28.01.1970
Sameinað þing: 32. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í D-deild Alþingistíðinda. (3022)

19. mál, vísitala byggingarkostnaðar

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vona, að hv. 5. þm. Norðurl. e. hafi ekki misskilið mig. Ég vildi ekki gera hér sérstaklega að umtalsefni, ekki berum orðum, till. hans um að kjósa nefnd til að rannsaka byggingarkostnaðinn, þar sem hún var ekki á dagskrá. Ég var fyrst og fremst að svara árásinni á Breiðholtsíbúðirnar. Hins vegar var ég að benda á, að horfur væru á, að úr þessum málum væri að rætast, því að það færu að liggja fyrir hjá Húsnæðismálastofnuninni glöggar upplýsingar um raunverulegan byggingarkostnað, þannig að svona deilur þyrftu síður að rísa í framtíðinni. En að því er sérstaklega varðar þær deilur, skulum við segja, um þennan 1. byggingaráfanga í Breiðholti og aðrar íbúðir í Reykjavík og nágrenni og jafnvel annars staðar á landinu, sem byggðar hafa verið síðustu 2–3 árin, þá er ég eindregið samþykkur því, að þetta verði rannsakað, því að vissulega mun málstaður Breiðholtsmanna batna því meira og betur, sem þetta mál verður krufið til mergjar og rannsakað ofan í kjölinn. Þess vegna er ég algerlega samþykkur því. Hitt er annað mál, að ég er ekki viss um, að þingkjörin nefnd sé rétti aðilinn til þess. Ég mundi frekar álíta, að húsnæðismálastjórn eða Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, einhver stofnun, sem hefði yfir að ráða tæknimönnum á þessu sviði, — ég teldi það æskilegra, en það er kannske minni háttar atriði. Hinu er ég alveg sammála, að þetta má mjög gjarnan rannsaka og það væri æskilegt.

Hv. þm. gerði líka nokkuð að umræðuefni afborganir af þessum íbúðum og erfiðleika fólksins með að standa í skilum. En það gefur auðvitað auga leið, að þegar farið er að lána fólki 90% af byggingarkostnaði, verður auðvitað baggi afborgana og vaxta ærið þungur. Það er óhjákvæmilegt, jafnvel þó að lánað sé til langs tíma og með hagstæðum vaxtakjörum. En af því, sem hv. þm. sagði í ræðu sinni á fimmtudaginn var, þá sýnist mér, að hann hafi verið samt sem áður allt of svartsýnn, því að hann var t.d. þar að áætla meðaltekjur manna, sem voru langt undir því, sem Hagstofan hefur gefið upp sem meðaltekjur verkamanna. Auk þess eru ekki allir verkamenn í Breiðholtsbyggingunum. Það eru skrifstofumenn, verzlunarmenn og iðnaðarmenn jafnvel, þannig að sumt af þessu fólki hefur allgóðar tekjur.

Þinglýsingu á kaupunum hafði framkvæmdanefndin ekki með að gera, og ég er því ekki vel kunnugur, en það er vissulega mjög ósanngjarnt að bera saman verð á Breiðholtsíbúðunum og hjá byggingarsamvinnufélögunum, enda var hv. þm. kannske ekki að meina það sem slíkt; aðeins að bera saman, ef annar aðilinn þarf að borga stimpilgjöld, en hinn er laus við það. Það kemur raunverulega ekki sjálfum byggingarkostnaðinum við. Það eru sérstakar kvaðir, sem hið opinbera setur á annan aðilann, en ekki hinn, en þarna ættu auðvitað báðir að sitja við sama borð.

