27.01.1970
Neðri deild: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

126. mál, söluskattur

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Eitt af boðorðum og loforðum í bókinni „Viðreisn“ frá 1960 var að afnema tekjuskatta á þurftarlaun. Þar er og getið um nýjan söluskatt. Þá voru sett þau lög um söluskatt, sem nú er verið að breyta og ekki í fyrsta sinn. Þau gerðu ráð fyrir 3% söluskatti. Árið 1964 beitir svo ríkisstj. sér fyrir því að hækka söluskattinn í 7 1/2%, og núna á þessu ári erum við með nýtt frv. í höndunum frá þessari sömu hæstv. ríkisstj. um að hækka söluskattinn í 11%. Til hliðar við þetta hafa svo verið gerðar ýmsar smátilfærslur. Það hefur verið hætt að undanþiggja póst og síma söluskatti og það hefur á tímabilinu verið byrjað að leggja söluskatt á soðninguna o.fl. Svo er gefið í skyn, eins og ég vék að áðan, við 2. umr., að von sé á meiru. Ég veit nú ekki, hvað er skerfur til þess að auka dýrtíð í landinu og verðbólgu, ef það er ekki þetta, því svona aðgerðir geta ekki annað en ýtt undir kaupkröfur og það fremur en flestar aðrar ráðstafanir, vil ég segja, því að lægst launuðu stéttirnar geta ekkert annað gert, en að auka sínar kaupkröfur, þegar stjórnarvöldin standa að málum á þennan hátt.

Eins og ég gat um við 2. umr., hef ég og fleiri hv. þm. enn flutt brtt. við söluskattsfrv., nú við 3. umr. Við viljum með því freista þess að fá fram hluta af því, sem fólst í þeim brtt., sem við fluttum hér þrír úr minni hl. fjhn. Ég ætla ekki að bæta neinu við þann rökstuðning, sem hv. 1. flm. bar hér fram fyrir þessum brtt. Ég held, að hv. þdm. ættu vel að athuga það, hvort ekki er nú gerlegt, að reyna þó þessa tilhliðrun. Áhrif þess yrðu á ýmsan hátt til bóta, þau mundu væntanlega örva söluna og þá um leið spara útflutningsbætur og það sem er þó mest um vert að mínum dómi, að svo langt sem þau næðu mundu þau létta undir með þeim sérstaklega, sem flesta munna hafa að seðja.

Ég vil árétta það, sem ég sagði við 2. umr., að mér virðist ekki hafa komið nægilega skýrt fram í málflutningi hæstv. ríkisstj., hvað það er, sem hún telur, að mæli með þessari skattheimtu, frekar en skattheimtu í einhverju öðru formi, hvað það er, sem að hennar dómi rennir stoðum undir það, að þessi aðferð sé sú bezta, eins og á stendur. Mér fannst ekkert af þessu koma fram í ræðu hæstv. fjmrh. við 2. umr. málsins. Meginuppistaðan í hans rökum fyrir söluskattsfrv. fannst mér nánast aðeins vera þetta tvennt, að það vantar í kassann og það er miklu hærri söluskattur á Norðurlöndum.

Hæstv. ráðh. svaraði engu þeim aths., sem ég beindi til hans við 2. umr. og ég vil enn ítreka þær og leyfi mér að vænta þess, að hæstv. ráðh. sjái ástæðu til þess að gefa okkur nánari skýringar, t.d. á þessum samanburði sínum við Norðurlönd.

Ég get rifjað það upp, sem ég sagði áðan og enn hefur komið fram hér, að það er talið, að á tímabilinu 1958-1969 hafi þróunin í verðlags– og kaupgjaldsmálum annars vegar orðið sú, að tímakaup í dagvinnu hafi hækkað um 190%, en helztu innlend matvæli að hinu leytinu hækkað um 233—441 % og nokkrar helztu erlendu neyzluvörurnar frá 278—819%. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. vilji nú bera þetta saman við þróunina á öðrum Norðurlöndum, sem hann sífellt vitnar til, þegar talað er um upphæð söluskattsins. Er að finna þar einhverja hliðstæðu? Eða er þróunin þar eiginlega alveg gagnstæð við þetta? Mér finnst það alveg lágmark, að hæstv. ráðh. reyni að gera grein fyrir þessu. Og ef hann getur ekki fært sterk rök fyrir því, að þróunin í kaupgjalds– og verðlagsmálunum sé hliðstæð á hinum Norðurlöndunum, hliðstæð því, sem hér hefur gerzt, þá finnst mér það algerlega ómerk orð, að bera saman prósentuupphæð söluskattsins hér og þar, ef þjóðir þeirra landa búa við allt, allt aðra þróun í kaupgjaldsog verðlagsmálum heldur en við búum við nú í dag.

