18.11.1969
Sameinað þing: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í D-deild Alþingistíðinda. (2979)

46. mál, heimildarkvikmynd um Alþingi

Flm. ( Benedikt Gröndal ):

Herra forseti. Ég hef ásamt þrem öðrum hv. alþm. leyft mér að flytja till. um gerð heimildarkvikmyndar um Alþ., og er hún á þskj. 47. Efni till. er, að Alþ. álykti að fela forsetum þingsins að láta gera heimildarkvikmynd um starfshætti Alþ., eins og þeir eru nú.

Alþ. starfar enn í megindráttum eins og það hefur gert í mannsaldra, og ytri aðstæður hafa verið tiltölulega lítt breyttar, síðan þinghúsið var reist. Nú eru hins vegar horfur á allmiklum breytingum. Það getur ekki dregizt í mörg ár, að reist verði nýtt þinghús, og uppi eru hugmyndir um breytingar eins og þá að leggja niður deildaskiptingu, sem mundi gerbreyta starfsháttum þingsins.

Mér vitanlega hefur heimildarkvikmynd um störf Alþ. aldrei verið gerð. Virðist því vera rík ástæða og réttur tími til að gera slíka kvikmynd, meðan þingið er enn í hinum gamla farvegi og hefur ekki tekið þeim stakkaskiptum, sem vafalaust eru fram undan. Slík kvikmynd mundi ekki aðeins verða þýðingarmikil heimild fyrir framtíðina um þingið og störf þess um þessar mundir, heldur mundi hún verða mjög gagnleg við fræðslustarf í landinu. Að sjálfsögðu ætti að haga henni þannig, að hún gæti gengið til skólanna og yrði sýnd þar skólabörnum við félagsfræðikennslu, og enn fremur er æskilegt að vinna þetta verk þannig, að sýna megi þessa mynd í sjónvarpi. Hugmyndin um slíka kvikmynd hefur verið rædd bæði í útvarpsráði með tilliti til sjónvarps og í stjórn Fræðslumyndasafns ríkisins, og er mikill áhugi á báðum stöðum á því, að hún verði til.

Við nánari athugun virðist skynsamlegast, að Alþ. hafi sjálft frumkvæði og sjái um, að verk þetta verði unnið. Sjónvarpið notar aðeins svarthvitar kvikmyndir og hefur tæki til þess að gera þær, en ekki til að gera litmyndir. Að sjálfsögðu ætti slík heimildarmynd að vera í litum. Auk þess þarf að ganga töluvert öðruvísi frá kvikmyndum, sem ætlunin er að sýna í skólum og á almennum samkomum, heldur en gengið er frá myndum, sem eingöngu eru til sjónvarpssýninga. Þess vegna tel ég rétt, að verkið sé unnið fyrir frumkvæði og undir stjórn Alþ., en með fullu samstarfi bæði við sjónvarpið og fræðslumyndasafnið. Er enginn vafi á því, að þessir aðilar mundu taka að sér fyrirgreiðslu eða jafnvel einhverjar aðgerðir, sem kostnað hafa í för með sér. Það er ekki meginatriði í þessu máli.

Ég geri ráð fyrir, að gerð slíkrar kvikmyndar, þ.e. nauðsynlegur aðdragandi, undirbúningur, samning frumhandrits, síðan kvikmyndatakan sjálf, úrvinnsla og allt, sem henni fylgir, muni taka 2–3 ár. Ég tel eðlilegast, að sá kostnaður, sem fellur á Alþ., greiðist með öðrum alþingiskostnaði.

Herra forseti. Ég legg til, að þessari till. verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.