27.01.1970
Neðri deild: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

126. mál, söluskattur

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Mér fannst vel til fundið af hv. 2. þm. Sunnl. að minnast á ostatollinn, sem menn urðu í gamla daga að borga til Viðeyjarklausturs, því að hér er líka um ostatoll að ræða, söluskatt af osti eiga menn að greiða. En nú er komin fram brtt. við frv. frá nokkrum þm. um að afnema þennan ostatoll, þ.e.a.s. taka ost undan söluskatti. Hv. þm. drap á það, að menn hefðu fengið dálítið í staðinn í gamla daga, er munkarnir báðu fyrir sálum þeirra manna, sem borguðu ostatollinn. Ekki veit ég, hvort þessi brtt. er sprottin af því, að þm. vantreysta hæstv. fjmrh. til að gera það sama, ef ostatollur þessi á að haldast og það lái ég þeim ekki, því að bænakvak heyrir ekki undir fjmrh. Ég held, að það hljóti að heyra undir kirkjumálaráðh. Þess vegna er ekki við því að búast, að hæstv. fjmrh. láti mönnum neitt í té fyrir ostatollinn.

En sleppum þessu. Mig langar til að koma með fsp. til þeirra hv. þm., sem áttu sæti í fjhn.: Bar það aldrei á góma að hafa söluskattinn misháan og draga þar með úr því ranglæti, sem láglaunafólk verður fyrir og söluskatturinn veldur, þegar hann leggst jafnt á allar nauðsynjar? Ég vil líta svo á, að það séu möguleikar til þess að hafa söluskatt misháan eftir því, hverjar vörurnar eru. Ég skal játa það, að það þarf nokkurn undirbúning að slíkum tillöguflutningi, en það nálgast þó nokkuð það fyrirkomulag, sem hefur verið á tollum, því þeir hafa verið misháir eftir því, hverjar vörurnar voru. En ég hef engan mann heyrt minnast á það, að þetta hafi nokkurn tíma borið á góma, en það hefði sannarlega verið mikill ávinningur að því að hafa söluskattinn misháan, engan á einstaka vörutegundum, lágan á öðrum, en þeim mun hærri á þeim, sem miður nauðsynlegar teljast. Það vekur athygli mína, að ekki einn einasti ræðumaður, sem ég hef hlustað á, hefur minnzt á þetta. Ég hef reyndar heyrt því fleygt, að það sé erfitt í framkvæmdinni við innheimtu skattsins, en það á ég ákaflega erfitt með að skilja, því að væntanlega verður eitthvert eftirlit með því, hvort neytendur njóta þessara tollalækkana, sem fyrirhugaðar eru og þá yrði líka að hafa eftirlit með því, hvort verðlagið á vörunum væri í samræmi við það, sem söluskatturinn er á hverri vörutegund fyrir sig.

Annars stóð ég aðallega upp vegna þeirrar brtt., sem hv. 9. þm. Reykv. flytur, að söluskatturinn verði ekki nema 9 1/2%. Hv. 4. þm. Austf. mótmælti þessari till. og hann skildi hana þannig, að flm. og væntanlega þeir, sem kynnu að greiða atkv. með till., væru því þá samþykkir að hækka söluskattinn úr 7 1/2% upp í 9 1/2%. Nú vil ég láta þá skoðun mína í ljós, að ég lít ekki eins á og hv. 4. þm. Austf. Till. er um það að lækka skatt, sem búið er að samþykkja að skuli vera 11%, lækka hann niður í 9 1/2%. Og ég vil segja það, að af tvennu illu vil ég heldur, að söluskatturinn sé 9 1/2% heldur en 11%. Og það er fjarri því, að ég teldi mig vera að samþykkja frv., þó að ég greiddi atkv. með slíkri brtt. Ef svo vildi nú til, að meiri hl. fengist með þessari brtt., þá er söluskatturinn lækkaður og unnið að hagsmunum þeirra, sem verst eru staddir í þjóðfélaginu. Ég get því ekki séð neitt athugavert við að greiða atkv. með þessari till.

En hitt vil ég taka fram, að þó að till. hv. þm. yrði samþ., þá greiði ég samt atkv. gegn frv. Ég er ekki að samþykkja frv. Ég er ekki að samþykkja að hækka söluskatt upp í 9 1/2% fyrir það. Ég vil nota tækifærið og reyna að draga úr mestu vitleysunni, ef það tækist, en greiði síðan atkv. gegn frv. En að greiða atkv. gegn þessari brtt., það skil ég ekki. Ég get ekki verið með í því að greiða atkv. gegn till., sem lækkar söluskattinn.

Þessa skýringu vildi ég gjarnan láta koma fram, því að ég skil ekki þessa skýringu hv. 4. þm. Austf. Það getur verið, að hann hafi meint það, að hv. flm. till. mundi þá samþ. frv., en það á ekki við mig a.m.k. Ég mun ekki samþ. frv., þó að þessi till. hv. þm. verði samþ. En betra er að lækka söluskattinn eitthvað heldur en að hafa hann óskertan 11%, eins og nú er búið að samþ.