28.01.1970
Sameinað þing: 32. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í D-deild Alþingistíðinda. (3020)

19. mál, vísitala byggingarkostnaðar

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. allshn. fyrir skjótar og góðar undirtektir og meðmæli með þáltill. minni um endurskoðun byggingarvísitölunnar. Þessi endurskoðun mun að minni hyggju skapa nýjan og traustari grundvöll undir allar rökræður um byggingarmál og varpa nýju ljósi á deilur, sem jafnan eru uppi um byggingarkostnað.

Samanburður á byggingarkostnaði og opinberar umræður um byggingarmálefni hafa mjög verið á dagskrá undanfarin misseri. Komið hafa fram kröfur um rannsókn á byggingarkostnaði. Vissulega væri þörf á því, að einhver opinber aðili hefði aðstöðu til þess að fræða almenning um þessi mál, aðili, sem gæti kveðið niður ýmiss konar missagnir eða rangfærslur, sem stundum eru hafðar uppi og hamrað er á. Sérhver byggingaraðili telur sjálfan sig byggja ódýrast og hefur í frammi ýmiss konar áróðursaðferðir til þess að sanna mál sitt. Óvandaðir blaðamenn grípa æsifregnir á lofti, en almenningur veit ekki hverjum hann á að trúa. Sem betur fer eru nú horfur á því, að úr þessu muni rætast á næstunni.

Þegar framkvæmdanefnd byggingaráætlunar hóf byggingu Breiðholtsíbúðanna, stóð strax nokkur styr um þær framkvæmdir, sem ekki hefur linnt síðan. Byggingarmeistarar í Reykjavík, sem hafa atvinnu af því að kaupa og selja íbúðir, sáu þarna hættulegan keppinaut. Þeir brugðust við á þann hátt að stofna með sér samtök í því skyni að vinna að lækkun byggingarkostnaðar, en það ætluðu þeir einkum að gera með því að hyggja stærri áfanga en áður. Þetta voru skynsamleg viðbrögð. Meistararnir kröfðust þess, til þess að fá svipaða aðstöðu og framkvæmdanefndin, að húsnæðismálastjórn sæi þeim fyrir bráðabirgðalánum, meðan byggingarframkvæmdir stæðu yfir og íbúðirnar væru óseldar, svo að framkvæmdir þyrftu ekki að tefjast eða stöðvast vegna fjármagnsskorts. Þessa fjármagnsfyrirgreiðslu töldu byggingarmeistararnir svo mikilvæga, að þeir buðust í staðinn til að undirgangast að selja íbúðirnar einungis fullgerðar og á því verði, er húsnæðismálastjórn samþykkti. Þessir skilmálar voru svo lögfestir, og ná þeir einnig til byggingarfyrirtækja og byggingarsamvinnufélaga. Hér var um mjög mikilvægan atburð að ræða, sem menn hafa ekki veitt nægilega athygli. Húsnæðismálastjórn hefur því raunverulega í sínum höndum ákvörðunarvald um söluverð á fjölda nýrra íbúða í fjölbýlishúsum, sem nú eru í byggingu, og á íbúðum, sem byggðar verða á næstu árum á Reykjavíkursvæðinu og væntanlega einnig í fjölmennustu kaupstöðum landsins, enda hafa allmörg bráðabirgðalán þegar verið veitt. Þetta jafngildir næstum því í raun réttri, að söluverð nýrra fullgerðra íbúða í fjölbýlishúsum sé komið undir verðlagseftirlit, og var mál til komið. En þessi ávinningur hefði aldrei náðst, ef Breiðholtsáætluninni hefði ekki verið hrundið af stað.

Með bráðabirgðalánakerfinu hefur líka annar mikilvægur áfangi náðst. Húsnæðismálastjórn fær nú í sínar hendur, áður en hún samþykkir söluverðið, ítarlegar upplýsingar frá byggingaraðilum, sem hér eiga hlut að máli, um raunverulegan byggingarkostnað þeirra á fullgerðum íbúðum í fjölbýlishúsum. Þannig fæst ómetanlegur samanburður á byggingarkostnaði hinna ýmsu byggingaraðila, svo að ekki þarf um að deila, hver beztum árangri nær. Ég lít svo á, að húsnæðismálastjórn, sem hefur sérfróða menn á sviði byggingarmála í sinni þjónustu, sé ásamt Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins réttur aðili til þess að fylgjast með byggingarkostnaði íbúðarhúsnæðis í landinu og upplýsa almenning um það, hverjir skili beztum árangri.

