14.01.1970
Sameinað þing: 30. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í D-deild Alþingistíðinda. (2999)

60. mál, flutningur afla af miðum

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil fyrst leyfa mér að láta í ljós þakklæti til meðnm. minna í allshn. fyrir skjóta og góða afgreiðslu á þessari till. Ég lít svo á og við, sem þessa till. flytjum, að hér sé um mikilvægt mál að ræða. Hér hafa að vísu þegar verið framkvæmdir töluverðir flutningar á afla, bæði af miðum, þar sem um er að ræða síldarflutningana, og eins í töluvert miklum mæli hafna á milli og þá á landi, einkanlega hér suðvestanlands, en raunar víðar um land í nokkrum mæli. En þó að þetta hafi átt sér stað, þá er vitað mál, að við erum í þessum efnum ákaflega langt á eftir okkar helztu keppinautum á fiskmörkuðunum, Norðmönnum. Við erum ákaflega langt á eftir þeim í þessum efnum. Þeir hafa um nokkurt skeið framkvæmt skipulegan flutning á afla, bæði af miðum og hafna á milli. Þar lýtur þessi starfsemi einni yfirstjórn. Þar er flutningastarfsemin styrkt að verulegu leyti af opinberu fé, og flutningarnir þar eiga sér stað bæði á sjó og með farartækjum á landi. Og aflinn, sem þar er fluttur af miðum og staða í milli, er varinn í flutningunum með ýmsu móti. Bæði er þar um sjókælingu að ræða og ísun í kössum. Hefur það verið gert lengi í þessum formum, og það eru til um það mjög ítarleg og greinargóð fyrirmæli. Svo hafa þeir einnig á seinni árum tekið upp þá háttu að heilfrysta afla úti á miðum og flytja hann þannig til vinnslu. En af þeim upplýsingum, sem ég hef fengið um frystinguna, þá skilst mér, að hún sé enn á byrjunarstigi.

Mér finnst einnig mjög koma fram í svörum, sem ég fékk við fsp., sem ég sendi um þetta efni út, hversu mikla áherzlu Norðmenn leggja á það að vanda meðferð alls afla síns, með hverjum hætti sem á að vinna hann.

Eins og ég sagði áðan, eru í Noregi þegar til mjög ítarleg og greinargóð fyrirmæli um mörg atriði, bæði varðandi flutninginn sjálfan og sérstaklega meðferð aflans frá fyrstu hendi. Þeir hafa sínar ákveðnu reglur um gerð og búnað flutningaskipanna, lestun þeirra og losun. Og þeir eru einnig búnir að vera með, — ég veit ekki hvað lengi, en mér skilst nokkuð lengi, — alveg ákveðin fyrirmæli um notkun fiskkassa í sínum fiskiskipum.

Það er sorglegt til þess að vita, hversu langt við erum hér á eftir þessari miklu fiskveiðiþjóð, sem veitir okkur hvað harðasta samkeppni á mörkuðunum, og mér finnst það mjög alvarlegt, hversu lítið hefur verið gert í þessum efnum á undanförnum árum hér á landi. Hæstv. sjútvmrh. hefur fyrir nokkru skipað nefnd til þess að íhuga sérstaklega meðferð aflans um borð í fiskiskipunum, og ég vil vænta þess, að af starfi þeirrar nefndar og svo þeirri athugun, sem þessi till. fjallar um, megi nokkuð gott hljótast í þessum efnum.