27.01.1970
Neðri deild: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

126. mál, söluskattur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. var að kvarta undan því, að við segðum að hæstv. ríkisstj. væri nú að ofsækja fátækt fólk. Hann vildi líka meina það, að það væri svo sem ekki mikil breyting frá því, sem áður var, þessi innheimta til almenningsþarfa, með því að hætta eða minnka að leggja háa tolla á lítt nauðsynlegar vörur, en láta þess í stað borga háa söluskatta af nauðsynjum almennings. En ég er nú ákaflega hræddur um það, þó að hæstv. fjmrh. sé mikill ræðuskörungur og sé góður að villa um fyrir fólki, að þá verði það erfitt fyrir hann í þessu tilviki.

Hann var að tala um, að það væri alger misskilningur, að þessi nýja stefna mundi leiða til þess, að það yrði neyzlubreyting hér á örfáum árum. En ég er bara ekki viss um það, að hæstv. fjmrh. hafi athugað, hvernig þetta er að breytast.

Hann sagði sjálfur í ræðu sinni áðan, að hann sæi ekki aðra leið til þess að innheimta í ríkiskassann, en þá að hækka söluskattinn. Í þessu fólst raunar sú yfirlýsing, að ef þessi hæstv. ríkisstj. mundi sitja eitthvað lengur við völd, þá mundi tollalækkunum í framtíðinni verða mætt með hækkuðum söluskatti, a.m.k. kemur hæstv. ráðh. ekki auga á aðra leið nú. Og hann spurði þingheim: Getið þið bent á aðra leið? Hann hafði ekki heyrt annað og það var eins og það væri útilokað.

Þá sjáum við það, að þessar nauðþurftir almennings á að hækka, á sama tíma sem innfluttar vörur, t.d. neyzluvörur, iðnaðarvörur lækka. Það getur vel verið, að hæstv. ráðh. skilji það ekki, en almenningur skilur það, að hann verður að reyna að fá sem mest fyrir sína peninga, og þetta hlýtur að leiða til neyzlubreytingar, ef þessi stefna nær fram að ganga, sem ég vona ekki.

Hæstv. ráðh. talar um, að ég hafi misskilið það, að varahlutir til véla og bíla, því það er það sama, lækkuðu ekki. Ég stend í þeirri meiningu, að það sé alveg óbreyttur tollur á varahlutum í bíla og vélar, það er alveg það sama, það er ekkert aðgreint nema í einstaka, örfáum tilfellum. Ég óska bara eftir því, að hæstv. ráðh. sýni mér það og nefni tollskrárnúmerið á þessum varahlutum og sýni fram á, að þetta hafi lækkað. Ég held, að hæstv. alþm. standi yfirleitt í þeirri meiningu, að þetta sé óbreytt, en ég er ekki alveg viss um, að hæstv. ráðh. viti alveg, um hvað hann er að tala.

Það er náttúrlega alveg þýðingarlaust, að vera að pexa um þessa hluti hér, en við sjáum það eftir útkomuna úr næstu kosningum, hvort hæstv. ríkisstj. heldur velli, þ.e. hvort lýðskrumið heldur velli.