mjög miður farið, ef þeim yrði mismunað í þessum efnum. Ég gæti vel trúað, að slíkt hið sama ætti eftir að koma upp í sambandi við Spán og fleiri ríki, sem eru utan efnahagsbandalaganna, og jafnvel að Efnahagsbandalag Evrópu kynni að líta á þetta sem óvinsamlega ráðstöfun gagnvart sér. Um þetta vitum við ekki neitt, fyrr en þetta kemur til framkvæmda og aths. kunna að koma fram í tilefni af þessu, en ég tel, að það sé miklu hyggilegra fyrir okkur vegna þess, að það er nauðsynlegt fyrir okkur að halda áfram; þó að við göngum í EFTA, að tryggja viðskiptasambönd við þessi lönd, að láta hið sama yfir alla ganga í þessum efnum, og það sé langsamlega mesta trygging þess, að við getum haldið okkar mörkuðum ekki aðeins í EFTA-löndunum, heldur einnig annars staðar, og frekar unnið þar á en hið gagnstæða.

Ég ætla ekki að ræða öllu meira hér um 16. gr. vegna þess, að seinasti ræðumaður gerði það svo greinilega, að ég þarf litlu þar við að bæta, en ég hef ekki getað skilið það til fulls eða fengið fullnægjandi skýringar á því, þegar verið er að tala um, að fiskiðnaður heyri undir iðnað og ekki iðnað, að t.d. niðursuða sé kölluð iðnaður, en hraðfryst flök heyri undir sjávarútveg: Og mér sýnist einmitt í þeim viðauka, sem fylgir EFTA-samningnum og er merktur E, að hraðfryst flök séu talin tilheyra EFTA-vörum. Í þessum Viðauka E er listi yfir fisk og aðrar sjávarafurðir, sem ekki heyra undir EFTA-meðferð, og 1. liðurinn hljóðar á þessa leið í þessari upptalningu:

„Fiskur, nýr (lifandi eða dauður), ísvarinn, kældur eða frystur nema hraðfryst flök.“ Það kann að vera, að það sé misskilningur hjá mér, en ég skil þessa undantekningu þarna nema hraðfryst flök, þ.e. að hún þýði það, að hraðfryst flök séu talin EFTA-vara. Og ef hraðfryst flök eru talin EFTA-vara, held ég, að það fari nú að nálgast það, að hraðfrystihúsin falli undir EFTA-samninginn. Ég álít, að við eigum ekki að vera með neitt hálfkák í þessum efnum. Við eigum hér að fylgja fordæmi Norðmanna, en Norðmenn hafa látið þær leyfisveitingar, sem við ætlum að taka upp í sambandi við verzlun og iðnað, ná líka til hraðfrystihúsanna vegna þess, að þeir hafa ekki talið fullkomið öryggi í þessum efnum, nema þetta væri líka lögfest. Og þess vegna álít ég, að við eigum að gera þá breytingu á þeim frv., sem fyrir þinginu liggja, að hraðfrystihúsin verði þar ekki undanskilin. Það, sem hæstv. ráðh. hefur sagt í sambandi við 16. gr., réttlætir ekki á neinn hátt það, að ríkisstj. skuli ekki hafa fyrirvara um hana við undirskrift samningsins, því að jafnvel þó að skuldbindingarnar í henni séu ekki víðtækari en hæstv. ráðh. vill vera láta, þá er það óumdeilanlegt, að í 16. gr. felst mjög víðtæk viljayfirlýsing eða stefnuyfirlýsing, og mér finnst alltaf, að þegar menn undirrita eða gangast undir einhverja stefnuyfirlýsingu eða viljayfirlýsingu, séu þeir meira og minna skuldbundnir af henni, jafnvel þó að segja megi, að þar sé ekki um beinar lagakvaðir að ræða. Og af þeim ástæðum hef ég talið það óhjákvæmilegt við undirskrift samningsins, að við gerðum fyrirvara við a.m.k. 1. mgr. 16. gr.

Ég á ekki eftir nema eitt eða tvö atriði í ræðu minni, en þau atriði eru því miður þannig, að þau snerta viðskmrh. alveg sérstaklega, svo að ég held, að ég verði að gera aðeins hlé á máli mínu, ella yrði ég að endurtaka það, sem ég segði nú, þegar ráðh. kæmi inn aftur. En ég deildi mjög hart á hæstv. viðskmrh. í fyrri ræðu minni fyrir það, sem ég taldi vera uppistöðuna í hans málflutningi eða hans röksemdum fyrir því, að við ættum að ganga í EFTA. Og það voru þau ummæli hans, sem ég tók orðrétt upp úr ræðu hans og voru á þá leið, að eina von nýrra útflutningsfyrirtækja um gott gengi væri fólgin í því að eiga aðgang að tollfrjálsum markaði. Ég taldi þessi ummæli ráðh. annaðhvort byggð á slíkri vanþekkingu, að við slíku mætti ekki búast af manni, sem er búinn að vera lengi prófessor í viðskiptafræðum og viðskmrh., eða þá, að þau eru vísvitandi sögð í blekkingarskyni, og hvort tveggja væri jafnslæmt. En þetta er það, sem hefur verið höfuðuppistaðan í áróðri ráðh. fyrir aðild að EFTA, að við ættum eiginlega engra markaða von fyrir okkar útflutningsiðnað nema í þeim löndum, þar sem um tollfrjálsan markað væri að ræða.