Á síðustu 2–3 árum hefur byggingarkostnaður nýrra íbúða farið lækkandi á Reykjavíkursvæðinu miðað við raungildi krónunnar í innlendum viðskiptum; eða m.ö.o.: byggingarkostnaður hefur ekki hækkað á þessu tímabili til jafns við almennt verðlag í landinu. Þessu valda ýmsar ástæður, svo sem minni eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði vegna efnahagsörðugleikanna, minni yfirborganir til byggingariðnaðarmanna og síðast en ekki sízt sú staðreynd, að Breiðholtsáætlunin hefur ýtt við byggingariðnaðinum og örvað byggingaraðila og framleiðendur til að sýna betri frammistöðu. Sem dæmi má nefna útboð framkvæmdanefndar á ýmsum innréttingum. Þessi útboð hafa lagt grundvöll að fjöldaframleiðslu á þessum vettvangi og leitt til allverulegrar verðlækkunar, sem almenningur nýtur nú góðs af. Hinu má ekki gleyma, að fjöldaframleiðsluaðferðir eru hér nýjar af nálinni og í fyrstu lotu koma eðlilega fram nokkrir annmarkar, sem yfirstignir verða með aukinni reynslu.

Það er sannarlega fagnaðarefni, þegar einstakir þm. gera sér far um að kynna sér Breiðholtsframkvæmdirnar. Einna fremstur er þar í flokki hv. 5. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson, er gerði þessar framkvæmdir mjög að umræðuefni í ræðu sinni í Sþ. hinn 21. þ. m. Sá ljóður er þó á ráði hans, að hafa ekki kynnt sér málið frá öllum hliðum. Hver og einn, sem vill kynna sér þessar framkvæmdir rækilega og hleypidómalaust, lætur sér ekki nægja að skoða fáeinar íbúðir, þar sem eitthvað má að finna, og hlusta á gagnrýni og rógburð andstöðumanna, heldur verður sá hinn sami einnig að kynna sér sjónarmið framkvæmdanefndar og starfsmanna hennar og ræða við verktaka þá, sem hér koma mest við sögu. Ýmislegt af þessu virðist þessi hv. þm. hafa vanrækt. Raunar hef ég aldrei fundið aðra skýringu á hinni hörðu andstöðu ýmissa framsóknarmanna gegn framkvæmdunum í Breiðholti en þá, að framsóknarmenn eiga engan fulltrúa í framkvæmdanefndinni. En um það er auðvitað ekki að sakast við framkvæmdanefndina sjálfa, heldur þá aðila, sem völdu fulltrúa í nefndina. Hv. þm. Stefán Valgeirsson gengur svo langt að krefjast þess, að hætt verði við framkvæmdirnar í Breiðholti. Ég held, að þessi krafa eigi lítinn hljómgrunn meðal þess láglaunafólks, sem gerir sér vonir um að fá hagfelldar íbúðir með sérstaklega góðum lánakjörum í þeim byggingaráfanga, sem nú stendur yfir, og í þeim áföngum, sem síðar verða reistir. Áframhaldandi byggingar í Breiðholtinu eru í raun og veru eina von margra efnalítilla fjölskyldna um að geta eignazt þak yfir höfuðið. Hitt er mér ljóst, að ef krafa Stefáns Valgeirssonar næði fram að ganga, mundi það vekja mikinn fögnuð í herbúðum byggingarbraskaranna.

För þessa hv. þm. í Breiðholtið minnir mig á það, þegar blaðamenn frá Vísi voru sendir í Breiðholtsíbúðirnar. Þeir bönkuðu upp á hjá fólki og spurðu einungis um það, hvort því mislíkaði við íbúðirnar. Margt af þessu fólki var ánægt og hafði ekkert út á íbúðirnar að setja, en þess létu blaðamennirnir að engu getið í sinni frásögn. Þeir unnu vel fyrir sína húsbændur.

