18.11.1969
Sameinað þing: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í D-deild Alþingistíðinda. (2988)

51. mál, kaup lausafjár með afborgunarkjörum

Flm. ( Jón Skaftason ):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 54 að flytja till. til þál. um setningu laga um kaup lausafjár með afborgunarkjörum. Meðflm. minn að till. þessari er hv. 1. þm. Norðurl. v. Sjálf tillgr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta semja frv. til l. um kaup lausafjár með afborgunarkjörum og leggja það frv. síðan fyrir Alþ.“

Það er engin sérstök ástæða til þess að fara mörgum orðum um þessa till. Hún skýrir sig nokkuð sjálf. Hv. þm. vita það vafalaust, að í viðskiptalífinu, nútíma viðskiptalífi, ryðja sér æ meira til rúms þau viðskipti, að menn kaupa oft og tíðum verðmæta lausafjármuni á þann hátt, að þeir greiða út hluta kaupverðsins, en samþykkja síðan víxla eða einhverjar aðrar skuldaviðurkenningar fyrir því, sem eftir er af kaupvirði hlutarins. Vegna þess að löggjöf hefur vantað á okkar landi um þessi mjög svo algengu viðskipti, hefur það leitt til margra dómsmála, þar sem hlutverk dómstólanna hefur verið að dæma um ýmis vafaatriði í þessum viðskiptum, og þá hefur æðioft komið í ljós, hversu bagalegt er fyrir þá, sem dæma eiga í slíkum málum, að engin ótvíræð löggjöf um þess háttar viðskipti skuli vera til í landinu. Slík löggjöf hefur verið til á hinum Norðurlöndunum um margra áratuga skeið, og ég hygg, að allir, sem um þessi mál fjalla þar og starfandi eru í viðskiptalífinu, séu eindóma um það, að gagnsemi þeirra sé mikil á marga vegu. Því leggjum við flm. þessarar þáltill. til, að ríkisstj. sé falið að semja frv. til l. um kaup lausafjármuna með afborgunarkjörum og leggja það síðan fyrir hv. Alþ.

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. um þáltill. þessa verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.