Ráðh. brást þannig við þessari ádeilu minni, að hann sagði í fyrsta lagi, að hann hefði eiginlega aldrei sagt þetta og ég færi hér með fleipur eitt. Annað veifið dró svo ráðh. í land og sagði, að hann hefði í þessu sambandi aðeins átt við iðnaðarvörur, sem væru unnar úr erlendu hráefni. Í þriðja lagi herti ráðh. sig upp og sagði, að hann hefði hér ekki sagt neitt annað en allir viðskmrh. í Evrópu hefðu sagt. Ég ætla þá að víkja að hverju þessara atriða fyrir sig, og þá er fyrst að hverfa að því, hvort hæstv. ráðh. hefur ekki viðhaft þessi ummæli, sem ég hafði eftir honum, því að mér sýnist núna á því að blaða gegnum ræðu hans, að hann hafi ekki sagt þetta einu sinni, heldur fjórum sinnum. Og nú skal ég fletta upp í ræðunni. Ég kem þá fyrst að þeirri tilvitnun í máli ráðh., sem ég nefndi fyrr í ræðu minni og er að finna á bls. 8 hér í afriti þingsins, en þar segir á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Eina von nýrra útflutningsfyrirtækja um gott gengi er fólgin í því að eiga aðgang að tollfrjálsum markaði.“

Þetta eru þau ummæli, sem ég hafði eftir honum áðan. Þegar komið er á bls. 10, segir ráðh. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er ekki hægt að koma hér á fót umfangsmiklum útflutningsiðnaði, nema því aðeins að við eigum aðgang að tollfrjálsum markaði eins og Fríverzlunarsamtökin eru.“

Svo förum við á bls. 12, og þar farast hæstv. ráðh. þannig orð samkv. handritinu, með leyfi hæstv. forseta:

„En ef við eigum að geta komið á fót umtalsverðum útflutningsiðnaði, er aðild að samtökum eins og Fríverzlunarsamtökunum nauðsynleg.“ Og síðar á þessari sömu síðu, þ.e. í fjórða skipti, sem hæstv. ráðh. endurtekur þetta, segir hann: „Ég hef þegar gert grein fyrir því, að vilji menn koma á fót umtalsverðum útflutningsiðnaði á Íslandi, sé aðild að Fríverzlunarsamtökunum forsenda þess.“

Ég held, að þegar búið er að lesa upp öll þessi ummæli hæstv. ráðh., sé ekki lengur hægt að deila um það, hvað hann hafi sagt við fyrri umr. þessa máls um þetta efni. Þá segir hann það alveg berum orðum, að það sé útilokað fyrir okkur að koma hér upp útflutningsiðnaði og starfrækja hér nýjan efnaútflutningsiðnað eða starfrækja ný útflutningsfyrirtæki, nema við höfum aðgang að tollfrjálsum markaði. Og þá kem ég að hinu atriðinu hjá hæstv. ráðh., að hann hafi eingöngu átt við iðnað, sem byggir á erlendum hráefnum. Ég er búinn að lesa ræðuna margsinnis, en ég get hvergi fundið einn einasta staf um þetta, heldur virðist þetta gilda jafnt um iðnað, sem er unninn úr útlendum hráefnum og innlendum, þannig að það er enginn fótur fyrir þessum ummælum ráðh. Þá kem ég að því, sem var nú eiginlega lokaþátturinn í þessum málflutningi ráðh., að hann hefði hér ekkert annað sagt en það, sem allir viðskmrh. í Evrópu eru búnir að segja. Ég er alveg sannfærður um það, að enginn viðskmrh. í Evrópu hefur sagt það, að það væri útilokað að koma upp útflutningsiðnaði öðruvísi en hafa aðgang að tollfrjálsum markaði, því að þessir ráðh. eru áreiðanlega það vel að sér, að þeir vita, að í mörgum tilfellum skiptir það engu höfuðatriði, hvort um tollfrjálsan markað er að ræða eða markað, þar sem einhver tollur hvílir á vörunum. Það, sem ræður úrslitum í þessum efnum, er það, hvert verðið er í viðkomandi landi. Það getur í mörgum tilfellum verið hagstæðara að selja vöru í landi A, þó að tollur sé þar kannske 40%, vegna þess, hve verðið er hátt, en í landi B, þó að þar sé tollfrelsi, sökum þess, að verðið er þar miklu lægra. Þetta rekum við okkur á í EFTA-skýrslu Guðmundar Magnússonar prófessors hvað eftir annað. Hann bendir þar á margar vörutegundir, sem hann segir, að sé auðveldara fyrir okkur að selja í Bandaríkjunum en í EFTA-löndunum vegna þess, að verðið í Bandaríkjunum er það miklu hærra en í EFTA-löndunum; þá borgar sig að selja vöruna þangað þrátt fyrir þann toll, sem þar er. Þetta kemur líka ljóst fram í þeirri skýrslu, sem sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna hafa nýlega samið um möguleika Íslendinga til að flytja út niðursoðnar vörur. Þeir komast að þeirri staðreynd, að langbezti markaðurinn fyrir okkur í því sambandi séu Bandaríkin þrátt fyrir það, að tollar eru þar hærri en annars staðar.