Tvennt er það einkum, sem hv. þm. Stefán Valgeirsson gerði að uppistöðu sinni í ádeilunni á Breiðholtsíbúðirnar. Annars vegar, að íbúðirnar væru mjög gallaðar, en hins vegar, að þær væru óhóflega dýrar. Fyrri fullyrðingin er mjög ýkt, en hin síðari á ekki við rök að styðjast. Þegar teknar eru upp nýjar byggingaraðferðir, þar sem við litla eða enga innlenda reynslu er að styðjast og m.a. beitt fjöldaframleiðsluaðferðum, er auðvitað hættara við því í fyrstu umferð, að gallar komi fram á íbúðum, heldur en þegar gamalreyndar og venjubundnar byggingaraðferðir eru notaðar. Það tekur eðlilega nokkurn tíma fyrir verktakana og starfslið þeirra að ná réttum tökum á nýrri byggingartækni. Þetta var reynslan í Breiðholtinu. Þar voru í fyrsta áfanga byggð 6 stór fjölbýlishús með samtals 312 íbúðum. Í fyrstu blokkunum komu fram nokkrir gallar, en litlir sem engir í hinum síðustu. Aðeins í einu stigahúsi voru gallarnir verulegir, en í þessu stigahúsi voru innan við 3% af íbúðafjöldanum. En það virðist fyrst og fremst hafa verið þetta stigahús, sem hv. þm. skoðaði. Andstæðingar Breiðholtsáætlunarinnar reyna hins vegar að koma því inn hjá fólki, að þessir gallar séu miklu stærri og útbreiddari en raun ber vitni. Framkvæmdanefndin samdi svo um við verktaka, að þeir bæru sérstaka ábyrgð á göllum, er fram kynnu að koma á fyrsta notkunarári íbúðanna. Við þessa ábyrgð verða verktakarnir að standa og því hefur nú nýlega farið fram eins konar viðbótarúttekt á íbúðunum. Úr göllunum verður bætt íbúðareigendum að kostnaðarlausu, og um þetta ríkir fullt samkomulag milli framkvæmdanefndarinnar og húsfélaganna í Breiðholti, og allar fyrirætlanir um málaferli út af þessu eru úr sögunni.

Hv. alþm. Stefán Valgeirsson nefndi í ræðu sinni nokkur dæmi um áberandi galla í Breiðholtsíbúðunum. Hann sagði m.a.:

„Víða voru veggir sprungnir langt fram yfir það, sem ég hafði séð í nokkrum byggingum.“ Eigi veit ég, hversu glöggskyggn Stefán er, þegar hann skoðar byggingar, en sannleikurinn er sá, að múrsprungur í veggjum eru fátíð fyrirbrigði í Breiðholtsíbúðunum og mun sjaldgæfari en almennt gerist í nýjum íbúðum. Þá segir Stefán, að flísar hafi hrunið af veggjum í baðherbergjunum. Þetta er út af fyrir sig alveg rétt. En ástæðan var sú, að flutt var til landsins gallað lím. Fjöldamargir aðrir byggingaraðilar hér í borginni urðu fyrir þessari sömu reynslu, en hvergi hefur þetta verið talið mönnum til ámælis nema í Breiðholtinu. Í 6 íbúðum af 312 hefur verið kvartað um einangrunargalla, en starfsmenn framkvæmdanefndarinnar viðurkenna þó ekki, að þarna sé um ágalla að ræða. Þetta orðar hv. þm. þannig:

„Einangrunargallar munu vera algeng fyrirbrigði.“

Annaðhvort fer hann þarna með ranga staðhæfingu eða hann notar þá orðið „algengur“ í einhverri alveg nýrri merkingu.

Hv. þm. segir, að miklar sprungur hafi verið hjá stigum, þannig að þeir virtust hanga í lausu lofti. Múrfylling við stigapalla hefur að vísu sprungið á örfáum stöðum, en þessi múrfylling er ekki notuð til þess að festa stigann eða bera hann uppi. Stiginn er því jafntraustur eftir sem áður. Hins vegar er slíkt vel til þess fallið að villa um fyrir hrekklausum mönnum um traustleika stiganna og burðarþol, einkum ef leiðsögn er nokkuð ófullnægjandi.