Ég vil enn fremur spyrja hæstv. ráðh. og biðja hann að greina okkur nokkru nánar frá því: Hvaða rök eru fyrir því, að nota þessa skattaaðferð í svona ríkum mæli, eins og hér er um að ræða, fremur en einhverja aðra aðferð? Það kemur t.d. ekkert fram um þetta í aths. með þessu frv., ekki eitt einasta orð, sem rökstyður það, að þessi aðferð sé sú eina rétta. Og ég vil bara spyrja: Er þetta hægt? Er það hægt að moka mörg hundruð millj. kr. álögum á almenna neyzlu í landinu eins og nú er ástatt, án þess að færa fram nokkurn rökstuðning fyrir því, að þessi leið sé betri en aðrar leiðir?

Ég ætla ekki að fara að endurtaka það, sem ég sagði hér við 2. umr. um það, hversu launþegar og hinn almenni neytandi og sérstaklega stóru fjölskyldurnar eru undir það búnar að mæta þessum álögum. Ég ætla ekki að fara að endurtaka það. Ég aðeins vitna til þess, sem ég sagði þá.

Að minni hyggju er það raunar margt, sem mælir gegn svona háum söluskatti hér, en kannske eru meginatriðin tvö: Annars vegar það, að reynst hefur töluvert erfitt að ná fullum árangri í álagningu og innheimtu söluskattsins, og það er álitið, að mjög týnist af honum á leiðinni í ríkiskassann. Og það held ég, að allir hljóti að vera sammála um, að sú hætta vex, en minnkar ekki, þegar skatturinn er stórhækkaður, hækkaður um 50%. Ég endurtek það, sem ég sagði hér við 2. umr., að ég álít, að það sé allt of lítið gert af því með ákvæðum frv. að herða eftirlit með innheimtu skattsins. Það er búið að sýna sig nú, að það eru fleiri þeirrar skoðunar, en við stjórnarandstæðingar. Það vekur áreiðanlega eftirtekt, sem gerðist hér áðan, að stjórnarandstæðingum barst liðsauki, sem nægði til þess að samþykkja till. um sérstaka kassa í söluskattsskyldum búðum. Það fer ekki fram hjá mönnum, að það eru fleiri en við í stjórnarandstöðunni, sem telja, að hér sé þörf róttækari aðgerða til að tryggja innheimtu söluskattsins heldur en felast í ákvæðum frv., eins og það var lagt fram af hálfu hæstv. ríkisstj. Þetta álít ég, að sé annað meginatriðið, sem mælir gegn því að stórhækka söluskattinn.

Hitt atriðið er svo það, sem ég hef margtekið hér fram og er langþyngst á metum í mínum huga, að enginn skattur leggst þyngra á stærstu fjölskyldurnar, eða m.ö.o. á þá, sem erfiðast eiga um vik að borga hann. En vissulega er það margt fleira, sem mælir hér í gegn og áður hefur raunar verið rakið ýtarlega. En samt sem áður, þrátt fyrir harða gagnrýni, eru litlir tilburðir til þess af hálfu hæstv. ríkisstj. að rökstyðja það, að einmitt þessi aðferð sé sú eina rétta aðferð, sem nú bar að beita, þegar innheimta þurfti með nýjum hætti fé í ríkiskassann.

Úr því að ég fór að beina þessum spurningum til hæstv. fjmrh. og hann svaraði ekki neinu við 2. umr., þá vil ég enn leyfa mér að spyrja: Hvað átti hann við í fjárlagaræðunni, þegar hann talaði um það, að komið gæti til mála, um leið og söluskattur væri hækkaður, að nota þá tækifærið til að afnema ýmsa leiða smærri skatta, sem óheppilegir væru og bökuðu óeðlilega fyrirhöfn? Ég hef ekki orðið var við það, að neitt afnám slíkra gjalda hafi átt sér stað eða sé fyrirhugað í sambandi við þessa söluskattshækkun, sem hér er verið að ræða um í kvöld. Ég hef ekki orðið var við það. Og ég vil spyrja: Er það kannske ætlunin á næsta reglulegu Alþ. að gera þá gangskör að því að framkvæma þetta og kannske einhverjar aðrar breytingar í þá átt að hækka enn söluskattinn frá því, sem nú er ákveðið, þegar hann skal hækka í 11%? Mér finnst eðlilegt að spyrja um þetta nú. Það var áreiðanlega tekið eftir þessum ummælum hæstv. ráðh., þegar hann flutti sína fjárlagaræðu. Hitt er kannske heldur mikil hnýsni, ef maður spyrði um það nú við þessa umr., hvort hæstv. ríkisstj. hafi nokkuð hugleitt það, á hvern hátt hún ætlar að mæta því, þegar næst verða lækkaðir tollar vegna inngöngunnar í EFTA. En vissulega gæti verið fróðlegt að heyra eitthvað um það nú.

En alveg sérstaklega held ég, að ástæða væri til þess við þessa umr., áður en hv. d. afgreiðir þetta mál frá sér, að hæstv. ríkisstj. gerði okkur svolítið gleggri grein fyrir því en áður, hvers vegna hún hefur talið rétt að velja einmitt þessa leið til skattlagningar.