18.11.1969
Sameinað þing: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í D-deild Alþingistíðinda. (2996)

60. mál, flutningur afla af miðum

Kristján Ingólfsson:

Herra forseti. Í fjarveru 1. flm. þessarar þáltill. hef ég tekið að mér að mæla fyrir henni. Þáltill., sem flutt er af fjórum þm. Austf., miðar að því að skora á ríkisstj. að láta fram fara rannsókn og gera till. um, á hvern hátt megi skipuleggja flutning sjávarafla af fiskimiðum og hafna í milli með það fyrir augum að nýta sem bezt afkastagetu veiðiskipa og fiskvinnslustöðva og stuðla að betri meðferð aflans og jafnari atvinnu. Af þessu og meðfylgjandi grg. má sjá, að forsendan fyrir flutningi till. þessarar er í rauninni fjórþætt: Í fyrsta lagi að koma á betri nýtingu veiðiskipa. Í öðru lagi að koma á betri nýtingu vinnslustöðva í landinu en nú er. Í þriðja lagi, að úr aflanum fáist betri vara og í fjórða lagi, að með flutningunum megi jafna atvinnu milli hinna ýmsu sjávarplássa í landinu.

Á umliðnum áratugum höfum við Íslendingar fjárfest mikið fé í veiðiskipum og vinnslustöðvum sjávarafla af ýmsu tagi. Ekkert hefur verið eðlilegra, þar eð frá sjávarútvegi hafa sprottið mestallar gjaldeyristekjur þjóðarinnar og sjávarútvegurinn þannig gert okkur kleift að halda uppi eðlilegum viðskiptum við aðrar þjóðir og koma á nútíma lifnaðarháttum hér á landi. En þar sem fjárfestingin, sem fiskveiðarnar tengjast og byggjast á, er mikil, hlýtur það að varða þjóðarbúskapinn miklu, að sú fjárfesting renti sig sem bezt má verða og hin ýmsu tæki sjávarútvegsins nýtist þannig sem bezt.

Það vita allir, að örðugt er að reikna út aflabrögð fyrir fram. Enginn veit á undan, hvað sjórinn hyggst gefa hverju sinni. En af reynslu og athugunum má hins vegar marga lærdóma draga, og þær hafa sýnt okkur og sagt, að siglingar veiðiskipa um langan veg með afla rýra oft afkomumöguleika útgerðarinnar. Hráefnið er hins vegar nauðsynlegt vinnslustöðvunum í landi, og orkar satt að segja ekki tvímælis, að vandræði þau, sem hraðfrystiiðnaðurinn í landinu á við að glíma, hafa ekki hvað sízt átt rætur að rekja til þess, hve starfstími þeirra er allt of skammur. Þegar við athugum þessar tvær staðreyndir, annars vegar þá, að langsiglingar veiðiskipa með afla rýra veiðitíma þeirra og hins vegar, að vinnslustöðvarnar í landi búa við of skamman rekstrartíma, þá vaknar sú spurning, hvort ekki sé unnt að bæta hér úr með flutningi afla af miðunum til hafna. Renna má sterkum stoðum undir þá skoðun, að útgerð aflaflutningaskipa mundi verða hagkvæmari fyrir þjóðarbúið en það ástand, sem ríkir í dag, að veiðiskipin sigli með hvern farm, stóran og smáan, til hafnar.

Við Íslendingar höfum þegar nokkra reynslu af aflaflutningum, fyrst og fremst á sviði síldveiða og aðallega þá hvað áhrærir flutning bræðslusíldar. En vandamálið er víðtækara. Með því að skipuleggja flutning vertíðarafla mætti eins og fyrr getur lengja veiðitíma fiskiskipanna og auk þess jafna afla á hafnirnar, eftir því sem ástæður kölluðu til hverju sinni. Staðreyndirnar eru nefnilega þær, að fyrir kemur slíkt mokfiski, að vinnslustöðvar á nálægari höfnum við miðin fá ekki við neitt ráðið og dýrmætt hráefni fellur í flokkun og verði. Þannig gætu þá aflaflutningarnir allt í senn skapað betri afkomu veiðiskipa, lengt rekstur vinnslustöðva, jafnað atvinnu á hinum ýmsu stöðum og stuðlað að framleiðslu betri útflutningsvöru.

Eftirtektarvert er að athuga, hvernig frændur okkar Norðmenn hafa farið að í þessum efnum. Á þessu ári hafa þeir haft í förum 7–8 þús. lesta flota til flutnings á loðnu af norðlægum miðum suður eftir ströndinni. Floti þessi samanstendur af misstórum skipum. Á sama hátt halda þeir uppi skipulögðum flutningum á öðrum fisktegundum, svo sem makríl og þorski. Þetta aflaflutningakerfi Norðmanna lýtur sameiginlegri yfirstjórn, — þeirri aðalreglu er fylgt að landa aflanum sem næst miðum. Flutningar til fjarlægari hafna koma því aðeins til greina, að nærliggjandi vinnslustöðvar ráði ekki við það, sem að landi berst. Að sjálfsögðu yrðum við Íslendingar þó að fara okkar leiðir í þessum efnum, – þær leiðir, er við teldum henta bezt íslenzkum aðstæðum. Hitt er annað, að telja má með fullum rökum, að hér sé um að ræða mál, er grípi það sterklega inn í afkomu þjóðarbúsins, að full ástæða sé, að stjórnvöld taki það til rækilegrar athugunar. Við höfum þegar reynslu af síldarflutningum sjálfir, sem fyrr getur, og enginn vafi er á, að margt í skipulagningu og starfi Norðmanna er þannig, að við mættum lærdóm af draga. Þannig er t.d. með fiskkassana. Um árabil hafa Norðmenn notað fiskkassa í veiðiskipum sínum. Af notkun þeirra leiðir án efa betri meðferð aflans, og hún hlýtur því að skapa betri árangur á hörðum samkeppnismörkuðum. Telja má einnig, að notkun fiskkassanna væri í mörgum tilfellum forsenda fyrir hugsanlegum aflaflutningum. Notkun kassanna skapar betra hráefni og meira öryggi á mörkuðum, eins og fyrr segir. Er það því mál, sem nauðsyn ber til að hrint sé í framkvæmd. Að sjálfsögðu kostar slík uppbygging fé, en telja mal svo sterk rök að því hníga, að hún sé nauðsynleg, að fullkomin ástæða er til, að málið sé tekið sterkum tökum.

Herra forseti. Ég tel, að mál það, er þáltill. þessi fjallar um, varði það mikið, eins og fyrr segir, afkomu þjóðarbús okkar Íslendinga, að ástæða sé til þess, að till. verði samþ. Legg ég svo til, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn. í Sþ.