Ég skal svo láta útrætt um þennan þátt málsins, en þess vildi ég óska, að hv. þm. þyrftu ekki að byggja skoðanir sínar á ásigkomulagi Breiðholtsíbúðanna eingöngu á því; sem við Stefán Valgeirsson höfum um þetta mál að segja, heldur eigi þeir þess kost að skoða þessar íbúðir með eigin augum, því að sjón er sögu ríkari.

Þá vík ég að hinu ádeiluefninu, en það er, að Breiðholtsíbúðirnar séu óheyrilega dýrar. Á sínum tíma var birt opinber fréttatilkynning um verðið á Breiðholtsíbúðunum, stærð þeirra og gerð, og sýnt fram á með rökum, að íbúðarverðið væri 8% lægra en rúmmetraverð samkv. vísitölu byggingarkostnaðar. Aðrir byggingaraðilar hafa ekki haft sama hátt á, þegar þeir tilkynna um verð íbúða sinna. Ég hef lagt mig fram um að kynna mér verð á nýjum, fullgerðum íbúðum í fjölbýlishúsum í Reykjavík af svipuðum stærðum og Breiðholtsíbúðirnar og byggðum á svipuðum tíma. Allar þessar íbúðir voru dýrari en Breiðholtsíbúðirnar, og mér er ekki kunnugt um eina einustu íbúð, sem var ódýrari. Hins er rétt að geta, að meiri hluti nýrra íbúða, er seldar voru á þessum tíma, voru ekki seldar fullgerðar, heldur tilbúnar undir tréverk og málningu. Seljendur þessara íbúða birtu stundum ótrúlega lágar kostnaðaráætlanir um það, hvað það kostaði að fullgera íbúðirnar og gátu með þeim hætti nálgazt Breiðholtsverðið. Um slíka útreikninga og áætlanir má lengi deila. Byggingarmeisturunum datt hins vegar aldrei í hug að bera saman verð á fullgerðri Breiðholtsíbúð og fokheldri íbúð í öðrum byggingum. Að þessu leyti er hv. alþm. Stefán Valgeirsson meisturunum snjallari. Láta mun nærri, að þegar íbúð er fokheld nú til dags, sé fram kominn u.þ.b. 1/4 hluti af endanlegu kostnaðarverði hennar. Í þessu dæmi eru þó allt of margar óþekktar stærðir, til þess að unnt sé að gera nokkurn samanburð af viti, og skal ég ekki um það deila við Stefán Valgeirsson, hvort betri séu kaup í kú eða kálfi.

Annað dæmi nefnir þessi hv. þm. til samanburðar við Breiðholtsverðið. Hann kveðst hafa uppgötvað fjögurra herbergja íbúðir byggðar af einhverju byggingarsamvinnufélagi á sama tíma og Breiðholtsíbúðirnar og kosti þær innan við 900 þús. kr., en íbúðir í Breiðholtsframkvæmdunum af svipaðri stærð kosti 1132 þús. kr. Vissulega hefði hér verið unnið kraftaverk, ef byggðar hefðu verið á þessum tíma stórar fjögurra herbergja íbúðir fyrir tæpar 900 þús. kr. Má það furðu sæta, að slíku afreki hafi verið haldið leyndu fram að þessu. Hér eru þó ekki öll kurl komin til grafar. Hjá byggingarsamvinnufélögum er það svo, að endanlegt íbúðarverð liggur yfirleitt ekki fyrir, fyrr en nokkrum árum eftir að flutt er inn í íbúðirnar. Stundum er líka um að ræða mikil vinnuframlög félagsmanna, sem ekki eru reiknuð með íbúðarverðinu. Í þessu tilviki kemur það ekki berum orðum fram, hvort íbúðirnar séu fullgerðar eða ekki. Ekkert er heldur tilgreint um stærð þeirra í rúmmetrum eða fermetrum, en lakast er þó, að hvorki er skýrt frá því, hvaða byggingarsamvinnufélag hefur reist þessar íbúðir né hvar þær eru staðsettar. Að svo komnu er ógerlegt að kanna staðreyndir um raunverulegan byggingarkostnað þessara leyniíbúða. Hitt veit ég, að verð það, sem hv. þm. gefur upp, er langt fyrir neðan verðlag á íbúðum hjá því byggingarsamvinnufélagi hér í borg, sem ég álit að hafi náð beztum árangri meðal byggingarsamvinnufélaga. Mér þykir því trúlegt, að hér sé ekki um að ræða neitt kraftaverk í byggingariðnaðinum, heldur miklu fremur skáldverk af hendi Stefáns Valgeirssonar.