Ég þori þess vegna að fullyrða það, þó að ég nefni ekki fleira en þetta, að það hefur enginn viðskmrh. í Evrópu annar en hæstv. viðskmrh. hér látið þau ummæli falla, að eina vonin til þess að koma upp útflutningsiðnaði sé sú að hafa aðgang að tollfrjálsum markaði. Og við sjáum það sjálfir af okkar eigin reynslu og aðstöðu í þessum efnum, að í mörgum tilfellum eru okkar möguleikar meiri til að selja vörur þangað, sem tollar eru, en þangað, sem tollfrelsi er vegna þess, að það er verðið í hverju landi, sem ræður úrslitum um þetta, en ekki tollarnir. Það er hins vegar mesti misskilningur og útúrsnúningur hjá hæstv. ráðh., að ég með þessu hafi viljað gera eitthvað sérstaklega lítið úr því, að við fengjum tollfrjálsan markað í EFTA-löndunum. Ég vil ekki neita því, að í ýmsum tilfellum getum við haft einhvern ávinning af þessu. En ég held hins vegar því miður, að vegna þess, hvernig markaðsskilyrðum þar er háttað, og vegna þess, að þar þarf að keppa við þrautþróuð iðnaðarfyrirtæki, séu þessir möguleikar okkar miklu minni en margir hér og hæstv. ráðh. gera sér vonir um. En ég held hins vegar, að möguleikar okkar á ýmsum öðrum mörkuðum, jafnvel þótt þar sé um tolla að ræða, séu miklu betri en hæstv. ráðh. hefur viljað halda fram hér í sínum ræðum, þar sem hann hefur verið að telja þessa möguleika eiginlega einskis virði, eins og komið hefur fram í þessum tilvitnunum í ræður hans, sem ég hef verið að lesa hér upp.

En annars verður að játa það — og íslenzkur útflutningsiðnaður og íslenzkur útflutningur hefur liðið vegna þess — að viðskmrh. hefur verið haldinn þeirri skoðun, að við ættum helzt hvergi að hafa markaði nema í EFTA-löndunum. Hv. 2. þm. Reykn., Jón Skaftason, hefur hvað eftir annað flutt hér till. um það, að ríkisstj. tæki upp ákveðna viðleitni til að afla nýrra markaða. Það hefur a.m.k. í eitt eða tvö skipti verið samþ. samhljóða hér á Alþ. að skora á ríkisstj. að hafa forgöngu í þessum efnum, og það átti að vera verkefni hæstv. viðskmrh. að hafa forgöngu um slíka markaðsleit. En í stuttu máli er um það að segja, að þrátt fyrir þessa skýlausu viljayfirlýsingu Alþ, hefur hæstv. viðskmrh. bókstaflega ekki gert neitt í þeim efnum. Þegar hafa verið gerðar fsp. um það hér á Alþ., hvað ráðh. og viðskmrn. hafi aðhafzt í þeim efnum. Hefur ýmist komið í ljós af svörum ráðh., að ekkert hefur verið aðhafzt í því sambandi, ellegar slíkum fsp. hefur ekki verið svarað. Og þetta á sinn meginþátt í því, hve illa við erum staddir í þessum efnum og ekki undir það búnir að gerast aðilar að EFTA eins og sakir standa nú. Ég man t.d. eftir því — ég held, að það hafi verið 1966 — að spurzt var fyrir um það hér á Alþ., hvað ríkisstj. hefði gert í þessum efnum, þ.e. að framfylgja umræddum vilja þingsins. Þá held ég, að viðskmrh. hafi svarað því, að það væri enginn vandi að selja íslenzkar vörur og við þyrftum þess vegna ekki á neinni sérstakri markaðsleit að halda í þessum efnum. Og það var alveg rétt, eins og ástandið var 1966; þá höfðum við sæmilega markaði fyrir okkar vörur. En þau ár komu og eiga eftir að koma, að við höfum ekki næga markaði fyrir allar okkar vörur og við þurfum að auka fjölbreytni þeirra og finna nýja markaði fyrir nýjar framleiðslutegundir, en það hefur verið algerlega vanrækt, og þess vegna er ástandið ekki betra í þessum efnum en raun ber vitni.