Hv. þm. sagði, að þegar hann hefði komið í þessa frægu heimsókn sína fyrir jólin, þá hefði fólkið ekki haft neina vissu um það, að bætt yrði úr þessum göllum. Þetta tel ég naumast geta staðizt, því að það er 2. des., sem samkomulag milli framkvæmdanefndarinnar og húsfélaganna í Breiðholti um þessi mál er undirritað, auk þess sem það hafði auðvitað nokkurn aðdraganda, en ég er ekki að efa það, að hv. þm. segi rétt frá þessu. Hins vegar hygg ég, að þær upplýsingar, sem hann fékk í þessari för, hafi ekki allar verið traustar og sumu leynt fyrir honum, sem hann hefði átt að fá að vita. Og mér finnst í raun og veru afar undarlegt að draga einhvern byggingarmeistara utan úr bæ sem leiðsögumann í þessar íbúðir. Hvernig stendur á þessu vali? Hafa byggingarmeistarar í Reykjavík tekið upp einhverja þjónustu við að leiðbeina mönnum og sýna þeim gallaðar íbúðir í Breiðholti og fræða þá um ýmsa hluti í sambandi við þetta? Þetta væri ákaflega fróðlegt að fá að vita. En að kynna sér þetta ekki þannig að fá t.d. að ræða við framleiðendur; segja bara: Það er ekki fagvinna á skápunum; tala ekki við fyrirtækið, sem smíðaði skápana og setti þá upp, fá skýringar eða spyrja; það finnst mér ekki rétt að farið og ekki þannig, að menn vilji fá öruggar upplýsingar um hlutina. Mér fannst líka ákaflega undarlegt, hvað hv. þm. víssi mikið um stöðu Vísis í þessum málum, — af hvaða ástæðum Vísismenn höfðu skrifað sínar greinar. Það er svo sem bægt að segja það hér, sem sýnir bara eitt dæmið um, hvernig um þessar Breiðholtsíbúðir hefur oft og tíðum verið skrifað. Þá voru byggingarnar ekki búnar. Þær voru langt komnar. Það var búið að setja upp 150 eldhúsinnréttingar í Breiðholtinu, og fólk var flutt inn í 150 íbúðir, u.þ.b. helminginn. Það voru ung hjón þarna í einni íbúð. Þau voru nýgift, og þau höfðu fengið ákaflega mikið af stellum og glertaui í brúðargjöf. Þau hrúguðu þessu öllu inn í eldhússkápinn, hann var alveg fullur og sett miklu meira í hann en eðlilegt var, að hann gæti borið. Það bilaði ein festing í þessum skáp og skápurinn skekktist á þilinu.

Sem betur fer voru nú smiðir þarna að vinna, og það var gert við þetta strax. (Gripið fram í.) Lofaðu mér að klára söguna. Smiðirnir gerðu við þetta innan hálftíma. Þegar þeir voru að enda við þetta, var kominn blaðamaður frá Vísi. Hann var ákaflega óánægður, þegar hann sá, að skápurinn var kominn upp á vegginn og að allt var í lagi, svo að hann tók það til bragðs, að hann gekk í íbúðirnar, og hann fékk lánaðar bækur þarna í stigahúsinu og raðaði þeim undir skápinn og tók svo mynd af öllu saman og sagði: Svona er komið fyrir eldhúsinnréttingunum. En hann gætti þess þó ekki, að bókahlaðinn náði reyndar ekki álveg upp undir skápinn. Það sást á myndinni, þegar hún var athuguð vel. Svo kom fyrirsögn í Vísi: „Eldhúsinnréttingarnar í Breiðholti eru að hrynja“. Maður er raunar orðinn vanur þessu, en maður var að rífast við þá á Vísi, en það þýddi ekkert að biðja þá að birta aths. frá nefndinni, þeir stungu því öllu undir stól. Sama gerði t.d. Frjáls verzlun, sem skrifaði róggrein um íbúðirnar, þannig að maður svaraði þessu ekki. En sá verktaki, sem smíðaði og setti upp eldhúsinnréttingarnar, var ekki ánægður með þetta. Hann fór til ritstjóra Vísis og hótaði að stefna þeim, ef þeir tækju það ekki til baka. Og þá báðust þeir afsökunar, en að vísu var það á ákaflega lítið áberandi stað í blaðinu, en þeir gerðu það nú samt. Þessir blaðamenn frá Vísi, sem ég var að vitna í áðan, þeir eru náttúrlega búnir að fara ótal ferðir upp eftir. Ef niðurfall stíflast, þá eru komnir blaðamenn frá Vísi og „allt á floti í Breiðholtinu“. Þetta var stuttu eftir að fyrstu íbúðirnar voru teknar í notkun eða fyrsta blokkin, — ég held, að það hafi ekki einu sinni verið búið að stofna húsfélag, en hins vegar virðist þessi hv. þm. kunnugur bréfaskriftum húsfélaganna til framkvæmdanefndarinnar og kannske samböndum Vísis í Breiðholtinu. Kannske er þetta einhver tangarsókn. Annars vegar á Vísir að sjá um þetta á blaðavettvanginum, og þessi hv. þm. á svo að sjá um þetta hér á Alþ., sinn hlut.