Aðaltrompið á hendi þessa hv. þm., að því er varðar samanburð á íbúðaverði, er sú staðhæfing hans, að verð á rúmmetra í fjölbýlishúsunum í Breiðholti sé 3096 kr., og sé það 109 kr. hærra á rúmmetra en verð samkv. meðalbyggingarvísitölu á árunum 1967 og 1968. Þessir útreikningar eru ljóslega gerðir af sérfróðum undirhyggjumönnum, til þess ætlaðir að nota í blekkingarskyni í rógsherferðinni gegn Breiðholtsbyggingunum.

Til eru margar aðferðir til þess að reikna út rúmmetrafjölda íbúðarhúsnæðis. Aðalatriðið er vitaskuld, þegar samanburður er gerður við byggingarvísitöluna, að rúmmetrinn sé reiknaður á sama hátt og í vísitöluhúsinu. Það var einmitt þetta, sem framkvæmdanefnd gerði, en heimildarmenn Stefáns Valgeirssonar hafa látið ógert, og í því felst blekkingin af þeirra hálfu. Samkv. reglum byggingarvísitölunnar er hvert fjölbýlishús í Breiðholtsbyggingunum 18153 m3 og verðið á m3 er 2797 kr. Þar frá ber að draga vexti, sem ekki eru reiknaðir í byggingarvísitölunni, og verður þá rúmmetraverð 2710 kr., sem er 277 kr. lægra en byggingarvísitalan, en ekki 109 kr. hærra. Og ef nákvæmlega er út í þetta farið, þarf reyndar að taka tillit til fleiri atriða, sem raunverulega lækka þetta verð enn.

Enn eitt ádeiluefni er það, að í reikningum framkvæmdanefndarinnar komi fram 59 millj. kr. útgjöld, sem ekki séu nægilega ljós og hljóti allverulegur hluti þeirrar fjárhæðar að vera viðbótarkostnaður við Breiðholtsíbúðirnar, sem ekki komi fram í söluverði þeirra. U.þ.b. helmingur þessarar fjárhæðar er andvirði eigna, sem framkvæmdanefndin hefur keypt, svo sem krana, stálmóta, mötuneytisskála, birgðageymslu og kyndistöðvar. Hinn helmingurinn er að langmestu leyti kostnaður við tæknilegan undirbúning og hönnun 850 íbúða á efra svæðinu í Breiðholti, en þeim undirbúningi er nú lokið.

Það er eftirtektarvert, að þrátt fyrir erfiða afkomu manna tvö síðustu árin, hefur öllum þorra íbúðareigenda í Breiðholtinu tekizt að standa vel í skilum með greiðslur afborgana og vaxta, einkum eftir að 10% bráðabirgðalánunum var breytt úr 2 ára lánum í 6 ára lán. Það er fátítt, að íbúðir í Breiðholtinu séu seldar. Slíkt kemur helzt ekki fyrir nema af sérstökum ástæðum, svo sem vegna dauðsfalls, hjónaskilnaðar eða brottflutnings. En þegar íbúð losnar, er það fjöldi manns, sem sækir um kaup á henni til húsnæðismálastjórnar, svo að úthlutunarnefndin kemst í stökustu vandræði. Þessar staðreyndir benda vissulega ekki til þess, að íbúðareigendurnir í Breiðholtsbyggingunum séu hart leiknir, enda er fjarri lagi, að svo sé.