Ég vil svo að síðustu víkja að þeirri spurningu hæstv. viðskmrh., hvers vegna við eigum að bíða með það að ganga í EFTA. Ég get svarað því í stytztu máli með því að segja, að við eigum að bíða af sömu ástæðum og hæstv. ríkisstj. hefur beðið í 9 ár af þeim 10, sem EFTA hefur starfað, eftir því, að Ísland ætti að leita eftir aðild að þessum samtökum. Bið ríkisstj. hefur stafað af því, að hún hefur talið, að Ísland væri ekki undir það búið að gerast aðili að þessum samtökum, ástandið hér innanlands væri á ýmsan hátt með þeim hætti, að við værum ekki undir þessa aðild búnir og þess vegna væri rétt að bíða átekta. Það hefur nákvæmlega ekkert gerzt, síðan ríkisstj. hafði þessa afstöðu, sem réttlætir það, að við ákveðum nú að stökkva allt í einu og ganga í bandalagið. Þetta stafar af því, að það vantar nauðsynlegar forsendur, þann undirbúning, sem þarf til þess, að við getum verið hlutgengir aðilar í bandalaginu og haft þann hagnað af því, sem við ættum að geta haft, ef allt væri með felldu. Við vitum það ósköp vel, og ég veit, að hæstv. ráðh. veit það líka, þó að hann vilji ekki viðurkenna það hér, að mörg iðnaðarfyrirtæki okkar, sem framleiða fyrir heimamarkað, eru ekki undir það búin að mæta aukinni samkeppni vegna EFTA-aðildar. Og hann veit það líka, að sá útflutningsiðnaður okkar, sem kannske ætti að geta notið góðs af EFTA-aðild, er heldur ekki undir það búinn að nota sér þessa aðstöðu eins og allt er í pottinn búið. Það er t.d. áreiðanlega forsenda þess í ýmsum tilfellum, að útflutningsiðnaður okkar geti notfært sér þessa aðstöðu, að fyrirtæki séu færð saman, eins og nú er verið að gera í sambandi við niðursuðufyrirtækin, eða taki upp nánari samvinnu. Það er t.d. útilokað í sambandi við húsgagnaiðnaðinn, að hann geti orðið nokkur útflutningsatvinnuvegur án þess, að um stórfellda samfærslu á honum sé að ræða. Þennan undirbúning eigum við eftir. Þetta er eitt af því, sem við þurfum að gera, áður en við verðum færir um það að gerast fullgildir aðilar að EFTA.

Og hæstv. ráðh. nefndi sjálfur hér dæmi um það, sem ættu að verða víti til varnaðar. Það var fyrir nokkrum árum hér, sem eiginlega var afnumin öll sú vernd, sem iðnaðurinn hafði í innflutningshöftum. Þetta var gert allt í einu án þess, að iðnaðurinn væri nokkuð undir það búinn. Afleiðingarnar af því urðu þær, að það voru ýmsar iðngreinar, sem gáfust alveg upp, og aðrar, sem drógust stórkostlega saman.

Heildarniðurstaðan af þessu varð sú, að á sjöunda áratug þessarar aldar, sem hefur verið langsamlega mesti framfaratíminn í iðnaði hjá öðrum þjóðum, hafa sáralitlar framfarir átt sér stað í íslenzkum iðnaði. Þetta stafar að mjög miklu leyti af því, að hann var látinn sæta samkeppni við erlendar iðnaðarvörur, sem hann var ekki búinn undir að mæta.

Það er þessi reynsla, sem er röksemdin fyrir því, að við framsóknarmenn teljum heppilegt á þessu stigi, að aðildinni að EFTA verði frestað, að það verði gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að við gætum notið góðs af þessu, ef til kæmi, en ekki anað út í þetta af fullkomnu fyrirhyggjuleysi, eins og nú á sér stað. Og við þetta bætist það, og það er ekki hægt að neita því, að málið hefur enn verið ákaflega illa kynnt hjá þjóðinni og allur almenningur hefur alls ekki áttað sig á því, hvað hér er um að ræða. En það er náttúrlega sjálfsagt í slíku stórmáli eins og þessu, að almenningur sé hafður með í ráðum og geri sér grein fyrir því — ekki aðeins valdamennirnir, heldur líka almenningur — hvað sé hér að gerast, og það er m.a. af þeim ástæðum líka, sem við viljum fresta málinu að sinni til þess, að þjóðin öll geti verið hér með í ráðum.