Hv. þm. spurði, hvort þessi danski arkitekt hefði ráðlagt þessar U-blokkir og hver bæri ábyrgð á því, að í þær hefði verið ráðizt. Ég held, að hann hafi eitthvað misskilið það, sem ég sagði um þetta efni. Þegar nefndin hóf byggingarframkvæmdir eða hóf undirbúning réttara sagt, þá var ekki hægt að fá neinar aðrar blokkir í Reykjavík, það voru ekki tilbúnar neinar aðrar lóðir, en reyndar var skipulagið komið. Að vísu fékkst því breytt, blokkirnar áttu ekki einu sinni að vera U-laga, þær áttu sumar að vera alveg lokaðar og tveggja hæða. Því fékkst nú breytt. Það var ekki eingöngu verk framkvæmdanefndarinnar heldur einnig annarra byggingaraðila að gera þær þriggja hæða og þeir höfðu þær líka U-laga, það var þó skárra. En engu að síður eru þessar blokkir óheppilegar fyrir nýjar byggingaraðferðir. Þær eru mun óheppilegri fyrir nýjar aðferðir en þær gömlu, þó að þær séu óheppilegar fyrir hvort tveggja. Það var þess vegna ekki um neitt annað að velja. Nefndin varð að gera þetta upp við sig: eigum við að gera þá nauðsynlegu tilraun þarna, sem við þurfum að gera til þess að komast á sporið með þessar nýju aðferðir undir svona að ýmsu leyti erfiðu kringumstæðum? Og framkvæmdanefndin tók þá ákvörðun að gera þetta, og ég segi það enn í dag, að sú ákvörðun var rétt. Hv. þm. getur alveg treyst því, að sú yfirlýsing; sem gefin var, þegar byggingarkostnaðurinn var tilkynntum og reiknaður, er rétt, og þó að ég hafi ekki undir höndum reikninga yfir þessar Breiðholtsframkvæmdir, — ekki eftir að ég hætti þar formennsku, — þá er auðvitað alveg ljóst, að mjög miklu hefur verið kostað þar til í tækjum og eignum, og það kostar mikið að hafa fjölda af fagmönnum og verkfræðingum í sinni þjónustu til þess að undirbúa, teikna og skipuleggja 850 íbúða hverfi á efra svæðinu í Breiðholti, sem þegar er búið, þannig að segja má, að nú sé allri bönnun og undirbúningi lokið. Nú sé bara eftir að fá peningana, bjóða út og byggja. Það er það, sem eftir er, og það er að vísu allt of mikið eftir, því miður.

Ég vil svo að lokum undirstrika, að um það skilur ekkert á milli mín og hv. þm., að ég vil mjög gjarnan, að byggingarkostnaður sé rannsakaður, ekki bara byggingarkostnaður þeirra íbúða, sem nú er verið að hefjast handa um og síðar verða byggðar, heldur einnig byggingarkostnaður þeirra íbúða, sem deilt hefur verið um síðustu árin, þó að því miður verði að játa, að það er í mörgum tilfellum nokkuð erfitt, vegna þess að menn selja íbúðir á mismunandi byggingarstigum. Oft má deila um það, hvað það kostar að klára þessar íbúðir. Um hitt erum við líka sammála, hann sagði það líka í sinni fyrstu ræðu, að fyrst og fremst eigi að komast að raun um það, hver stendur sig bezt og undir hann á að lyfta. Hitt er svo annað mál, og það má mönnum ekki yfirsjást í þessu sambandi, að íslenzkur byggingariðnaður var orðinn á eftir, og einhver aðili þurfti að koma fram til þess að reyna að koma með nýjar byggingaraðferðir. Þetta kostar mikið, og þetta var kannske það umfangsmikið og stórt í sniðum, að e.t.v. var ekki hægt að ætlast til þess, að einstakur byggingarmeistari eða einstök byggingarfélög reyndu hér róttækar og nýjar byggingaraðferðir. Til þess var áhættan fyrir svona smáaðila allt of mikil. Það varð að vera á vegum hins opinbera, og það var m.a. það, sem gert var með Breiðholtsáætluninni, fyrir utan það félagslega átak, að byggja þarna íbúðir með sérstaklega góðum kjörum fyrir tiltekinn hóp fólks, og mér finnst það mjög ósanngjarnt, þegar þessi hv. þm. er að saka verkalýðshreyfinguna um að hafa eiginlega gefið eftir af kaupi. Ég veit ekki til þess, að verkamenn eða aðrir hér í Reykjavík hafi lægra kaup en annars staðar úti á landi, enda er eðlilegt, að kaup sé alls staðar hið sama. Þessi háttur var tekinn upp á vinstristjórnarárunum og þá stjórn studdi þessi hv. þm. dyggilega, og ég er ekkert að álasa henni fyrir þetta. Það skilyrði var sett sem einn þáttur í lausn kjaraágreinings að leggja fram svo og svo mikla peninga til húsbygginga, og er vissulega ekkert út á það að setja. Slíkir samningar eru iðulega gerðir, og hefur slíkt reyndar oftar verið gert heldur en í þessu tilfelli, það hefur líka verið gert, þegar Framsfl. hefur verið í ríkisstj., þannig að mér finnst mjög óviðfelldið að segja sem svo, að með þessu móti hafi reykvískur verkalýður eiginlega fórnað einhverju af kaupi sínu til þess að geta fengið íbúðir með hagkvæmum kjörum.