Í ræðu sinni benti hv. þm. Stefán Valgeirsson réttilega á það, að byggingarkostnaður hér á landi væri allmiklu hærri en á hinum Norðurlöndunum. Þetta stafar af tvennu: Við byggjum yfirleitt vandaðri og íburðarmeiri íbúðir en nágrannar okkar, og við stöndum þeim að baki í byggingartækni og skipulagi við byggingarframkvæmdir. Af þessum sökum leitaði framkvæmdanefnd byggingaráætlunar einmitt til Norðurlanda um leiðbeiningar og fyrirmyndir, þegar hún hóf undirbúning að byggingu 1250 íbúða í Breiðholtshverfinu, og aðalráðgjafi nefndarinnar var ráðinn þekktur danskur arkitekt, sem hafði mikla reynslu í því að skipuleggja og undirbúa stóra byggingaráfanga. Þessi ráðgjafi sagði nefndinni, að hér þyrfti að taka upp nýjar byggingaraðferðir eftir fyrirmyndum frá hinum Norðurlöndunum. Slík nýbreytni mundi að vísu kosta erfitt reynsluskeið og einhver víxlspor í fyrstu, en í það bæri ekki að horfa, því að nýja byggingartæknin mundi sanna gildi sitt, þegar fram liðu stundir. Þessum ráðum var hlítt, enda voru þau gefin af velvilja og mikilli þekkingu. Og vissulega kom þetta fram, sem hann sagði. Sérstaklega vil ég í því sambandi benda á, að þegar framkvæmdanefndin bauð út á s.l. sumri byggingu 180 íbúða í Breiðholtinu og gaf bjóðendum frjálst val um það, hvort þeir vildu nota byggingaraðferðir nefndarinnar, sem þá höfðu verið endurbættar að fenginni reynslu við fyrsta áfangann, eða nota heldur gömlu aðferðirnar, þá kom í ljós, að mun ódýrara var að byggja á grundvelli hinnar nýju tækni. Í fyrsta áfanga voru, eins og áður segir, reistar 6 blokkir með samtals 312 íbúðum. Þessar blokkir voru þriggja hæða og U-laga. Lögun blokkanna er óhentug fyrir hinar nýju byggingaraðferðir, en um aðrar byggingar var ekki að velja á þeim tíma. Lögun blokkanna gerði það líka óhjákvæmilegt að hafa margar stærðir af íbúðum, og þessir stærðarflokkar urðu alls 9 hjá framkvæmdanefndinni. Á efra svæðinu í Breiðholti, þar sem nefndin mun byggja 850 íbúðir í fjölbýlishúsum, þar af eru 180 nú þegar í byggingu, verða blokkirnar fjórar hæðir og allar beinar, og þar verða einungis byggðar íbúðir af þrem stærðarflokkum. Við þessar aðstæður mun nýja byggingartæknin njóta sín mun betur.

Það mun vera skoðun þeirra manna, sem bezt þekkja til, að almennt sé meira borið í íbúðir hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Ég minnist þess t.d., þegar norræni byggingardagurinn var haldinn hér á landi sumarið 1968, að margir erlendir fulltrúar komu og skoðuðu Breiðholtsíbúðirnar. Einn dönsku fulltrúanna sagði þá við mig: Hvað er að sjá þetta, tvö ljós í baðherberginu. Þetta er bruðl. Það var almennt álit þessara manna, að íbúðirnar væru of fínar og þar af leiðandi of miklu til þeirra kostað. Svipað var álit amerísks prófessors í þjóðfélagsfræði, er hafði kynnt sér húsnæðisvandamál víða um lönd. Hann skoðaði íbúðirnar og spurði: Ef þetta er byggt fyrir láglaunafólkið, í hvernig íbúðum býr þá hitt fólkið? Þessi sjónarmið útlendinganna tel ég rétt að komi hér fram, þó að ég sé þeim sjálfur ekki alls kostar samþykkur.

Einn er sá þáttur Breiðholtsáætlunarinnar, sem gagnrýnendur hennar hafa yfirleitt ekki fundið að, þótt ástæða væri til. En það er, hvers vegna framkvæmdirnar séu svona langt á eftir áætlun. Þetta aðfinnsluleysi finnst mér benda til þess, að gagnrýnin komi fyrst og fremst frá mönnum, sem hafa verið á móti áætluninni frá upphafi og látið sér jafnvel vel líka, hversu hægt gangi. Í yfirlýsingu ríkisstj. um húsnæðismál, útgefinni 9. júlí 1965, þar sem byggingaráætlunin var ákvörðuð og tilkynnt, var það boðað, að byggja skyldi 250 íbúðir á ári hverju á árunum 1966–1970 að báðum meðtöldum, eða alls 1250 íbúðir. Þessi áætlun var gerð í skyndingu og lítill tími til athugunar. Ég hef því fremur litið á hana sem stefnumark en nákvæm fyrirmæli. Þrjár ástæður eru þess fyrst og fremst valdandi, að það var gersamlega útilokað að standa við þessi tímamörk.

Framkvæmdanefndinni bar í fyrsta lagi að taka upp nýja byggingartækni, en athugun og undirbúningur að vali nýrrar byggingaraðferðar tekur óhjákvæmilega langan tíma og gerir nauðsynlega byggingu tilraunaáfanga, eins og gert var. Af þessum ástæðum einum var því ekki unnt að standa við tímaáætlunina, þótt annað hefði ekki komið til.

Í öðru lagi var útilokað, að Reykjavíkurborg gæti lagt fram lóðir undir 250 íbúðir á ári hverju á árunum 1965–1969, þótt forráðamenn borgarinnar væru allir af vilja gerðir. Í þessu sambandi vil ég taka fram, að samstarf framkvæmdanefndarinnar og Reykjavíkurborgar hefur verið mjög gott, þegar á heildina er litið, og borgin hefur veitt nefndinni alveg sérstaklega góða fyrirgreiðslu á efra svæðinu í Breiðholti.

Í þriðja lagi er fjármagnsskortur ástæða fyrir drættinum. Hans gætti að vísu ekki við fyrsta byggingaráfangann, en núverandi áfangi, 180 íbúðir, gæti verið miklu stærri, ef nægir peningar væru fyrir hendi.

Ég er þeirrar skoðunar, að framkvæmdanefnd byggingaráætlunar eigi að búa við gagnrýni eins og aðrar opinberar stofnanir og aðrir, sem að byggingarframkvæmdum standa. En því miður hefur lítið verið um jákvæða, leiðbeinandi gagnrýni á byggingarframkvæmdunum í Breiðholti. Gagnrýnin hefur mestmegnis verið ýkjur, rangfærslur og níð, og er mál að því linni.

Á þessu stigi málsins verður enginn lokadómur kveðinn upp um árangurinn af störfum framkvæmdanefndarinnar. Það verður í fyrsta lagi gert, þegar hún hefur lokið verkefni sínu. En sú stefna nefndarinnar var tvímælalaust rétt að mínu viti að hika ekki við að reyna ýmsar nýjungar í fyrstu til þess að reyna að tryggja sem beztan lokaárangur. Ég held, að heilbrigð þróun í byggingariðnaði okkar og lækkandi útgjöld manna til húsnæðiskaupa verði bezt tryggð með því móti að veita öllum þeim aðilum, er við byggingarstarfsemi fást, svo sem byggingarmeisturum, byggingarfyrirtækjum, byggingarsamvinnufélögum og opinberum byggingarstofnunum, góða aðstöðu til þess að sýna, hvers þeir eru megnugir. Milli þessara aðila má gjarnan ríkja heilbrigð samkeppni, en jafnframt samvinna og vilji til þess að læra hver af öðrum. Jafnframt verður að tryggja, að almenningur eigi aðgang að öruggum upplýsingum og fræðslu um byggingarmál, svo að menn geti ekki með skefjalausum áróðri ruglað almenning í ríminu og snúið öllum staðreyndum við. Sitthvað fleira mætti nefna, og vil ég þar sérstaklega benda á nauðsyn þess að endurskoða uppmælingartaxta byggingariðnaðarmanna undir opinberu eftirliti.

Nú hefur komið fram krafa um að stöðva Breiðholtsframkvæmdirnar. Þetta er í raun réttri krafa um að svíkja láglaunafólkið og rjúfa samninga við verkalýðsbreytinguna. Þetta er krafa um að hafa rógburðinn að leiðarljósi í byggingarmálum okkar. En síðast en ekki sízt er þetta krafa um að stöðva þá byggingarstarfsemi í landinu, sem líklegust er til að leggja nýjan tæknigrundvöll að byggingariðnaði okkar og tryggja landsmönnum hagkvæmara íbúðaverð. Af þessum sökum ber að hafna þessari kröfu.